Vegáætlun 1992

70. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 10:14:31 (3030)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það væri æskilegt að hæstv. fjmrh. væri hér viðstaddur þessa umræðu og einnig væri út af fyrir sig nauðsynlegt að hæstv. forsrh. væri hér. Ég ætla nú ekki að gera kröfu til þess að forsrh. sé sóttur, en ef hann er í húsinu þá væri það svo sem ágætt að hann væri viðstaddur þessa umræðu.
    Þetta er að mörgu leyti mjög fróðlegt mál sem hér er til umfjöllunar. Það er m.a. fróðlegt fyrir það að þetta er enn eitt dæmið um að Sjálfstfl. er gjörsamlega ómarktækur í stjórnarandstöðu. Honum er nákvæmlega sama hverju hann heldur fram, hyggur ekkert að samhenginu milli orða og athafna. Satt að segja væri það mjög vel þess virði að taka þá alla hérna upp, hv. þm. Egil Jónsson, Pálma Jónsson og hæstv. samgrh. --- sem nú flýr auðvitað úr salnum vegna þess að hann veit að það á að fara að minna hann á fortíð hans. ( Samgrh.: Það er ósatt að ég sé flýja úr salnum.) Það er gott að ráðherrann staðnæmdist, það tókst að stoppa ráðherrann í því að fara úr salnum.
    Hvað gerðist fyrir nokkrum árum síðan þegar við fluttum um það tillögur, Alþb., Framsfl. og Alþfl., þegar við vorum í ríkisstjórn, að tekinn yrði hluti af tekjustofnum Vegagerðarinnar og settur í ríkissjóð? Hvað gerðist þá? Þá upphófst hér á Alþingi orrahríð af hálfu Sjálfstfl. þar sem þeir voru auðvitað fremstir í flokki, núv. samgrh., hv. þm. Egill Jónsson, Pálmi Jónsson og fleiri snillingar, og gott ef ekki núv. fjmrh. kom eitthvað nálægt því, ég er þó ekki viss um það, og börðu hér ræðustólinn bæði í efri deild, neðri deild og sameinuðu þingi út af þessari ósvinnu, þessari hættulegu braut sem þarna væri farið inn á. En hvað hefur nú gerst? Enn á ný er Sjálfstfl. að hverfa frá því sem hann sagði í stjórnarandstöðu. Og svo eru þessir menn, m.a. hæstv. forsrh., að halda því fram að Sjálfstfl. einkenni einhver stefnufesta. Og þessir menn eru svo að setja sig í dómarasæti yfir mér og öðrum um það að ekkert samræmi sé í því sem við segjum í stjórn og stjórnarandstöðu. Ef maður nennti, þá væri hægt að taka hér langan tíma í þinginu fram að jólum til þess að rekja það sem Sjálfstfl. hefur sagt um ríkisfjármál á síðsta kjörtímabili og það sem hann er að gera nú. Það eru allt eintómar mótsagnir. Hvað ætli séu margir tugir blaðsíðna í þingtíðindum, margar klukkustundir sem fóru hér á Alþingi undir mótmæli Sjálfstfl. við því að farið væri inn á þá braut að taka markaða tekjustofna Vegagerðarinnar í ríkissjóð? Gott ef það var ekki allt að því málþóf gegn þeim verknaði. Hvað er að gerast nú? Sjálfstfl. að koma og leggja til að markaðir tekjustofnar Vegagerðarinnar verði teknir í ríkissjóð. Hefjum við þá látlausa gagnrýni á það í stíl hinnar óábyrgu stjórnarandstöðu sem Sjálfstfl. temur sér ætíð? Nei, auðvitað gerum við það ekki. Við erum nefnilega sjálfum okkur samkvæmir.
    Annað atriði er að nú hefur það gerst að Sjálfstfl. hefur komist að þeirri niðurstöðu að það eigi að flytja ferjurnar inn í vegakerfið með því að reka þær fyrir tekjustofna vegamálanna. Það er góð tillaga. Ég veit að hún skerðir vegafé til framkvæmda en það er engu að síður skynsamleg og góð tillaga. Ég flutti hana þegar ég var fjmrh. Hún náði því miður ekki fram að ganga þá. Ég fagna því að hún er að ná fram að ganga nú. Ég fagna því. En auðvitað var Sjálfstfl. á móti slíkum hugmyndum þegar hann var í stjórnarandstöðu, að sjálfsögðu. Alltaf á móti skynsamlegum hugmyndum þegar hann er í stjórnarandstöðu. Ég styð Sjálfstfl. í þessu núna. Batnandi mönnum er best að lifa. Það er gott að þeir hafa áttað sig á því hvað er skynsamlegt. En það væri dálítið fróðlegt að fá ýmsa þingmenn Sjálfstfl. hérna upp í stólinn og fá þá til að vitna í málinu. Við erum nefnilega sjálfum okkur samkvæmir í því sem við segjum í ríkisstjórn og því sem við styðjum í stjórnarandstöðu. Við erum ekki svona tækifærissinnaflokkur eins og Sjálfstfl., gjörsamlega ómarktækur í stjórnarandstöðu, gjörsamlega ómarktækur. Það er að vísu von að hv. þm. Björn Bjarnason geti skapað sér fríspil í þessu vegna þess að hann var svo heppinn að þurfa ekki að greiða atkvæði með dellu Sjálfstfl. hér á síðasta kjörtímabili þó að hann styddi þá á Morgunblaðinu. Því miður eru þeir ekki merktir leiðararnir eða Reykjavíkurbréfin. En það væri mjög fróðlegt að hafa ,,fæl`` yfir það hvað hv. þm. Björn Bjarnason skrifaði á stjórnarandstöðuárunum. Ég ætla hins vegar ekki að gera mikið mál úr þessu, bara nota þetta tækifæri til þess að lýsa því yfir að við styðjum þetta í Alþb. En það væri auðvitað manndómsbragur að því hjá Sjálfstfl. að biðjast afsökunar á öllum ræðuhöldunum og málþófinu og andstöðunni sem þeir fluttu gagnvart þessum hugmyndum þegar þeir voru í stjórnarandstöðu. Það væri manndómsbragur að því, viðurkenna bara að þeir hafi haft vitlaust fyrir sér.
