Ný staða í EES-málinu

72. fundur
Mánudaginn 07. desember 1992, kl. 14:11:21 (3100)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það hefur nú gerst í annað sinn meðal þeirra þjóða sem eru innan EB eða EFTA-ríkjanna að fólkið er ekki sammála stjórnmálamönnunum. Danir efndu til þjóðaratkvæðis um Maastricht og felldu það. Nú hafa Svisslendingar hafnað EES í þjóðaratkvæðagreiðslu og hver eru þá viðbrögð EB? Þeir segja í Brussel að Svisslendingar séu ekki hæfir til að vera innan Evrópubandalagsins meðan þeir stundi það að bera ágreiningsmál undir þjóðaratkvæði. Með öðrum orðum, þeir sem stunda virkt lýðræði eru ekki æskilegir innan Evrópubandalagsins. Þar er ekki virkt lýðræði. Þar er miðstýring og þeim sem þar ráða er ekki um það gefið að við henni sé hróflað.
    Forsendur eru breyttar. Þessi samningur um EES verður að endurskoðast og það þingskjal, sem við höfum verið að ræða, er ekki lengur gilt. Ég get ekki séð nokkurn tilgang með því að halda áfram umræðu um málið á þessu stigi. Ég bendi líka á að þessi niðurstaða sem nú liggur fyrir mun m.a. breyta forsendum fjárlaga. Í frv. til fjárlaga um tekjur ríkissjóðs segir að umfangsmiklar tilfærslur verði milli skattstofna í tengslum við gildistöku samnings um Evrópskt efnahagssvæði.
    Þá má nefna að einn helsti ávinningur af samningnum um EES átti að skila sér í lægra vöruverði og auknum hagvexti. Þó að ég sé ekki sammála þeirri útfærslu þá er samt reiknað með því í efnahagsforsendum fjárlaga. Við höfum því meira en næg verkefni fyrirliggjandi þó við séum ekki að eyða tíma í að ræða frv. um EES sem ekki er lengur í takt við raunveruleikann. Ég legg til að öllum umræðum um það verði frestað þar til málin hafa skýrst.