Ný staða í EES-málinu

72. fundur
Mánudaginn 07. desember 1992, kl. 14:36:54 (3110)

     Svavar Gestsson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Ég heyrði ekki betur en hv. 8. þm. Reykn. hefði borið fram fyrirspurn til forseta rétt áðan. Er hugsanlegt að hún hafi farið fram hjá hæstv. forseta? Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að hæstv. forseti svari því hvernig ætlunin er að haga þinglegri meðferð þeirra mála sem snerta EES-málið og liggja fyrir í öllum nefndum þingsins.
    Það er mín skoðun að það sé algjörlega fráleitt í raun og veru að halda þeirri afgreiðslu áfram með þeim hætti sem gert hefur verið að undanförnu í ljósi þeirrar óvissu sem liggur fyrir. Það er tímasóun og endileysa ef ríkisstjórnin óskar eftir að fá afgreidd önnur mál sem hér liggja fyrir, t.d. um ráðstafanir í efnahagsmálum.
    Þess vegna væri skynsamlegast af forsetanum að beita sér nú þegar fyrir samkomulagi um að öll þessi EES-mál verði lögð til hliðar vegna þess að Alþingi hefur ekki tíma til jóla til að eyða tíma og getu og kröftum í óvissumál af því tagi sem EES-málið er. Ég skora á hæstv. forseta Alþingis að beita sér af myndugleika gagnvart ríkisstjórninni í þessu máli og sýna að Alþingi Íslendinga er sjálfstæð stofnun.