Afgreiðsla mála fyrir jólahlé

70. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 11:07:41 (3049)

     Karl Steinar Guðnason :
    Frú forseti. Auðvitað er það ljóst öllum sem hér eru í salnum að við eigum við mikinn vanda í ríkisfjármálum að etja. Hver og einn einstaklingur sem að þessu verki kemur engist sundur og saman yfir því að þurfa að gera erfiða hluti. Og það þarf að gera erfiðari hluti nú en oft áður. Við erum í meiri vanda en oft áður. Það er alveg rétt að erfitt er að skera niður þær 1.240 millj. sem verið er að fjalla um núna. Það var upplýst af fjmrh. að einhverjar frekari tafir yrðu á því. En ég vona að það komi sem allra fyrst. Ég geri mér alveg ljóst að það er erfitt verk og ég veit að hv. meðnefndarmenn mínir í fjárln. vita alveg nákvæmlega að menn hafa innantökur vegna þessa máls. En hitt er annað að það mun nást niðurstaða í þessu og ég vænti þess að það verði sem allra fyrst. Við stefnum á það til hins ýtrasta að umræðan fari fram á þriðjudag. Vinnan í fjárln. getur haldið áfram með sama dampi, góðum dampi, og verið hefur.
    Það er mín reynsla á undanförnum árum að skiptingar sem látnar hafa verið í hendur þingmannahópunum hafa komið afar seint, kannski einum til tveimur klukkustundum áður en 2. umr. fer fram. Svo langt hefur það gengið. Hitt er annað að það hefur stefnt í að það gæti verið fyrr á ferðinni.
    Varðandi vinnuna þá endurtek ég það að við getum haldið henni áfram, einangrað alla aðra hluti en lúta að 1.240 millj. Og ég vænti þess að það komi sem allra fyrst.
    Í framhaldi af því sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagði að nefndin hefði hlustað á erindi manna þá höfum við auðvitað gert það en afgreiðsla eða úrvinnsla á þessu efni er fyrir löngu hafin og minni ég á að hv. þm. var í því að gegna mjög þýðingarmiklum störfum á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna einmitt á þeim tíma þegar við hófum þá afgreiðslu. ( GHelg: Formaðurinn fór líka á NATO-fund í viku.) Já, það er alveg rétt. Ég er ekki að deila á þingmanninn fyrir að hafa farið á allsherjarþingið, það er öðru nær, hún var að sinna þýðingarmiklum störfum þar. En ég er að upplýsa hvernig tímanum hefur verið varið. Þess vegna hefur henni kannski ekki verið ljóst að við höfðum hafið þetta fyrir löngu síðan.