Samningar við EB um fiskveiðimál

69. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 00:00:58 (3014)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég tel spurningu hv. þm. út af fyrir sig ekki tímabæra af þeirri einföldu ástæðu að það er engin ástæða til að ætla annað en samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið verði staðfestur og það eins fyrir því hver verða úrslit í þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss. Hitt er rétt að það er mitt mat að samningurinn sé okkur hagstæður og þess vegna ekki frágangssök af þeim sökum.
    Að því er varðar samningaferlið, þá liggja allar upplýsingar á borðum hv. þm. um það. Að því er varðar það atriði sem hv. þm. spurði sérstaklega um, þ.e. það mál sem hefur verið uppistaðan í orðaskiptum manna hér, hvort gengið hafi verið út frá því í upphafi að um gagnkvæm skipti á veiðiheimildum eða veiddum fiski upp úr sjó væri að ræða, þá liggur það alveg ljóst fyrir. Frá upphafi vega var ráð fyrir því gert að hér væri um að ræða skipti á veiðiheimildum. Það er staðfest af þeim erindaskiptum sem undirrituð voru í Óportó. Það breytir hins vegar engu um það að eftir var að útfæra hið árlega samkomulag samkvæmt erindaskiptunum um fyrirkomulagsatriði, þar á meðal hvernig tryggt skyldi við ólík tilvik að gagnkvæmnin héldi í þessum samningi. Allar upplýsingar hafa verið fram færðar um það hvernig því er hagað.