Samningar við EB um fiskveiðimál

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 21:28:28 (3003)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Hér liggur fyrir þinginu till. til þál. um staðfestingu samninga við Evrópubandalag Evrópu um fiskveiðimál og lífríki hafsins eins og það heitir og er samningur um sjávarútvegsmálefni sem tengdur hefur verið samningnum um Evrópskt efnahagssvæði og er lagður fyrir Alþingi Íslendinga til staðfestingar.
    Þetta mál sem liggur hér fyrir okkur er í þremur þáttum. Ég verð að gagnrýna það svolítið í upphafi, virðulegur forseti, að mér finnst málið vera heldur ruglingslega upp sett eins og það er fram lagt í þingskjalinu. Þar er vísað til heita á þessari þrískiptingu með þeim hætti að fljótt á litið er ekki auðvelt að átta sig á því hvernig þetta mál er upp byggt. Í greinargerð eða athugasemdum með þáltill. er vikið að þessu á fyrstu síðu þskj. og greint frá því að samkomulagið við EB sé samkvæmt framansögðu þrískipt:
    1. Erindaskipti frá 2. maí sem eru ákvarðandi um öll atriði sem þar eru tilgreind.
    2. Rammasamningurinn þar sem endurtekin eru sum atriðin úr erindaskiptunum en öðrum þáttum bætt við eins og rakið verður hér á eftir.
    3. Árlega samkomulagið þar sem einnig eru endurteknir þættir úr erindaskiptunum en einkum bætt við nánari ákvæðum um framkvæmd á skiptum umræddra veiðiheimilda, loðnu og karfa, og eftirlit með veiðunum.
    Hér eru notuð heiti um þessa þrjá þætti málsins sem ekki er síðan að finna í fyrirsögnum viðkomandi mála. Ekki er haft fyrir því að tengja þetta saman, athugasemdir með þáltill. og fylgiskjölin sem þarna er vísað til. Þetta er ekki til þess að auðvelda þeim sem vilja kynna sér málið að fá um það yfirlit. Hitt er svo rétt að allt þetta þrennt er saman vafið með vissum hætti og gengur hvað inn í annað. Þannig þarf auðvitað að líta á þetta efni í heild.
    Ég minni á og það kemur raunar fram í þessu málsskjali að þetta er lagt þannig fyrir að hér sé

um að ræða gagnkvæm skipti á veiðiheimildum. Það er formúla sem hefur fylgt þessu máli af hálfu stjórnvalda lengi en jafnskýrt hefur það legið fyrir að hér er ekki um slík gagnkvæm skipti á veiðiheimildum að ræða. Í þskj. segir að rammasamningur Íslands og Evrópubandalagsins eigi fyrst og fremst við um sameiginlega stofna og þar á meðal hagkvæma nýtingu þeirra með skiptum á veiðiheimildum. En hvernig horfir það mál við með þessa sameiginlegu stofna? Hvert er innihaldið í þessum samningi? Hann fjallar ekki um sameiginlega stofna heldur um tvo íslenska stofna, einvörðungu um tvo íslenska stofna: Karfastofninn og loðnustofninn. Hvort tveggja íslenskir stofnar. Í rauninni liggur máið einmitt þannig fyrir að Íslendingar eru að semja við Evrópubandalagið um veiðiheimildir á árinu 1993 sem þetta gildir um, ákvörðunin fyrir næsta ár gildir um þessa tvo íslensku stofna.
