Skattamál

73. fundur
Þriðjudaginn 08. desember 1992, kl. 14:33:11 (3137)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Þá höfum við fengið í hendurnar og mælt hefur verið fyrir á Alþingi fyrstu frv. sem tengjast svokölluðum efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Það er kannski í stíl við aðdraganda aðgerðanna og innihald þeirra að hæstv. fjmrh. var mjög hikandi, svo ég segi ekki niðurdreginn, þegar hann flutti framsöguræðu sína. ( ÖS: Þetta var matareitrunin.) Matareitrunin, segir hv. 17. þm. Reykv., ekki veit ég það. Staðreyndir málsins eru hins vegar þær að hæstv. ríkisstjórn hefur nú glutrað niður einstöku tækifæri til þess að viðhalda þeirri þjóðarsátt sem náðist með aðilum vinnumarkaðarins undir forustu síðustu ríkisstjórnar á árinu 1990. Það var alveg ljóst að frá miðju ári voru aðilar vinnumarkaðarins tilbúnir að fara í mikla vinnu til þess að hægt væri að styrkja þann grunn sem þar var lagður.
    Það er einnig ljóst að stjórnarandstaðan var tilbúin til þess að taka þátt í slíkri málefnalegri vinnu og gaf í raun ríkisstjórninni allan þann tíma og sýndi ríkisstjórninni alla þá þolinmæði sem hægt var að ætlast til, en hæstv. ríkisstjórn notaði ekki þetta tækifæri og því er komið sem komið er.
    Í ljósi þessa voru ummæli hæstv. forsrh. þegar tillögur ríkisstjórnarinnar voru kynntar fyrir rúmum hálfum mánuði, þess efnis að því hvernig nú væri komið og að ekki hefði náðst víðtæk þjóðarsátt væri um að kenna óábyrgri afstöðu stjórnarandstöðunnar, einhver mestu öfugmæli sem ég hef heyrt úr þessum ræðustól hér og er þó af ýmsu að taka.
    Ég held að ástæðnanna sé að leita annars staðar. Ég vitna í ummæli hæstv. forsrh. í atvinnumálaumræðu snemma á þessu hausti sem sá sem hér stendur efndi til. Þá, um mánaðamótin/ágúst september, voru skilaboð ríkisstjórnarinnar til þjóðarinnar þessi: Það er allt í lagi. Stjórnarstefnan er að skila árangri. Það þarf einungis að sýna þolinmæði og þá kemur þetta allt af sjálfu sér.
    Þetta var á sama tíma og atvinnuleysi hér á landi var að verða meira en við höfum ekki þekkt um áratuga skeið. Þetta var á sömu vikunum og Þjóðhagsstofnun gaf út afkomuspá fyrir sjávarútveginn sem benti til þess að hann yrði rekinn með 8% halla á næsta ári. Þetta var á sama tíma og störfum í iðnaði fækkaði um þúsund þriðja árið í röð undir forsæti núv. hæstv. iðnrh.
    Á þessum tíma var þetta boðskapur hæstv. forsrh. Þrátt fyrir að stjórnarandstaðan og reyndar einstaka stjórnarþingmenn, og það örlaði á því hjá einstaka ráðherra líka, voru búnir að ræða um það í heilt ár að grípa yrði til aðgerða til styrktar undirstöðuatvinnuvegunum.
    Þetta er hin raunverulega stjórnarstefna. Hún stendur alveg jafnt eftir hinar svokölluðu efnahagsaðgerðir sem hæstv. fjmrh. var að kynna. Sú stefna felst í því að knýja fram mestu eignatilfærslu sem um getur í sögu íslenska lýðveldisins með gjaldþrotaleiðinni, að færa til fjármuni og eignir í þjóðfélaginu í stærra mæli en áður hefur þekkst.
    Það gerist síðan eftir að hæstv. ríkisstjórn er fallin á tíma þá er búin til efnahagsmálapakki á einum næturfundinum, en það er eitt af einkennum stjórnarherra núv. hæstv. ríkisstjórnar að taka helst aldrei stórar ákvarðanir fyrr en dauðþreyttir undir morgun. Þessir stöðugu næturfundir hljóta að setja mark sitt á ákvarðanir ríkisstjórnarinnar ef mennirnir njóta ekki nokkurs svefns þá daga sem mest á ríður að þeir séu vel upplagðir og tilbúnir til að taka stefnumótandi ákvarðanir.
