Samningar við EB um fiskveiðimál

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 20:41:55 (3001)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég vænti þess að hæstv. utanrrh. sé ekki fjarri og reyndar er það svo að mér finnst það sæta nokkrum tíðindum, hæstv. forseti, að jafnfámennt, þó góðmennt sé, hafi verið við umræðuna. Ætla mætti að hér væri minni háttar mál á ferðum, a.m.k. ef marka má fjölda hv. svokallaðra stjórnarþingmanna sem voru ýmist einn, tveir eða enginn á meðan þessi umræða fór hér fram fyrir kvöldmatinn. Nú er hér að vísu einn hv. þm. virðingarverður og jafnvel tveir sem væntanlega á að flokka með stjórnarliðinu og þó. Það hefur allt sinn tíma að leiða það í ljós en mér finnst satt best að segja með nokkrum ólíkindum ef þessi umræða um samninginn, þennan sögulega samning, fer fram að viðstöddum einum og tveimur þingmönnum stjórnarliðsins og þar af virðist enginn ætla að taka til máls eða hefur a.m.k. ekki gert það enn sem komið er. Öðruvísi mér áður brá. Einhvern tíma hefðu mál sem vörðuðu sjálfan tilverugrundvöll íslensku þjóðarinnar, leyfi ég mér að segja, þ.e. réttindi okkar í fiskveiðilögsögu okkar dregið að sér meiri viðveru í þingsölum.
    Ég sakna þess, hæstv. forseti, að umræðan hefur enn sem komið er að mínu mati alls ekki verið í því víðtæka samhengi sem henni ber að vera. Ég er ekki með því að gera lítið úr þeirri efnislegu umræðu sem fór hér fram fyrir kvöldmatarleytið sem aðallega snerist um það hvort um raunverulega gagnkvæmar veiðiheimildir eða veiðiheimildaskipti væri að ræða, hvort þær veiðiheimildir væru jafnverðmætar o.s.frv. en ég tel auðvitað að á ferðinni sé miklu víðtækara mál sem varði mun stærri grundvallarhagsmuni Íslendinga en þá eina hvort í þessum afmarkaða samningi til eins árs hafi tekist sæmilegt jafnvægi í veiðiheimildum eða verðmætum. Ég tel að auðvitað sé á ferðinni mál sem óhjákvæmilegt er að setja í samhengi við baráttu okkar Íslendinga fyrir fullum umráðarétti landhelginnar og efnahagslögsögunnar og í raun og veru setja það í samhengi við grundvallarstefnu íslenskra stjórnmála fram til þessa tíma, fram til og með tilkomu þessarar hæstv. ríkisstjórnar. Því verður ekki á móti mælt. Um ýmislegt geta menn þráttað í þessum efnum en því verður ekki á móti mælt hvað sem hver segir að hér er verið að taka fyrsta skrefið til baka eftir langa, langa ferð fram á við. Allt frá byrjun aldarinnar og jafnvel fyrr þegar menn fóru að ræða um nauðsyn þess að Íslendingar færðu út landhelgismörk og kæmu erlendum skipum a.m.k. út úr fjörðum og flóum hefur íslenska þjóðin verið í sókn. Hún hefur sótt sér aukinn rétt, fært út lögsögumörk sín allt fram að þessum tíma. Hér er verið að taka fyrsta skrefið til baka. Það er sama hvað hver segir. Það er sama hversu oft hæstv. utanrrh. heldur hinu gagnstæða fram og telur sig hafa einkarétt á sannleikanum. Hann mun aldrei geta þurrkað út þá sögulegu staðreynd að nú koma skip á nýjan leik inn í lögsögu sem Íslendingar voru áður búnir að sitja einir að eða svo gott sem.
    Ásókn erlendra skipa á Íslandsmið vex á nýjan leik. Þessa staðreynd mun hæstv. utanrrh. ekki megna að má af spjöldum sögunnar. A.m.k. vona ég að Íslands sagan verði framvegis skrifuð með það trúverðugum hætti að þessi tímamót standi þar. ( Gripið fram í: Því er nú ekki að treysta.) Það er auðvitað rétt hv. þm. Menn hafa víða verið að fikta við söguna og það er ekki til eftirbreytni. En við skulum vona að þau dapurlegu örlög dæmist ekki yfir söguþjóðina Íslendinga að geta ekki haldið þessari staðreynd til haga.
    Ég ætla ekki, hæstv. forseti, að fara að rifja upp sjálfsögð atriði í málinu sem allir þekkja. Undanhaldið þekkja menn. Frá því að Íslendingar settu kröfur sínar fram í Ósló og hæstv. þáv. forsrh., Steingrímur Hermannsson, lýsti því sem hinum pólitíska aðgöngumiða að þessum viðræðum af Íslands hálfu að menn eygðu þar vonina um fríverslun með fisk. Það væri aðalkrafa Íslendinga og í sigurvímu vegna þess að EFTA hefði fallist samningsbundið á kröfur Íslendinga um fríverslun með fisk, þá væri rétt að láta á þessar kröfur reyna jafnframt innan Evrópubandalagsins. Ég helt því reyndar fram að sú krafa væri ekki í höfn því að þar hefðu ýmsir verið, og þar á meðal frændur okkar Norðmenn, með kaldar fætur. Ég átti eftir að sjá það að Norðmenn stæðu við samþykktir EFTA um fulla fríverslun með fisk í hinum eiginlega skilningi, þ.e. þeir afnema alla sína styrki eins og samningar EFTA stóðu til. En gott og vel. Þetta var krafan, með þetta var lagt upp og síðan þekkja menn í grófum dráttum söguna, ég vil segja fram að þeim tíma að íslenska samninganefndin og Evrópubandalagið skiptust á minnisblöðum þann 12. mars 1992. Ég tel að það sé hæverska af hæstv. utanrrh. að miða ævinlega fræga undirritun sína við Óportó sem hann gerði ódauðlega í ræðu um kvöldið þegar hann spáði því að Evrópubandalagið mundi líða undir lok snemma á næstu öld ( Gripið fram í: Hvenær var það?) og eru örugglega einhver merkilegustu ummæli sem fallið hafa í allri samningaþvælunni og ein af fáum þar sem við hæstv. utanrrh. erum hjartanlega sammála. Ég er sammála hæstv. utanrrh. um þetta. Ég hef þá tilfinningu að hugmyndafræðin undir þessu bandalagi sé að gliðna og mér er stórlega til efs að synir mínir munu hafa lokið framhaldsskólaprófi þegar Evrópubandalagið verður liðið undir lok í núverandi mynd.
