Vegáætlun 1992

70. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 10:04:30 (3027)


     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Eins og hv. frsm. nefndarinnar gerði grein fyrir vorum við sammála því að afgreiða þetta mál en skrifuðum undir með fyrirvara og gerðum eftirfarandi bókun:
    ,,Sérstaklega viljum við mótmæla þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið við undirbúning þess átaks í vegamálum sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir. Með því að ekkert samráð var haft við nefndina eða þingmenn einstakra kjördæma hefur þinghefð og vinnuregla um langt skeið verið brotin. Hér eru m.a. á ferðinni breytingar á framkvæmdaröð sem áður hafði verið gert ráð fyrir í vegáætlun.``
    Undir þetta rita Jóhann Ársælsson, Stefán Guðmundsson, Guðni Ágústsson og Kristín Einarsdóttir.
    Nú er það að segja við því sem hv. frsm. sagði að þetta væri ekki brot á vinnureglum, því að það hefði ekki verið með sambærilegum hætti fjallað um þessi mál í samgn., að eftir því sem a.m.k. mér hefur skilist, þá var það hugmyndin með því að láta nefndir þingsins starfa allt árið að mögulegt væri að fjalla um mál í þeim. Auðvitað er það þá eðlilegt ef á að fara að ræða um breytingar á því sem áður hefur verið ákveðið að taka það til umræðu í viðkomandi nefndum þingsins. Og það er afskaplega slæmt í upphafi þess tíma sem þessi nýja skipan er viðhöfð að menn fari þá öðruvísi að. Ég er sannfærður um það að hægt hefði verið að ná ágætu samkomulagi í samgn. um þá hluti sem hér eru á ferðinni, enda skrifuðum við öll undir nál. Ég vil í þessu sambandi sérstaklega minnast á það að hv. 3. þm. Reykv. skrifaði grein í Morgunblaðið þar sem hann var að útlista það að þeir þingmenn sem tóku þátt í umræðum um þessi mál hér í Alþingi þegar þessi þáltill. var lögð fram, hefðu verið að þvælast fyrir og tefja fyrir málinu. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst eins og maðurinn hafi ekki setið og hlustað á það sem menn sögðu. Það mótmælti enginn því að þetta átak yrði gert sem talað er um hér í vegamálum en menn mótmæltu þeim vinnubrögðum sem voru viðhöfð og gerðu athugasemdir við ýmislegt í þessari framkvæmd.
    Það er ástæða til að rifja upp hvernig að þessu er í raun og veru staðið. Ríkisstjórnin heldur því fram að hún sé að auka hér fé til vegamála um 1.800 millj. og hvernig er það þá gert? Jú, Vegasjóður á að taka 1.800 millj. kr. lán og greiða það til baka á einhverjum næstu árum en ekki hefur komið í ljós hvernig endurgreiðslur eiga að raðast niður. Það hefur ekki verið mótað enn þá. En á móti verða menn þá að gera sér grein fyrir því að það er verið að skerða markaða tekjustofna Vegagerðar verulega. Í fjárlagafrv. sem núna liggur fyrir eru mótaðir tekjustofnar skertir um 344 millj. og með efnahagsráðstöfunum sem hafa verið kynntar eru markaðir tekjustofnar, bensíngjald og þungaskattur, látnir renna í ríkissjóð í viðbót upp á 350 millj. og í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að færa ný verkefni vegna ferja og flóabáta yfir á Vegagerðina upp á 330 millj. Samtals er þetta yfir milljarður, 1 milljarður og 24 millj. Og það er furðulegur talnaleikur að taka þessa peninga frá Vegagerðinni og láta hana svo taka lán sem hún á að borga til baka aftur. Raunveruleg aukning á því fé sem er til framkvæmda fyrir utan markaða tekjustofna og ef frá er tekið þetta nýja verkefni Vegagerðarinnar er 776 millj. kr. Það er sú aukning sem er fram yfir það sem hefði verið eðlilegt að hefði runnið til Vegagerðar miðað við það hvernig tekjur af vegafé eru.
    Ég vil láta koma hér fram að ég tel þetta mjög forkastanleg vinnubrögð og endurtek það sem ég sagði við þá umræðu að eðlilegast hefði verið að Vegagerðin hefði fengið að njóta allra sinna tekna og að lánið sem hefði verið tekið til viðbótar hefði verið það sem samsvaraði þessum mismun, eitthvað í kringum 800 millj. En eftir því sem helst er að skilja á því sem hér hefur komið fram verður Vegasjóður að standa algerlega undir þessum 1.800 millj., afborgunum og vöxtum af því fé.
    Ég ætla ekki að hafa langa ræðu um þetta. Það fóru fram ítarlegar umræður um þetta mál við fyrri umr. og þar kom þessi gagnrýni öll fram, en ég vildi endurtaka hluta af því og gera grein fyrir mínum skoðunum á því máli.