Ný staða í EES-málinu

72. fundur
Mánudaginn 07. desember 1992, kl. 14:08:38 (3099)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það hefur þegar komið fram að það var rangt sem hæstv. utanrrh. sagði þjóðinni í sjónvarpsviðtölum í gærkvöldi að það yrði að samþykkja EES-samninginn hér fyrir jól til þess að Ísland fengi aðgöngumiða að þeirri ráðstefnu sem þarf að halda um framtíð EES-samningsins. Og það er út af fyrir sig virðingarvert að hæstv. utanrrh. skuli ekki lengur halda þessari firru fram vegna þess að það hefur rækilega verið sýnt fram á það, bæði hér í dag og í utanrmn., að 129. gr. samningsins er á þann veg að það eru undirritunaraðilarnir, og Ísland er einn af þeim, sem eiga aðgang að þessari ráðstefnu alveg óháð

því á hvaða stigi fullgildingarferlið er og það er eingöngu ríki sem hefur hafnað formlega að vera aðili sem ekki á þar inngöngu. Þess vegna er alveg ljóst að það er engin tímasetning í málinu hér á næstu dögum eða vikum sem við þurfum að halda formlega séð.
    Í öðru lagi eru það auðvitað stóru tíðindin í þessu máli að þetta átti að vera tveggja stoða samningur milli EFTA annars vegar, EFTA sem skipulegra samtaka, og EB hins vegar. Og nú er EFTA úr sögunni sem skipuleg samtök og það er satt að segja dálítið barnalegt hjá utanrrh. að segja hvað eftir annað að það eina sem þurfi að gera sé að strika bara EFTA út úr samningstextanum og á þar greinilega við stafina E-F-T-A því um leið fer hin meginstoðin, skipulagseiningin EFTA, burt og þá þarf ekki annað en lesa 1. gr. staðfestingarfrv. sem hér liggur fyrir Alþingi sem er aðalgrein samningsins þar sem fram kemur í 2. lið að það sem þingið á að greiða atkvæði um er samningur EFTA-ríkjanna um eftirlitsstofnun og dómstól. Það eru textar í sérstöku hefti upp á 280 blaðsíður þar sem nánast í hverri einustu grein er gengið út frá EFTA sem skipulögðum aðildarsamtökum að EES þannig að allt þetta verk er úr sögunni sem slíkt og eftir standa lausbeisluð tengsl þeirra ríkja sem eftir eru þannig að það er auðvitað alveg ljóst að ekki er nokkur leið fyrir Alþingi að greiða atkvæði um 1. gr. staðfestingarfrv. um EES eins og það liggur fyrir nú. Slík afgreiðsla verður að bíða niðurstöðu í umræðum milli ríkjanna um framhaldið.