    Þegar þessi pakki var kynntur fyrir okkur í þingsölum þá bregst hæstv. forsrh. reiður við yfir því að stjórnarandstaðan beygi sig ekki og bugti og taki undir allt sem hæstv. ríkisstjórn kom fram með í þessu tímahraki. Sumt af því var unnið í svo miklu tímahraki, eins og alþjóð veit núna, að það varð að prenta upp á nýtt tilkynningu til þingmanna um efnahagsaðgerðirnar meðan hæstv. forsrh. var að kynna þær fyrir okkur þingmönnum. Það sýnir hvað flumbrugangurinn er mikill og gefur ástæðu til að draga ákveðnar ályktanir af því hvað innihaldið er mikið ígrundað, eins og hefur komið fram í ýmsu af því sem við erum að fá í hendurnar.
    Staðreynd málsins er einfaldlega sú að í þjóðarsáttarumræðunum í haust vantaði allt frumkvæði hæstv. ríkisstjórnar. Hún ætlaði aðilum vinnumarkaðarins að taka á sig mestalla ábyrgð á pakkanum. Meira að segja hæstv. fjmrh. lýsti því yfir í útvarpsviðtali að aðilar vinnumarkaðarins yrðu að koma fram með lista yfir hvað ætti að skera niður í fjárlögum. Svo langt gengu menn til þess að firra sig ábyrgð. Hæstv. forsrh. lýsti því margoft yfir að flest af því sem aðilar vinnumarkaðarins legðu til, sérstaklega það sem var til tekjujöfnunar, væri honum mjög á móti skapi en hann yrði e.t.v. að láta það yfir sig ganga. Það sér hver maður að slík vinnubrögð eru ekki trúverðug.
    Þingflokkur framsóknarmanna tók þá ákvörðun þegar farið var að ræða um nýja þjóðarsátt í alvöru að bíða átekta og sjá hvað kæmi út úr slíkum viðræðum og taka síðan til þeirra málefnalega afstöðu. Það hefði ekki staðið á þingflokki framsóknarmanna ef hæstv. núv. ríkisstjórn hefði borið gæfu til að koma á raunverulegum þjóðarsáttarviðræðum. En því miður fóru þær viðræður aldrei almennilega af stað. Stórir hagsmunaaðilar, eins og bændur og opinberir starfsmenn, voru ekki kallaðir til.
    Ég sé ástæðu til að geta um þátt bænda og þeirra vinnslustöðva í því að halda verðlaginu niðri síðustu tvö árin. Ef við skoðum hvernig framfærsluvísitalan er samsett síðustu tvö árin, þá sjáum við að tvennt hefur öðru fremur unnið að því að halda niðri verðlagi. Annars vegar er það sáralítil hækkun á innlendri matvöru og hins vegar lítil hækkun á húsnæðiskostnaði.
    Þetta gleymist í umræðunni núna. Svo menn njóti sannmælis þá nefni ég að hæstv. forsrh. sagði

í viðtali ekki alls fyrir löngu að þetta bæri að meta. Þau skilaboð hafa hins vegar ekki borist til hins stjórnarflokksins, samanber síendurteknar yfirlýsingar formanns Alþfl. þess efnis að ekki sé tekið á þætti landbúnaðarins í þeim efnahagsaðgerðum sem nú ganga yfir.
    Opinberir starfsmenn voru heldur ekki kallaðir til þessara þjóðarsáttarumræðna.
    Við framsóknarmenn gerðum okkur ljóst eins og framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins sagði að ef tækist að koma á þjóðarsátt yrði í þeim tillögum um ramman graut að ræða og það þyrfti samstöðu og sátt sem flestra aðila til að hægt væri að leiða nýja þjóðarsátt til lykta. En hér brást hæstv. núv. ríkisstjórn. Það var hennar hlutverk að leiða hópana saman og lina afleiðingar þeirra aðgerða sem voru óhjákvæmilegar gagnvart þeim sem síst höfðu bökin til þess að bera þær.
    Síðan líður að því að hæstv. ríkisstjórn kemur fram með tillögur. Hvaða hópum sá ríkisstjórnin þá sérstaka ástæðu til að hlífa? Það var hátekjufólk, stóreignamenn og fjármagnseigendur. Þetta voru aðilarnir sem ekki mátti hrófla við í þessum aðgerðum að mati hæstv. ríkisstjórnar. Hæstv. forsrh. lýsti því yfir á flokksráðsfundi Sjálfstfl. að sú málamyndanefna af hátekjuskatti sem nú væri lögð á væri fyrst og fremst sálfræðilegt atriði en skipti engu máli að öðru leyti. Það er vissulega rétt hjá hæstv. forsrh. Þar er eingöngu um að ræða málamyndaskatt sem skiptir í sjálfu sér engu máli.
    Hvar koma þyngstu byrðarnar af aðgerðum núv. hæstv. ríkisstjórnar niður? Þær eru fyrst og fremst lagðar á barnafólk sem er að koma sér upp húsnæði. Sömuleiðis á landsbyggðarfólk með upptöku á virðisaukaskatti á fólksflutninga innan lands og með því að skattleggja húshitun en kostnaður við hana er víða í þeim hæðum á landsbyggðinni að engu var á bætandi. Þar fundust breiðu bökin að viðbættri útgerðinni samkvæmt frægri yfirlýsingu hæstv. utanrrh. þegar hann sagðist hafa fundið breiða bakið þar sem var Kristján Ragnarsson í LÍÚ.