    Hvernig lítur þetta út með loðnustofninn? Ég held að það sé rétt að fara aðeins yfir það efni. Það er stofninn sem Íslendingar eiga að fá að veiða úr í staðinn fyrir 3 þús. lestir af karfa sem Evrópubandalagið fær að veiða innan íslenskrar lögsögu. Það er vísað á framsal Grænlendinga til Evrópubandalagsins um 30 þús. tonna loðnuafla sem samið var um framsal á af Grænlendinga hálfu til Evrópubandalagsins. Evrópubandalagið hefur hins vegar um sex ára skeið, eða eftir árið 1986, ekki veitt út á þessa úthlutun, þetta framsal Grænlendinga, ekki veitt hið minnsta af loðnu af því sem nú er vísað á sem skiptimynt á móti karfa í íslenskri fiskveiðilögsögu. Árin á undan var þarna um smávegis veiðar að ræða á fyrri hluta síðasta áratugs, á árinu 1986 um 5 þús. lestir sem veiddar voru af loðnu sem Grænlendingar framseldu. Það var í síðasta skipti fram til dagsins í dag að reynt hefur verið af hálfu Evrópubandalagsins að nýta sér þessa veiðiheimild Grænlendinga. Íslendingar hafa óheft, samkvæmt samkomulagi Íslands, Noregs og Grænlands, þ.e. samningnum frá 1989 um skipti á loðnustofninum í Norður-Atlantshafi, getað veitt sinn hlut eftir því sem aðstæður hafa leyft að fullu í vissum tilvikum og eftir skiptaprósentunni alveg óháð þessum samningi milli Grænlands og Evrópubandalagsins. Hverjar eru ástæðurnar fyrir því að Evrópubandalagið hefur ekki nýtt þessa veiðiheimild? Þeir hafa ekki getað stundað þessar veiðar með árangri. Þeir gáfust upp við þetta eftir árið 1986 eftir hörmulega niðurstöðu úr tilraun sem gerð var á árunum þar á undan. Það er kannski eitt meginatriði málsins, virðulegur forseti, þegar rætt er um þessi svokölluðu gagnkvæmu skipti að við erum að ,,kaupa`` afla af Grænlendingum sem við hefðum getað sótt óhindrað samkvæmt samningi milli Íslands, Noregs og Grænlands um loðnustofninn.
    Það er vissulega svo að það er ekki 100% útilokað að Evrópubandalagið kunni ekki einhvern tíma að reyna að nýta þessa heimild. Um það vil ég ekkert segja. Upplýsingar um þessar veiðar og skiptihlutföllin liggja fyrir í svari frá sjútvrh. sem lagt var fram á síðasta þingi og þarf auðvitað engin vísindi til því þetta þekkja allir sem fylgst hafa með nýtingu á loðnustofninum. Það er ekki um nein skipti að ræða. Við erum að framselja íslenskan stofn þar sem er karfinn og við erum að semja um skiptimynt á móti, um loðnu sem við höfum haft aðgang að og engar hindranir hafa verið í vegi fyrir að veiða, loðnu sem Evrópubandalagið hefur ekki getað nýtt sér þótt þeir hafi keypt hana að formi til og greitt fyrir hana til Grænlendinga. Þetta finnst mér að hafi allt of lítið komið inn í umræðuna í dag þó að ýmsir hv. þm., þar á meðal hv. síðasti ræðumaður og hv. 3. þm. Vesturl., hafi vikið að því í sínu máli.
    Eftir að sigursamningurinn mikli, eins og hæstv. utanrrh. kallaði hann, var gerður í október 1991 skrifaði ég grein í Morgunblaðið, 2. nóv. Þá kallaði ég þetta að greiða sigurlaunin úr eigin vasa því að annað er það ekki. Við erum að greiða fyrir þennan samning með margföldu verði og það er verið að búa hér til blekkingar og reyna að fleyta sér á blekkingum gagnvart þjóðinni í þessu máli. Mér finnst það vera einhver ómerkilegasti blekkingavefur sem reynt hefur verið að spinna gagnvart okkur í sambandi við þau mál sem tengjast Evrópsku efnahagssvæði. Ég vil biðja hæstv. utanrrh. um að upplýsa það hvaða líkur hann telji á því að Evrópubandalagið ætli að fara að hefja veiðar úr þessum stofni, hvað það er sem rekur hann til þess að ganga að slíkum skiptum. Það er aldeilis með ólíkindum.
    Ég held að kjarni málsins sé ekki spurningin um að velta fyrir sér verðgildi á milli þessara stofna því að það er ósambærilegt. Hvort tveggja er á reikning Íslendinga. Svo koma hæstv. utanrrh. og hæstv. sjútvrh. og reyna að halda því fram að hér hafi ekki verið gengið til samninga um að skipta á auðlind og markaðsaðgangi, að við höfum ekki hleypt Evrópubandalaginu inn í veiðar á íslenskum fiskstofnum gegn því að fá lækkun á tollum á innflutningi. Það þarf mikla kokhreysti til að halda því fram og svo mikið er víst að ekki tekur Evrópubandalagið undir þann málflutning enda auðvelt að fyrirgefa þeim það eins og allt er í pottinn búið. Þeir hafa komist hér inn í íslenskar sjávarauðlindir nánast einhliða þó að síðan sé reynt að búa málið þannig að um skipti á veiðiheimildum sé að ræða.
