Ný staða í EES-málinu

72. fundur
Mánudaginn 07. desember 1992, kl. 14:19:57 (3104)

     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Það hefur komið fram í fjölmiðlum að flokkarnir hafa gert með sér samkomulag um að 2. umr. um EES-málið fari fram nk. laugardag og síðan mánudag og þriðjudag í næstu viku, en ekki hafi verið samið um 3. umr. Hins vegar hefur það ekki komið fram í fjölmiðlum en þarf að vera á allra vitorði að allir stjórnarandstöðuflokkarnir settu þann fyrirvara, og hann var skráður og er skjalfestur, að ef samningurinn yrði felldur við þjóðaratkvæðagreiðsluna í Sviss yrði að taka þetta samkomulag til endurskoðunar.
    Hæstv. utanrrh. fékk nokkuð einstæða aðstöðu í ríkissjónvarpinu í gærkvöldi til að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum að lokinni atkvæðagreiðslu í Sviss. Hann misnotaði þessa einstæðu aðstöðu sína að sjálfsögðu og fór þar með ýmiss konar blekkingar um þetta mál sem hann hefur nú orðið að draga í land eins og komið hefur fram í þessum umræðum. Það er nokkuð ljóst að stjórnarandstaðan þarf tíma og aðstöðu til að kynna sér þetta mál. Hæstv. utanrrh. er á förum og kemur heim á föstudag. Hann mun fjalla um þetta mál erlendis. Þegar hann kemur heim þarf auðvitað að fara fram hér sérstök umræða um stöðu málsins --- sú umræða gæti orðið á laugardag eða mánudag --- og ákvörðun um hvort 2. umr. fer fram fyrir jól og hvenær eða hvort henni verður frestað fram á næsta ár. Hún verður að sjálfsögðu ekki tekin fyrr en eftir að þessar umræður hafa farið fram og menn hafa áttað sig til fulls á hvernig þetta mál stendur.
    Það er líka ljóst að krafan um þjóðaratkvæði hefur fengið byr undir báða vængi eftir úrslitin í Sviss. Sú krafa er auðvitað tímabærari nú en nokkru sinni fyrr.
    Ég vil svo að lokum spyrja hæstv. utanrrh. að því hvort það sé virkilega rétt, sem maður heyrir í fjölmiðlum, að búið hafi verið að ráða starfsmenn fyrir Evrópska efnahagssvæðið áður en það verður til og áður en nokkuð liggur fyrir um að það verði samþykkt. Er þetta rétt og með hvaða heimildum er það þá gert?