Vegáætlun 1992

70. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 13:37:44 (3081)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Mér finnst dálítið erfitt að skilja við þessa umræðu öðruvísi en hæstv. samgrh. segi álit sitt á því hvernig að þessum málum er staðið, hvort hann er alveg samþykkur því að flá kött með ríkisstjórninni í þessum málum eins og gert er, að skerða tekjustofna til vegagerðar stórlega og láta svo Vegagerðina taka lán til að bæta sér þetta upp. Og er það meiningin að t.d. á næsta ári eigi að taka kannski milljarð að láni sem yrði þá eitthvað svipuð upphæð og skerðingin sem nú er og hafa skerðinguna kannski svipaða á því ári líka þannig að Vegagerðin eigi að safna skuldum út á einhverjar framkvæmdir sem ríkisstjórnin er að hæla sér af og það eigi svo að greiðast til baka með skertu vegafé? Hvernig í ósköpunum geta menn komið fram og verið ánægðir með afrek sín sem standa svona að málum?
    Ég tel að eina afstaðan sem hefði verið verjandi af hálfu hæstv. samgrh. hefði verið sú, úr því að menn ætluðu í átak í vegamálum, að leyfa Vegagerðinni að nýta sér sína tekjustofna og taka því næst lán til viðbótar en ekki að búa til vandamál fyrir í framtíðina með því að greiða vexti og kostnað af skuldum sem safnað er upp vegna þess að tekjustofnarnir eru skertir. Það kom að vísu fram hjá honum að hann er algerlega sammála þeirri ákvörðun að færa kostnaðinn af ferjum og flóabátum yfir á vegamálin án þess að það komi til nýir tekjustofnar og líka þó það sé verið um leið að auka stórkostlega skerðingu á vegafénu. Þetta er samgrh. ánægður með því hann sagði: Vitaskuld af fjármunum til vegagerðar. ( Gripið fram í: Hann er nú ekki ánægður.) Ja, vitaskuld, sagði hann. Það var enginn efi í þeim orðum. Og ég vil þess vegna óska eftir að hæstv. ráðherra geri okkur grein fyrir því hvort hann er sáttur við þennan framgang mála, hvort það eigi að halda áfram að skrifa skuldir á Vegasjóð þó að þetta komi svona út gagnvart skerðingunum. Og megum við eiga von á því næsta ár að haldið verði áfram á sömu brautinni? Mér þykir ekki vansalaust ef hæstv. ráðherra kemur sér undan því bæði við fyrri umræðu þessa máls og líka núna að segja skýrt og skorinort hvort þetta eru hlutir sem hann er sáttur við.