    Ég tel ástæðu til, virðulegi forseti, að fara aðeins yfir viðhorf Jakobs Jakobssonar, forstjóra Hafrannsóknastofnunar, um þennan kjarna málsins. Ég vil fá að vitna í hans orð. Það sem ég ætla að vitna hér til er annars vegar grein sem Jakob Jakobsson ritaði í Fréttabréf Samstöðu á síðasta vetri og einnig í ræðu sem hann flutti á landsfundi þeirra samtaka þar sem hann var beðinn um að tala. Hann fjallaði þar um fiskveiðiheimildir til Evrópubandalagsins. Jakob Jakobsson segir, með leyfi forseta:
    ,,Þegar Íslendingar hafa á undanförnum árum farið fram á að Evrópubandalagið lækkaði tolla á tilteknum íslenskum sjávarafurðum hefur bandalagið, eins og allir vita, krafist veiðiheimilda í íslenskri fiskveiðilögsögu. Þessu hafa íslensk stjórnvöld hafnað hingað til og haft um það stór orð að aðgangur að auðlind gegn tollalækkunum komi aldrei til greina. Í stað þess hefur komið til tals að semja um gagnkvæmar veiðiheimildir. Slíkir samningar hafa þó hingað til strandað á því að Evrópubandalagið hefur ekki boðið neitt í fiskveiðilögsögu sinni sem komið gæti í stað veiðiheimilda í lögsögu okkar.
    Sl. sumar [þ.e. sumarið 1991] buðu Íslendingar skipti á langhala og loðnu. Hvorki höfum við nýtt langhalann né Evrópubandalagið loðnuna svo látið var líta út sem hér væri um ,,pappírsviðskipti`` að ræða. Nú er staðan hins vegar gjörbreytt. Með kröfunni um alvöru veiðiheimildir er Evrópubandalagið í raun að krefjast aðgangs að auðlind gegn tollalækkunum. Þetta ætti öllum að vera ljóst vegna þess að bandalagið hefur ekki haft nokkurn hug á að nýta þær loðnuheimildir sem það hefur keypt af Grænlendingum sl. fimm ár. Þessar heimildir hafa því sjálfkrafa komið Íslendingum til góða enda var hlutur okkar í aflanum sl. loðnuvertíð 91,2% í stað þeirra 78% sem núgildandi samningur Grænlands, Íslands og Noregs segir til um.
    Ef Íslendingar ætla í raun og veru að semja um gagnkvæm veiðiréttindi og afsala sér 3 þús. tonnum af karfa nær auðvitað engri átt að þiggja í staðinn loðnu sem við fengjum hvort sem væri. Til að kóróna alla vitleysuna stendur í ágripi samningsdraganna frá 22. okt. [1991] að í stað 3 þús. karfaígilda fái Íslendingar 30 þús. tonn af loðnu í grænlenskri lögsögu (Greenland Waters) en eins og alþjóð veit þá hefur ekki veiðst loðnubranda við Grænland í nokkur ár þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Löngu er vitað að uppeldisstöðvar loðnunnar eru að hluta til við Austur-Grænland. Það hefur því verið kappsmál Íslendinga að hindra loðnuveiðar þar. Þetta hefur í raun tekist að undanförnu. Samningsdrögin gera hins vegar beinlínis ráð fyrir að slíkar veiðar verði stundaðar og það af hálfu Íslendinga þótt skaðlegar séu. Hvers konar hringavitleysa er þetta?