    Vegna orðaskipta sem fóru fram fyrir kvöldmatinn eða þess hnífakasts milli hæstv. sjútvrh. og hæstv. utanrrh. sem hér fór fram í raun og veru með lítt dulbúnum hætti, held ég, hæstv. forseti, að alveg óhjákvæmilegt sé að ferill þessa máls verði rakinn frá og með undirritun eða skiptum á minnisblöðum í tengslum við samningaundirritunina, þ.e. þegar samningamenn settu stafina sína undir um miðjan marsmánuð sl. Ég tel ekki að boðlegt sé að skilja við það þannig að hæstv. sjútvrh. og hæstv. utanrrh kasti hnífum á milli sín með þeim hætti sem þeir gerðu fyrir kvöldmatinn og svo verði látið við það sitja á Alþingi Íslendinga. Ég fer fram á það að þetta mál verði upplýst, þar á meðal samningskröfur Íslendinga, sem hæstv. sjútvrh. vitnar hér í til marks um það, sem og viðtal við hæstv. utanrrh. frá 10. júní, að staðið hafi til að reyna að sækja Íslendingum kröfuna um gagnkvæm skipti í formi eiginlegrar veiði. Hvernig voru samningskröfur Íslendinga? Hvar eru þær til á blaði? Er hægt að fá þær birtar? Ég tel að það sé óhjákvæmilegt í framhaldi af ummælum hæstv. sjútvrh. áðan, því það er auðvitað alveg furðulegt að hæstv. utanrrh. skuli 1. des. sl. koma fram og segja ósköp einfaldlega si svona í viðtali við Morgunblaðið: ,,Ekki hægt að semja um afla upp úr sjó.`` --- Og síðar í undirfyrirsögn í sama viðtali: ,,Jón Baldvin Hannibalsson utanrrh. segir að niðurstaða samkomulags Íslands og Evrópubandalagsins um gagnkvæmar veiðiheimildir hafi í raun legið fyrir að mestu leyti í vor,`` --- svo kemur aldeilis gullvæg setning: ,,og aldrei hafi farið á milli mála að ekki væri hægt að semja um skipti á afla upp úr sjó.``
    Þarna er nokkuð sterklega til orða tekið, að það hafi aldrei farið á milli mála að ekki væri hægt að tryggja það sem átti að heita samningskrafa Íslands frá því á sl. vori og í hálft ár olli því að engar viðræður fóru fram.
    Ég segi nú, hæstv. utanrrh., hvers konar skrípaleikur er á ferðinni? Er virkilega verið að segja að þetta hafi allt verið eitt sjónarspil? Hvers vegna skrifuðu menn þá ekki strax í vor undir þessar nótur sem búnar voru til í marsmánuði sl.? Staðreyndin er auðvitað sú að samninganefndarmenn utanrrh. sömdu þennan möguleika af Íslendingum 12. mars 1992. Í minnisblaði um þau nótuskipti, sem ég hef hér að vísu á ensku, er alveg ljóst að verið er að tala um skipti á veiðimöguleikum. Deilan stendur ekki um það, hæstv. utanrrh., heldur hitt að menn tóku mark á því að menn hefðu ekki samið af sér möguleikann um að tryggja

að það yrði jafngilt skiptum á raunverulegri veiði. Og að koma hér nú og halda því fram að það hafi aldrei staðið til, það hafi aldrei verið inni í myndinni, það hafi aldrei verið mögulegt, er með ólíkindum.
    Það vill svo til að ég sat t.d. fund með hæstv. sjútvrh. í sjútvn. Við hlutuðumst til um það í sjútvn. að fá fulltrúa sjútvrn. á fund til þess að fara yfir stöðu þessa máls. Þó forræði þess sé í höndum utanrmn. er þetta í eðli sínu faglegt mál sjávarútvegsins, a.m.k. hvað stjórnun á þessum veiðum og eftirlit með þeim o.s.frv. varðar. Þar var því lýst, og hér inni eru menn sem geta staðfest það, að ekki kæmi til greina að hvika frá kröfunni um raunveruleg skipti á afla. Þannig yrðum við Íslendingar að binda um hnútana og allt annað væri undanhald og uppgjöf sem við gætum ekki sætt okkur við.