    Ef við lítum svo aðeins á stöðu atvinnulífsins eftir þessar aðgerðir þá fagna ég afnámi aðstöðugjaldsins. Það er afar jákvætt og ég hef þá trú að það sé í raun jákvæðara fyrir atvinnulífið í heild en þeir útreikningar sem okkur hafa verið sýndir benda til. Þetta er afar óréttlátur veltuskattur. Menn hafa bent á til að mynda í landbúnaði, innlendri matvælaframleiðslu, að þar geti þetta þýtt allt upp í 3--4% lækkun á síðasta sölustigi á einstökum greinum. Ég fagna þessu og mun styðja þá aðgerð.
    Aðrar skattbreytingar gagnvart atvinnulífinu orka mjög tvímælis. Þar vil ég fyrst nefna 33% skattinn sem hæstv. ríkisstjórn hefur séð að var algjör flumbrugangur að skella á. Eiginlega var stórmerkilegt og segir mikla sögu um hve lítil þekking er á atvinnulífinu og umgjörð atvinnulífsins í stjórnmálum í dag og innan núv. hæstv. ríkisstjórnar þegar hæstv. fjmrh. upplýsti áðan að þeir hefðu þurft virta endurskoðendur til þess að sýna fram á hvað þessi breyting þýddi í raun. Ætluðu mennirnir til að mynda að neyða Þorvald í Síld og fiski á efri árum til þess að breyta einkarekstri sínum í sameignarfélag, svo maður taki bara einfalt og lítið dæmi.
    Hverjum manni átti að vera þetta ljóst. Ríkisstjórninni hefði a.m.k. í eitt skipti ekki þurft að draga til baka fyrri ákvörðun ef þeir hefðu hugsað og ígrundað þetta eilítið fyrr.
    Það er einnig fróðlegt að skoða samanburðartöflu í frv., sem nú liggur fyrir, um skattlagningu fyrirtækja. Ef ég man rétt er skattprósentan til að mynda 50% í Þýskalandi. Hún er litlu lægri í Japan. Þó eru þetta þau ríki sem menn hafa horft til sem ríkja sem hafa verið í fararbroddi varðandi þróun og uppbyggingu atvinnulífsins á síðustu árum. Það læðist að manni sá grunur að með þessari breytingu sé verið að hygla fyrst og fremst vel búnum fyrirtækjum í ýmiss konar þjónustu- og útgáfustarfsemi á höfuðborgarsvæðinu. Hvaða greiða er verið að launa ætla ég hins vegar ekki að vera með neinar getsakir um. En það er alveg ljóst að þessi aðgerð er sem slík ekkert sem hefði átt að vera í forgangsröð varðandi aðgerðir sem koma atvinnulífinu til góða.
    Hver er staða atvinnulífsins í dag eftir þessar aðgerðir að öðru leyti? Þá stendur sjávarútvegurinn þannig að mati þeirra manna sem gerst þekkja að það stefnir í sama tap og spáð var í ágúst sl. Þær aðgerðir sem gripið hefur verið til síðan gera ekki meira en rétt að vinna upp það hvað skilyrði hafa versnað frá því í ágúst.
    Þá kem ég að kafla sem snýr að atvinnulífinu þar sem er þróunarsjóðurinn. Virðulegur forseti. Ég vil beina spurningu til hæstv. fjmrh. Þó það sé kannski ekki beint á hans sviði er hér um að ræða svo mikilvægt atriði varðandi endurskipulagningu í atvinnulífinu að ég spyr hæstv. fjmrh.: Hvað líður vinnu á útfærslu á þróunarsjóðnum og hvenær komum við til með að sjá framan í þau frv. sem honum tengjast?
