Samningar við EB um fiskveiðimál

69. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 00:10:39 (3020)

     Halldór Ásgrímsson :
    Herra forseti. Ég vildi aðeins gera örstutta athugasemd við svar hæstv. utanrrh. að því er varðaði hugsanlega samninga við aðrar þjóðir þannig að við gætum skipt á þeim heimildum sem við fáum frá Efnahagsbandalaginu við aðrar þjóðir. Hæstv. utanrrh. svaraði því að hann gæti ekki séð neinn flöt á því máli að semja við aðrar þjóðir um einhverjar hugsanlegar veiðiheimildir og vísaði til þess, eins og hann hefur stundum gert áður, að lítið hafi verið gert í því í fyrri ríkisstjórn.
    Ég vil rifja það upp fyrir hæstv. utanrrh. að engir formlegir fundir áttu sér stað um þessi mál í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það voru aðeins óformlegar viðræður og þreifingar um það hvort mögulegt væri að setjast niður í sambandi við þessi mál með formlegum hætti. Síðasti fundur sem haldinn var um þau mál var haldinn í mars 1990, ef ég man rétt. Þar voru m.a. bornar upp spurningarnar um hugsanleg skipti á jafngildum veiðiheimildum en því var algerlega hafnað af hálfu Efnahagsbandalagsins sem leið til að greiða fyrir samningum á þessu sviði. Um það þarf í sjálfu sér ekki að hafa fleiri orð. Slíkar þreifingar áttu sér stað, það er alveg ljóst en engar formlegar viðræður höfðu átt sér stað.
    Það er hins vegar ekki fyrr en vorið 1991 að slíkar viðræður hefjast. Ég hef engar nákvæmar dagsetningar um það, enda skiptir það ekki máli. Fyrst þá kemur fram af hálfu Efnahagsbandalagsins að það sé því aðeins tilbúið að láta í skiptum fyrir veiðiheimildir frá Íslendingum loðnu sem þeir hafi fengið frá Grænlandi. Vissulega má rétt vera að einhver hefði mátt láta sér detta í hug að þeir byðu þetta fram en það er fyrst á þeim tímapunkti sem mögulegt var að ræða slíka hluti við aðrar þjóðir, taka það upp við Norðmenn og Færeyinga, sem ekki hefur verið gert en hæstv. sjútvrh. sagði að það kæmi vissulega til greina að gera það síðar.
    Ég er þeirrar skoðunar að þetta hefði átt að gera. Ég nefni sem dæmi að þorskveiði er nú mjög mikil í Barentshafi og veiðiheimildir þar hafa aukist verulega. Efnahagsbandalagið hefur fengið hlutdeild í þeim auknu veiðiheimildum og það er alls ekki útilokað að norsk nótaveiðiskip hefðu haft hagsmuna að gæta að fá meiri loðnuveiði úr þeim sameiginlega stofni sem við eigum með þeim og Grænlendingum og hafi verið tilbúnir að láta í staðinn þorsk í Barentshafi sem við hefðum þá hugsanlega getað framselt til Efnahagsbandalagsins. Sama á við um Færeyinga.
    En þetta verður að sjálfsögðu ekki gert, hæstv. utanrrh., nema teknar séu upp viðræður um það. Ég tel að það hafi verið sýnt áhugaleysi um þetta mál og ég tel að svar hæstv. utanrrh. nú sýni að svo hafi

verið.
    Þetta vildi ég að kæmi fram því að ég tel þetta vera mikilvægt atriði. Það hefði átt að reyna allt sem hægt var til þess að halda þessum skipum utan okkar landhelgi og það hefði verið mun betra að fá norskt eða færeyskt skip í þessum skiptum. Með þessum orðum er ég ekki að halda því fram að þetta hefði tekist. Það er allt annað mál. En það tekst ekkert nema það sé reynt.