    Þriðja atriðið sem ég ætlaði að nefna hér er það að ríkisstjórnin tilkynnti eins og kunnugt er að hún ætlaði að taka 2 milljarða til þess að bæta atvinnuástandið í landinu og setja 1.800 af þeim í vegaframkvæmdir. Það hefur nú rækilega verið rakið hér að þessar tölur eru ekki alveg réttar en látum það liggja á milli hluta. Það sem ég vildi gera að umræðuefni hér er að það er ekki rökrétt að segja að þessi upphæð, hvort sem hún er 1.800 millj. eða eitthvað minna, sé tekin til atvinnuskapandi aðgerða og síðan sé bara örlítið brot af þeirri upphæð sett á það landsvæði þar sem atvinnuleysið er mest og þá á ég við Suðurnesin. Það er ekki rökrétt að koma og segja: Við erum að fara í þessa aðgerð til þess að draga úr atvinnuleysinu og svo eru fáeinir tugir milljóna settir á það svæði þar sem atvinnuleysið er mest, t.d. yfir 10% atvinnuleysi hjá konum og langvarandi atvinnuleysi í efstu mörkum þess sem við þekkjum hér í landinu hjá körlum. ( VE: Ertu kominn í kjördæmapot?) Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson grípur hér fram í og spyr hvort ég sé kominn í kjördæmapot og hlær. ( ÓÞÞ: Og rís á honum hárið.) Það er merkilegt hvað þeir eru orðnir órólegir EES-félagarnir, utanrrh. og Vilhjálmur Egilsson, því að þeir hlæja alltaf svona nervöst hér undir ræðum í þingsalnum, utanrrh. í gær og Vilhjálmur Egilsson nú. ( VE: Þú þarft nú ekki að taka þetta svona alvarlega.) Ja, ég tek þingmanninn venjulega alvarlega en það er kannski rétt ábending hjá honum

að það eigi að hætta því.
    Það sem ég var að benda á er mótsögnin í því að vera að segjast taka 1.800 millj. eða 700, látum liggja á milli hluta hver er hin rétta tala, og merkja það aðgerðum til þess að draga úr atvinnuleysi og láta svo bara örlítið brot af því á það svæði þar sem atvinnuleysið er mest. Og ég er að óska eftir umræðum um þetta mál hér í þingsalnum, rólegum, yfirveguðum, málefnalegum umræðum. Ég ætla ekki að fara að herja á með sérstökum tillöguflutningi, en ég er að óska eftir umræðum um þetta mál, samhenginu í því að merkja þessar upphæðir atvinnuskapandi aðgerðum en láta þær koma niður með þeim hætti sem ríkisstjórnin ein ákvað. Það er ekki rökrétt. Og það er þess vegna, virðulegi forseti, sem mér finnst ekki hægt að ljúka umræðu um þetta mál nema hæstv. forsrh. og hæstv. félmrh. geti einnig komið hingað í umræðuna því að þeir tveir ráðherrar bera ábyrgð á aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að draga úr atvinnuleysi sérstaklega. Ég vil gjarnan fá málefnalegar umræður við þessa ráðherra hér í þingsalnum, hvernig þeir hugsi þetta, hvort þetta er bara eitthvert fiff að segja: Þetta er fjármagn til atvinnuskapandi aðgerða, eða hvort það er raunveruleg einhver hugsun þarna á bak við. Ég veit vel að það kann að vera viðkvæmt í einhverjum kjördæmum ef það á að draga úr því fjármagni sem þangað er merkt í vegamál. En ef það fjármagn sem ríkisstjórnin ákvað er bara til vegagerðar í gömlum stíl, þá á að kalla það það. Þá á ekki að vera að gefa fólki í þeim landshlutum þar sem atvinnuleysið er mest falskar vonir um það að hér sé verið að leggja veigamikið fjármagn fram til þess að draga úr atvinnuleysinu því það er það sem hefur gerst. Fólkinu voru gefnar vonir um það að með þessari aðgerð ætti á myndarlegan hátt að draga úr atvinnuleysinu en svo kemur bara í ljós að þetta er bara í gömlum stíl viðbótarfjármagn til vegamála og því er skipt samkvæmt áratuga gömlum stuðlum um það hvernig skipta eigi því fjármagni. Ég óska þess vegna eftir því, virðulegi forseti, að þessari umræðu verði ekki lokið í dag og henni sé þá frestað nema hæstv. félmrh. og forsrh. komi hingað til umræðunnar og við getum rætt það hvaða hugsun liggur á bak við þessar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar.
    Síðan ber ég fram þá frómu ósk að næst þegar Sjálfstfl. lendir í stjórnarandstöðu, sem verður væntanlega innan tíðar, þá hugleiði hann þessa reynslu og verði ábyrgari og málefnalegri í þeirri stjórnarandstöðu en hann var á síðasta kjörtímabili.