    Þetta mál var unnið með þeim eindæmum að afgreiðsla þess varð þess valdandi, sem ég nefndi hér fyrr í ræðu minni, að ekki var hægt að útbýta prentaðri skýrslu um efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar fyrr en undir miðri ræðu forsrh. Það er ekki mikið þó að þessi vinnubrögð yrðu þess valdandi að þegar hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar fóru að túlka efni þessa kafla efnahagsráðstafanna ræddu þeir út og suður. Hæstv. sjútvrh. sagði eitt, hæstv. utanrrh. annað og þegar gengið var nokkuð fast að forsrh. staðfesti hann túlkun utanrrh. sem er sú að í gegnum þennan sjóð eigi að afskrifa um 20% af fyrirtækjum í sjávarútvegi á næstu tveimur árum jafnóðum og þau verða gjaldþrota. Nú hristir hæstv. fjmrh. höfuðið en þetta er engu að síður túlkun hæstv. utanrrh. og aðstoðarmanns hans. Það vill svo til að aðstoðarmaður utanrrh. er annar af formönnunum í tvíhöfðanefndinni svokallaðri. ( Fjmrh.: Ég hristi ekki höfuðið út af því.) Hæstv. fjmrh. segist ekki hafa hrist höfuðið út af þessu heldur einhverju allt öðru. Ég skil ósköp vel að yfir öllum þeim aðgerðum sem hér liggja fyrir sé hann kominn með höfuðverk og þurfi að hrista höfuðið reglulega til þess að halda skýrri hugsun. Þróunarsjóðinn túlkaði hæstv. sjútvrh. á þann hátt að eingöngu ætti að leggja í hann 4 milljarða kr. Það væri eina fjármagnið sem ætti að fara í hann og ætti síðan að endurgreiðast með árlegri fjárhæð sem næmi þeirri upphæð sem sölur aflaheimilda áttu að vera á næsta ári, eða um 500 millj. kr.
    Það er að mínu mati afar mikilvægt að við fáum að sjá hvernig á að vinna út úr þessari hugmynd. Hugmyndin sem slík var ekkert slæm. Það sem hins vegar er slæmt er að hún er svo illa unnin að ráðherrum hæstv. ríkisstjórnar ber ekki einu sinni saman um túlkun á fyrsta degi. Ekkert er mikilvægara fyrir efnahagslíf okkar á næstunni en að fjárhagsleg endurskipulagning í undirstöðuatvinnuvegunum takist. Það er að mínu mati lykilatriði gagnvart vaxtastiginu í landinu því ekkert annað heldur vöxtunum meira uppi í dag en óvissan um framtíðina í sjávarútveginum. Meðan stærstu bankar landsins eru á fyrstu átta mánuðum ársins með hagnað upp á nokkra tugi milljóna eftir að hafa afskrifað milljarð til að mæta afskriftum er það alveg ljóst að vaxtamun er haldið uppi eins miklum og mögulegt er. Þess vegna er að mínu mati, og það nefndi ég í umræðunum í haust um atvinnumálin, ekkert mikilvægara fyrir efnahagsmálin í dag en að það takist að endurfjármagna sjávarútveginn og það verður að vera margþáttuð aðgerð. Eitthvað afskrifast, það vitum við, einhverju verður að skuldbreyta og einhverju verður að breyta í hlutafé og það verður að veita bönkum og fjármálastofnunum heimildir til þess.
    Ef við komum síðan að því hvernig þessar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar snúa að atvinnulífinu þá er það alveg ljóst að þær koma ekki verr við nokkra grein en ferðamálin. Ferðamálin sem áttu að verða vaxtarbroddur og verða vonandi --- þrátt fyrir núv. hæstv. ríkisstjórn --- í atvinnulífi okkar á næstunni. Ég held að engum manni hafi dottið í hug að afnám tryggingagjalds og aðstöðugjalds á ferðaþjónustu ætti að verða til að rýma til fyrir aðra skatta á greinina. Þetta gerir að verkum að ferðaþjónustan, sem í raun er útflutningsgrein, nýtur ekki kostanna af gengisfellingunni. Þeir brennur upp í því að standa undir nýjum álögum í formi virðisaukaskatts. ---Nú geri ég hlé á ræðu minni meðan hæstv. fjmrh. stuggar við mönnum í hliðarsal. --- Þannig er búið að þessari grein eftir þessar aðgerðir. Ég held að hæstv. ríkisstjórn ætti að skoða hvað hliðstæð aðgerð þýddi til að mynda fyrir ferðamál fyrir Svíþjóð fyrir tæpum þrem árum, ef ég man rétt. Ferðaiðnaður þar hefur ekki borið sitt barr eftir að virðisaukaskattur var lagður á greinina.
    Virðulegi forseti. Ég hef farið almennum orðum um þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til og rakið lánleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart því að viðhalda þjóðarsátt sem hún hafði öll tækifæri til. Allir aðilar þjóðfélagsins eru tilbúnir að taka þátt í þeirri vinnu og það þekkja allir sem koma að stjórnun efnahagsmála að yfirleitt er auðveldara að stjórna efnahagsmálum í slæmu árferði en í góðu. Þá eru allir aðilar miklu betur tilbúnir til að taka á hlutunum. ( Fjmrh.: Má treysta þessu?) Já, ég held að það megi nánast treysta þessu en því miður er lánleysi núv. hæstv. ríkisstjórnar svo algjört að hún hefur ekki einu sinni áttað sig á eins einföldum staðreyndum og þessum eins og kom fram í frammíkalli hæstv. fjmrh. Ef við skoðum efnahagssöguna sjáum við að það er yfirleitt í góðæri og uppgangi í þjóðfélaginu sem við höfum misst hlutina úr böndunum. Þá hefur litlu máli skipt hverjir hafa setið við stjórnvölinn.
