Vegáætlun 1992

70. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 12:16:57 (3070)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Sú till. til þál. sem hér er til umræðu er ekki nema hluti af ákvörðunum ríkisstjórnarinnar og er að mínu viti varla boðlegt þinginu að leggja mál þannig fyrir að það sé sett fram í pörtum. Að formi til er málið eingöngu um það að menn áætla til viðhalds og snjómoksturs 50 millj. kr. minna á þessu ári en ráð var fyrir gert og ætla að nýta það fé í önnur verkefni. Það kemur ekkert fram í tillögugreininni hvað menn eru í raun og veru að ráðstafa miklu fé til þessara verkefna því það hlýtur óhjákvæmilega að vera hugsunin að binda fjárhæðir til þessara verkefna langt umfram það sem felst í þessari þáltill.
    Að mínu mati hefði verið nauðsynlegt að með þessari tillögu fylgdu upplýsingar um þær fjárhæðir sem þessi verkefni krefjast og þarna er lagt til að setja af stað og líka upplýsingar eða tillögur frá hæstv. samgrh. um hvaða áhrif þær fjárhæðir hefðu á skiptingu vegafjár eins og búið er að ganga frá henni með vegáætlun fyrir næstu tvö ár, 1993 og 1994. Um þetta hafa engar upplýsingar fengist. Ég verð að ítreka það, virðulegi forseti, að mér finnst þetta varla boðleg þáltill. eins og hún er fram sett. Það hafa verið afar ruglingslegar yfirlýsingar af hálfu stjórnarliða og ráðherra um það hvaða áhrif þessar flýtiframkvæmdir hafa á aðrar framkvæmdir og þá skiptingu vegafjár sem þegar liggur fyrir í formi þál. um vegáætlun fyrir 1991--1994.
    Það er hins vegar ljóst hverjum manni að þegar hæstv. fjmrh. hefur upplýst að lántökukostnaður falli á vegafé auk þess sem lántakan sjálf á að endurgreiðast af því þá eru menn að færa til fé á milli ára, að flýta framkvæmdum sem í sjálfu sér er gott,
en með þeim afleiðingum að skerða framkvæmdafé síðar sem nemur lántökukostnaði. Ef menn eru að tala um 3 milljarða á næstu þremur árum sem að mestu leyti fari í vegagerð er augljóst mál að lántökukostnaðurinn af þessu fé er mörg hundruð milljónir kr. Það mun því óhjákvæmilega hafa röskun í för með sér á samþykktri vegáætlun að óbreyttum þessum yfirlýsingum sem þessu nemur. Þess vegna höfum við ýmsir þingmenn gengið eftir því að fá fram svör um það hvernig menn ætli að leysa þessi mál eða hvort það sé raunverulega, eins og okkur sýnist málið liggja fyrir, ætlun ríkisstjórnarinnar að ýta ákveðnum verkefnum út eða seinka þeim um nokkur ár. Um það hefur málið snúist að mestu leyti.
    Ég vil vegna þeirra orða sem fram koma hjá hæstv. samgrh. um ágreining af hans hálfu í nefnd um langtímaáætlun fara aðeins yfir það mál og einnig þáltill. sem er í gildi er enn þá og hefur ekki verið breytt, svo ég viti til, um Vestfjarðagöng og rifja það upp sem þar kemur fram því að það er augljóst mál þegar búið er að fara yfir þær upplýsingar að meintur ágreiningur er annar og minni en hæstv. samgrh. vill vera láta og orð hans í garð fyrrv. samgrh. eru vægast sagt á veikum grunni reist.
    Ég vil fyrst nefna jarðgöng á Vestfjörðum. Sú þáltill. var samþykkt með stuðningi allra þingflokka. Þó ég hafi ekki flett því upp, þá hygg ég að ég megi segja að hún hafi verið samþykkt samhljóða og ekki hafi verið mótatkvæði. Í nefndaráliti frá fjvn. um þessa þáltill. skrifa fulltrúar Sjálfstfl. undir. Ekki er því að sjá að ágreiningur hafi verið um afgreiðslu málsins. Það er alveg út í hött hjá hæstv. samgrh. að halda að eitthvað hafi skort á samráð fyrrv. ráðherra við þingmenn um afgreiðslu þessa máls. Fyrir þingið var lögð með formlegum og réttum hætti tillaga um það sem menn hugðust gera en ekki tillaga um það sem menn höfðu þegar ákveðið að gera og jafnvel hrint í framkvæmd. Á því er verulegur munur. Þingmönnum gafst kostur á að fara yfir þessa tillögu og móta hana og breyta þannig að samstaða næðist. Hér er um verulegan mun að ræða í því hvernig menn bera sig saman við Alþingi og þingmenn.
