Vegáætlun 1992

70. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 11:48:41 (3067)

    Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég ætla í upphafi máls míns að víkja að Vestfjarðagöngum og aðdraganda þeirra. Fyrrv. hæstv. samgrh. Steingrímur Hermannsson skipað á sínum tíma nefnd til að gera athugun á því hvernig hægt væri að leysa samgöngur á milli Norður- og Vestur-Ísafjarðasýslna svo vel væri. Formaður þeirrar nefndar var Bjarni Einarsson. Sú nefnd skilaði áliti og á fjórðungsþingi Vestfirðinga, sem þá var haldið á Suðureyri við Súgandafjörð, var gerð grein fyrir því að nefndarmenn teldu að ekki væri hægt að leysa þetta nema með því að fara í jarðgangagerð sem var miklu meira verk en menn höfðu áður talað um.
    Ég hef ekki orðið var við að þingmenn Vestfjarða hafi ekki fylgst með því máli því að Matthías Bjarnason, sem varð samgrh. næst á eftir Steingrími Hermannssyni, tók þetta mál að nýju til athugunar og skipaði nýja nefnd. Niðurstaðan varð sú sama. Fjórðungssamband Vestfjarða hafði látið framkvæma rannsóknir eða kostnaðarathuganir og mat á þessu og álit Vegagerðarinnar og Fjórðungssambandsins, sem birtist í þeirri skýrslu sem þar var unnin, var nokkuð á sama veg. Hitt er svo rétt að auðvitað hvíldi það algjörlega á stjórnarsinnum á sínum tíma hvort þessu máli yrði hrint í framkvæmd eða ekki. Það er hárrétt hjá hæstv. samgrh. Það hvíldi algerlega á stjórnarsinnum. Það var auðvelt að smokra sér undan því og segja að þetta kostaði mikið fé og þar fram eftir götunum og segja að menn hefðu ekkert meint með þeim loforðum fyrir kosningar að ætla að vinna að þessu máli. Það var bara ekki það sem var gert. Ég get tekið við því að það sé rétt að það voru stjórnarsinnar á þeim tíma, stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar, sem auðvitað báru hita og þunga af því að í þessa framkvæmd var farið.
    Ég ætla að bæta því við að það er líka rétt að í þál. um vegáætlun fyrir árin 1991--1994 voru framkvæmdar breytingar á þeim hugmyndum sem höfðu komið frá langtímanefndinni. Þá var m.a. framkvæmd sú breyting að sett var fjármagn í Gilsfjörð til þess að þar yrði farið í brúargerð. Hins vegar er það svo að það virðist sem sumir þingmenn sem komu á þing eftir síðustu kosningar geti ekki tekið því að þessi mál séu rædd. Sérstaklega var það áberandi með hv. 1. þm. Vesturlands. Það var ekki hægt að hæla honum fyrir geðprýði þótt hann væri í stjórnaraðstöðu þegar þessi mál voru rædd utan dagskrár. Ég verð að segja eins og er að ég undraðist að hann skyldi taka það svo óstinnt upp að ég ætti orðastað við hæstv. félmrh. Ég skildi nánast ekki á hvaða forsendum hann taldi sig þurfa að ganga fram sem einhver sérstakur skjaldarberi í því máli. Ég varð ekki var við annað en ráðherrann reyndi að leysa úr þeim málum með eðlilegum hætti. Nú virðist þingmaðurinn horfinn úr salnum. Var hann þó hér áðan og vissi að þessi umræða fór fram og vissi jafnframt að rætt yrði um Gilsfjarðarbrú. Það vekur stundum undrun þegar menn telja betra að forða sér úr þingsölum. ( Forseti: Forseti vill gjarnan upplýsa að sá hv. þm. sem ræðumaður nefnir ásamt öðrum er með fjárlaganefndarmönnum á fundi í fjárln. Bæði forseti og ræðumaður eru reyndir á þeim vettvangi og vita að stundum er óhjákvæmilegt að halda þar áfram fundum. Þetta er til upplýsingar.) Það má vel vera að formaður fjárln., sem lýsti því yfir hér að nefndin væri á undan áætlun með vinnuhraða, hafi nú komist að þeirri niðurstöðu að það væri ekki seinna vænna að boða fund. Það segir náttúrlega sitt um málflutninginn. Mér er ljóst að það er oft mikið vinnuálag í þeirri nefnd og undir það get ég tekið með forseta.