    Ef semja á um gagnkvæm veiðiréttindi verðum við að sjálfsögðu að hafa manndóm í okkur til að krefjast sams konar veiðiréttar í lögsögu bandalagsins og það fær hér. Allt annað er hrein undanlátssemi og uppgjöf af okkar hálfu.``
    Þetta segir Jakob Jakobsson í grein í Fréttablaði Samstöðu veturinn 1991--1992. Á landsfundi Samstöðu 9. maí 1992 vék hann einnig frekar að þessu máli með svipuðum hætti. Ég vil, með leyfi forseta, fara yfir niðurlagið úr hans máli eins og það var birt í Fréttabréfi Samstöðu í maí sl.:
    ,,Aðalatriði þessa máls er e.t.v. að á svæðinu milli Íslands, Austur-Grænlands og Jan Mayen er aðeins einn veiðanlegur loðnustofn. Þessi loðna kemur venjulega að suður- og vesturströnd Íslands og hrygnir þar í mars eða byrjun apríl. Eftir hrygninguna klekjast seiðin út og berast með straumi vestur og norður fyrir land og eru að langmestu leyti innan íslenskrar lögsögu fyrsta ár sitt. Á öðru ári dreifist loðnan yfir stærra svæði og er nokkur hluti hennar þá oft innan grænlenskrar lögsögu. Á þriðja aldursári fer loðnan að verða kynþroska og veiðanleg. Þá kemur stundum fyrir, eins og t.d. á níunda áratugnum, að nokkur hluti þessa aldursflokks gekk alla leið norður undir Jan Mayen um hásumarið en sneri til Íslands aftur þegar leið á haustið og hélt svo austur með Norðurlandi og suður fyrir land þriggja ára gömul þar sem hún hrygnir og drepst að lokinni hrygningu. Um 30% hvers árgangs verður þó ekki kynþroska fyrr en fjögurra ára og dvelur því ári lengur á uppeldisstöðvunum milli Íslands og Grænlands en hér hefur verið lýst að framan.
    Aðalatriði þess sem ég er að reyna að koma hér til skila er sú staðreynd að veiðiheimildir þær sem Grænlendingar selja Evrópubandalaginu eru engin viðbót við þá loðnu sem er á Íslands-Grænlands-Jan Mayen svæðinu. Þetta er hluti af því sem við viljum kalla íslenska loðnustofninn. Ef Íslendingar ætla í raun og veru að semja um gagnkvæm veiðiréttindi og afsala sér 3. þús. tonnum af karfa nær auðvitað engri átt að þiggja í staðinn loðnu sem við fengjum hvort sem væri. Ef semja á um gagnkvæm veiðiréttindi verðum við að sjálfsögðu að hætta að tala um þessa loðnuvitleysu og hafa manndóm í okkur til að krefjast sams konar veiðiréttar í lögsögu bandalagsins og það fær hér. Ég fæ ekki betur séð en allt annað sé hrein undanlátssemi og uppgjöf af okkar hálfu.``
    Virðulegi forseti. Ég verð að játa að ég sakna hæstv. sjútvrh. úr þingsal og spyr hvort hann hafi hlýtt á mál mitt og hvar hæstv. ráðherra sé, hvort hann sé hér nálægt og geti verið viðstaddur umræðuna. ( Forseti: Hæstv. sjútvrh. hefur verið hér í salnum eða í hliðarsal. Það er sjálfsagt að kalla eftir honum ef ræðumaður óskar.) Ég óska þess og satt að segja kemur mér mjög á óvart ef hæstv. ráðherra finnur ekki þörf til að vera viðstaddur þessa umræðu. ( Forseti: Hæstv. sjútvrh. er þegar genginn í salinn.)
    Hæstv. sjútvrh. Ég hef farið yfir málflutning og röksemdir, m.a. með tilvitnunum í mál forstjóra Hafrannsóknastofnunar varðandi loðnustofninn. Ég hef vitnað til orða hans til að rökstyðja það sjónarmið sem ég hef haldið fram lengi eða frá því í október 1991, að hér sé á engan hátt hægt að tala um gagnkvæm skipti á veiðiheimildum vegna þess að á móti framsalinu á 3 þús. tonnum af karfa eigum við að þiggja 30 þús. tonn af hlut Evrópubandalagsins sem Grænland hefur framselt til Evrópubandalagsins en aldrei nýtt sér hið minnsta síðan á árinu 1986 að þeir veiddu rösklega 5.000 tonn úr þessum stofni. Ég verð að segja að það er með miklum fádæmum að hæstv. ráðherrar skuli ekki hafa fyrir því að reyna að útskýra að hve miklu leyti þeir eru á annarri skoðun en fram kemur frá jafnvirtum aðila og forstjóra Hafrannsóknastofnunar í þessu máli.
