Skattamál

73. fundur
Þriðjudaginn 08. desember 1992, kl. 16:50:49 (3141)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég met það við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon að hann kemur upp og staðfestir það berum orðum að hann hefur í sinni stuttu ræðu í dag gagnrýnt hæstv. núv. fjmrh. fyrir nákvæmlega það sama sem formaður Alþb. gerði í tíð sinni sem fjmrh. Ég veit ekki hvort þingmaðurinn er viljandi með þessum hætti að draga athyglina að því að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson beitti þessum ráðum í fjármálaráðherratíð sinni. Það kann vel að vera að það sé einhver vík þarna á milli vina. E.t.v. eru þeir ekki jafn vel málkunnugir, þingmennirnir tveir og ég og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson. Hins vegar vek ég líka athygli á því að í ræðu sinni skammaðist m.a. hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon út í ríkisstjórnina fyrir þá ósvinnu að vera að vera að færa skatta á almúga landsins frá fyrirtækjum. Ég vil þess vegna líka hressa örlítið betur upp á minni hans. Sá sem varpaði þeirri hugmynd fram fyrstur þingmanna á þessum þingvetri var einmitt hæstv. fyrrv. fjmrh., Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Alþb., þar sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er varaformaður. Mér finnst þess vegna gæta töluverðs tvískinnungs í máli varaformanns Alþb. en eins og ég sagði áðan, virðulegi forseti, þá kann þetta auðvitað vel að vera bragð hjá varaformanninum til þess að draga athygli þingheims að því sem sumir Alþb. kalla ósvinnu af hálfu formannsins.