    Hér segir hæstv. samgrh. í ágætri grein í Morgunblaðinu 21. nóv. að hann sjái ekki annað en að hægt verði að bjóða út vegagerð yfir Gilsfjörð árið 1994. Það verður að segja eins og er að það er stórkostleg framför að fá ártöl. Hvers vegna skyldi það vera svo að þetta sé sett fram hér? Hvers vegna skyldi það hafa gerst? Vegna þess að þessi umræða var tekin upp þegar þetta mál kom fyrst inn til þingsins og málið var tekið upp í utandagskrárumræðu. Það skyldi þó aldrei hafa verið svo að stjórnarþingmennirnir, sem voru hvað slappastir á taugum yfir þessu, skyldu hafa átt orðastað við ráðherrann og sagt honum að þeir gætu ekki við það búið að fá ekki svör? Ég gagnrýndi ekki hugmyndir ráðherrans um framkvæmdir. Ég gagnrýndi það að láta sér detta í hug að hægt væri að taka lán og láta endurgreiða þau með þeim hætti sem hér kom fram, að ætla að hefja endurgreiðsluna jafnsnemma og talað var um. Hæstv. fjmrh. var búinn að lýsa því yfir hvenær endurgreiðslan hæfist. Hann hefur ekki dregið þau orð til baka. Ég óska eftir því, hæstv. forseti, að hæstv. fjmrh. verði boðaður á fundinn þannig að það fáist upplýst hvaða hugmyndir hann hefur um endurgreiðslu þeirrar lántöku sem verið er að tala um.
    Hins vegar segir hæstv. samgrh. í þessari grein í Morgunblaðinu nokkur vanhugsuð orð, með leyfi forseta:
    ,,Fyrir þingmanninum vakti að vekja grunsemdir þeirra fyrir vestan um að þeir hefðu verið sviknir um Gilsfjarðarbrúna. Óhjákvæmilegt er að leiðrétta og árétta nokkur atriði í þessu sambandi.`` --- Fyrir mér vakti að sjálfsögðu fyrst og fremst það sem kemur kemur fram annars staðar í greininni, að þrýsta á að farið yrði í þessa framkvæmd.
     Hér segir hæstv. ráðherra líka á öðrum stað:
    ,,Vitaskuld þrýsta heimamenn á að framkvæmdum sé hraðað sem mest. Til lengdar verður það stjórnmálamönnum síst til framdráttar að þykjast vilja flýta einstökum framkvæmdum meir en unnt er tæknilega með góðum móti. Umræðurnar um þverun Gilsfjarðar eru skólabókardæmi um það.``
    Nú er það svo að það var 1. þm. Vestf. en ekki ég sem flutti þáltill. um veg og brúargerð yfir Gilsfjörð árið 1990. Þá sat ég aftur á móti úti í fjárln. við þá glímu að reyna að tryggja að þannig væri gengið frá vegáætluninni að það stæðist að hægt væri að fara í brúargerðina yfir Gilsfjörð þegar lokið væri vegagerð yfir Dýrafjörð. Hér segir flm. þessa máls, hv. 1. þm. Vestf. Matthías Bjarnason:
    ,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að hún hlutist til um að framkvæmdir við vegar- og brúargerð yfir Gilsfjörð hefjist af fullum krafti vorið 1992. Þegar verði hafist handa um að ljúka forhönnun þessara framkvæmda og í framhaldi af því að undirbúa útboð.
    Við endurskoðun vegáætlunar á þessu þingi verði gert ráð fyrir þessum framkvæmdum og áhersla lögð á að þeim ljúki á þremur árum.``
    Þetta var það sem 1. þm. Vestf. fór með vestur. Þetta var það sem Sjálfstfl. á Vestfjörðum boðaði í seinustu kosningum. Þess vegna er ekki hægt að bera það á mig að ég sé með eitthvert yfirboð fyrir kosningar. Ég er að fylgja því eftir sem ég talaði um á sínum tíma og kom fram í vegáætluninni að það yrði hægt að hefjast handa á árinu 1993. Mínar vonir voru á þann veg að á því ári færi útboðið fram.
