Tekjustofnar sveitarfélaga

72. fundur
Mánudaginn 07. desember 1992, kl. 15:32:01 (3129)

     Jón Kristjánsson :
    Frú forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir er að hluta til til að uppfylla yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í efnahagsmálum. Það mál sem er meginefni frv. kemur kunnuglega fyrir því að það hefur verið í umræðu um nokkurt skeið að leggja niður aðstöðugjald. Því ber að fagna að það hefur verið gert. Eigi að síður vil ég við þessa 1. umr. málsins nefna nokkur atriði málsins sem ég tel að þurfi að skoða vel í þeirri nefnd sem fær frv. til meðferðar.

    Aðstöðugjaldið er eins og hefur komið fram ranglátur veltuskattur sem tekur ekki tillit til afkomu fyrirtækja. Að fella það niður er þáttur í því að bæta afkomu fyrirtækjanna og ber að fagna því markmiði út af fyrir sig. Þó að markmiðið sé gott og gilt verður að kanna það mjög grannt hvaða áhrif þetta hefur á tekjur og afkomu sveitarfélaganna í landinu því að ég held að það hafi verið samdóma álit allra sem tekið hafa þátt í þessari umræðu í gegnum árin að sveitarfélögin þyrftu að fá tekjustofn í stað aðstöðugjaldsins vegna þess að aðstöðugjaldið er svo ríkur þáttur í tekjuöflun þeirra.
    Það hefur verið ákveðið að fara þá leið að bæta sveitarfélögunum þetta með beinum greiðslum úr ríkissjóði til bráðabirgða meðan fundinn verði nýr tekjustofn til að mæta aðstöðugjaldinu. Ég ætla ekki að gagnrýna það þó að enn sé tekinn nokkur tími til þess að skoða þau mál. Hins vegar er alls ekki sama hvernig að þessu er staðið þó að hér verði aðeins um bráðabirgðaaðgerð í eitt ár að ræða. Það er náttúrlega enginn kominn til með að segja til um það að þessi aðgerð standi aðeins í eitt ár vegna þess að það liggur ekkert fyrir enn þá hvaða tekjustofn finnst til frambúðar til að mæta aðstöðugjaldinu.
    Fulltrúar fjmrn. mættu á fundi hjá fjárln. 24. okt. sl. Þá var það orðað svo af þeirra hálfu að sveitarfélögin fengju beina millifærslu úr ríkissjóði til þess að mæta tekjutapinu af aðstöðugjaldinu. Ég áleit þá að það væri ætlunin að sveitarfélögin slyppu slétt út úr þessum viðskiptum til bráðabirgða. Við nánari athugun var málið ekki svo einfalt og það hefur komið rækilega í ljós síðan. Í 3. mgr. I. ákvæðis til bráðabirgða stendur, með leyfi forseta:
    ,,Í stað aðstöðugjalds gjaldársins 1993 skulu sveitarfélög fá sérstakt framlag úr ríkissjóði. Framlag ríkissjóðs skal vera fjárhæð sem svarar 80% af álögðu aðstöðugjaldi gjaldárið 1993 sem hefði fallið til hvers sveitarfélags ef ekki hefði komið til niðurfellingar gjaldsins.``
    Nú er það staðreynd að fjöldi sveitarfélaga hefur betri innheimtu en 80%. Það er þá spurning hvernig með þetta er farið. Ég hef upplýsingar um það frá Sambandi sveitarfélaga úr Austurlandskjördæmi sem eru teknar saman 30. nóv., að allir kaupstaðir landsins, ef þeir eru samanlagðir séu með 83,8% innheimtuhlutfall, á Austurlandi sé þetta hjá kaupstöðum 88,65%, hjá hreppum á öllu landinu sem eru stærri en 300 íbúar séu hlutafallið 90,42% og hreppar sem hafi minna en 300 íbúa hafi allt að 100% innheimtuhlutfall. Það er því ljóst að hér vantar nokkuð upp á.
    Það er gert ráð fyrir því í frv. að mæta þessu með því að leggja 120 millj. kr. í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og að þessar 120 millj. verði í tekjujöfnunarframlög. Nú er það alls ekki víst að féð fari nákvæmlega til þess að bæta tekjumissi af aðstöðugjaldinu og þess vegna er ástæða til að það verði hugað mjög grannt að því hvernig þetta kemur út í raun fyrir hin einstöku sveitarfélög.
    Ég vil einnig spyrja félmrh. með hverjum hætti hafi verið haft samráð við sveitarfélögin um þetta mál. Þann 10. okt. sl. skrifuðu forsrh., félmrh. og formaður Sambands ísl. sveitarfélaga undir samkomulag um samskipti ríkis og sveitarfélaga. Það var vegna síendurtekinna árekstra þessara aðila. Í síðustu málsgrein þessa samkomulags segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Aðilar eru sammála um að framvegis verði tillögur um meiri háttar breytingar á fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga og tekjustofnum sveitarfélaga, sem kveðið er á um í lögum eða gert hefur verið sérstakt samkomulag um, teknar til umfjöllunar í sérstakri samráðsnefnd þeirra. Skulu ákvæði um slíka samráðsnefnd sett í nýjan samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga er öðlast gildi á árinu 1993 en núverandi samstarfssáttmáli aðila rennur út um næstu áramót.``
    Ég vil spyrja hæstv. félmrh. að því hvort þessi frumraun hafi gefist vel og þetta samráð hafi verið haft eins og samningurinn kveður á um. Það samráð virðist a.m.k. ekki hafa komist til skila til allra sveitarstjórnarmanna því m.a. í bréfi frá Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi sem ég vitnaði til virðist það ekki hafa verið haft með í ráðum varðandi þessar ráðstafanir og upplýsingar m.a. um framlag í Jöfnunarsjóð virðast ekki hafa borist til þeirra a.m.k. Eins og ég hef komið inn á er margt óljóst um ráðstöfun þess fjár enn þá.
    Hins vegar er það ljóst að auk þess að lagðar eru 120 millj. kr. í Jöfnunarsjóð eiga sveitarfélögin að njóta eftirstöðva af innheimtu þessa árs og er það út af fyrir sig jákvætt. En þar er auðvitað ekki á vísan að róa. Hins vegar hefur eitt sveitarfélag, það langstærsta, Reykjavík, allt sitt á hreinu. Það vill svo til að innheimtuhlutfall Reykjavíkur er um 80% þannig að allt sem þeir kunna að innheimta þar fram yfir eru auðvitað auknar tekjur fyrir þá og önnur sveitarfélög sem hafa lægra innheimtuhlutfall en 80%.
    Í IV. ákv. til brb. er ákvæði um skerðingu framlags til Lánasjóðs sveitarfélaga. Það hefur komið fram að Lánasjóður sveitarfélaga er vel stæður og öflugur sjóður. Það er auðvitað gott til þess að vita því eitt aðalatriðið hjá þessari ríkisstjórn varðandi fortíðarvandann er að allir sjóðir séu á hausnum. Það er þá gott til þess að vita að fundist hefur einn sjóður sem hefur verið öflugur í gegnum árin og hægt að ganga í núna til þess nánast að bjarga lífi ríkisstjórnarinnar. Þetta er það gjald, 110 millj. kr., sem hæstv. félmrh. verður að greiða inn í þann 1.240 millj. kr. pakka sem fyrirhugaður var og varð ekki 1.240 millj. kr. virði heldur um 800 millj. kr. virði þegar upp var staðið. Það er eiginlega ástæða til þess að óska hæstv. félmrh. til hamingju með það að hún hefur varist vel og komist hjá því að skera niður nema þessar 110 millj. kr.
    Það fer ekki hjá því að við stjórnarandstæðingar höfum orðið varir við að mikill titringur hefur verið á stjórnarheimilinu um skiptingu þessa niðurskurðar og eru áreiðanlega ekki öll kurl komin til grafar enn.
    Þrátt fyrir það að þessi sjóður sé ríkur og öflugur er ástæða til þess að spyrja varðandi þennan lið