    Ég verð að segja að það er heldur nöturlegt fyrir hæstv. sjútvrh., sem tók þátt í því með öðrum gestum á fundinum að fullvissa sjútvn. um það á vormánuðum að frá þessum kröfum yrði ekki hvikað, að falla nú frá þessu. Er það þá annar svardaginn í sambandi við þessa samninga sem hann verður uppvís að að falla frá. Hinn er auðvitað margfrægur svardagi hæstv. sjútvrh. úr þessum ræðustól um að ekki komi til greina að samþykkja samninginn um Evrópskt efnahagssvæði nema fullt tollfrelsi í eiginlegri merkingu náist fyrir allar íslenskar sjávarafurðir. Ég veit að hv. alþm. muna þetta.
    Auðvitað ætti þetta mál að liggja svo ljóst fyrir að ekki ætti að þurfa að fara í heimildakönnun til þess að fá staðfest að þessu var haldið að þjóðinni, ekki bara af sjútvrh. Þetta var ekki bara sagt á lokuðum fundi í sjútvn. og væntanlega í utanrmn. Þetta var í hinni almennu umræðu um málið allt sl. vor. Það vill svo til að ég lét taka saman blaðaúrklippur fyrir mig frá þessum tíma. Þær eru allar á eina lund. Þær snúast um það með hvaða hætti verði hægt að ná fram kröfu Íslendinga um raunveruleg skipti á afla.
    Ég er með blaðaúrklippur úr Morgunblaðinu frá því upp úr miðjum marsmánuði og úr DV þar sem Einar Oddur Kristjánsson talar m.a. um flotann ósigrandi, þ.e. hinn nýja, ekki hinn konunglega gamla flota frá Spáni heldur nýja flotann ósigrandi, EB-flotann. Einar Oddur Kristjánsson, sem þá var formaður VSÍ, sagði í viðtali við DV 17. mars, aðspurður með þessum hætti:
    ,,Getur þú séð fyrir þér flota Evrópubandalagsins í íslenskri landhelgi?`` --- Hverju svaraði formaður VSÍ á þessum tíma? ,,Ég get ekki séð það fyrir mér. Sá floti yrði ósigrandi kæmi hann inn.`` --- Flotinn ósigrandi.
    Það lá strax fyrir að þeir menn sem menn hefðu mátt taka nokkurt mark á, hygg ég, sögðu á þessum útmánuðum að auðvitað væri það til málamynda og hreinn blekkingarleikur að láta þessi skipti á loðnu koma í staðinn fyrir veiðar Evrópubandalagsins á karfa. Ég er sömuleiðis með blaðaúrklippur þar sem Jakob Jakobsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, segir: ,,EB loðnan mundi engu bæta við veiðiheimildir okkar. Verðum að hætta að tala um þessa loðnuvitleysu, segir Jakob Jakobsson fiskifræðingur.`` --- Hann segir enn fremur: ,,Og við verðum að hafa manndóm í okkur til að krefjast sams konar veiðiréttar í lögsögu bandalagsins og þeir fá hér. Ég fæ ekki betur séð en allt annað sé hrein undanlátssemi og uppgjöf af okkar hálfu.``
    Ég held að þarna hafi Jakob hitt naglann á höfuðið.
    Auðvitað mun það eiga eftir að ganga illa að útskýra fyrir ýmsum í hverju gagnkvæmnin sé fólgin þegar allar veiðarnar fara fram innan íslenskrar efnahagslögsögu. Bæði okkar veiðar og Evrópubandalagsins. Hvar er þá gagnkvæmnin? Það vantar a.m.k. eitthvað upp á í venjulegum skilningi mínum. Það er ekki gagnkvæmni í þeim skilningi að við fáum jafnmikinn umsvifarétt í lögsögu Efnahagsbandalagsins. Ó, nei. Allar veiðarnar koma væntanlega til með að fara fram í íslenskri efnahagslögsögu. Er það gagnkvæmni í sjálfu sér? Svarið er nei.
    Menn hafa líka í þessari umræðu að mestu leyti horft fram hjá þeirri staðreynd að í gildi er samningur milli Íslands, Noregs og Grænlands um hinn sameiginlega stofn, loðnuna, sem er okkur mjög hagstæður og hefur gert það að verkum undanfarin ár að við höfum mátt veiða megnið af þessari loðnu fyrir ekki neitt. Hver er þá gagnkvæmnin ef við erum allt í einu farnir að borga 3 þús. tonn af karfa fyrir loðnu sem við höfum flest árin veitt hvort sem er? Hver er þá gagnkvæmnin í því tilliti? Samningurinn er þannig úr garði gerður og segir skýrum orðum að nái ekki Grænlendingar eða Norðmenn sínum hluta af kvótanum á yfirstandandi vertíð þá beri Íslendingum að reyna að veiða hann. Síðan skal að vísu ef óumflýjanlegar kringumstæður hafa orðið til þess að þeir náðu ekki sínum kvóta leitast við að jafna það aftur á næstu vertíð. Niðurstaðan hefur hins vegar orðið sú að Grænlandskvótinn, eða svokallaður Evrópubandalagskvóti, hefur fallið okkur í skaut vegna þess að þessa forsendu hefur brostið. Ástæðan fyrir því að hann hefur ekki veiðst hefur verið sú að þeir hafa ekkert reynt til þess nema að mjög litlu leyti. Þá fara engar leiðréttingar fram.
    Það er því ekki hægt með vísan í reynsluna að mæla því í mót að við erum þarna í raun og veru að kaupa að langmestu leyti loðnu miðað við reynslu undanfarinna ára sem við höfum veitt hvort sem er. Hvar er þá gagnkvæmnin?
