Samningar við EB um fiskveiðimál

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 23:26:59 (3009)

     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Mig langar að koma hér inn á örfá atriði sem snerta þennan samning sem er lagður fyrir Alþingi og ræddur í dag. Ég sannfærist um það æ meir eftir því sem ég sé meira af þeim gjörningi sem varðar hið Evrópska efnahagssvæði að Evrópubandalagið mun á mjög mörgum sviðum hafa töglin og hagldirnar í okkar málefnum. (Gripið fram í.) Ég er sannfærður um að hæstv. ráðherrar sitja í hliðarbergjum, alla vega hæstv. utanrrh. Hæstv. sjútvrh. er ekki sýnilegur eins og er.
    Ég ætla aðeins að minnast á landhelgina. Í mínum huga og í huga flestra Íslendinga er landhelgin heilagt vé. Fyrir henni var barist með svita, blóði og tárum. Við háðum stríð við stórveldi aftur og aftur og við sigruðum þessa orrustu. Í gegnum þá sigra er mér ljóst að þar með tryggðum við okkur þau lífskjör sem við búum við og að auki alger yfirráð yfir einni dýrmætustu auðlind í veröldinni. En samkvæmt þessum samningi erum við að opna þessar dyr á ný og hleypa á ný erlendum togurum að staðaldri inn í íslenska fiskveiðilögsögu.
    Þegar maður hugsar um risann sem Evrópubandalagið er, þá getur maður sett sig í hans spor. Auðvitað getur maður sett sig spor heimsbyggðarinnar þegar við hugleiðum það að þessi örlitla þjóð, Íslendingar, munu veiða úr hafi sínu 1% af öllum fiski sem neytt er í heiminum. Skyldu ekki margir útlendingar hugsa þessari litlu þjóð þegjandi þörfina sem býr við þá auðlegð að veiða 1% af öllum fiski sem veiddur er í heiminum? Við skulum hugleiða það hvað þessi litla sjálfstæða þjóð okkar er lítil. Ég spurði hæstv. utanrrh. að því áðan hvað hún væri stór og hann sagði: Hún er svo lítil að hún er vart mælanleg. Hún er eitthvert prómill af mannkyninu. Auðvitað eru þetta orð að sönnu í augum heimsbyggðarinnar. Þeim getur þótt það ósanngjarnt að þessi litla þjóð ráði svo dýrmætri auðlind. Við erum 260 þús. af hátt í 5 milljörðum manna í þessum heimi. ( SJS: Það hefur ekki verið talið í Kína nýlega.) Það hefur ekki verið talið í Kína síðustu árin bætir hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon við sem þekkir áreiðanlega vel til þar. Þessar staðreyndir segja manni það að opna þessar dyr á ný, þá ráða Íslendingar ekki einir yfir hafi sínu, verða að semja árlega við erlent ríki um nýtingu. Menn skulu gera sér grein fyrir því að hér er ekki verið að gera samning til tíu ára. Einu sinni á hverju einasta ári skal ríkisstjórn Íslands sitja frammi fyrir Evrópubandalaginu og á ný að semja um aflaheimildir úr þessu hafi ef ég skil samninginn rétt.
    Ég lærði myllu sem ungur drengur. Hverja einustu myllu vann ég þegar ég hafði komið mér upp svikamyllu. Hér sýnist mér að Evrópubandalagið sé að koma á íslenska stjórnmálamenn og þjóð þeirri svikamyllu að þeir munu ráða ferðinni. Þeir munu sækja fast á hverju ári að auka sínar heimildir. En þeir munu jafnvel sjá hina leiðina vænlegri til að byrja með í einhver ár að gera frekari kröfur til að stjórnvöld opni aðrar dyr með meiri hraða, með alls konar vöruflæði og öðrum yfirráðum í þessu landi.
