Ný staða í EES-málinu

72. fundur
Mánudaginn 07. desember 1992, kl. 14:30:01 (3108)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Við getum deilt um flest í sambandi við þetta mál annað en staðreyndir. Þær eru t.d. að hv. málshefjandi, og reyndar hv. þm. sem hér er flissandi, Ólafur Ragnar Grímsson, sögðu bæði ranglega að þetta væri samningur milli EFTA og Evrópubandalagsins. Það er ekki svo. Þetta er samningur milli EFTA-ríkja og Evrópubandalagsins.
    Í annan stað hefur því verið haldið fram að frumvarpsgreinin sem liggur fyrir Alþingi Íslendinga sé úrelt. Það er rangt út frá staðreyndum. Vegna þess að þetta er heimildarákvæði til ríkisstjórnar um að fullgilda samning sem er milli EFTA-ríkja og Evrópubandalagsins. Það mun ekkert breytast.
    Síðan er það svo, hv. þm., að skv. 5. gr. mun samningurinn ekki öðlast fullgildingu fyrr en, ekki við það að menn rétta hér upp höndina á Alþingi, ríkisstjórn hefur nýtt þessa heimild til að afhenda ásamt öðrum ríkjum fullgildingarskjöl. Það munu áreiðanlega líða okkrar vikur ef ekki mánuðir þar á milli og þann tíma má nýta til þess að komast að niðurstöðu um þær breytingar sem þarf að gera samkvæmt 129. gr.
    Því hefur verið haldið fram að því er varðar túlkun á þeirri grein þá hafi utanrrh. ekki farið með rétt mál. Spurningin er þessi: Hverjir eiga aðild að ríkjaráðstefnunni um framhald málsins? Þar segir að ef einhver aðili hefur fellt samninginn --- eins og Sviss --- þá skuli hinir samningsaðilarnir --- hinir samningsaðilarnir eru þá annaðhvort þeir sem hafa þegar staðfest eða ljóst er að ætla ekki að hafna . . .  (Gripið fram í.) Þetta stendur í þeirri skýringu, samþykktinni, ,,agreed minutes``, um þennan samning sem túlkar þessa grein þegar aðstæður sem þessar koma upp. Hverjir eiga erindi á ríkjaráðstefnu til að ljúka málinu? Þau lönd eins og Svíþjóð, Noregur, Finnland eða Austurríki, sem hafa þegar staðfest. Ekki einhvern úreltan samning heldur þessar tillögugreinar. Og náttúrlega kemur það fram, eins og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir minntist á: Fer utanrrh. Íslands með umboð frá Alþingi Íslendinga til að ljúka málinu? Um það er spurningin.
    Að lokum, virðulegur forseti, er spurningin einfaldlega þessi: Hvaða tíma höfum við fram undan? Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að auðvitað er það að gagni þegar utanríkisviðskiptaráðherrar, Evrópumálaráðherrar EFTA-ríkjanna annarra en Sviss, hafa komið saman. Þá verða samantekin ráð þeirra væntanlega kynnt fyrir upphaf 2. umr.
    En ég endurtek að það er óþarfi að vefengja staðreyndir og staðreyndirnar eru þær að tillögugreinin í frumvarpinu er fullgild og Alþingi Íslendinga er ekkert að vanbúnaði að samþykkja hana. Það er þýðingarmikið fyrir hagsmuni íslensku þjóðarinnar að það leiki ekki á tveimur tungum að pólitískur vilji okkar til að staðfesta þennan samning er óbreyttur.