Ný staða í EES-málinu

72. fundur
Mánudaginn 07. desember 1992, kl. 14:25:12 (3106)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það með öðrum ræðumönnum hér í dag að við eigum ekki að eyða frekari tíma þings og þjóðar í samning sem ekki er lengur til. Nú liggja fyrir Alþingi alvarlegar tillögur er varða ríkisfjármál. Áætlanir um að skerða sérstaklega lífskjör barnafólks og vega enn einu sinni að velferðarkerfinu. Röksemdir hæstv. utanrrh. um EES-málin, að afgreiða þurfi samninginn fyrir áramót, hafa verið hraktar hér í umræðunni á eftirminnilegan hátt. Ég hef engu við þá umræðu að bæta en hlýt að undrast það þegar hæstv. utanrrh. ber fyrir sig rangfærslur.
    Staðan sem við erum í núna endurspeglaðist glöggt á fundi allsh. í morgun þegar við stóðum frammi fyrir því að boðað hafði verið að afgreiða þyrfti frv. til laga um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópskt efnahagssvæði úr nefndinni. Það er ekki hægt. Það er ekkert vitað hvernig þetta frv. á að líta út eða gæti litið út. Þetta er bara eitt af mýmörgum málum sem við stöndum frammi fyrir hér og nú.
    Við verðum að vanda vel næsta skref í þessu máli ef um eitthvert mál verður að ræða. Ef það verður ekki bara staðreynd að þær þjóðir sem stefna inn í Evrópubandalagið taki beinan kúrs þangað og sleppi þessu millistigi, EES. Ef um nýjan samning verður að ræða og þá breyttan tel ég fráleitt að afgreiða hann hér án þess að hann verði borinn undir þjóðaratkvæði.
    Þrátt fyrir að í Sviss eins og á Íslandi hafi stjórnvöld ausið fé í áróður fyrir samþykkt samningsins er ljóst að EES-samningurinn þoldi ekki skoðun svissnesku þjóðarinnar. Við vitum ekki hver niðurstaðan yrði á Íslandi í lýðræðislegri þjóðaratkvæðagreiðslu en okkur ber að spyrja þjóðina álits ef um einhvern samning verður að ræða.