Skattamál

73. fundur
Þriðjudaginn 08. desember 1992, kl. 18:42:22 (3146)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Það sem knýr mig í þennan stól er það að ég tel að ríkisstjórnin hafi endemis rangláta stefnu í skattamálum. Það er ýmislegt athyglisvert í þessu frv. sem við fjöllum hér um og fyrst og fremst vegna þess að ill tíðindi vekja stundum meiri athygli en góð tíðindi.
    Það sem ég er ósátt við, eins og fleiri ræðumenn hér í dag, er að skattálögur og aðrar álögur eru fyrst og fremst lagðar á barnafólk, þann aldurshóp sem yfirleitt hefur ekki mikið handa á milli, og lágtekjufólk því að ég vil vekja athygli á því að hér á Íslandi eru miðlungstekjur lágtekjur. Þannig er þetta hér og það út af fyrir sig er mjög illt. Ég ætla ekki að rekja það hér hversu háar þessar álögur eru að öðru leyti en því að það munar um minna þegar upphæðum á borð við 500 millj. í fyrra og 500 millj. nú í ár í formi lækkaðra barnabóta er beinlínis velt á barnafjölskyldur. Hins vegar vil ég taka það skýrt fram að ég er ekki andvíg því að meðlag sé hækkað. Ég tel það siðferðilega rétt en það á ekki að nota tækifærið til þess að klípa af kjörum fólks sem ekki hefur nóg til skiptanna í leiðinni.
    Það vekur einnig gremju mína að það skuli svo mikið sem rætt um það að sækja að fæðingarorlofi eins og komið hefur fram í máli hæstv. heilbrrh. sem betur fer hingað til án árangurs. Ég treysti ykkur sem hingað til hafið stöðvað þetta að gera það áfram og við hin sem getum komið nálægt því máli munum ekki liggja á liði okkar.
    Það er til skattafrádráttur til ýmiss konar óþarfa enn þótt nokkuð hafi verið dregið úr honum og skýtur það skökku við á meðan ekki er hægt að draga frá raunverulegan kostnað, t.d. vegna barnagæslu. Það er þó raunverulegur kostnaður vegna atvinnusóknar. Ég viðurkenni ekki að það sé ekki samfélaginu til heilla að ala upp nýjar kynslóðir og trúi því ekki að fólk sé almennt á þeirri skoðun að það sé einhver munaður að eiga börn.
    Varðandi fyrirhugaða lækkun vaxtabóta, þá hefur þar fengist illur grunur staðfestur. Þrátt fyrir að nánast allt sem í mannlegu valdi stendur hafi verið gert til að kría út loforð um að það yrði ekki gert tókst það því miður ekki. Það er alltaf matsatriði hvernig álögur koma við fólk. Ef við værum að tala um að það væri t.d. verið að stuðla að niðurfellingu hins óréttláta virðisaukaskatts á mat eða hækkun skattleysismarka væri e.t.v. eitthvað dæmi að reikna út en hér er því miður nánast eingöngu um það að ræða að byrðar eru auknar á lágtekjufólkið. Þetta nær ekki nokkurri átt.
    Við kvennalistakonur a.m.k. erum yfirleitt spurðar hvert á að sækja tekjurnar. Við höfum jafnan svör á reiðum höndum og fáum þá gjarnan að vita að við séum of lítilþægar og þetta séu ekki svo ýkjamiklar tekjur sem hægt er að sækja þangað sem við bendum. En það er auðvitað ekki rétt því safnast þegar saman kemur og þetta eru að hluta til sömu hugmyndir og aðrir hafa haft og jafnvel talið nýtilegar. Hátekjuþrepið er eitt af þessu og ég vildi sjá það hærra. Ég vildi líka sjá stigvaxandi tekjuskatt sem þykir allt of flókinn og erfiður hér en sem ýmsar þjóðir, svo sem Norðmenn, hafa unað bara býsna vel við. Þar er ekki nokkur launþegi í vafa um hvaða skatt hann þarf að borga því til eru alls konar töflur og skemu sem er ósköp auðvelt að nýta.
    Skattlagning fjármagnstekna, þ.e. vaxtatekna, tekna sem fólk hefur beinlínis af því að eiga peninga en ekki t.d. húseignir, þarf að komast til framkvæmda og í rauninni fáránlegt að þær tekjur skuli ekki eins og aðrar tekjur vera skattlagðar. En það er meðvitað eða ómeðvitað slegið á þessa umræðu af og til með því að láta sem svo að hér eigi að fara að skattleggja allar innstæður gamals fólks sem hefur verið að spara til efri ára. Það er auðvitað slík fásinna að það þarf að leiðrétta þetta og kalla hlutina réttum nöfnum. Það er ekki verið að skattleggja innstæður heldur er verið að skattleggja þær tekjur sem menn hafa af þessum innstæðum rétt eins og aðrar tekjur sem menn hafa.