    Ég vil enn fremur vegna þeirra orða hæstv. utanrrh. --- sem vonandi hefur nennu í sér til að vera hér einhvers staðar nærstaddur og tekst mér þá vonandi að hrekja endanlega þann þvætting sem hæstv. utanrrh. ber nú á borð --- að það hafi aldrei verið inni í myndinni að samið yrði um gagnkvæmni í formi raunverulegs afla, vitna í minnisblað frá utanrrh. til utanrmn. þar sem verið er að gera grein fyrir stöðunni í þessu máli á haustmánuðum. Hvað er sagt í þessu minnisblaði sem við nefndarmenn í sjútvn. fengum í hendur meðal annarra? Það er verið að fjalla um kröfur Íslendinga í þessum viðræðum og hvernig

þau mál standi. Þar segir:
    ,,Upphafleg krafa okkar var að EB tæki þar á sig alla ábyrgðina.`` Þ.e. að deilan stendur nú um það hvernig taka skuli á því ef ekki tekst að veiða allt það magn sem vísindamenn töldu óhætt að veiða og kvóti hafði verið gefinn út fyrir. Utanrrn. segir í þessu minnisblaði þar sem verið er að gera grein fyrir stöðu málsins rétt áður en farið var á síðasta samningafundinn: ,,Upphafleg krafa okkar var að EB tæki þar á sig alla ábyrgðina`` --- með öðrum orðum alla ábyrgðina á því ef loðnan veiddist ekki --- ,,jafnvel þótt þegar hefði verið veitt úr loðnustofninum meira magn en nægði fyrir framsali Grænlendinga til EB á þeim 30 þús. tonnum sem síðan eru framseld Íslandi.`` Það var upphafleg krafa Íslands. Það staðfestir auðvitað það sem hæstv. sjútvrh. sagði áðan og hrekur það sem utanrrh. sagði í viðtali við Morgunblaðið.
    Síðan segir áfram, og það eru líka merkilegar upplýsingar um það hvernig þessu undanhaldi var háttað sem hæstv. utanrrh. kannast nú ekki við:
    ,,Í sumar viðraði íslenska samninganefndin þá breytingu að ábyrgðin á óveiddu tonnunum í lok vertíðar skyldi skiptast hlutfallslega milli Íslands og EB.``
    Það var krafan í sumar að Íslendingar og Evrópubandalagið tækju til helminga ábyrgðina ef loðnan veiddist ekki.
    Svo kemur rúsínan í pylsuendanum sem sagði okkur á sameiginlegum fundi sjútvn. og utanrmn., sem haldinn var 16. nóv. sl., allt sem segja þurfti um það hvað í vændum var:
    ,,EB heldur fast við að það geti ekki tekið á sig ábyrgð á því að Íslendingar nái allri loðnunni, enda hafi EB afsalað sér réttinum til þess að ná þessari loðnu á vertíðinni, auk þess sem íslenskir vísindamenn eigi meginþátt í tillögugerð um kvóta. Hann sé yfirleitt ákveðinn af íslenskum ráðherrum og íslenskir útgerðarmenn og sjómenn stjórni sókn í veiðarnar.``
    Hér lýsir utanrrh. því hvernig upphafleg krafa Íslands í þessum viðræðum hafi verið að Evrópubandalagið eitt tæki á sig alla ábyrgðina af því að loðnan veiddist. Á miðju sumri hefur það greinilega verið reifað við Evrópubandalagið að menn mættust á miðri leið og deildu til helminga ábyrgðinni af því að loðnan veiddist ekki. Utanrrn. botnar þetta með því að segja: Því miður, kæru vinir, Evrópubandalagið er ekki tilbúið til að falla frá þessu þannig að við verðum að gefast upp.
    Þetta minnisblað, sem tekið skal fram að var dreift sem trúnaðarmáli til utanrmn. og sjútvn. á fundi 16. okt., er í mínum höndum og ég leyfi mér að vitna í það til þess að hrekja þau ósannindi sem hæstv. utanrrh. hefur verið að reyna að bera hér á borð með skjölum frá hans eigin ráðuneyti. Ég spyr hæstv. utanrrh.: Ætlar hann að afneita þessu plaggi? Ætlar hann að mótmæla því að ég afhendi það fréttamönnum? Ég mun gera það ef hann kveinkar sér ekki eitthvað. Og komi svo hæstv. utanrrh. hér eina ferðina enn og segi að það hafi aldrei staðið til að gera kröfu um það að loðnan veiddist --- hann verður þá a.m.k. að afneita þessu plaggi tvisvar hvort sem við heyrum einhverja hana gala eða ekki.
    Nei, hæstv. forseti. Þetta er auðvitað slík ævintýramennska í málflutningi sem hæstv. utanrrh. hefur ástundað hér að ég hef sjaldan orðið vitni að öðru eins. Ég er satt best að segja hneykslaður og vonsvikinn á því hversu litla athygli þessi ömurlegi sjávarútvegssamingur hefur hlotið. Ég tel að frammistaða utanrrn. og auðvitað líka sjútvrh. á lokasprettinum, sem greinilega gafst upp og lét labba yfir sig í þessu máli, sé til skammar.
    Ég er aldeilis gáttaður á þeim forsvarsmönnum í íslenskum sjávarútvegi sem hafa lekið svona niður í málinu. Ég batt vonir við það lengi vel vegna þess að þeir voru hikandi í stuðningi sínum við þetta mál að í þeim yrði eitthvert hald í þessum efnum, en svo ætlar ekki að reynast. Því miður. Ég veit það að vísu vel af persónulegum samtölum við ýmsa menn úr röðum sjávarútvegsins að þar eru menn með hundshaus að lýsa blessun yfir EES-samningnum og þessum sjávarútvegssamningi og með fyrirvara þó.