    Ég vil undirstrika að hv. 1. þm. Vestf. leit ekki svo á að hann væri að fara af stað með eitthvað yfirborðskennt. Hann leitaði til tæknideildar Vegagerðar ríkisins um að vinna meginkaflann í þessari þáltill. og hann telur það upp í þskj. hvaða fjárveitingar höfðu farið til rannsókna varðandi Gilsfjörð. Árið 1985, með leyfi forseta, fóru 0,3 millj., árið 1986 1 millj., 1987 1 millj., 1988 2 millj., 1989 3,2 millj., 1990 5 millj. Það var ekkert skrítið þó að menn teldu að rannsóknirnar væru komnar nokkuð langt. Hér stendur í þessari greinargerð sem er unnin að hluta til af Jóni Helgasyni yfirverkfræðingi og úr þeim kafla greinargerðarinnar ætla ég að lesa. Þar segir á bls. 2:
    ,,Byrjað var á botnrannsóknum í Gilsfirði sumarið 1988. Fjörðurinn var dýptarmældur og reyndist hann frekar grunnur. Síðan var hafist handa við að mæla dýpi á klöpp, vegna grundunar mannvirkja. Notaðar voru bæði hljóðhraðamælingar og endurvarpsmælingar til að staðsetja klöppina. Þessar mælingar gengu erfiðlega og ekki áfallalaust. Niðurstöður urðu nokkuð á annan veg en áætlað hafði verið eftir yfirlitsathugun á legu og halla klapparlaga á yfirborði. Líklega verður því að bæta eitthvað við þessar mælingar á seinni stigum hönnunar mannvirkja.``
    Svo kemur á öðrum stað í þessari sömu greinargerð þessa verkfræðings: ,,Nú er verið að vinna að forhönnun og skipulagi á því hvernig hægt er að loka firðinum. Þegar fjörðurinn er þrengdur eykst straumhraði mjög fljótlega og rof eykst. Á síðustu stigum lokunar þegar vatnsopið er orðið lítið er útfærsla þessa verkþáttar mjög dýr liður í kostnaði við litla brú á leið 1. Kostnaðarhugmyndir okkar á þessu stigi eru á bilinu 550 -- 660 millj. kr. (verðlag í júlí 1990).``
    Ég er ekki í neinum vafa um að svona tölur setja menn ekki fram fyrr en þeir eru komnir með það nokkuð á hreint hvað þeir ætla að gera. Hér segir líka á sömu blaðsíðu í sömu greinargerð: ,,Vinna við forhönnun á nokkrum valkostum í vegargerð yfir Gilsfjörð er að hefjast um þessar mundir og byggir hún á þeim upplýsingum og rannsóknum sem fram hafa farið.``
    Ég er ekki í neinum vafa um að flutningsmaður þessarar tillögu taldi sig í góðri sátt við Vegagerðina geta lagt það til að verkið yrði boðið út 1992. Ég er ekki í neinum vafa um það. Ég er þess vegna ekki með því að tala um útboð á þessu verki að halda því fram, eins og hér er látið liggja að, að ég taki ekki mark á Vegagerðinni. Ég fer eftir því sem hér kemur fram í því að meta það hvort Vegagerðin hefur talið þetta tæknilega hægt eða ekki. Þetta er unnið af verkfræðingi Vegagerðarinnar.
    Hér er á öðrum stað að því vikið og látið að því liggja að ekki verið mikill áhugi á þessu verki af minni hálfu því í grein hæstv. samgrh. í Morgunblaðinu 21. nóv. 1992 er sagt:
    ,,Mér er ekki kunnugt um að Ólafur Þ. Þórðarson hafi sýnt vilja sinn í verki og lýst yfir að hann hafi viljað taka þverun Gilsfjarðar fram yfir veg yfir Hálfdán eða vegsvalir á Óshlíðarvegi.`` --- Það stóð ekki til að velja á milli þessara verkefna. Vegsvalir á Óshlíðarvegi voru frágengnar sem samkomulagsatriði í fjárveitinganefnd á þessum sama tímapunkti og þetta er gert. Það var ætlunin að fé til þeirra yrði tekið af því fé sem fór í jarðgangagerð á Vestfjörðum. Það sýndist mönnum sanngjarnt miðað við hvernig staðið hafði verið að Ó-vegaverkefnum og vitað var að þetta Ó-vegaverkefni hafði átt að vera númer tvö í framkvæmdinni en var í reynd orðið seinast hvað þetta atriði snerti. Gert var ráð fyrir að 100 millj. færu í það. Varðandi Hálfdán þá kemur það fram í þessari sömu vegáætlun, ef að er gáð, að veitt er fé í Hálfdán 1991 31 millj., 1992 31 millj., 1993 26 millj., 1994 29 millj. En hvers vegna var þá óhjákvæmilegt að setja á fulla ferð í Hálfdán? Hæstv. samgrh. veit það fullvel. Það var rætt hér í þessum ræðustól þegar ákvörðun var tekin um að selja Skipaútgerð ríkisins. Þá voru vetrarsamgöngur teknar af Bíldudal og það hlaut að kalla á þá aðgerð að vegurinn yfir Hálfdán yrði að taka við því hlutverki og duga til að hægt væri að flytja vörur til Bíldudals að vetrarlagi. Hæstv. samgrh. lýsti yfir skilningi á þessu máli í þeirri umræðu og ég mat það við hæstv. samgrh. Ég tel þess vegna að það hafi verið unnið fullkomlega eðlilega og í takt að þessum málum.