    Eignir eru skattlagðar líka þótt þær séu misarðbærar. Þetta á því ekki að vera enn einu sinni í hópi

heilagra kúa. En þessi heilagi kúahópur nær nokkuð víðar en bara að það þurfi endilega að fara að líta á skerðingu fæðingarorlofs, eins og mér heyrist að hæstv. heilbrrh. og hans nótar endilega vilji.
    Hert skattheimta er klisja sem við heyrum oft og smáklór sjáum við í þá átt. Ég er út af fyrir sig ánægð með það. Ég vil bara vekja athygli á því að þar þarf að gera afskaplega margt. Oft hefur þar verið einblínt á nótulaus viðskipti. Vissulega eru þau eitt af því sem þarf að taka á en ég vil minna á að í skýrslu um skattsvik, sem kom út fyrir nokkrum árum og var birt á þingskjali og er flestum kunnug hér geri ég ráð fyrir, kom reyndar fram að nótulaus viðskipti þykja ekki eins mikil á Íslandi og í nágrannalöndunum. Það kom mér á óvart. Ég veit ekki hvort eitthvað hafi breyst síðan. En þetta segir bara að við þurfum að sækja víðar og m.a. nota þá ágætu reikniaðferð sem heitir heilbrigð skynsemi og líta beinlínis á það að ef eyðsla og neysla er mikil og eignir eru miklar, þá geta menn ekki verið með vinnukonuútsvarið fræga. En þetta viðgengst og virðist engum böndum vera hægt að koma á þá ómaga á framfæri milli- og lágtekjufólks sem þetta stunda.
    Ég vil benda á eitt enn, þ.e. lúxusskatta, hærra virðisaukaskattsþrep á óþarfa sem að hluta til gæti komið á móts við niðurfellingu á skatti á nauðþurftum.
    Ég ætla ekki að hafa mörg orð um skattlagningu fyrirtækja. Við erum ekki hér og nú að fjalla um niðurfellingu aðstöðugjalds, en ég vil þó benda á að tekin hefur verið ákvörðun um að framkvæma fyrst og finna síðar leiðir til að leysa þau fjölmörgu og flóknu vandamál sem upp koma í kjölfar þessarar kerfisbreytingar. Þetta finnst mér ekki forsjálni.
    Hitt er verra að hvorki niðurfelling aðstöðugjalds né sú tekjuskattslækkun á fyrirtæki sem lögð er til að verði í tveimur áföngum með þessu frv. gagnast þeim fyrirtækjum sem helst þurfa á að halda svo neinu nemi. Ég er ekki að gera lítið úr því sem gerist, heldur er ég að benda á það að þau fjölmörgu sjávarútvegsfyrirtæki sem standa illa eftir allt of langa hávaxtatíð núv. ríkisstjórnar njóta ekki góðs af þessu í sama mæli og mörg önnur fyrirtæki. Þessi fyrirtæki hafa mörg hver verið að glíma bæði við kvótaskerðingu og aflabrest og það út af fyrir sig hefur veikt stöðu þeirra og nú í allra seinustu tíð glíma þau einnig við nokkra verðlækkun á mörkuðum. Þarna er ekki einungis verið að tala um allra verst settu fyrirtækin sem fátt getur bjargað, heldur líka fyrirtæki sem eru í einhverjum meðalkanti og njóta ekki góðs af þeim kerfisbreytingum sem verið er að gera, þ.e. eru ekki nógu stöndug til að greiða tekjuskatt svo neinu nemi. Lækkun tekjuskatts nýtist ekki þessum fyrirtækjum en þau þurfa á aðgerðum að halda, einhverju meira en 6% gengisfellingu.