    Því svo kemur að því að skoða hvað felst í þessum viðauka A um aflaheimildirnar sem er kjarni málsins og eru nótuskiptin frá 12. mars 1992 í raun og veru þýdd yfir á íslensku án þess að nokkur tilraun hafi verið gerð að því er séð verður til þess að lagfæra þau í þágu íslenskra hagsmuna.
    Þar er talað um skipti á veiðiheimildum en afli hvergi nefndur á nafn. Hvað segir það okkur í ljósi þess að hin upphaflega krafa Íslands var sú? Halda menn þá að það sé tilviljun að samningsniðurstaðan nefnir hvergi á nafn nauðsyn þess að skipst sé á raunverulegri veiði? Það er ósköp einfaldlega sönnun þess að þessi krafa Íslands hvarf út af borðinu og er hvergi á blaði í textanum sem bindur niðurstöðuna. Menn geta farið í gegnum þetta plagg eins og þeim sýnist og finni þeir einhvers staðar í textanum að gagnkvæmni skuli ríkja í veiðum, þá bið ég þá að láta mig vita. Ég þykist hafa lesið þetta og ég hef hvergi fundið það. Segir það ekki sína sögu í ljósi þess hver var upphafleg krafa Íslands, þ.e. sú krafa sem sett var inn á sl. vori eftir að hæstv. utanrrh. hafði samið þetta mál af Íslendingum eða samninganefndarmenn hans með nótuskiptunum frá því í mars og undirskriftinni í maí? Það er nú þannig.
    Það er tekið fram og því er slegið upp í fréttatilkynningu utanrrn. sem tíðindum að ef kvótinn minnki vegna þess að stofninn hrynji, þá verði minnkað hjá hinum líka. Ég segi bara: Þvílíkt hugarflug. Datt mönnum það jafnvel í hug að ef t.d. annar stofninn hryndi, segjum loðnustofninn, þá gæti það komið til greina að Evrópubandalagið fengi áfram að veiða 3 þús. tonn af karfa? Ég hafði ekki hugarflug til þess. Mér þykja það því ekki fréttir, hæstv. utanrrh., að ef kvótinn öðrum megin sé minnkaður þá verði hann líka minnkaður hinum megin. Það þykja mér ekki fréttir. Mér þykja það ekki fréttir að ef breyta þarf áður útgefnum kvóta þá breytist hann líka hinum megin. Það þykja mér ekki fréttir.

    Staðreyndin er sú að það er eingöngu þessi hlið mála sem fjallað er um í viðauka A um veiðiheimildir. Þar er hvergi nefnt á nafn hvað skuli gera ef þrátt fyrir það að stofninn þoli veiði þá náist hún ekki af einhverjum öðrum orsökum. Það er þá þetta fína orðalag um ,,ófyrirséðar ástæður`` sem koma upp sem á að vera haldreipið og tryggingin. Í hvaða samhengi er það orðalag þegar ljóst er og liggur fyrir að Evrópubandalagið hafnaði kröfunni um gagnkvæmni í veiðum? Hverju var Evrópubandalagið að hafna? Það var að hafna því að við gætum krafist leiðréttingar ef veiðin næðist ekki þrátt fyrir það að stofninn væri talinn þola hana. Rétturinn sem við höfum í því sambandi er --- hver er hann? Hann er að óska eftir fundi. Hann er að óska eftir því að fá að hitta þá og annað ekki. (Gripið fram í.) Það er að vísu ekki tekið fram hvort þeir fundir skulu vera í Brussel eins og hefðin virðist vera að verða eða í Reykjavík. Þau eru að vísu fín veitingahúsin í Brussel og ég veit að ýmsum líður vel þar, en það er þó ekki tekið fram. Það eru kannski mistök af samningamönnum að láta þess ekki getið að fundurinn megi þá gjarnan vera í Brussel.
    Það er alveg sama hvernig menn reyna að snúa sig út úr því að þeirri staðreynd verður ekki neitað að Evrópubandalagið hafnaði því að inn í samningana kæmu gagnkvæmar tryggingar gagnvart raunverulegri veiði. Það skipti máli í þessu sambandi, ekki hitt. Hitt eru tómar ,,selvfølgeligheder`` eins og Þórbergur hefði sagt, þ.e. að auðvitað kom það aldrei til greina að gera svo vitlausan samning að kvótarnir gætu beinlínis verið misjafnir þegar þeir væru gefnir út. Ég held að enginn hafi haft hugarflug til þess nema höfundur fréttatilkynningar utanrrn. sem slær því upp sem miklum tíðindum að slíkur árangur hafi náðst í samningagerðinni að það sé tryggt að kvótarnir verði ekki mismunandi stórir. Þvílík ósköp.
    Það eru ekki tíðindi að verði loðnuveiðar alls ekki leyfðar á einhverri vertíð þá skuli Evrópubandalagið ekki fá karfa. Því er slegið upp sem mikilli frétt í fréttatilkynningu utanrrn. Það eru ekki tíðindi finnst mér að verði leyfður heildarafli úr loðnustofninum minni en svo að 11 prósentin Grænlendinganna dugi á móti karfanum þá minnki það. Það eru ekki tíðindi. Því er slegið upp sem mikilli frétt og miklu afreki í fréttatilkynningu utanrrh. Það eru heldur ekki tíðindi að ef þurfi að minnka kvótann sjálfan af líffræðilegum orsökum skuli það jafnað hinum megin.
