Vegáætlun 1992

70. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 12:41:20 (3073)

     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Við erum hér að fjalla um nál. um breytingu á vegáætlun fyrir 1992. Það er skýrt að í vegalögum segir: ,,Alþingi skiptir vegafé.`` Það fer ekkert á milli mála að það er hlutverk Alþingis að fjalla um og skipta því fjármagni sem áætlað er að fari til framkvæmda í vegagerð. Það sem minni hluti samgn. og hinir ýmsu þingmenn hafa fyrst og fremst gagnrýnt er að ekki hafi verið haft samráð við samgn. þingsins og þingmenn viðkomandi kjördæma um skiptingu á því fjármagni sem var veitt til framkvæmda.
    Ég skal ekki dæma um það en dreg þó í efa að einhverjar breytingar hefðu orðið á hinum ýmsu framkvæmdaþáttum sem ráðherra hefur lagt áherslu á. En það er fyrst og fremst prinsippið sem menn eru hér að deila um, að ekki skuli hafa verið haft samráð við þessa aðila eins og skýrt er kveðið á um. Ég held líka að með því móti hefði fengist miklu meiri friður um þetta mál.
    Það er umhugsunarefni og þarf enginn að vera hissa á því þó þingmenn hrökkvi við þegar þeir verða þess áskynja að það er ekki aðeins búið að ákveða að veita fjármagni til ákveðinna framkvæmda án þess að þeir hafi um það fjallað heldur er einnig búið að bjóða út þessi verk áður en þau hafa verið kynnt viðkomandi nefnd þingsins. Við vorum í þeirri trú þegar þingsköpum þingsins var breytt að hugsunin væri sú að þingnefndir yrðu miklu virkari en áður hefur verið og yrðu til taks allt árið. Það var örugglega ætlast til þess að mál eins og þessi yrðu þess vegna kynnt í viðkomandi nefnd.
    Ríkisstjórnin kynnti hugmyndir sínar um aukið fjármagn til vegagerðar fyrst og fremst sem aðgerð í því að létta á því atvinnuleysi sem ríkisstjórnin með aðgerðaleysi sínu hefur því miður leitt yfir þessa þjóð. Það er okkur umhugsunarefni hvernig atvinnumálum þjóðarinnar er komið. Við getum litið til baka. Þegar atvinnuleysið hefur orðið hvað mest áður hefur það einmitt gerst þegar þessir tveir flokkar, Sjálfstfl. og Alþfl., hafa einir farið með stjórn landsins. Þá er það sem atvinnuleysið á Íslandi verður hvað mest. Það segir okkur vissa sögu sem vert er að minna á.
    Ég fagna auðvitað og það er engin spurning að allir þingmenn fagna auknu fjármagni til vegamála. En því miður er hér ekki allt sem sýnist í þeim efnum. Samhliða því að ákveðið er að láta Vegasjóð taka lán er nemur 1,8 milljörðum kr., eða tæplega 2 milljörðum, til framkvæmda í vegagerð og sagt að þetta eigi að vera til að létta á hinu slæma atvinnuástandi kemur á móti skerðing af mörkuðum tekjustofnum til vegamála upp á hvorki meira né minnna en 694 millj. kr. Og nýjum verkefnum er bætt á þennan málaflokk upp á 330 millj. kr. Þessar upphæðir gera samtals, eins og komið hefur fram áður hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni, rúman 1 milljarð kr. sem ríkisstjórnin sker niður af því framkvæmdafé sem hún segist vera að auka til þessara merku mála.
