Vegáætlun 1992

70. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 13:25:12 (3076)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ástæðan fyrir því að þörfin fyrir fjárveitingar til reksturs samgangna á sjó, sem styrktar eru af hinu opinbera, mun verða mikil um nokkurt árabil er sú að bæði síðasta og næstsíðasta ríkisstjórn tóku um það ákvarðanir að endurnýja skip sem hafa verið í þessum siglingum og það sér auðvitað hvert mannsbarn að þegar þannig háttar til að samtímis er verið að endurnýja að verulegu leyti skipakostinn á þessum siglingaleiðum þá aukast útgjöldin meðan verið er að greiða niður þær fjárfestingar, það liggur í hlutarins eðli. Það er dýrt að halda uppi nútímasamgöngum með nútímafarkostum á sjóleiðum eins og milli Vestmannaeyja og lands. Það þekkja allar þjóðir. Kröfur um öryggi í slíkum samgöngum hafa stóraukist á undanförnum árum og gera það m.a. að verkum að eldri skip eru ekki lengur fullnægjandi hvað öryggismál snertir og það átti ásamt með fleiru þátt í því að ávörðunin var endanlega tekin um nýsmíðar í tilviki Herjólfs. Sömuleiðis hafði ríkisstjórn, sem Sjálfstfl. átti aðild að, ákveðið að endurnýja flóabátinn Baldur og varð hann nokkuð dýr. Hann var smíðaður hér innan lands og var dýr í byggingu. Nú er komið að skuldadögunum eins og mun koma hjá Vegagerðinni seinna út af lántökum hæstv. núv. samgrh. og þetta skilja menn. Það lá alltaf fyrir að þegar kæmi að því að endurnýja Herjólf, þá kæmi tímabil þar sem útgjöldin í þessum málum mundu vaxa. Það liggur í hlutarins eðli. En ég leyfi mér að halda því fram og fullyrða að það sé illa komið fyrir okkur Íslendingum ef við getum ekki boðið upp á sæmilegar samgöngur milli lands og Eyja. Það er ekki björgulegt ef við getum ekki haldið uppi þokkalegum samgöngum við stærstu verstöð landsins. Herjólfur er þjóðvegur Vestmanneyinga rétt eins og Eyjafjarðarferjurnar eru og fá vonandi að vera áfram, hæstv. samgrh., þjóðvegurinn út í Hrísey og Grímsey. Þetta eiga menn að skilja. Spurningin er um það: Hafa menn efni á því að búa í þessu landi með mannsæmandi hætti?