Vegáætlun 1992

70. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 11:42:09 (3064)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. samgrh. sagði að hann hefði verið ósammála niðurstöðu nefndar sem fjallaði um langtímaverkefni í vegamálum. Hann sat í þeirri nefnd og það er rangt hjá honum að ákveðin hafi verið einhver niðurstaða í því máli í þáv. ríkisstjórn. ( Gripið fram í: Í þingflokkum.) Ekki heldur í þingflokkum. Það hefur verið staðfest af hæstv. samgrh. að hann hefur ákveðið upp á sitt einsdæmi, vegna þess að hann var ósáttur við ákveðin nefndarstörf sem þingmaður áður fyrr og vegna þess að hann telur að ágreiningur sé um það hvernig staðið skuli að vegi milli Norðurlands og Austurlands, þótt ég skilji það ekki vel hjá honum, að breyta þessu öllu saman. Það er greinilegt að hv. ráðherra hefur ekki þolað það áður fyrr að ágreiningur væri milli aðila í sambandi við þessi mál og vegna þessarar reynslu sinnar hefur hann ákveðið að beita ráðherravaldi sínu til að breyta öllu saman.
    Mér er vel kunnugt um það að hæstv. ráðherra var sem þingmaður í stjórnarandstöðu oft reiður út af ýmsum málum. En það er með ólíkindum að hann gengi svo langt að beita ráðherravaldi til að breyta öllu þannig að það verði nákvæmlega eins og hann vildi hafa það meðan hann var hér þingmaður. Ég lýsi ábyrgð á hendur honum fyrir þessa hegðun.