Lánsfjárlög 1992

72. fundur
Mánudaginn 07. desember 1992, kl. 15:13:53 (3126)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Um efni frv. er það að segja að vilji húsnæðismálastjórnar stendur til þess að fá það samþykkt fyrir áramót til að unnt verði að afgreiða þær umsóknir sem fyrir liggja fyrir jól. Er greint frá því í greinargerð hvers vegna lagt er til að gefinn verði út flokkur sem er 4 milljarðar í stað eins milljarðs sem líklega væri nóg til að mæta þeirri þörf sem liggur fyrir. Af minni hálfu er því engin fyrirstaða fyrir því að afgreiða þetta frv. svo skjótt sem verða má.
    Óneitanlega gefur frv. samt tilefni til að minna menn á reynsluna af þessu lánakerfi sem sett var hér í staðinn fyrir það sem fyrir var og var stundum kallað 86-lánakerfið. Það kerfi var vissulega ekki gallalaust eins og allir vita en enn síður er hægt að halda því fram að húsbréfakerfið sé gallalaust. Það var t.d. einn gallinn skilmerkilega rakinn í ræðu hv. 6. þm. Norðurl. e. sem lýsir sér í því að lán eru veitt út frá ákveðnum forsendum um greiðslugetu lántakandans en síðan eru það stjórnvöld sjálf sem breyta og kollvarpa þeim forsendum sem lánveitingin er byggð á og í raun og veru knýja suma þeirra í þá stöðu að verða vanskilamenn með því að bregðast loforðum sem staðfastlega hafa verið gefin út um að endurgreiðslukerfi í gegnum ríkissjóð mundi bæta mönnum upp þá breytingu að taka upp markaðsvexti í stað lægri vaxta eins og áður var. Það er vissulega ámælisvert, virðulegi forseti, þegar fólki er talin trú um að það sé því til hagsbóta að húsnæðislánakerfið sé á markaði eins og það heitir, þ.e. þeir vextir sem menn verða að borga ráðist á aðstæðum á þeim stað sem kallaður er markaður og hagsbæturnar liggi í beinum endurgreiðslum frá ríkissjóði í gegnum vaxtabætur auk annarra bóta sem eru ekki tengdar húsnæðisöflun en vissulega hafa áhrif á fjárhagsgetu lántakenda eins og barnabætur.
    Ég vil segja um þá niðurstöðu sem fyrir liggur af hálfu ríkisstjórnarflokkanna varðandi vaxtabæturnar að um er að ræða afar grófa aðför að því fólki sem tekið hefur húsbréfalán einmitt í trausti þess að við vaxtabótakerfinu yrði ekki hróflað. Menn hafa undirgengist skuldbindingar til 25 ára sem ekki verður hróflað við en nú er því miður að koma á daginn að það sem á móti átti að koma stenst engan veginn á sama tíma eða 25 ár, ekki einu sinni í fimm ár svo að maður hafi ekki gert sér meiri vonir en að efndirnar dygðu í fimm ár en það ætlar ekki að verða. Allt húsnæðislánakerfið eins og það liggur fyrir í dag hlýtur að verða tekið til endurskoðunar í ljósi þeirra breytinga sem núverandi ríkisstjórn áformar. Það er ríkisstjórnin sjálf sem er búin að veikja svo undirstöður kerfisins að það dugar ekki sem almennt húsnæðislánakerfi til framtíðar. Það liggur alveg ljóst fyrir.
    Þegar hafa komið fram merki í nokkrum mæli um vanskil fólks sem hefur af einhverjum ástæðum hrapað svo í tekjum að það getur ekki staðið í skilum með afborganir lána sinna. Á því verður að taka en núverandi löggjöf gerir ekki. M.a. er þar um að ræða fólk sem tekið hefur það sem kallað er í daglegu tali húsbréfalán. Það verður að opna heimildir til að gera fólki kleift að halda íbúðum sínum með einhverju sæmilegu öryggi á meðan það ástand varir að það er atvinnulaust eða er tekjulítið af einhverjum öðrum ástæðum sem það ræður ekki við.
    Ég vil minna á að í þingnefnd liggur fyrir frv. um það efni og vildi hvetja hv. þingheim til að stuðla að því að það frv. verði afgreitt hið snarasta því það er vissulega brýn þörf á að þær úrbætur verði gerðar á lögunum sem þar er lagt til. Í fskj. með þessu frv. er einmitt bent á að á árinu 1992 eru menn enn að lána vegna greiðsluerfiðleikalána. Það voru lokin á því lánakerfi og sýnir að þörfin fyrir það var meiri en menn héldu. Það rökstyður enn frekar nauðsyn á því að í löggjöf séu einhverjar úrbætur til að taka á vandamálum af því tagi. Það ber vissulega að harma hlutskipti þess fólks sem svikið var á sínum tíma um lánafyrirgreiðslu úr 86-kerfinu en eins og menn muna var því fólki sem var í biðröðinni gefið loforð en það loforð brást. Því fólki var vísað yfir í húsbréfakerfið. Það mun þýða mun meiri greiðslubyrði fyrir þá einstaklinga, sérstaklega í ljósi þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin hyggst grípa til varðandi skerðingu á vaxtabótum. Hér er því ekki aðeins verið að bregðast þeim orðum sem menn höfðu gefið út varðandi það fólk heldur er verið að íþyngja því enn frekar með væntanlegum breytingum á lögunum.
    Ég tel líka nauðsynlegt, virðulegi forseti, að í tengslum við frv. verði teknar saman upplýsingar, sem ég veit að eru fáanlegar með skömmum fyrirvara, um dreifingu á útlánum húsbréfadeildar eftir landshlutum. Ég held að það sé nauðsynlegt að þingheimi verði gerð grein fyrir því hvernig þetta lánakerfi kemur út gagnvart landsbyggðinni. Það var m.a. rökstuðningur fyrir kerfinu að það ætti að vera svo gott fyrir landsbyggðina. Ég tel því miður að þetta lánakerfi hafi ekki uppfyllt þær vonir sem við það voru bundnar gagnvart fólki á landsbyggðinni. Ég ítreka þá ósk mína að hv. efh.- og viðskn. afli þessara gagna. Í framhaldi af því hljóta menn að verða að skoða til hvaða úrræða menn eigi að grípa til þess að lánakerfið sé í reynd jafngilt á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og landsbyggðinni hins vegar.
    Fleira ætla ég ekki að segja um frv., virðulegi forseti, annað en láta það koma fram í lokin, sem ég sagði í upphafi, að ég styð það að frv. verði að lögum og er tilbúinn að standa að því að svo geti orðið fljótlega.