Vegáætlun 1992

70. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 12:12:24 (3068)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Í þál. sem samþykkt var á Alþingi 5. maí 1990, segir svo:
    ,,Alþingi ályktar að flýta skuli framkvæmdum við fyrirhugaða jarðgangagerð á Vestfjörðum umfram það sem fyrirhugað er í fyrirliggjandi vegáætlun. Skal stefnt að því að framkvæmdir hefjist árið 1991 og að þeim ljúki á 4--5 árum. Undirbúningsrannsóknum verði hagað í samræmi við þetta.
    Ríkissjóði skal heimilað að taka lán til framkvæmdanna allt að 1,3 milljarði kr. á árunum 1990--1994 samkvæmt nánari ákvæðum vegáætlunar og lánsfjárlaga hverju sinni. Lán ásamt verðbótum endurgreiðast af fé til stórverkefna samkvæmt vegáætlun.``
    Eins og hv. þm. er kunnugt og hann man fullvel var gert ráð fyrir því að þessir fjármunir yrðu endurgreiddir þegar framkvæmdum við Vestfjarðagöng lyki og þegar lokið væri greiðslu á þessum fjármunum yrði síðan haldið áfram jarðgöngum á Austurlandi. Það var í þeim anda sem um þessi mál var rætt.
    Það hefur ekki verið tekin nákvæm ákvörðun um með hvaða hætti staðið verður að endurgreiðslu á því fé sem veitt er til samgöngumála, m.a. til þess að bæta atvinnuástand í landinu, en um leið eru ýmis önnur markmið höfð til hliðsjónar. En hitt liggur ljóst fyrir að það hefur verið talað um 10 ár í því sambandi og það stendur ekki til og það get ég fullyrt að greiðsluþungi vegna þessarar ákvörðunar verði meiri heldur en fólst í þál. Alþingis frá 5. maí 1990.