    Ég held það blasi við hverjum manni sem lítur á málið að það er þannig vaxið þótt enginn sé að útiloka það að Evrópubandalagið kunni við einhverjar aðstæður einhvern tímann í framtíðinni að reyna að nýta sér eitthvað af þessari veiðiheimild. Það hefur ekki verið talið hagkvæmt af þeirra hálfu. Þeir gáfust upp við þessar veiðar frá og með árinu 1986 fyrir fullt og allt og höfðu þá ekki nýtt sér nein 30 þús. tonn á árunum á undan heldur langtum minni afla.
    Þetta sem ég hef rakið sýnir það betur en flest annað hvers eðlis þessi samningur er sem hér er

verið að gera, hvers konar undanlátssemi það er gagnvart Evrópubandalaginu sem birtist með því skrefi sem hér er stigið. Ekki verður málið fallegra þegar litið er á einstök atriði í þessum þríþætta samningi sem hér er lagður fyrir og ég mun víkja þar að nokkrum atriðum.
    Fyrst skulum við aðeins líta á erindaskiptin frá 2. maí 1992, fskj. 1 með þessum samningi, og eru kennd við Óportó, undirrituð 2. maí 1992. Þar er enn þá á lífi langhalinn sem kom inn í þetta mál í október haustið 1991. Þessi skepna sem hæstv. utanrrh. hefur sennilega aldrei augum litið, ég veit ekki um hæstv. núv. sjútvrh. ( Utanrrh.: Jú, ég hef hann augum litið.) þó greint væri frá því að hann hefði þegið boð og snætt þennan fisk, langhala, sl. vor, ef ég man rétt en ég efast um að hæstv. utanrrh. hafi litið þessa skepnu augum þegar hann gekk frá samnignum og vann sigurinn mikla í október 1991. Það er út af fyrir sig ekki meginmál en þessi fiskur heitir á erlendu máli, ensku og frönsku, grenadier sem er sama orð og notað er um fræga fótgönguliða. Ég er viss um að hæstv. utanrrh. þekkir kvæði sem var nokkuð frægt um þessa fótgönguliða. Ætli Steingrímur Thorsteinsson hafi ekki þýtt það úr þýsku. Það byrjaði á þessu: ,,Nach Frankreich zogen zwei Grenadier``. ( ÓÞÞ: Má biðja um þýðingu á þessu? Það verður að víta menn fyrir að fara með þýsku hér í ræðustól áður en gengið verður í Evrópska efnahagssvæðið.) Það er kannski allt í lagi að minna menn á höfuðtunguna sem er að koma yfir okkur en það er sem sagt sama heitið sem notað er um fótgönguliða og langhalann. Menn geta velt því fyrir sér þegar þeir skoða fiskinn hvernig á því stendur. Í þessum erindaskiptum þar sem vikið er að langhalanum sem meginuppistöðu segir, með leyfi forseta:
    ,,Breyta má með samkomulagi samsetningu þessa kvóta á næstu árum á eftir í ljósi frekari vísindarannsókna á langhalastofnunum.``
    Það hefur ekki verið greint frá því í umræðunum svo ég hafi heyrt hvernig þessar vísindarannsóknir ganga og hvernig að þeim er staðið. Það er önnur saga og kannski ekki mikið sem vekur okkar áhuga í bili.
    Í þessum erindaskiptum er að finna ákvæði eftir að dregin hafa verið upp þau svæði sem Evrópubandalaginu verður heimilað að veiða á innan íslenskrar efnahagslögsögu. Þá segir:
    ,,Reynist svæðin sem afmörkuð eru í I og II ekki fullnægjandi til hagkvæmra veiða samkvæmt framansögðu skulu aðilar koma sér saman um nauðsynlegar lagfæringar á þessum svæðum.``
    Það liggur sem sagt fyrir samkvæmt þessum samningi að Evrópubandalagið getur gert kröfu til þess að nái það ekki sínum aflahlut á umsömdum veiðisvæðum, sem dregin eru upp með lengdar- og breiddargráðum í þessum samningi, eiga þeir kröfu á okkur að fá að fara annars staðar inn í lögsöguna, á öðrum svæðum, til þess að ná sínum hlut. Það er góð trygging sem þeir hafa fengið í þessu Óportó-samkomulagi að þessu leyti.
