Vegáætlun 1992

70. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 13:23:45 (3075)


     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þar sem hv. þm. kaus að draga flóabáta inn í umræðu með þeim hætti sem hann gerði er nauðsynlegt að taka það fram að þegar ég tók við þeim málaþætti þá hafði forveri minn tekið á sig og ríkissjóð gífurlegar skuldbindingar, miklu meiri skuldbindingar en áður þekkjast í þessum málaflokki og er kannski best lýst með því að rifja upp þau framlög sem veitt hafa verið á fjárlögum til flóabáta á undanförnum árum. Á árinu 1991 voru það 148 millj. kr. Á þessu ári 277 millj. kr. en stefnir í milli 500--600 millj. kr. Við erum að tala um hækkun úr 188 millj. í rúmar 500 millj., 400 millj. kr. hækkun á þessum lið vegna þeirra ákvarðana og ráðstafana sem forveri minn gerði meðan hann var samgrh. og vitaskuld verður þetta að greiðast af þeim fjármunum sem til samgöngumála fara í heild.