    Ég held að engum hafi nokkrun tímann dottið nokkuð annað í hug en að útgefnir kvótar yrðu að minnsta kosti að standast á. Hvað er verið að reyna að gera með því að slá svona löguðu upp sem fréttum? Það er verið að breiða yfir þá staðreynd að það sem máli skiptir tapaðist. Það var tryggingin fyrir því að um raunverulega veiði á móti raunverulegri yrði að ræða. Það að leggja að jöfnu 30 þús. tonn af loðnu og 3 þús. tonn af karfa við þessar aðstæður á grundvelli svona samnings er að mínu mati svo óralangt í burtu frá því að geta talist gagnkvæm niðurstaða að það er út í hafsauga.
    Landsmenn þekkja væntanlega flestir hvernig loðnan hegðar sér. Þetta er skammlífur stofn sem tvisvar á sl. 10--12 árum hefur nánast horfið út úr veiðinni. Karfinn er hins vegar í hópi þeirra fiska sem langlífari verða. Stofninn er af þeim sökum með innbyggðan miklu meiri stöðugleika ef ekki verða meiri háttar náttúrulegar katastrófur og er auk þess hegðunar sinnar vegna allt annar og meðfærilegri fiskur hvað stöðugleika í veiðum snertir. Einnig að því leyti til er þessi niðurstaða óviðunandi. Hún er ekki gagnkvæm í þeim skilningi að þeir stofnar sem verið er að vísa í séu sambærilegir.
    Ég tel að út af fyrir sig verði ekki miklu bætt við umræður fyrr í kvöld um raunverulegt verðmæti þessara kvóta sem menn eru þarna að nafninu til að að skiptast á. Ég verð þó að játa að mér finnst alveg furðulegt þegar það liggur á borðinu bara með því að reikna þetta magn á grundvelli núverandi verðmæta upp úr sjó, sem hvert mannsbarn sem komið er upp úr sjötta eða sjöunda bekk í barnaskóla getur, þá kemur það í ljós að karfinn er mun verðmætari miðað við núverandi verð á kílói upp úr sjó og þá skuli það enn vera borið á borð fyrir okkur að Íslendingar hafi grætt einhver ósköp á þessum skiptum, jafnvel 20%. Eru menn þá að horfa fram hjá þeirri staðreynd að loðnan fer beint í bræðslu og þar eru hverfandi möguleikar á að auka verðmæti hennar? Þeir eru hins vegar miklir í karfanum og er gjarnan gert. Kílóverðið þar getur því hækkað snarlega í gegnum aukna úrvinnslu í landi o.s.frv.
    Ég held að það sé bara ekki mergurinn málsins. Það er minni háttar mál að mínu mati borið saman við hitt sem kom svo út úr þessu. Hvað margar krónur og aurar í einhverjum aukastöfum er hverfandi mál borið saman við stóru atriðin í þessu sem eru grundvallarréttindi Íslendinga í þessum efnum og sú stefnubreyting sem er að verða með þessum samningi og þessari aumu hæstv. ríkisstjórn í afstöðu okkar Íslendinga til landhelginnar og réttinda okkar þar.
    Herra forseti. Það kom líka fram og var nokkuð fróðlegt í orðaskiptum hæstv. sjútvrh. og hæstv. utanrrh. --- sem ekki tolla hér í þingsalnum frekar en venjulega og er þó ekki svo vel liðað hjá þeim stjórnarliðum að þeim fáu sem eru á staðnum veiti af að sitja hér inni. Er heldur aumingjalegt verð ég að segja, hæstv. forseti, þó ég viti að ekki er við forseta að sakast sem vissi ekki fyrir þegar hann fæddist þau örlög að hann ætti að sitja sem stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar að svona illa er mætt af hálfu hæstv. ríkisstjórnar í kvöld. (Gripið fram í. ) Það væri nær.
    Það komu fram mjög merkileg skilaboð, tel ég vera, í orðaskiptum hæstv. utanrrh. og hæstv. sjútvrh. fyrr í kvöld. Sem með nokkuð sérkennilegum hætti eru staðfest í nýlegu tímaritsviðtali við ekki ómerkari mann, ef svo er rétt að komast að orði. Þetta er eitthvert hundkvikindi sem ég kann ekki deili á en á næstu síðu er hæstv. forsrh. og kemur svo að texta viðtalsins. Hér er enn mynd af forsrh. og enn verður bið á textanum sem byrjar undir fyrirsögninni: ,,Davíð, frelsið, fangelsið.`` Sem ég veit ekki hvaða merkingu á að leggja í.