    Þarna segir varðandi loðnuna: ,,Kvóta Íslands má veiða hvort heldur er innan fiskveiðilögsögu Grænlands eða í efnahagslögsögu Íslands.``
    Til að öllu sé til haga haldið hefur hæstv. utanrrh. áttað sig á því að örðugt gæti orðið að afla þessarar loðnu í fiskveiðilögsögu Grænlands einvörðungu.
    Við skulum síðan líta til rammasamningsins svonefnda en það sem hæstv. utanrrh. nefnir svo í greinargerð er samningurinn um fiskveiðimál og lífríki hafsins milli lýðveldisins Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu. Það er tvennt sem ég vil koma þar að sérstaklega. Það er í fyrsta lagi það sem segir í 9. gr. og hæstv. utanrrh. hefur vitnað til, ef ég hef tekið rétt eftir, þegar hann hefur verið að svara spurningum um hvað verði um veiðiheimildir Belgíu. Samkvæmt 9. gr. þessa meginsamnings eða rammasamnings hefur Evrópubandalagið tryggt sér að í gildi haldist aðrir samningar, eins og fiskveiðisamningurinn við Belgíu. Ég held a.m.k. að þessi grein veiti þeim mjög aukinn stuðning til að halda þessum réttindum, þótt í samningnum sjálfum séu sjálfstæð ákvæði. En 9. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Þessi samningur hefur ekki áhrif á réttindi eða skyldur er felast í gildandi samningum um fiskveiði milli Íslands og aðildarríkis bandalagsins.``
    Síðan kemur að gildisákvæðunum í þessu samkomulagi. Það er í 12. gr. og hún er þannig, með leyfi forseta:
    ,,Þessi samningur skal í fyrstu gilda í tíu ár frá gildistökudegi hans. Ef hvorugur aðili hefur sagt samningnum upp með tilkynningu um uppsögn að minnsta kosti níu mánuðum áður en sá tími rennur út skal hann gilda áfram í sex ár í senn upp frá því, að því tilskildu að tilkynning um uppsögn hafi ekki borist að minnsta kosti níu mánuðum áður en hvert slíkt tímabil rennur út.``
    Þetta er 12. gr. og hún kveður á um tíu ára gildistíma, sex ár í viðbót og áframhaldandi á meðan samningnum hefur ekki verið sagt formlega upp áður.
    Hér er mjög ólíku saman að jafna við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði sem hefur þó að geyma ársfrest á uppsögn. Þessi samningur sem er þó af ráðherrum tengdur náið við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði, og er auðvitað nátengdur þeim samningi og orðinn til vegna hans sem skipti á auðlind og markaðsaðgangi, hefur ekki sömu gildistökuákvæði. Þessi samningur skal standa um langa framtíð samkvæmt ákvæðunum sem ég hef vitnað til. Þetta finnst mér setja málið í mjög sérkennilega stöðu svo ekki sé fastar að orði kveðið. Við skulum líta á tölulið 2 sömu greinar því ég las aðeins tölulið 1. Þar segir:
    ,,Ef samningnum er sagt upp í samræmi við ákvæði fyrri málsgreinar skulu aðilar hefja viðræður um annan samning til að tryggja lagalegan grundvöll að framkvæmd á samkomulagi því sem felst í erindaskiptunum um fiskveiðimál sem voru undirrituð í Óportó 2. maí 1992.``
    Hvað er hér á ferðinni með þessu ákvæði sem ætlunin er að við skrifum upp á á Alþingi Íslendinga og er ósk ríkisstjórnarinnar að verði staðfestur? Ekkert minna en það að Evrópubandalagið er um ókomna framtíð að tryggja sér innkomu í íslenska fiskveiðilögsögu með þessum ákvæðum. --- ,, . . .  skulu aðilar hefja viðræður um annan samning til að tryggja lagalegan grundvöll að framkvæmd á samkomulagi því sem felst í erindaskiptunum um fiskveiðimál . . .  `` Hvernig er hægt að standa að máli með þessum hætti, hæstv. sjútvrh. og hæstv. utanrrh.? Hvernig ætla menn að komast úr úr þessu máli? Er það hugmyndin að þetta skuli vera staða okkar gagnvart Evrópubandalaginu um langa framtíð og svo til viðbótar tengt samningnum um Evrópskt efnahagssvæði, bókun 46, sem fylgir samningnum um Evrópskt efnahagssvæði og kveður á um það að árlega eða annað hvert ár skuli fara fram formlegar viðræður milli Íslands og Evrópubandalagsins um fiskveiðimálefni.
