Vegáætlun 1992

72. fundur
Mánudaginn 07. desember 1992, kl. 13:45:03 (3091)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Segja má að efnislega sé sú tillaga sem hér er á ferðinni ekki stórvægileg, þ.e. að færa 50 millj. sem hafa sparast í snjómokstri, og ekki hefur enn reynst þörf fyrir, yfir í framkvæmdir. Þó hefur oft komið á daginn að það getur komið sér vel að eiga lítillega innstæður á snjómokstursreikningi ef harður vetur gengur yfir og svo kann að fara enn að það verði nú. Það er ekki aðalatriði þessa máls heldur hitt að verið er að reyna að gera löglegar eftir á ákvarðanir ríkisstjórnarinnar frá því í haust, sem í sumum tilvikum er þegar búið að stofna til verulegs kostnaðar út af og í einstaka tilvikum eru jafnvel hafnar framkvæmdir á, með því að afla heimilda fyrir framkvæmdum. Þetta eru vinnubrögð sem ég er mjög

ósáttur við.
    Í öðru lagi er það þannig að hæstv. samgrh. tengdi áðan afgreiðslu þessa máls þeim ákvörðunum ríkisstjórnarinnar að skerða vegafé um á annan milljarð kr., þ.e. hinar mörkuðu tekjur Vegagerðar ríkisins og vísa Vegagerðinni á lántökur í staðinn. Þetta get ég enn síður samþykkt og stutt og með vísan til þessa. Til þess að undirstrika mótmæli mín við öllum þessum vinnubrögðum greiði ég ekki atkvæði, hæstv. forseti.