    Það kom fram að gangleiðirnar milli hæstv. sjútvrh. og hæstv. utanrrh. eru nokkuð sérkennilegar miðað við að mennirnir sitja báðir í sömu ríkisstjórn síðast þegar við vissum, þ.e. að hæstv. sjútvrh. fær skilaboð um viðhorf utanrrh. á einhverjum karpfundi í Þjóðarsálinni. Í viðtali í Þjóðarsálinni fer fram sú útlistun á kröfum Íslendinga og samningsstöðunni í þessu smámáli sem sjútvrh. styðst síðan við. En skýringin kemur í viðtalinu við Davíð Oddsson. Ég ætla að vona að það verði ekki talið utan við efni umræðunnar þó ég vitni í þetta viðtal. Það hefur stundum mælst illa fyrir að menn væru að vitna í ritaðar heimildir en ég tel mig geta sýnt fram á að þetta skýri þau orðaskipti sem fóru fram milli utanrrh. og sjútvrh. fyrr í kvöld. Það er nefnilega verið að fjalla um það í viðtalinu að það hafi verið stirt samkomulag milli þeirra stjórnmálamanna sem stóðu að ríkisstjórninni ósælu sem leystist upp í beinni sjónvarpsútsendingu haustið 1988. Það hafa verið sárindi milli manna. Hæstv. núv. forsrh. telur það fram sem ákveðna réttlætingu fyrir því að hann tók völdin í Sjálfstfl. með ofbeldi snemma árs 1991 að það hafi verið nauðsynlegt til þess að flokkurinn gæti myndað ríkisstjórn því undir forustu núv. hæstv. sjútvrh. mundi það ekki ganga vegna þess að það væru svo mikil sárindi milli manna. Allt er þetta nú með mjög stórbrotnum brag í viðtalinu en kemur þó að því neðarlega á síðu 14 að hæstv. forsrh. segir: ,,Við hefðum kannski sest í stjórn en ég hef ekki trú á að Þorsteini Pálssyni`` --- þar er átt við hæstv. sjútvrh. --- ,,hefði tekist að mynda hana og vera í forsæti. Slík tortryggni var enn milli manna. Á þeim fáu dögum sem ég tók í þær viðræður komu upp deilur milli Þorsteins og Jóns Baldvins`` --- þ.e. hæstv. sjútvrh. og hæstv. utanrrh. --- ,,sem gerðu mér erfitt fyrir við stjórnarmyndun og raunar næstu daga á eftir. En samkomulagið``, og nú kemur rúsínan í pylsuendanum, ,,milli þeirra hefur lagast. Þeir geta þó talað saman núna.`` Þeir geta þó talað saman núna.
    Hér held ég að hljóti að vera fundin skýringin á því að hæstv. sjútvrh. þurfti að hlusta á þjóðarsálina til að vita hvað utanrrh. fyndist um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Þeir töluðu ekki saman og sátu þó í ríkisstjórn. Þeir gera það núna samkvæmt þessu viðtali og þá er náttúrlega spurningin: Hvenær byrjuðu hæstv. sjútvrh. og hæstv. utanrrh. að tala saman? Það er úrslitaspurning í þessu máli. Því að fyrr en við fáum svar við henni vitum við ekki hvenær þessi mál tóku að skýrast á stjórnarheimilinu.
    Gamanlaust, herra forseti, þá er þetta auðvitað með miklum endemum. Það hlýtur að segjast eins og er að það var varla von á góðu úr því að andrúmsloftið var og er e.t.v. enn svona í hæstv. ríkisstjórn sem átti þó að gæta þessara mikilsverðu hagsmunamála fyrir okkur Íslendinga.
    Ég tel að niðurstaðan sé ákaflega dapurleg bæði efnislega eins og hún liggur fyrir í dag en þó er ekki versti þáttur málsins uppi enn að mínu mati sem er hins vegar sá að með þessu er verið að leiða okkur inn í ferli árlegs samningaþófs við Evrópubandalagið um fiskveiðiheimildir þeirra á Íslandsmiðum. Af öllu samanlögðu og að því meðtöldu sem mér er ákaflega óljúft og hefði ég getað farið nærri með að láta aðeins það eitt ráða úrslitum um afstöðu mína til samningsins um Evrópskt efnahagssvæði að flotarnir koma á nýjan leik inn í landhelgina. Eins og sjómaður sem ég hitti á bryggju á Austfjörðum í fyrrasumar sagði við mig: Ég þarf ekki meira en þetta. Það dugar mér til að vera á móti þessum samningi. Ég vil ekki fá þá aftur inn í landhelgina. En ég held að það sé enn verra að eiga svo að standa í árlegu samningaþófi við Evrópubandalagið um ókomna daga um fiskveiðiréttindi þeirra í íslenskri landhelgi. Vegna þess að sporin hræða í þeim efnum. Reynsla annarra þjóða hræðir í þeim efnum.
    Alls staðar sem Evrópubandalagið hefur komið fæti milli stafs og hurðar hefur meiri eða minni hluti af skrokknum fylgt á eftir. Þeir hafa jafnan reynt í framhaldinu að knýja á um aukin réttindi. Það er auðvitað alveg ljóst að við Íslendingar seljum okkur með þessu undir það ok að ef, sem hlýtur að verða á komandi árum, við þurfum að sækja til Evrópubandalagsins um einhver hagsmunamál í okkar samskiptum þá svari þeir: Já, en við skulum þá líta á fiskveiðiheimildirnar. Það getur vel verið að við séum tilbúnir til að taka þessa kryddsíld ykkar inn í einhvern annan tollflokk eða þennan lax, sem ekki fékkst um árið, en við skulum þá kíkja á veiðiheimildirnar. Það er mikill áhugi á því á Spáni og í Norður-Þýskalandi og víðar að fá að koma með aðeins fleiri togara inn til ykkar.
    Vita menn virkilega ekki við hverja þeir eru að eiga? Mér finnst menn stundum tala hér eins og algjör kornabörn í samskiptum við þetta afl, Evrópubandalagið. Og er þó furðulegt því menn hafa séð tröllaslaginn milli þess t.d. og Bandaríkja Norður-Ameríku, Japans og þriðja heims ríkjanna. Ekki hefur gengið lítið á þegar Evrópubandalagið hefur verið að gæta sinna hagsmuna í þeim efnum og af býsna mikilli harðdrægni.
