Vegáætlun 1992

70. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 13:31:42 (3079)

     Frsm. samgn. (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Það er ekkert nýtt að umræður verði alllangar um vegamál og samgöngumál yfir höfuð og vænta má þess að slíkar umræður fari fram í vetur bæði við afgreiðslu fjárlaga og þó ekki síður við endurskoðun vegáætlunar sem fram á að fara á þessu Alþingi. Í þessum umræðum eru tvö atriði sem ég vildi segja örfá orð um. Hið fyrra er að hv. 3. þm. Vesturl. og raunar fleiri fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna vöktu á því athygli að samkvæmt nýjum þingskapalögum væri opnað fyrir það að þingnefndir tækju mál til athugunar og meðferðar áður en þau væru flutt á Alþingi. Það væri nýmæli ef þetta væri gert og sjálfsagt að hugsa það mál en það hefur yfirleitt ekki tíðkast. T.d. hefur það ekki tíðkast að ríkisstjórn á hverjum tíma hafi vísað málum til athugunar í þingnefndum áður en þau eru flutt. En þingskapalög víkja að slíku starfi þingnefnda eins og segir í 23. gr., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Áður en 1. umr. fer fram um stjórnarfrumvörp eða fyrri umræða um tillögur frá ríkisstjórninni getur forseti heimilað, ef ósk berst um það frá níu þingmönnum, að nefnd athugi mál í því skyni að afla frekari upplýsinga um það eða skýringa á efni þess. Slíkt er og heimilt að gera að lokinni framsöguræðu um málið. Forseti ákveður hve lengi athugun nefndarinnar má standa.``
    Þessi ákvæði þingskapalaganna lúta að því að þingnefnd geti tekið mál, eins og þar segir, ef óskir berast um það áður en 1. umr. er lokið eða áður en máli er með formlegum hætti vísað til þingnefndar en ekki beinlínis að því að fjalla um mál í þingnefndum áður en þau eru flutt. Þannig að slíkt er nýlunda ef það væri gert sem þó sjálfsagt er að hugleiða hvort á einhverjum stigum gæti orðið hægt að verða við.
    Annað sem ég vildi segja nokkur orð um er að fram kom hjá hv. þm. 8. þm. Reykn. þar sem hann rifjaði það upp að bæði sá sem hér stendur og fleiri þingmenn Sjálfstfl. hefðu gagnrýnt það í stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili að sérmerktir tekjustofnar Vegagerðar ríkisins skiluðu ekki til vegaframkvæmda eða vegagerðar öllu því fé sem þeir öfluðu heldur væri hluti tekinn í ríkissjóð og þetta er rétt. Við gagnrýndum þetta og það allharðlega. Hv. þm. taldi að við töluðum öðruvísi nú og ættum að biðjast á því afsökunar. Ég vil segja við þennan hv. þm., þó hann sé ekki hér í salnum, að ég tel enga þörf á að biðjast afsökunar á þessum málflutningi varðandi það mál sem hér er á dagskrá vegna þess að á næsta ári verður varið meira fé til vegagerðar heldur en sérmerktir tekjustofnar Vegagerðar ríkisins gera ráð fyrir og aflast samkvæmt þeim. Þessi tvö atriði vildi ég láta koma fram, virðulegi forseti.