    Ég ætla að fara yfir frv. sem fyrir liggur og eyða nokkrum orðum á það.
    Í 1. gr. er breytt hlutfallstölum, sem hæstv. fjmrh. kom á fyrir nokkrum árum með miklu erfiði en að vísu í góðri samvinnu Alþingis, ef ég man rétt, varðandi frádrátt vegna aðgreiðslna. Það virðist vera mat hæstv. ríkisstjórnar að nú sé hlutabréfamarkaður hér orðinn svo stöndugur að ástæða sé til að breyta þessu aftur. Ég hef reyndar grun um að þarna ráði meira umhyggja hæstv. fjmrh. fyrir stöðu ríkissjóðs en það sjónarmið sama aðila sem óbreytts þingmanns sem réð því að hann lagði þá til að þetta hlutfall yrði hækkað. Ég tel reyndar að enn um sinn væri full ástæða til að halda þessu hlutfalli óbreyttu til að örva hlutabréfamarkaðinn. En það er afar mikilvægt fyrir atvinnulífið í landinu að með öllum ráðum sé stuðlað að því að fyrirtækin nái að fjármagna sig í meira mæli með áhættufé í gegnum virkan hlutabréfamarkað. Ef okkur tekst ekki að styrkja þá þróun áfram --- þar hefur verið nokkurt bakslag að undanförnu --- höfum við ekkert að gera í samkeppni við atvinnulíf nágrannalandanna. Að mínu mati er þessi breyting því ekki tímabær.
    Það sama á við um b-lið 1. gr. varðandi það að trimma niður á til þess að gera skömmum tíma afslátt til einstaklinga vegna kaupa á hlutabréfum.
    Síðan er verið að fella niður fjárfestingarsjóðinn sem ég ætla ekki að fara fleiri orðum um hér.
    Í 5. gr. er fjallað um breytingar á barnabótum og vaxtabótum. Þar eru komin breiðu bökin sem núv. hæstv. ríkisstjórn fann. Þessi atriði koma, eins og ég nefndi fyrr, sérstaklega þungt niður á barnafólki með miðlungstekjur og hærri, ég tala nú ekki um ef þetta sama barnafólk er einnig að koma sér upp húsnæði. Eins og alþjóð veit er hugmyndafræði hæstv. núv. ríkisstjórnar varðandi barneignir og aðstoð við barnafólk afskaplega sérstök og náði hámarki þegar hæstv. heilbrrh. lýsti því yfir í útvarpsviðtali að undangenginni könnun hefði hann komist að því að það væri yfirleitt fólk á besta aldri og við góða heilsu sem ætti börn. ( Gripið fram í: Fullfrískar.) Fullfrískar konur á besta aldri sem ættu börn. Það er eiginlega þakkarvert að ráðherrar núv. hæstv. ríkisstjórnar skuli nú leggja vinnu og fjármagn í svona merkilegar rannsóknir. ( ÖS: Líffræðingar þingflokksins hafa nú leiðrétt þennan misskilning.) Nú segir hv. þm. Össur Skarphéðinsson og þingflokksformaður að líffræðingar þingflokksins hafi leiðrétt þennan misskilning. En af því að hv. þingflokksformaður greip fram í þá verð ég eiginlega að biðja hann að koma sérstökum þökkum á framfæri til hæstv. heilbrrh. fyrir að hafa upplýst þjóðina um þessi stórmerku sannindi. ( ÖS: Skal gert.)

    Þessir hópar eiga sérstaklega að taka á sig byrðar á meðan þeir sem eru með sömu tekjur og eiga ekki börn eða eru ekki að koma sér upp húsnæði eru ekki skertir nokkurn skapaðan hlut.
    Síðan koma kaflar um skattrannsóknarstjóra, skatteftirlit og það sem því tengist. Mér hefur ekki unnist tími til að kynna mér þá þætti vandlega. En ég tek undir þau sjónarmið ráðherra að styrkja skatteftirlitið og mun leggja mig fram í nefndinni að vinna að þeim málum.
    Þá eru ákvæði til bráðabirgða. Þau víkja að frádrætti vegna fjárfestingar í atvinnurekstri, fjárfestingarsjóðunum og tekjuskatti lögaðila. Eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni þá sá ríkisstjórnin að áform hennar um að lækka tekjuskatt lögaðila í einu þrepi niður í 33% náði ekki nokkurri átt og varð þess vegna að grípa til bráðabirgðaráðstafana til þess að vinna tíma til að hægt væri að koma einhverju viti í þessa breytingu. Það er út af fyrir sig góðra gjalda vert að ríkisstjórnin átti sig á mistökum sínum og reyni að leiðrétta þau.