    Hæstv. forseti. Það sem ég óttast mest, guð láti gott á vita að ég hafi rangt fyrir mér og það verði ekki þannig, í þessu máli er framtíðin, samskiptin í framhaldi af þeim farvegi sem þau eru sett í. Árlegt samningaþóf um veiðiheimildir Evrópubandalagsins í íslensku fiskveiðilögsögunni. Dettur mönnum ekki í hug að ástæðan fyrir því að Evrópubandalagið harðneitaði að tryggja okkur gagnkvæmni í raunverulegum afla sé sú að þeir vilji geta sagt: Við sömdum aldrei um það. Við sömdum um veiðiheimildir upp á 3 þús. tonn af karfa sem við höfum og komum og tökum. Það er svo ykkar mál hvort þið náið loðnunni. Ef við náum ekki loðnunni en Evrópubandalagið tekur samt sinn karfa, hvað hefur þá gerst? Þá hefur í reynd, ,,de facto``, niðurstaðan orðið sú að Evrópubandalagið náði tilteknum einhliða réttindum. Það yrði útkoman. Þeir vita vel hvað þeir eru að gera í samningum þessir karlar, því miður. En það er eins og þoka hafi verið fyrir augum Íslendinga að meira og minna leyti a.m.k. síðan 12. mars 1992 í þessu efni.
    Herra forseti. Ég ætla ekki að þreyta menn hér alveg fram í nóttina með lengri ræðum um þetta.

Ég gæti samt vel gert það og hefði alveg geð í mér til þess en það er kannski ekki sanngjarnt að fá útrás fyrir tilfinningar sínar sem vissulega eru nokkrar í þessu máli, skal fúslega viðurkennt af minni hálfu, yfir þeim ágætu sálum sem þó eru viðstaddar. Það væri nær að lesa ýmsum pistilinn sem láta ekki svo lítið að láta sjá sig hér í þingsalnum af hvaða hvötum sem það er ef maður næði til þeirra eða fengi færi á þeim.
    Ég verð þó að segja að lokum að einna dapurlegust þykir mér þó þessi niðurstaða fyrir hæstv. sjútvrh. Ég hafði bundið vissar vonir við að hæstv. sjútvrh. ætlaði ekki að leka niður í þessu máli. Að hann mundi jafnvel reisa sig á því að setja hnefann borið, setja frekar málin í hnút og láta hrikta svolítið í áður en hann gæfist upp og læki niður. Ég er alveg viss um að hæstv. sjútvrh. hefði haft víðtækan stuðning á Alþingi og úti í þjóðfélaginu til að gera það. Því Íslendingar vilja standa vörð um sín réttindi í þessum efnum. Þjóðin hefur sýnt það áður að hún er tilbúin til að taka ýmislegt á sig, miklar fórnir ef því er að skipta, ef verið er að gæta þessara grundvallarréttinda okkar. Ég er alveg viss um að það væri minnsta mál í heimi, eins og sagt er á nútímaíslensku, að fylkja næstum allri þjóðinni til samstöðu um að taka frekar á sig óþægindi og jafnvel erfiðleika en að fara út á of þunnan ís þegar varðar réttindi okkar og ótvírætt fullveldi innan efnahagslögsögu okkar.
    Ég hélt að reynslan af þessum þjóðum bæði fyrr og síðar hefði kennt okkur það að þó við segjum gjarnan á góðri stund að þetta séu frændur okkar og vinir og góðar grannþjóðir o.s.frv., þá eru þetta líka þær þjóðir sem við höfum þurft að slást við um okkar réttindi. Eða er það ekki? Ég hélt það en furðulega eru menn fljótir að gleyma.
    Herra forseti. Ég bind ekki miklar vonir við það, því miður, miðað við þær upplýsingar sem fram hafa verið að koma um afstöðu manna hér á undanförnum sólarhringum til þessara mála og úr því að hæstv. sjútvrh. með því liði sem hann hefði getað haft á bak við sig hefur gefist upp í þessu máli að þessum samningi verði hnekkt. Þó læðist að mér sú hugsun að spyrja hæstv. utanrrh.: Hvað ætlar hæstv. utanrrh. að gera með þennan samning ef enginn verður samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði? Hæstv. utanrrh. hefur farið í miklar skógarferðir til að sanna að þetta sé algerlega óskylt mál og komi tollaívilnunum eða öðrum ákvæðum samningsins um Evrópskt efnahagssvæði bókstaflega ekkert við. Þess vegna er sanngjarnt að hann sé spurður: Hvað ætlar hæstv. utanrrh. að gera ef t.d. Svisslendingar fella samninginn um Evrópskt efnahagssvæði, málið fer í uppnám, þolinmæði Svía og fleiri þjóða sem liggur á inn í Evrópubandalagið þrýtur, þeir gefast upp á Evrópska efnahagssvæðinu, henda því og snúa sér beint að viðræðum um fulla aðild? Þá sætu ýmsir eftir nokkuð glópslegir á skeri og meðal þeirra yrðum við Íslandsmenn kannski í vissum skilningi. Þá kæmi upp þessi spurning: Hvað ætlar hæstv. utanrrh. að gera þá með þennan samning? Yrði þá jafnmikið gleðiefni að hafa staðið í þessum svokölluðu veiðiheimildaskiptum við Evrópubandalagið eins og reynt er að vera að láta þegar þetta er til sölu á hinu háa Alþingi?
    Ég held að ég ljúki máli mínu, herra forseti, með því að skilja eftir þessa spurningu til hæstv. utanrrh.