Vegáætlun 1992

70. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 10:38:59 (3038)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kom engin slík staðfesting fram hjá hæstv. fjmrh. og satt að segja er þetta nú orðið mjög aumt ef vörnin hjá hæstv. ráðherra verður að vera með þessum hætti. Það hefur ekki verið neitt leyndarmál að það var ágreiningur milli Alþfl. og Alþb. um virðisaukaskattinn þar sem við lögðum til tveggja þrepa virðisaukaskatt með lægra þrepi á matvælum en Alþfl. hafnað því algjörlega vegna þess að það var trúaratriði hjá Alþfl., sérstaklega formanni Alþfl., að virðisaukaskatturinn yrði að vera í einu þrepi. Ég tel það hins vegar vera verulegan ávinning í þessari ríkisstjórn að núv. fjmrh. hefur tekist að því er mér skilst að fá Alþfl. og sérstaklega formann hans til þess að falla frá þeirri villukenningu að það sé eitthvert sáluhjálparatriði að virðisaukaskatturinn sé ekki í tveimur þrepum. Það er þakkarvert hjá hæstv. fjmrh. Að Alþfl. er allt í einu nú orðinn sammála því sem hann neitaði harðlega þegar við vorum í ríkisstjórn.
    Við hurfum ekkert frá okkar stefnu, Alþb. í þeirri ríkisstjórn. En við mættum því hins vegar að Alþfl. harðneitaði að búa til skattkerfi þar sem lægra þrep yrði á matvælum. Málamiðlunin, hæstv. fjmrh., fólst í því að það voru teknir rúmir tveir milljarðar í greiðslur inn í virðisaukaskattskerfinu til þess að búa þar til ,,de facto`` lægra þrep á algengustu matvælum sem framleidd eru hér á landi í virðisaukaskattskerfinu og það sem einmitt er að gerast núna er að ráðherra Sjálfstfl. er að draga úr þeim greiðslum til þess að fá þær í ríkiskassann og hækka þannig verð á matvælum í landinu til þess að hann geti fengið meira í ríkiskassann. Þennan feril skulum við ræða í smáatriðum þó að ég taki undir það með virðulegum forseta að það er ekki mjög skynsamlegt að gera það í umræðum um vegáætlun.