    Síðan kemur afar sérstök fyrirsögn á IV. ákvæði til bráðabirgða, sem hljóðar svo: ,,Sérstakur tekjuskattur manna`` og staðfestir að að mati ríkisstjórnarinnar eru menn ekki menn með mönnum fyrr en þeir hafa a.m.k. 2,4 millj. í árstekjur eða hjón sem hafa 4,8 millj. kr. Þarna er komið að því sálfræðilega trikki sem hæstv. forsrh. lýsti á flokksráðfundi Sjálfstfl. Sannleikur málsins er sá, virðulegi forseti, að hér er um algjöra málamyndaaðgerð að ræða sem skilar sáralitlum tekjum og hefur verið sýnt fram á af þeim mönnum sem eru fróðir um bókhald fyrirtækja og tölvubúnað því tengdu að þetta muni kosta fyrirtækin í nýjum hugbúnaði og í vinnu í kringum þennan skatt upphæð sem nemi í það minnsta helmingi af reiknuðum tekjum í ríkissjóð á ári. Af því að ekki átti að hækka skatthlutfall þeirra sem eru með hærri tekjurnar um eitthvað sem skipti máli hefði verið margfalt einfaldari aðgerð að hækka skatthlutfallið um eitthvert prósentubrot og síðan skattleysismörkin á móti í staðinn fyrir að fara út í þessa leikfimi sem í raun er illskiljanlegt hvernig á að framkvæma. Þegar þetta var kynnt fyrir okkur í upphafi í efh.- og viðskn. vissi enginn hvernig ætti að framkvæma þessa skattheimtu. Staðreyndin er sú að svona skattheimtu er ekki hægt að framkvæma nema eftir á en þá hefði hún að sjálfsögðu ekki skilað ríkissjóði neinum tekjum á næsta ári sem var náttúrlega markmiðið. Þess vegna var hér farið út í fyrirframgreiðslukerfi sem flækir skattlagninguna enn meira. Hér er því fyrst og fremst um málamyndaaðgerð að ræða sem átti að friða þá sem töldu eðlilegt, og það er eðlilegt að mínu mati, að þeir tekjuhærri bæru þungann af þeim tilflutningi frá atvinnulífinu og yfir á einstaklinga sem vissulega þurfti að fara fram.
    Þetta er um það sem er í þessu skattafrumvarpi en hins vegar er hér ekkert um fjármagnstekjuskatt. Það er annar hópur sem hæstv. núv. ríkisstjórn sá ástæðu til þess að hlífa. Þeir sem hafa sitt framfæri af launavinnu eru skattlagðir allt niður í það að vera með 60.000 kr. á mánuði. Þeir sem hafa sitt framfæri, ég tala nú ekki um að eru að margfalda sínar eignir í gegnum tekjur af fjármagni, eru skattlausir. Þetta er ólíðandi fyrirkomulag sem núv. hæstv. ríkisstjórn virðist ætla að heykjast á að taka á á nokkurn hátt.
    Hæstv. núv. ríkisstjórn er iðin við að bera okkur saman við önnur lönd. Við þurfum að samræma skilyrði atvinnulífsins og það er rétt að mínu mati. Við þurfum að samræma skattlagningu og undir það tek ég líka. Af hverju er þá ekki þessi þáttur skattlagningarinnar samræmdur einnig? Það er skattur á fjármagnstekjur í öllum nálægum löndum. Það er einungis hér á Íslandi sem þetta viðgengst enn af þeim löndum sem okkur er tamast að bera okkur saman við.
    Varðandi skattinn þá gleymdi ég að nefna hækkun á skatthlutfallinu úr 32,8% upp í 34,3% sem tengist þeirri breytingu að fella niður virðisaukaskattinn og auðvitað hlýt ég að viðurkenna að því varð að mæta með annarri skattlagningu. Meðan verið er að skoða málið sé ég í sjálfu sér ekki að þetta sé verri millileikur en hver annar. Ég set hins vegar spurningarmerki varðandi framkvæmd þess að afnema aðstöðugjaldið, hvernig á því stendur að þá var ekki landsútsvar afnumið um leið sem í raun er það aðstöðugjald sem ákveðin fyrirtæki greiða. Þetta kemur m.a. við Áburðarverksmiðju ríkisins í Gufunesi sem væntanlega á fyrir höndum erfiða baráttu á næstunni fyrir tilveru sinni en hún á að bera sitt aðstöðugjald áfram, sömuleiðis olíufélögin. Það hafa kannski ekki allir mikla samúð með olíufélögunum en ég bendi þó á að olíufélögin eru einn stærsti viðskiptaaðili útgerðarinnar í landinu og afleidd áhrif þess að lækka aðstöðugjaldið kæmu ekki síst fram ef landsútsvarið yrði fellt af eins og aðstöðugjald af öðru.