    Gengisfellingin út af fyrir sig er tvíbent, jafnvel þótt maður líti bara út frá eigingjörnum hagsmunum þessara fyrirtækja en forsvarsmenn margra þeirra hafa reyndar krafist gengisfellingar. Jafnvel þótt maður líti bara á málin út frá sjónarmiði þessara fyrirtækja þá dugar þessi gengisfelling ekki, tekjuskattslækkunin nýtist ekki sem skyldi og aðstöðugjaldið er, eins og menn vita mætavel, lægra á sjávarútvegsfyrirtækjum en mörgum öðrum. Hér erum við því enn að tala um að aðgerðirnar nýtast ekki þeim sem kannski sárast þurfa á þeim að halda. Þetta tel ég vera íhugunarefni og býsna alvarlegt mál þar sem nú er verið að hreyfa til og reyna að jafna aðstöðu fyrirtækja því við erum afskaplega háð sjávarútvegsfyrirtækjunum og við megum ekki gleyma því.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta því ég tel að nú fari í hönd vinna við þessi mál í nefnd. Hins vegar tel ég nauðsynlegt að þetta komi fram. Ég vil líka geta þess að það ætti ekki að fara fram hjá nokkrum manni að í samfélaginu er mjög skýr krafa um jöfnun lífskjara á sama tíma og það dregur sundur með þeim lægst launuðu eða jafnvel atvinnulausu og bótaþegum og hinum. Þetta gerist þrátt fyrir að þrengist í ári. Ég ætla ekki að fara að blanda mér í umræðuna um jöfnun upp á við þar sem ég hef ekki lesið grein hv. þm. Árna Johnsens í Morgunblaðinu í dag svo ítarlega en ef það er eitthvað sem ætti að jafna upp á við þá eru það lífskjör.
    Nú það kom glöggt fram í sumar er reiðibylgja reis vegna hækkana til þeirra hópa sem Kjaradómur úrskurðar um að krafan um jöfnun lífskjara er mjög alvarleg. Þótt ég telji reyndar að sú reiði hafi ekki beinst að öllu leyti að raunverulegum hátekjuhópum þá tel ég samt sem áður að þau skilaboð séu alvarleg og við þurfum að taka þau alvarlega. Hins vegar er það náttúrlega nöturlegt að núna þegar settur er á hátekjuskattur ná stórir hlutar þessa hóps ekki einu sinni að vera skilgreindir sem hátekjumenn samkvæmt þeirri skilgreiningu. Ég tek þetta dæmi hins vegar til að sýna fram á að það kraumar og sýður í þjóðfélaginu og það getur soðið upp úr og það gerði það í sumar. Ég held að stjórnvöld verði að skilja að það verður að koma til einhvers konar lífskjarajöfnun, það verður að koma til einhvers konar launajöfnun og það þýðir ekki að taka þá jöfnun niður á við.
    Ég gluggaði í grein um daginn í blaði, sem mig minnir að hafi verið byggð á Spiegel, þar sem verið var að fjalla um launabilið annars vegar í Þýskalandi og hins vegar í Bandaríkjunum og Bretlandi. Þar var sérstaklega verið að tala um að vaxandi launabil væri í þessum engilsaxnesku löndum og spáð í það hver þróunin gæti orðið í Mið-Evrópu ef sama þróun yrði þar. Ég gæti trúað að hún væri þegar hafin. Ég held að þetta sé mál sem við verðum sérstaklega að gefa gaum að. Ég vil vekja athygli á því að láglaunahópurinn er samsettur úr fólki sem við kvennalistakonur höfum sérstaklega látið okkur varða en það eru einmitt konurnar. Þær fylla þessa láglaunahópa.
    Varðandi upptöku virðisaukaskatts á íslenskum bókum þá tek ég undir að við þolum ekki að sjá bæði vegið að menningu okkar og horfa e.t.v. á prentun bóka og blaða hverfa út fyrir landsteinana. Við

þolum heldur ekki að leggja vaxandi álögur á ferðaþjónustuna. Það er sama hvað hver segir. Það er verið að setja þyngri byrðar á ferðaþjónustuna með því að leggja virðisaukaskatt samkvæmt þessu frv. á þá hluta sem ekki hafa fram til þessa þurft að greiða virðisaukaskatt. Endurgreiðsla innskattsins nýtist ekki nema sumum.
    Varðandi húshitunina þá trúi ég því að viðbrögð sem við munum fá á næstunni muni e.t.v. vera skýrustu skilaboðin um þau mál. Ég hef ekki nokkra trú á að þetta muni verða látið átölulaust.
    Ég ætla ekki að koma miklu víðar við þótt full ástæða væri til. Þetta eru þau atriði sem mér hefur ekki fundist vera lögð mikil áhersla á í umræðunni í dag. Að hluta til eru þetta mikilvægustu málin í þessari umræðu. En ég endurtek að hér er farin mjög vond leið og hér er verið að leggja byrðarnar á bök sem eru við það að brotna en ekki á breið og stöndug bök fólks sem hefur þegar allt sitt á þurru, hefur komið börnunum upp og borgað af húsunum sínum og er með góðar tekjur og fjármagnstekjur og eitt og annað slíkt. Þetta fólk er aflögufært en það er ekki kallað til ábyrgðar heldur hinir sem ekki geta meira.