Skattamál

73. fundur
Þriðjudaginn 08. desember 1992, kl. 19:14:09 (3148)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Ég ætla að gera tilraun til að svara sumu af því sem fram hefur komið og vona að mér verði virt það til vorkunnar þótt ég fari mjög hratt yfir sögu og ugglaust sleppi ég ýmsu af því sem til mín hefur verið beint.
    Í fyrsta lagi hafa menn rætt heilmikið um skattamál og skattahækkanir. Í því sambandi held ég að sé afar nauðsynlegt að menn líti á skattahækkanir og skattalækkanir allar saman að meðtöldu aðstöðugjaldinu. Samkvæmt nýjustu heimildum sem við höfum og samlagningu um þessi mál sýnist mér að útkoman teknamegin í fjárlagafrv. verði heldur lægri eftir að efnahagsaðgerðirnar heldur en gert var ráð fyrir í sjálfu fjárlagafrv., líklega um 500 millj. eða svo. Og ef við lítum á tölur, þ.e. um það bil 104,8 milljarðar í frv., áætlanir fyrir yfirstandandi ár voru 103 milljarðar en við gerum ráð fyrir því núna að talan sem um sé að ræða sé einhvers staðar um 104,3 milljarðar. Þess skal getið að hluti af skýringunni, og það getur blekkt einhverja, er að það er um veltusamdrátt að ræða í þjóðfélaginu þannig að ugglaust er um einhverja hækkun að ræða þegar reiknað er sem hlutfall af landsframleiðslu sem er fallandi. En vegna þess að veltusamdrátturinn er það mikill, innflutningurinn minnkar, þá verða tekjur fólks lægri og þar af leiðandi tekjur ríkissjóðs jafnframt þannig að á föstu verðlagi má gera ráð fyrir að tekjurnar séu litlu hærri á næsta ári en reiknað var með á yfirstandandi ári. Nú ber að taka það fram enn fremur að tekjurnar á yfirstandandi ári urðu heldur lægri en til stóð. Þetta vil ég að komi fram vegna þess að það má ekki alltaf horfa eingöngu á útgjöldin og hvað þau hækka. Það sem hefur verið vandamál okkar í ár og verður á næsta ári er að tekjurnar fara lækkandi í raun, þ.e. á föstu verðlagi.
    Það kom fram spurning frá hv. þm. Jóhannesi Geir um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Því miður er