    Komið er að kaflanum um fyrirframgreiðslu manna á sérstökum tekjuskatti en það tengist þeim sem eru menn með mönnum og hafa yfir 2,4 millj. í árslaun.
    Ég hleyp hér yfir nokkra kafla varðandi skattrannsóknir og breytingar á þeim. Síðan er hér breyting á lögum um húsnæðissparnaðarreikninga sem ég mun ekki hafa fleiri orð um. Og þá kemur V. kafli sem hlýtur eðli málsins samkvæmt að vera í sérstöku uppáhaldi hjá hæstv. fjmrh. Ég mun hlífa hæstv. ráðherra við því að þessu sinni að lesa fyrir hann upp úr fyrri ræðum hans og fleiri sjálfstæðismanna í umfjöllun um þetta mál. Ég mun geyma mér það til 2. umr. En það er vægast sagt afar fróðleg lesning og kannski er ekkert eitt atriði í stjórnmálasögu síðari ára sem er eins lýsandi um það hvernig menn geta skipt algjörlega um skoðun eftir því hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Meira að segja gekk hæstv. núv. fjmrh. svo langt sem óbreyttur stjórnarandstöðuþingmaður að bera fram brtt. á brtt. ofan til þess að fá í það minnsta þetta skatthlutfall lækkað niður í 0,5%. Nú þegar hæstv. ráðherra hefur hins vegar aðstöðu til þess að hrinda þessari ætlun sinni í framkvæmd verður minna úr aðgerðum.
    Síðan kemur breyting á lögum um tryggingagjald og snýr það sérstaklega að ferðaþjónustunni og er ætlað að milda áhrif þess að setja þar á virðisaukaskatt, en ég var búinn að koma að því atriði fyrr í

mínu máli. Þá komum við að breytingunum á lögum um virðisaukaskatt. Búinn er að vera mikill hringlandaháttur hjá hæstv. núv. ríkisstjórn á þessum haustdögum og ég er satt best að segja hættur að hafa tölu á þeim hringum sem þetta mál er búið að fara í meðförum hæstv. ríkisstjórnar og stjórnarflokkanna. En lausnin er fundin og felst í því m.a. að sett er nýtt skattþrep, 14% skattþrep sem í eru settir nokkrir þættir. Það hefur allt saman verið rakið og tíundað rækilega þannig að ég ætla ekki að telja það upp lið fyrir lið en ég ítreka þó það sem ég nefndi áður sem er húshitunin sem er einhver óréttlátasti skattstofn sem hægt er að hugsa sér. Það er að vísu gerð tilraun til að milda þá aðgerð og vil ég í sjálfu sér ekki draga úr því en reynsla okkar er sú að þegar búið er að koma skatti einu sinni á þá seilast fjármálaráðherrar á hverjum tíma til að reyna að afnema undanþágurnar og auka með því skatttekjur ríkissjóðs. Þetta sést kannski hvergi betur en einmitt með skattlagningu á innlendum matvörum. Það var mikið baráttumál, í það minnsta hluta Sjálfstfl., þegar virðisaukaskatturinn var tekinn upp að það yrðu tvö skattþrep og innlend matvæli yrðu í lægra þrepi. Það var illu heilli ekki gert. Hins vegar var ákveðið að þess í stað yrði hluti af innlendu matvælunum greiddur niður. Ég þóttist sjá það þá að það yrði nánast samstundis farið að ræða um þá niðurgreiðslu sem styrkveitingu til landbúnaðar. Það yrði afar erfitt að halda því inni. Sú er einnig raunin og til þess að sýna aðeins hvernig þetta hefur þróast þá get ég nefnt að í upphafi 1988 þegar skatturinn er settur á var hann 12%, þ.e. söluskattstigið sem þá var. Árið 1992, en hér er þetta reiknað út á svínakjöt, er skatturinn eftir endurgreiðsluna sem þá er, 14,75%. Á síðasta ári var síðan í fjárlagagerð höggvið í endurgreiðsluna þannig að raunskatturinn í dag er 19% og samkvæmt nýjum tillögum þá verður hann 20% á næsta ári. Þannig er reynslan af því þegar sett eru inn ákvæði til að milda skattlagningu sem þessa og mér segir svo hugur að það verði höggvið í þessar tölur á næstu árum, þ.e. þær aðgerðir sem eiga að milda áhrifin á húshitunina.
