Vegáætlun 1992

70. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 10:36:06 (3036)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta var nú ánægjuleg staðfesting á því að hæstv. fjmrh. er auðvitað mjög viðkvæmur fyrir ferli Sjálfstfl. í ríkisfjármálum og skattamálum. Hins vegar er það rangt hjá honum að ég hafi verið að gagnrýna stjórnarflokkana hérna áðan. Ég var ekkert að gera það, ég var ekkert að gagnrýna Alþfl. t.d. í þeirri ræðu minni. Ég var eingöngu að benda á mótsögnina í málflutningi Sjálfstfl., þingmanna eins og Egils Jónssonar, sem nú er kominn í salinn, Halldórs Blöndals og margra annarra hér í stjórnarandstöðu um ríkisfjármál --- um ríkisfjármál, hæstv. fjmrh. --- og skattlagningu til vegagerðar og það að taka markaða tekjustofna Vegagerðarinnar í ríkissjóð. Ég var eingöngu að benda á þetta atriði. Hæstv. fjmrh. kaus hins vegar að minnast ekki á það einu orði, ekki einu orði. Hann treysti sér ekki til að verja þá sögu. Það er auðvitað ánægjulegt og sýnir að hann er að átta sig. En í staðinn fór hann að tala um skattlagningu á matvælum og það er mér kærkomið að tala um það vegna þess að Alþb. beitti sér fyrir því þegar það kom í ríkisstjórnina haustið 1988 og ég gerði það sem fjmrh. að það voru teknir rúmir tveir milljarðar þegar virðisaukaskatturinn var tekinn upp til þess að lækka í gegnum skattakerfið verð á matvælum. Og það voru síðan settar nokkur hundruð milljónir til þess að lækka sérstaklega verð á kjúklingum og ýmsum kjötvörum sem ekki eru taldar til hins hefðbundna landbúnaðar á Íslandi.
    En hvað er fjmrh. nú að gera? Hvað er hann að gera nú? Hann hefur tekið ákvörðun um að hætta þessu þannig að verð á kjúklingum og nautakjöti og ýmsum öðrum vörum mun hækka á næsta ári vegna þess að hann er að draga úr þeim aðgerðum í ríkisfjármálum sem ég beitti mér fyrir til að lækka verð á matvælum. Þannig að við skulum alveg ræða skattlagningu matvæla í tíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar og í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem við sátum í, þó að það sé ekki mjög heppilegt að gera það undir umræðum um vegáætlun.