Ný staða í EES-málinu

72. fundur
Mánudaginn 07. desember 1992, kl. 14:44:01 (3116)

     Kristín Ástgeirsdóttir (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það er mikill misskilningur hjá hæstv. utanrrh. að hér hafi verið gert samkomulag um meðferð mála fram að jólum. Það var eingöngu gert samkomulag um að 2. umr. um EES-frumvarpið hæfist laugardaginn 12. og héldi áfram á mánudegi og þriðjudegi og lyki með útvarps- og sjónvarpsumræðu. En það var búið að gera fyrirvara við það. Það er ekki rétt að eingöngu Alþb. hafi gert fyrirvara vegna þess sem gerast kynni í Sviss heldur gerðu það bæði Kvennalisti og Framsfl. á fundi þar sem hæstv. utanrrh. var ekki mættur, heldur hæstv. heilbrrh., þannig að öll stjórnarandstaðan hefur gert þennan fyrirvara.
    Þetta vildi ég að kæmi fram, enda hefur það komið fram í dag að það er komin upp algjörlega ný staða í þessu máli sem við þurfum að ræða í rólegheitum og kanna hvað hér verði gert, en ég hlýt að álykta sem svo að ríkisstjórninni hljóti að vera meira í mun að koma ríkisfjármálunum í eitthvert horf en þessum samningi sem nú er í lausu lofti.