    Ég hafði áður nefnt áhrifin á ferðaþjónustuna. Þau er tvíþætt. Annars vegar það að skattleggja útflutningsgrein sérstaklega og í öðru lagi er þetta sérstakur skattur á þá sem þurfa að ferðast mikið innan lands. Það er afar stór þáttur í þessu og bendir margt til þess að þessi sérstaka skattlagning á ferðir innan lands eigi eftir að verða innanlandsflugi afar þungur biti að kyngja. Þetta getur verið dropinn sem fyllir mælinn varðandi það hvort hægt sé að halda áfram uppi áætlunarflugi á ýmsum leiðum innan lands.
    Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir nokkra þætti þessa frv. Ég sé ekki ástæðu til þess að gera það mikið ítarlegar nú. Það er full ástæða til að við fáum þetta mál sem fyrst til nefndar og getum þar kallað til ýmsa aðila til að gefa umsögn um þennan skattapakka. Mér býður í grun að niðurstaða þeirra verði mun nær úttekt minni á efnahagsráðstöfun ríkisstjórnarinnar heldur en þeirri fegruðu mynd sem hæstv. fjmrh. lýsti í lokaorðum sínum.
    Að lokum eru það nokkrar spurningar varðandi það sem kom fram í ræðu hæstv. ráðherra áðan. Það var sérstaklega eitt sem ég hjó eftir. Hann sagði að það væri stefnt að auknum framkvæmdum í vegamálum. Ég hafði ég álitið að þetta væri ákvörðun núv. hæstv. ríkisstjórnar. Sömuleiðis hafði ég álitið að það væri ákvörðun núv. hæstv. ríkisstjórnar að leggja 500 millj. í endurbætur og viðhald á opinberum mannvirkjum. Þetta eru hvort tveggja þættir sem ég hef talið afar jákvæða. Þess vegna kemur það mér mjög á óvart þegar það flýgur fyrir við lokaafgreiðslu fjárlaga að við hvorugt þetta atriði verði staðið. Það heyrist frá fjárln. að þar sé ólokið vinnu varðandi útdeilingu á þessum 500 millj. Formaður hv. fjárln. sagði í viðtali í fjölmiðlum fyrir tveimur eða þremur dögum að það væri óvíst hvort hægt væri að standa við áformin um aukið fjármagn til vegagerðar. Nú heyrist því fleygt að af þessum 1.800 millj. eigi að taka til baka allt að 1 milljarði. Nú vil ég að hæstv. fjmrh. eyði þessari óvissu og staðfesti fyrri ákvörðun ríkisstjórnar sem er út af fyrir sig eðlileg og jákvæð í því ástandi sem er núna að menn vinni fram fyrir sig í þessum verkefnaþáttum þegar lítil spenna er á vinnumarkaðinum og í raun vantar verkefni fyrir þá hópa sem þetta kæmu til með vinna.
    Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvað hann hafi fyrir sér í því að lífeyrissjóðirnir ætli að kaupa hlutabréf fyrir allt að 5% af ráðstöfunarfé sínu á næstu árum. Samkvæmt viðtölum okkar í efh.- og viðskn. við aðila vinnumarkaðarins þá var þarna einungis um að ræða óljós vilyrði stjórnarmanna í Landssamtökum lífeyrissjóða en allt er þetta háð ákvörðunum einstakra lífeyrissjóða.
    Síðan var eitt sem hæstv. ráðherra nefndi sem ég tel ástæðu til að nefna, þ.e. þegar ráðherra segir að þeir verði ekki fyrir neinum búsifjum af völdum þessa frv. sem eru undir skattleysismörkum. Þetta er rétt svo langt sem það nær en hins vegar er það alveg ljóst að þeir sem eru undir skattleysismörkum verða fyrir búsifjum af völdum efnahagsaðgerðanna. Þeir verða fyrir barðinu á verðhækkunum vegna gengisfellingar. Ef í raun hefði átt að hlífa þeim hópi sem er undir skattleysismörkum hefði orðið að hækka þau mörk, ef það hefði átt að hlífa þeim sem eru á þessu bili og mæta því síðan að öðru leyti með skatttengdum ráðstöfunum.
    Virðulegi forseti. Það væri út af fyrir sig hægt að hafa miklu lengra mál um svokallaðar efnahagsráðstafanir núv. hæstv. ríkisstjórnar. Ég sé hins vegar ekki ástæðu til þess en vil að lokum nefna að það er náttúrlega afar bagalegt að vera að fá þennan efnahagspakka í hendurnar núna svona rétt rúmri viku áður en áætlað jólafrí þingmanna á að hefjast. Það gefst ekki mikið tóm til að skoða það sem þarf að skoða í nefnd til þess að hægt sé að leiðrétta eitthvað af því sem þar kemur fram og með allri sanngirni held ég að það verði að reikna með því að ýmislegt í þessu frv. sé þess efnis að það væri full ástæða til þess að skoða málið rækilega í nefnd til að ekki takist verr til en nauðsynlegt er.