Vegáætlun 1992

70. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 10:33:28 (3035)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég ætlaði að koma upp og gera eina smávægilega athugasemd við ræðu hv. 8. þm. Reykn. sem varði verulegum tíma ræðu sinnar í það að skýra það út fyrir okkur hér hv. þm. að Alþb. væri sá flokkur sem sýndi fulla samkvæmni í stjórn og stjórnarandstöðu og sakaði stjórnarflokkana um allt annað.
    Nú er það svo að Alþb. hefur bæði verið í stjórn og stjórnarandstöðu. Þannig háttaði til haustið 1987 að Alþb. var í stjórnarandstöðu og sótti þá mjög hart að þáv. stjórn og þó einkum að Alþfl. fyrir það grundvallaratriði í stefnu Alþb. að ekki mætti leggja hér á matarskatta sem svo voru kallaðir. Aftur og aftur kom hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hérna í ræðustól og barði á þáv. fjmrh. og orðaði það svo smekklega í einni ræðu sinni sem stundum hefur verið vitna til, með leyfi forseta:
    ,,Það stendur þess vegna, hæstv. fjmrh., enn þá á þér krafan um að draga matarskattinn til baka. Þegar þú ert búinn að því getur þú komið og rætt við samtök launafólks. Fyrr en þú gerir það ertu brennimerktur sem maður sem ekki er hægt að treysta.``
    Þessi hv. þm., Ólafur Ragnar Grímsson, varð skömmu síðar ráðherra fjármála. Hvarf hann frá matarskattinum? Það gerði hann að sjálfsögðu ekki. Hann hækkaði skatta og þannig sýndi hann í verki, sjálfur kennarinn í stjórnmálafræðum, hvernig stjórnmálaflokkar þeir eru sem eru ósamkvæmir sjálfum sér, gera eitt og segja eitt í stjórnarandstöðu og gera allt annað og segja allt annað þegar þeir koma í stjórn. Þetta vildi ég segja vegna orða hv. þm. í hans ræðu hér áðan.