Samningar við EB um fiskveiðimál

69. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 00:16:16 (3021)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Eðli málsins samkvæmt teldi ég rétt að hv. þm. beindi þessari spurningu sinni til hæstv. sjútvrh. Ef hann skyldi ætla að áhugaleysi væri ráðandi um möguleika á hlutdeild í vaxandi þorskstofnum í Barentshafi, þá er það misskilningur. Það hafa farið fram viðræður við fulltrúa héraðsstjórna á Arkangelsk- og Murmansk-svæðinu um möguleika á samstarfi Íslendinga og héraðsstjórna og fyrirtækja á þessu svæði og koma þar ýmsir möguleikar til greina. Viðræður hafa farið fram. Það er ekki komið að neinni niðurstöðu en það er alllangt um liðið frá því að fyrstu sambönd voru upp tekin. Með öðrum orðum skortir ekkert áhuga á því af okkar hálfu að efna til slíks samstarfs.
    Það breytir hins vegar engu um það að ég hafði enga aðstöðu til þess að bjóða neinar slíkar veiðiheimildir sem um hefði verið samið við aðrar þjóðir og gætu komið til skipta við Evrópubandalagið á þeim tíma þegar þessir samningar voru í mótun.