Samningar við EB um fiskveiðimál

69. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 00:21:58 (3024)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er komið yfir á annan dag frá því að umræðan hófst og ekki eru það mín áform að hafa langt mál uppi um þetta dagskrármál. Það hefur verið ítarlega rætt og ég hef fylgst með umræðunni af athygli. Margt gagnlegt hefur komið fram í þeirri umræðu og einkum af hálfu þeirra sem hafa gagnrýnt þennan samning.
    Ég vildi láta koma fram af minni hálfu að ég held mig við þá skoðun, sem er ekki ný, að Íslendingar eigi einir að nýta sínar fiskveiðiauðlindir og eigi að miða við það að koma útlendingum út úr fiskveiðilögsögunni fremur en semja um heimildir fyrir þá til að koma þar inn aftur. Ég get með engu móti fellt mig við það að samningar af þessu tagi séu gerðir sem heimila sérstaklega svo öflugu bandalagi sem Evrópubandalagið er að veiða innan okkar fiskveiðilögsögu.
    Ég verð að segja líka að það kemur mér dálítið á óvart hver niðurstaða samningsins í öllu þessu mikla samningaferli er, bæði hvað varðar tollaívilnanir í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og þennan viðhnýtta fiskveiðisamning. Niðurstaðan er með allt öðrum hætti en búið var að gefa út áður um þetta mál og ég tel að hæstv. utanrrh. hafi í raun komið aftan að þjóðinni með þessari niðurstöðu málsins. Mig langar að minna ráðherrann á það sem hann lét frá sér fara um málið fyrir einu og hálfu ári þegar hann sagði að 98% af samningnum væri lokið. Þá segir hann, svo ég vitni til greinar í Morgunblaðinu 11. apríl 1991, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hefur hafnað aðild að EB en valið þann kost að semja við Evrópubandalagið um brýnustu viðskiptahagsmuni okkar, nefnilega að tryggja okkur tollfrjálsan aðgang að mörkuðum fyrir sjávarafurðir án þess að fallast á fiskveiðiheimildir í staðinn.`` Enn fremur segir í grein hæstv. utanrrh., með leyfi forseta: ,,Í samningunum um EES er nýting fiskimiða og orkulinda ekki einu sinni

á samningssviðinu.``
    Þetta eru skilaboð utanrrh. á þeim tíma til þjóðarinnar að samningum sé nánast lokið, 98%, og það sem menn ætli að fá út úr samningunum sé tollfrjáls aðgangur fyrir sjávarafurðir og sérstaklega tekið fram að nýting fiskimiða sé ekki einu sinni á samningssviðinu.
    Það er augljóst mál og þarf ekki að rökstyðja að niðurstaðan, sem er ekki um tollfrjálsan aðgang, er miklu lakari en upp var sett og að hún hefur verið keypt með fiskveiðisamningi. Það eru að mínu viti alveg óhrekjanleg rök fyrir því að þessi sjávarútvegssamningur er verð Íslendinga fyrir tollaívilnanir. Það þarf ekki annað en reikna út verðmætið á þeim afla sem við leyfum EB að veiða og bera það saman við það sem okkur er ætlað í staðinn til þess að sjá að þar erum við að láta af hendi verðmæti til annarra. Það er endurgjald að mínu viti upp í ívilnanirnar sem eru í EES-samningnum.

    Þetta gerir samninginn hálfu verri og er þó það eitt nægilega slæmt í mínum huga að heimila útlendingum veiðar í landhelgi okkar þó þetta bætist ekki við.
    Ég mun leggjast gegn því að þessi samningur verði staðfestur og tel að við séum komnir út á afar hættulega leið ef við fetum okkur inn á þessa slóð því ég óttast að með því að taka þessa stefnu verði ekki aftur snúið heldur einungis gengið enn frekar til þeirrar áttar að láta aðra ráða yfir auðlindum okkar og rýra með tímanum forræði okkar og vega að sjálfstæði okkar. Þetta er sú framtíðrsýn sem ég hef til málanna og vil ekki taka þátt í að hefja þá göngu með hæstv. utanrrh.