Skattamál

73. fundur
Þriðjudaginn 08. desember 1992, kl. 16:48:21 (3140)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér er ljúft og skylt að fræða hv. þingflokksformann Alþfl. sem er ungur maður og óreyndur í stjórnmálum eins og menn vita og þarf þess vegna á fræðslu að halda og man ekki hlutina. Þannig var að þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, þ.e. annað og síðan þriðja ráðuneyti hans, tók við var allmikil verðbólga í landinu. Af þeim sökum þurfti að uppreikna allar tölur, bæði prósentur og nafnupphæðir persónufrádráttar og það var jafnan gert. Það er að vísu rétt að í eftirágreiddum tekjusköttum, eins og áður voru við lýði, þurfti að hreyfa sjálfa prósentuna upp og niður vegna mismunandi verðbólgu. En á þeim tíma var persónufrádrátturinn jafnan færður upp til verðlags og það um áramót þess skattárs sem í hönd fór. Það gerðist síðan í fyrsta skipti um síðustu áramót að frá þessari reglu var horfið og upphæð persónufrádráttarins var ekki færð til verðlags komandi skattaárs. Þetta var mjög gagnrýnt. Núna sýnist mér að það eigi að fara sömu leið með persónufrádráttinn og ég spurði hæstv. fjmrh. hvað það rýrði mikið í raungildi persónufrádráttarins.
    Að vísu man ég ekki í smáatriðum hvert einstakt ár í skattlagningu í fjármálaráðherratíð hv. 8. þm. Reykn., enda veit ég að þeir eru vel málkunnugir, hv. þm. Össur Skarphéðinsson og sá ágæti þingmaður og er örugglega ljúft af hálfu hv. 8. þm. Reykn. að upplýsa hv. þm. Össur Skarphéðinsson um þetta persónulega.
    Ég er þó alveg viss um það að þó svo það kunni að vera að tekjuskattsprósentan hafi breyst og jafnvel hækkað milli ára, þá var persónufrádrátturinn í hverju tilviki færður upp til verðlags um áramót. Það getur verið að hann hafi staðið óbreyttur að raungildi. Ég þori ekki að fullyrða að svo kunni ekki að hafa verið um einhver áramót en hann var öll árin færður upp um til verðlags.