    Mér þykir það miður, herra forseti, þegar umræður ganga hér á þann veg að flestir vilja hafa þær sem stystar. En hæstv. ráðherrar telja að þeir þurfi ekki að vera við þegar óskað er eftir þannig að menn geti fengið fullnaðarsvör við því sem eftir er leitað. ( Samgrh.: Ég sit hér sem fastast.) Ég bað hæstv. forseta að fara þess á leit við fjmrh. hvort hann gæti verið við og svarað því hvenær hann hefði hugsað sér að endurgreiðslur á því fjármagni, sem ákveðið hefur verið að taka til flýtiframkvæmda í vegamálum, mundu hefjast. ( Forseti: Forseti vill taka það fram í fyrsta lagi að hann óskaði eftir nærveru fjmrh. og fjmrh. kom í salinn. Hins vegar hafði fjmrh. bundið sig við þýðingarmikinn fund uppi í háskóla þannig að hann gat eigi verið áfram við þessa umræðu. Á hinn bóginn er hér hæstv. samgrh. sem er í forsvari fyrir því máli sem er á dagskrá, auk þess sem svör hafa verið gefin við þeim fyrirspurnum sem hv. ræðumaður ræðir um. Þannig að ég vænti þess að hv. ræðumaður skilji að það kann að vera erfitt fyrir ráðherra að breyta áætlunum sínum til að geta verið við umræðu sem dregst á langinn meira en ætlað var.)
    Herra forseti. Það vill nú svo til að stjórnarsinnar ráða röðun dagskrár og hafa það verulega í hendi sér og mér þykir miður ef ráðherra lítur svo á að viðveruskylda hans á þinginu sé með þeim hætti að eðlilegt sé að tímasetja fundi á sama tíma. En ég vil vekja athygli á einu, svo forseta sé það fullljóst hvers vegna ég bið um hæstv. fjmrh.: Þær 1.840 millj., sem hér hafa verið í umræðunni, eru teknar að láni vegna atvinnumála í landinu. Sú ákvörðun heyrir undir hæstv. fjmrh. og engan annan og það hlaut að verða spurt um það hvenær ætti að endurgreiða þetta lán vegna þess að hæstv. fjmrh. hefur talað um það mál þannig að vonlaust var að skilja það á annan veg en að þeir fjármunir sem ætlaðir höfðu verið í Gilsfjarðarbrú yrðu teknir í það að endurgreiða framkvæmdir við Kúðafljót. Það var vonlaust að skilja það öðruvísi. ( Forseti: Forseti má til með að taka fram, vegna orða hv. ræðumanns, að það mál sem hér er á dagskrá fjallar um það að verja 50 millj. kr. sem sparast af rekstrarþáttum Vegagerðar til framkvæmda. Sú tillaga sem hér er á dagskrá fjallar ekki um annað.) Sú tillaga sem hér er á dagskrá er grundvölluð á því sem ég sagði áðan því það fer enginn í vegaframkvæmdir yfir Kúðafljót og lætur bjóða út fyrir 50 millj. Það eru meiri peningar í þeim potti. Það fer enginn í vegaframkvæmdir í Hellistungum og lætur þær upphæðir sem hér er verið að tala um. Þess vegna tengist þetta allt saman. 10 millj. duga ekki í þær framkvæmdir heldur.
    Ég verð aftur á móti að segja eins og er að það er mikið til í því hjá hæstv. samgrh. að það hefur verkað jákvætt á skap hans að vera ráðherra og er það vel. Ég vil að hann njóti sannmælis í þessari umræðu en til þess að hægt sé að sannreyna hér hluti þá þarf að fá svör fjmrh. við því hvenær ætti að endurgreiða þetta lán. Þau svör fást ekki. Hér stendur í greininni yfirlýsing Halldórs Blöndals að hugmyndin sé að bjóða þetta út 1994. Ég lít á það sem loforð núv. samgrh. að hann muni láta bjóða þetta verk út 1994. Ef ráðherra lítur öðruvísi á þá yfirlýsingu að það sé ekki loforð þá mælist ég til þess að hann komi hér upp og geri grein fyrir því.