hvaða áhrif þetta hafi á útlán sjóðsins. Sjóðurinn hefur lánað til ýmissa fjárfestinga sveitarfélaga. Annar þáttur er ekki síður mikilvægur í starfsemi hans og hann er sá að sjóðurinn hefur lánað til skuldbreytinga hjá sveitarfélögunum. Það er kannski ekki síst ástæða til þess nú í þessu erfiða atvinnuástandi þegar sveitarfélög hafa þurft að koma inn í atvinnulífið með ýmsum hætti og hafa stofnað til ýmissa skuldbindinga sem jafnvel eru óhagstæðar þess vegna.
    Ég vil því spyrja hæstv. félmrh. um það hvaða áhrif þessi skerðing hefur á útlán sjóðsins. Ég vil beina því til þeirrar nefndar sem fær þetta frv. til meðferðar, efh.- og viðskn., að kanna þennan þátt sérstaklega.
    Það er einnig ört vaxandi málaflokkur sem sveitarfélögin hafa haft með höndum, þ.e. umhverfismál. Lánasjóðurinn hefur komið með vaxandi þunga inn í þær framkvæmdir en þar er mikil og vaxandi þörf á næstu árum. Hins vegar er það rétt að sjóðurinn er sterkur, sem betur fer, og hefur góða eiginfjárstöðu þrátt fyrir það að núv. ríkisstjórn með hæstv. forsrh. í broddi fylkingar hafi orðið tíðrætt um sjóðasukk og að allir sjóðir sem fyrrv. ríkisstjórn hafi komið nálægt séu á hausnum. Það er dálítið hlálegt að heyra hvern ráðherrann á fætur öðrum tala um hvað þessi sjóður er sterkur og öflugur.
    Ég tel að frv. þurfi vandlegrar skoðunar við í nefnd og þó ég geti tekið undir meginefni þess að leggja niður aðstöðugjaldið þá þarf að kanna grannt áhrif þess á fjárhag einstakra sveitarfélaga því það er auðvitað engin sanngirni í öðru en að það bráðabirgðaástand, sem ætlað er að vari næsta árið, feli það í sér að sveitarfélögin sleppi á sléttu út úr þessum viðskiptum.