    Ég vil nefna eitt atriði úr þessari þáltill. sem hæstv. ríkisstjórn hefur kosið að víkja til hliðar a.m.k. á þeim fjárlögum sem samþykkt hafa verið á hennar tíma. Þar kemur fram, með leyfi forseta:
    ,,Útgjöld vegna vaxta og lántökukostnaðar umfram það sem sparast í viðhaldskostnaði á fjármögnunarskeiði framkvæmdanna greiðist úr ríkissjóði sem sérstakt byggðaframlag.``
    Þetta er ákvörðun Alþingis. Ég vildi spyrja hæstv. samgrh. hvort hann hafi fallið frá þessu. Hefur ríkisstjórnin fallið frá stuðningi við þetta efnisatriði ályktunarinnar sem ég vil leyfa mér að segja að hafi verið samþykkt með atkvæðum þingmanna allra flokka?
    Þetta vildi ég að kæmi fram vegna tilvitnunar ráðherra hér áðan og jafnframt leita eftir svörum hans um það hvort við frágang fjárlaga þessa árs verði gert ráð fyrir sérstöku framlagi úr ríkissjóði sem byggðaframlagi til að mæta þessum kostnaði.
    Ég hef hér ljósrit af síðari umr. um vegáætlun 1991--1994, sem afgreidd var í þinginu 18. mars 1991, og hef lesið mig í gegnum það til að átta mig á því hvort þar megi finna þennan ágreining sem hæstv. samgrh. talaði um. Satt að segja er ekki að sjá að svo hafi verið. Meira að segja tekur hæstv. núv. samgrh. ekki til máls í þeirri umræðu svo ekki hefur hann haft mikinn ágreining uppi um það efni. Fyrirvara höfðu fulltrúar þáv. stjórnarandstöðu á sinni samþykkt sem laut að því, eins og kemur fram hjá þáv. frsm. minni hluta, hv. þm. Pálma Jónssyni, að, með leyfi forseta: ,,Í tillögunni er gert ráð fyrir því að farið sér verulega fram úr áætlaðri verðlagsþróun í aukningu tekna til Vegasjóðs og gert er ráð fyrir því að

hækka tekjustofna Vegagerðarinnar með þeim hætti umfram verðlagsþróun.`` Fyrirvarinn laut því að tekjuhlið vegáætlunar og settur fyrirvari um að menn vildu greinilega ekki hækka tekjustofna hennar umfram verðlagsþróun. Um annan fyrirvara var ekki að ræða.
    Ég tel líka rétt að nefna það sem fram kom hjá hv. þm. Pálma Jónssyni um langtímaáætlun í vegagerð til þess að draga fram hvaða ágreining menn höfðu uppi um það atriði sem hæstv. samgrh. lét svo mikið af áðan. Þingmaðurinn segir hér, með leyfi forseta:
    ,,Í fjárveitinganefnd var einnig lítillega til meðferðar till. til þál. um langtímaáætlun í vegagerð. Ég leyfi mér hér undir þessum dagskrárlið að segja um hana örfárar setningar til þess að spara tíma ef hún kynni að koma á dagskrá en sá tími sem vannst til þess að vinna að þeirri tillögu var svo skammur að ekki var unnt að ræða hana til hlítar eða nægilega til þess að hún fengi formlega eða eðlilega afgreiðslu. Hins vegar birti nefndin eins konar bráðabirgðanefndarálit þar sem fram koma og prentaðar eru sem fylgiskjöl tillögur þær sem koma fram frá starfsmönnum Vegagerðar ríkisins um skiptingu á fé samkvæmt langtímaáætlunartillögunni á einstaka vegi í stofnbrautum og til sérverkefna og til stórverkefna og til stærri brúargerða.
    Ég tel að það hafi verið eðlilegt af hálfu fjárveitinganefndar að halda á því máli með þessum hætti. Sú skipting sýnir hvaða tillögur það eru sem fram hafa komið frá starfsmönnum Vegagerðar ríkisins, sem í flestum tilvikum verða nokkuð ráðandi um ákvarðanir Alþingis en eru þó auðvitað oft með þeim hætti að þar eru gerðar ýmsar minni háttar breytingar á. Það fylgiskjal sem þarna fylgir með getur þess vegna orðið til nokkurrar leiðsagnar enda þótt það hafi ekki hlotið neina formlega afgreiðslu.``
    Það er ekki á þessari tilvitnun í ræðu frsm. minni hluta samgn. vorið 1991, hv. þm. Pálma Jónssonar, að sjá að ágreiningur um langtímavegáætlun hafi verið svo einhverju nemi, a.m.k. kemur það ekki fram hér. Ég tel því að hæstv. samgrh. sé nokkuð einmana í fullyrðingum sínum um meintan ágreining um það mál og sér í lagi út frá þeim röksemdum að þáv. samgrh. hafi ekki haft nægjanlegt samráð við þingmenn.