    Ég er sannfærður um, hæstv. utanrrh., að einhvern tíma á yngri árum hefði hæstv. utanrrh. talið það eðlilegt við svo stórbrotna ákvörðun, að opna landhelgi Íslands, að þjóðin yrði spurð um það atriði. Væri ekki eðlilegt að Alþingi Íslendinga kannaði hug þjóðarinnar til þessa máls? Mér finnst mjög eðlilegt og ég heyri það á förnum vegi hvar sem ég fer, ég heyri það á íslenskum sjómönnum, sem í dag eru jafnvel að amast við frændum okkar Færeyingum sem eru í mikili neyð, að þá hryllir við þeirri hugsun að þessir togarar Evrópubandalagsins, sem þeir vita lítið um hverjir verða, verði að staðaldri í okkar landhelgi, jafnvel þó að þeir verði á afmörkuðum svæðum eins og samningurinn gerir ráð fyrir. Ég hygg að hæstv. sjútvrh. hafi heyrt þau viðhorf, alla vega í Vestmannaeyjum.
    Ég vil mælast til þess að sem flestir alþingismenn hugleiði það hversu heilög landhelgin er í huga þjóðarinnar og hvort þjóðin geti nokkurn tíma fallist á að landhelgin verði opnuð með þeim hætti að árlega skuli risinn segja við þessa litlu þjóð: Nú gefum við upp á nýtt.
    Þetta vildi ég láta koma fram við umræðuna. Ég vil líka við þessa umræðu segja að mér finnst margt hafa breyst á síðustu þremur árum frá því að þeir samningar hófust sem við tókum þátt í með EFTA-ríkjunum við Evrópubandalagið. Ég hygg að fæstir hafi gert sér grein fyrir því þá að önnur stoðin, sem átti að standa undir viðskiptabrúnni á milli EFTA og EB, yrði ekki til innan örfárra ára því EFTA-ríkin hafa nú öll sótt um aðild að Evrópubandalaginu nema við. Þetta segir mér það að við munum standa frammi fyrir einhvers konar ferli á næstu árum á því svæði sem við erum að fara inn á. Ég óttast, því miður, að sá ferill muni liggja í þá átt að af einhverjum ástæðum muni verða knúið á það í þessu landi að um inngöngu verði að ræða. Þá hugsun get ég ekki hugsað til enda.
    Mér finnst það áberandi í umræðunni að mikið er lagt upp úr fjórfrelsinu og að Íslendingar hugsi um það að þeir þurfi að hafa sama rétt úti í Evrópu og séu tilbúnir að gefa rétt sinn í þessu landi 400 millj. manna. Það þykir mér skammsýn hugsun og ég harma að fólk heldur að þetta snúist um atvinnuréttindi í staðinn fyrir að hugsa lengra og átta sig á því hversu dýrmætar og eftirsóknarverðar auðlindir íslenska þjóðin á. Það er ekki bara hafið sem er dýrmæt auðlind í þessu landi. Það er enginn vafi á því að þegar það blasir við, jafnvel innan áratuga, að olía og kol eru á þrotum verða vatnsaflsvirkjanir á Íslandi enn dýrmætari en þær eru í dag.
    Það er heldur enginn vafi í mínum huga að landið sjálft er mjög dýrmæt auðlind. Við eigum kalt og heitt vatn. Þess vegna hallast ég æ meira að því að við þessar breyttu aðstæður væri mikilvægt fyrir Íslendinga að leita þegar eftir því að þessum samningi verði snúið upp í tvíhliða viðræður vegna þess að hin ríkin eru að fara inn í EB. Við megum ekki falla í þá gryfju að hugsa bara rétt fram fyrir tærnar á okkur, í örfáum árum. Við verðum að hugsa í áratugum og öldum. Við verðum að hugsa í kynslóðum. Við verðum að hugsa um börnin sem nú alast upp í landinu, að þau geti eignast hér glæsta framtíð. Á þetta vildi ég leggja áherslu og ég lýsi þungum vonbrigðum mínum yfir því að íslensk stjórnvöld skuli nokkurn tíma hafa fallist á það að opna landhelgina á ný fyrir erlendum togurum.