    Ég skildi eftir bókun 46 á borði mínu, virðulegur forseti, en ég mundi þiggja að fá hana til að vitna með beinum hætti í bókun 46 svo ekkert fari á milli mála hvað þar er á ferðinni. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Í ljósi niðurstaðna af endurskoðun sem fram fer á tveggja ára fresti á stöðu samvinnu þeirra í sjávarútvegi munu samningsaðilarnir leitast við að þróa þessa samvinnu með jafnvægi og gagnkvæma hagsmuni í huga og innan ramma stefnu hvers um sig í sjávarútvegsmálum. Fyrsta endurskoðun mun fara fram fyrir árslok 1993.``
    Þetta er bókunin sem hæstv. utanrrh. féllst á aðfaranótt 22. okt. 1992 þegar hann gekk frá sigursamningnum mikla en greiddi sigurlaunin úr eigin vasa einhliða að því er sjávarútvegsmálin varðar.
    Þegar á þetta allt er litið í samhengi, á gildistökuákvæðin og þá njörvun sem í þeim felst fyrir okkur Íslendinga er ekki tjaldað hér til einnar nætur, því miður. Þá er verið að leggja upp í ferð þar sem Evrópubandalagið hefur tryggt sína hagsmuni með ótrúlega skýrum og ótvíræðum hætti að því er varðar aðgang að íslenskum sjávarauðlindum.
    Jafnvel þó að menn vilji taka málið út frá því að menn hafi verið, eins og raunin var, að gjalda fyrir tollalækkanir er þetta mál ekki frýnilegt þótt uppsetningin væri með þeim hætti, eins og eðlilegt og sjálfsagt er að líta á þetta mál, eins og það er vaxið, eins og það er til orðið.
    Aðrir ræðumenn, talsmenn Alþb., hafa í kvöld og í fyrr í þessari umræðu vikið að þessu máli í víðara samhengi við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði, að þeim þáttum á sjávarútvegs- og fiskveiðisviði sem var teflt um í þeim samningi. Ég ætla ekki að fara að endurtaka þau efni sem þar voru rædd. Ég vil aðeins ítreka að þegar litið er á þau mál í heild er dæmið ófagurt því hinn pólitíski aðgöngumiði að upphaflegri samningagerð og samningaviðræðum við Evrópubandalagið var krafa Íslands um fríverslun með fisk, um það að fiskveiðimálefni lytu sömu samkeppnisreglum og iðnvarningur og annar varningur. Ef það hefði orðið niðurstaðan hefði það væntanlega orðið með þeim hætti sem fram kemur í frv. sem við vorum að fjalla um og greiða atkvæði um í dag, um viðskiptahætti sem snúa að Evrópubandalaginu og samskiptum innan Evrópsks efnahagssvæðis. En það var eitthvað annað en það yrði niðurstaðan. Þegar menn eru að vísa til þess að náðst hafi lækkun á tollum á íslenskum sjávarafurðum og reiða þar fram ákveðnar prósentur er ekki víst að þær prósentur haldist um aldur og ævi. Þar er aðeins gengið frá þeim afurðum sem nú eru í viðskiptum milli aðila og eru á lista en ekki í hugsanlegum nýjum afurðum. Um slíka þætti þarf að semja sérstaklega ef til kemur og ætli þá reyni ekki á hinar árlegu viðræður um sjávarútvegsmálefni og þann hlut sem Evrópubandalagið sækir inn í íslenska fiskveiðilögsögu og kröfurnar standi á mönnum. Það kann kannski að vera skemmra að bíða slíkra tíðinda en margur heldur.
    Ég vænti þess að þetta mál fái þá skoðun sem það verðskuldar í hv. þingnefnd og að að þeirri skoðun lokinni þá sjái Alþingi fyrir því að þessum samningi verði vísað frá vegna þess að hann samræmist ekki okkar grundvallarhagsmunum, sérstaklega þegar til framtíðar er litið. Hann þyrfti að fá sömu meðferð og samningurinn hinn meiri sem honum tengist, samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði, sem brátt verður á dagskrá þingsins til 2. umr.