    Samgöngumálin eru mikilsverður þáttur í uppbyggingu og þjónustu og mjög vaxandi þáttur í því að tengja saman byggðir landsins. Oft hefur verið talað um það úr þessum ræðustól að okkur framsóknarmönnum farist ekki að tala mikið í þessum málum svo lengi séum við búnir að sitja við stjórnvölinn og . . . ( Gripið fram í: Einmitt.) Einmitt segir hv. þm., fulltúi Alþfl. Við höfum þá kannski átt að sjá til þess að meira fjármagni væri veitt í þennan málaflokk. En vegna þess að hv. þm. Alþfl. sagði að þörf væri á því að vekja athygli á þessu þá vil ég góðfúslega gefa henni þingmanninum upplýsingar að á síðasta áratug, eða frá árinu 1982 til 1991, ég bið þingmanninn að taka vel eftir og segja frá þessu á fundum Alþfl. þegar menn eru að tala um að Framsókn hafi lítið gert í þessum málaflokki, hefur fjárfesting í samgöngumannvirkjum á þessum eina áratug, á þessum tíu árum, numið hvorki meira né minna, hv. þm., en 86 milljörðum kr. Við framsóknarmenn þurfum þess vegna ekki að biðjast afsökunar á því sem við höfum verið að aðhafast í samgöngumálum. (Gripið fram í.) Hvað segir þingmaðurinn? Já. Þannig hljómar þetta, virðulegur forseti. Ég vil líka taka fram í þessu sambandi að samskipti þingmanna við starfsmenn Vegagerðarinnar hafa yfirleitt verið góð. Ég sé því eftir því að þeir skuli ekki hafa lagt meiri áherslu á það við nýjan ráðherra að sú hefð væri haldin sem ég vék hér að fyrr.
    Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem segir í bókun okkar stjórnarandstöðuþingmanna. Þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Sérstaklega viljum við mótmæla þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið við undirbúning þess átaks í vegamálum sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir. Með því að ekkert samráð var haft við nefndina eða þingmenn einstakra kjördæma hefur þinghefð og vinnuregla um langt skeið verið brotin. Hér eru m.a. á ferðinni breytingar á framkvæmdaröð sem áður hefur verið gert ráð fyrir á vegáætlun.``
    Þetta er það sem við stjórnarandstöðuþingmennirnir höfum látið bóka eftir okkur í nál.
    Vegna þeirra umræðna sem fóru fram fyrr og hæstv. samgrh. vék að í sambandi við langtímaáætlun í vegagerð og það nefndastarf sem þar var unnið kom fram í máli hæstv. ráðherra að hann hefði verið mjög ósammála niðurstöðum þeirrar nefndar. Ég harma það satt að segja og ég er ekki viss um að hæstv. ráðherra hafi verið svo mjög ósammála þeim niðurstöðum sem fengust í nefndinni þegar grannt væri skoðað. Ég átti sæti í þeirri nefnd með hæstv. núv. ráðherra og ég þekki nokkuð hugsanir hans í samgöngumálum. Ég kannast ekki við að hann hafi verið svo ósammála okkur í meginefnum þess nál.
    Hæstv. ráðherra vék sérstaklega að einum þætti í þessari áætlun sem varðar tengingu á uppbyggingu vegar á milli Austur- og Norðurlands. Ég vænti þess að hæstv. samgrh., vegna þess að ég veit að maðurinn er minnugur og glöggur, minnist þess að ég óskaði sérstaklega eftir því í langtímanefndinni í vegagerð að starfsmenn Vegagerðar ríkisins beittu sér fyrir því að boða til sérstaks fundar með þingmönnum Austurlands og Norðurlands til að finna leiðir, leita sátta og hugsanlegra fjármögnunarleiða til að byggja upp þessa vegtengingu sem svo mjög er nauðsynlegt að ná fram á milli Norður- og Austurlands. Ég lagði einmitt þunga áherslu á þetta margsinnis í starfi mínu í nefndinni og óskaði eftir þessu að lokum. Eftir því sem ég veit best, hæstv. ráðherra, hefur þessi fundur ekki enn þá verið haldinn. Enn þá hefur ekki verið haldinn fundur með þingmönnum Norðurlands og Austurlands til að kryfja þetta mál og reyna að leita hinna skynsamlegustu leiða.
    Ég veit að ráðherra hefur sérstakan áhuga á þessu máli og það hef ég einnig. Ég tel það með brýnni verkefnum okkar í vegagerð í dag að reyna að koma upp varanlegu vegasambandi milli Austurlands og Norðurlands og reyna að ljúka hringtengingu landsins við þjóðveg númer eitt. Því skulu það verða mín lokaorð í þetta sinn að ég hvet hæstv. ráðherra til að beita áhrifum sínum til þess að þingmenn þeirra kjördæma sem liggja þar næst verði kvaddir til fundar til að ræða þetta mál. Ég er sannfærður um, ráðherra, að það væri farsælla fyrir framgang málsins að vinna þannig að því en með einhliða ákvörðunum.