Vegáætlun 1992

70. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 12:39:18 (3072)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það liggur alveg orðið ljóst fyrir þannig að óumdeilt er hver áform ríkisstjórnarinnar eru varðandi Gilsfjarðarbrú. Hæstv. samgrh. hefur lýst því yfir í blaðagrein og í raun og veru staðfest það við þessa umræðu og ég tel það ávinning frá því sem málið stóð áður. En ég vildi bæta því við að hv. 1. þm. Vestf. hefur lýst því yfir skriflega í grein sem ég hef undir höndum snemma árs 1991 að tæknilega væri ekkert því til fyrirstöðu að hefja framkvæmdir á árinu 1992. Hann lýsti yfir mikilli óánægju sinni með að það skyldi ekki ná fram að ganga að hefja framkvæmdir á árinu 1992 og segir í þessu viðtali, sem er ávarp hans í raun til kjósenda, að það séu mál sem þingmenn Vestfirðinga verði að taka á og hraða þeirri framkvæmd. Það er auðvitað miður að hv. 1. þm. Vestf. hafi ekki lengur það afl í Sjálfstfl. að hann nái því fram að hraða þörfum framkvæmdum. En ég vil enn á ný segja að það er bót í máli að málinu seinkar þó ekki nema um eitt ár.