    Ég tel þá rétt að víkja aðeins að Gilsfjarðarbrú sem nokkuð hefur verið til umræðu af eðlilegum ástæðum, m.a. vegna þess að yfirlýsingar ráðherra, einkum fjmrh., gefa ekki annað til kynna en flýting á einu verkefni komi til með að bitna á því verkefni. Hæstv. samgrh. hefur brugðist við í framhaldi af þessum umræðum með blaðagrein sem þegar hefur verið vitnað til og óþarft að nefna aftur en fyrir liggur af hans hálfu að verkið verði boðið út árið 1994. Ég tel því að umræðunni um það sé í raun lokið með þeim endi að hæstv. ríkisstjórn er knúin til að standa við þær yfirlýsingar sem ýmsir þingmenn, einkum úr Sjálfstfl., höfðu uppi fyrir síðustu kosningar og við afgreiðslu vegáætlunar 1991--1994. Það er engin furða þó að við þingmenn úr Vestfjarðakjördæmi minnumst á þetta mál vegna þess að þingmenn Sjálfstfl. þar og í Vestfjarðakjördæmi lögðu mikla áherslu á þetta þá og reyndu að gera þingmenn annarra flokka tortryggilega í þessu máli. Í raun og veru voru þeir með yfirboð gagnvart kjósendum varðandi þetta verkefni vegna þess að þeim fannst þeir vera í mikilli klípu vegna vasklegrar framgöngu þáv. samgrh. í ákvarðanatöku um Vestfjarðagöng. Þeir voru einfaldlega ekki nægilega sáttir við að viðurkenna það hreint út að fyrrv. ríkisstjórn, og sérstaklega fyrrv. samgrh., hefðu staðið sig afar vel gagnvart þessum tveimur kjördæmum, sérstaklega Vestfjarðakjördæmi, með því að knýja fram á Alþingi ákvörðun um að ráðast í þessi göng. Fyrrv. ríkisstjórn tókst að ljúka því máli sem ýmsar undanfarandi ríkisstjórnir með Sjálfstfl. innan borðs höfðu haft mikil orð um og stór að væri þeirra verkefni.
    Ég vil rifja upp, svo mönnum sé það alveg ljóst, að hjá þáv. hv. 1. þm. Vesturl. kom fram efirfarandi við afgreiðslu vegáætlunar í mars 1991, með leyfi forseta:
    ,,Áformuð vegar- og brúargerð yfir Gilsfjörð hefur vissulega nálgast framkvæmdastig til mikilla muna við umfjöllun fjárveitinganefndar undafarna daga og vikur.`` Og enn fremur, með leyfi forseta: ,,Ég vil því leyfa mér að marka afstöðu mína ákveðið til þessa máls á sama veg og ég hef gert í hv. fjárveitinganefnd að viðstöddum æðstu valdamönnum Vegagerðar ríkisins skýrt og greinilega núna á undanförnum dögum og hún er svofelld:
    1. Að allt verkið verði boðið út ekki síðar en á árinu 1993.
    2. Verkið verði unnið eigi síðar en á árinu 1994 og lokið á árinu 1995. Gott er ef vegagerð þessi getur gengið hraðar.
    Til þess að þetta umrædda mál megi ná fram að ganga með þessum hætti þarf að sjálfsögðu að afla fjár að láni á meðan á framkvæmdinni stendur svo sem venja er þegar um slíkt stórvirki er að ræða. Hygg ég að lánsfjáröflun í þessu skyni verði tiltölulega auðveld þar sem fjölmargir landsmenn hafa áhuga á þessu máli og segja megi að öll þjóðin styðji einhuga raunhæfar og skynsamlegur umbætur í samgöngu- og byggðamálum.``
    Auk þess sem hefur verið rakið hér fyrr í umræðunni um afstöðu hv. 1. þm. Vestf., Matthíasar Bjarnasonar, sem vildi ráðast í framkvæmdina strax árið 1992, þá liggur líka fyrir afstaða hv. 1. þm. Vesturl., Friðjóns Þórðarsonar, um að allt verki verði boðið út eigi síðar en árið 1993. Þetta var málflutningur Sjálfstfl. fyrir kosningarnar. Auðvitað er eðlilegt að menn knýi á um efndir í þessum málum þegar ríkisstjórnin grípur til þeirra ráðstafana, sem hún hefur gert, að skerða vegafé, ekki einu sinni heldur tvisvar, bæði í fyrravor og á þessu ári og skerða það með margföldum hætti, taka inn í ríkissjóð það sem á að fara til vegaframkvæmda, setja ný verkefni á Vegagerðina sem áður voru þar fyrir utan og ætla síðan að bjarga

sér með því að taka lán til þess að framkvæma núna og greiða síðar af þessu sama vegafé. Þessi blekkingaleikur hæstv. ríkisstjórnar í samgöngumálum er vægast sagt ömurlegur og ástæða til þess að rekja það þannig að menn sjái í gegnum þennan moðreyk.
    Það er ljóst, virðulegi forseti, að í þessu máli sem þingmenn Sjálfstfl. tóku sérstaklega upp á sína arma sem sitt baráttumál, Gilsfjarðarbrú, og reyndu að gera þingmenn annarra flokka tortryggilega í hefur snúist á þann veg að þeir hafa ekki getað efnt sín fyrirheit um að bjóða verkið út á næsta ári 1993. Þó er bót í máli, tel ég, og ávinningur stjórnarandstöðunnar af þessari umræðu að hæstv. samgrh. hefur lýst því yfir að verkið muni verða boðið út árið 1994.