ég kannski ekki sá sem er best til þess fallinn að svara því hvenær frv. komi fram og hver útfærslan verður. Það hefur verið stefnt að því að leggja fram frv. fyrir jól. Ég get ekki svarað því hér og nú hvort það verður gert. Þetta mál er flókið og margþætt. Ég bendi á að hugmyndin er að þessir sjóðir taki m.a. yfir ýmsar skuldbindingar sem eru í Atvinnutryggingarsjóði og Hlutafjársjóði. Það hefur verið rætt um það að ríkið láti í té með einum eða öðrum hætti 4 milljarða og þar þarf auðvitað að átta sig á því hvernig á að greiða og með hvaða kjörum á að greiða þróunargjaldið sem er kannski arftaki fjármunanna sem gengu til Hafrannsóknastofnunar. Þetta þarf að skoða. Ekki síst frá sjónarhóli fjmrh. hlýtur það að vera áhyggjuefni að sjóðunum er ætlað að vera í eigu ríkisins. Og ég nefni það sérstaklega hér af því að ég ræddi það í minni framsöguræðu hversu hættulegt það er að sjóðirnir allir, sem eiga að vera undir stjórn jafnvel þeirra sem eru úti í atvinnulífinu eða jafnvel heyra ekki undir ríkisstjórnina, eru í eigu ríkisins og geta tekið á sig alls kyns skuldbindingar sem auðvitað síðar meir kunna að velta yfir á ríkissjóð. Þetta eru atriði sem verður að kanna mjög rækilega og ég skal viðurkenna að fjmrh. hefur viljað skoða suma þessa þætti ákaflega vel áður en hægt er að afgreiða málið úr ríkisstjórninni. Það þýðir ekki að það sé efnislegur ágreiningur um gildi sjóðsins og hlutverk hans.
    Aðeins um ferðamálin sem margir nefndu, þá er ekki saman að jafna því sem hér er að gerast og í Svíþjóð þar sem fullur virðisaukaskattur kom á ferðamálin og á leigubílana líka. Hér eru leigubílarnir líka undanskildir en hér hafa verið gerðar ráðstafanir til viðbótar eins og fram kom hjá hv. þm. Jóhannesi Geir, þ.e. að tryggingagjaldið er lækkað úr 6% í 2,5% og innskatturinn verður frádráttarbær og loks hefur gengisfellingin auðvitað þýðingu fyrir þessa atvinnugrein, a.m.k. að því marki sem er verið að selja á íslensku verði og þar af leiðandi er lækkun í erlendri gjaldmynt en það er auðvitað ekki alveg einhlítt.
    Ég ætla ekki að deila við hv. þm. um það að auðveldara sé að stjórna í erfiðu árferði en góðu en ég minni á að árferðið núna í ríkisfjármálunum er m.a. slæmt vegna uppsafnaðra erfiðleika frá góðærinu eins og ég ræddi mjög mikið í minni framsöguræðu. Einmitt á bestu árunum söfnuðust upp stærstu skuldirnar og það er athyglisvert að ríkið þarf að greiða á næsta ári yfir 10 milljarða eingöngu í vexti en fær sáralitla vexti sjálft. ( Gripið fram í: Góðærið var 1983--1988.) Ég er ekki að nefna nein ártöl af því að ég held að hv. þm. séu allir sammála um þetta og það eru allir stjórnmálaflokkar nema Kvennalistinn sem hafa komið að ríkisstjórn á þessu tímabili.
    Það var spurt um fjármagnstekjuskatt. Fjármagnstekjuskattur er á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar Það hefur ekkert breyst þó ekki sé hann tekinn upp núna. Það hefur hins vegar aldrei staðið til að sá skattur bætti í ríkissjóð heldur yrði hann notaður fyrst og fremst til þess að fella niður eða lækka tekjuskattinn. Það má auðvitað spyrja af hverju þessu hafi ekki verið breytt núna og það er vegna þess að menn óttuðust að það mundi lenda á sparnaðinum. Og það má auðvitað spyrja: Af hverju var þessu ekki breytt miklu fyrr?
    Það er bara eitt atriði sem mig langar til að minnast varðandi aðstöðugjaldið og bið hv. þm. að gleyma ekki --- og það má ekki bera saman tekjuskattshækkunina annars vegar og aðstöðugjaldsniðurfærsluna hins vegar. Þetta eru tvær alveg ólíkar stærðir. Hækkun tekjuskattsins um 1,5% gefur ekki nema 2,8 milljarða á meðan aðstöðugjaldið er yfir 4 milljarðar þannig að mér heyrðist sumir kannski ekki alveg vera klárir á þessu. Um landsútsvarið er það að segja að það var samningur á milli ríkisins og sveitarfélaganna að þau misstu ekki spón úr aski Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Ég get alveg fallist á þær röksemdir að betra hefði verið að fella niður landsútsvarið, a.m.k. af einkafyrirtækjunum, jafnvel af ríkisfyrirtækjunum en ég get ekki fallist á að ríkissjóður eigi að borga þann brúsa. Það verður þá einhver annar að greiða. Hugsanlega eins og sumir hafa bent á hefðu sveitarfélögin átt að leggja meira í þetta púkk.
    Varðandi virðisaukaskatt á hitaveitur vil ég aðeins taka eitt fram vegna umræðna sem hér fóru fram, ekki hjá einum heldur fleiri hv. þm. Það er munur á þessu kerfi og niðurgreiðslukerfinu á svínakjöti, nautakjöti, eggjum o.s.frv. Munurinn er sá að við förum sömu leiðina og gert var við lambakjöt, mjólk og fisk. Þetta eru endurgreiðslur innan virðisaukaskattskerfisins en ekki niðurgreiðslur utan kerfisins. Ein af ástæðunum fyrir því að þetta var gert með þessum hætti er að þetta er tryggari endurgreiðsla, það er öruggara innan kerfisins að ekki verði gengið á rétt þeirra sem njóta greiðslunnar. Þetta vil ég taka skýrt fram og þetta geta menn séð þegar þeir bera saman þróunina annars vegar í hvíta kjötinu og hins vegar í hinum hlutanum sem er innan virðisaukaskattskerfisins.
    Ég ætla að fara fljótt yfir sögu. Það var minnst á lífeyrissjóðina. Það var rétt að við töluðum við forustumenn þeirra og auðvitað er það svo þegar rætt er um forustumenn lífeyrissjóðanna að það eru ekki þeir sem ráða öllu, en það kom fram hjá þeim að þetta væri stefna þeirra sjóða og hlutafjárkaupin og frádrátturinn þeirra vegna skiptir engu máli fyrir lífeyrissjóðina því að þeir borga enga skatta hvort sem er og það skiptir engu máli hvort þeir fá skattafslátt þess vegna. Ég bið bara hv. þm. að átta sig á því að skattafslátturinn hefur enga þýðingu fyrir lífeyrissjóðina.
    Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom með ýmis sjónarmið og spurði að því sem rétt er að svara hvort það væri stefna að fara þessa leið í skattamálunum eða hvort þetta væri nánast gert óvart og ég skal svara því. Stefna ríkisstjórnarinnar er eins og stefna ríkisstjórna í nágrannalöndunum að draga úr svokölluðum kerfisbundnum halla sem er halli sem byggir á því að um lögbundnar niðurgreiðslur sé að ræða og tilfærslur, bæði gjalda- og teknamegin á fjárlögum ríkisins. Með öðrum orðum að draga úr afslætti teknamegin og draga úr niðurgreiðslum gjaldamegin. Þetta er gert vegna þess að það er talið skynsamlegt að gera þetta ekki síst þegar menn þurfa að draga úr kostnaði ríkissjóðs. Síðan er auðvitað hugmyndin sú að með

þessu sé reynt að beina fjármunum frekar í atvinnuleysistryggingakerfið vegna þess að áherslurnar hafa breyst þar sem atvinna fólksins er í mikilli hættu. Það er hins vegar rétt sem hefur komið fram hjá mörgum hv. þm. að við erum komnir ansi langt í okkar skattkerfi, kannski út á ystu nöf í neyslusköttum, þ.e. ef við tökum virðisaukaskattinn og vörugjöldin saman í eina heild þá hygg ég að Íslendingar séu eina hæstir í neyslusköttum a.m.k. í löndum hér í kringum okkur. Hins vegar eru tekjuskattar ekki mjög háir og skattar á fyrirtæki eru nú eftir þessa breytingu með þeim lægri og greiðslur fyrirtækja í ríkissjóð eru líklega einar þær lægstu sem þekkjast núna í okkar nágranna- og viðskiptalöndum, enda var tilgangur aðgerðanna að styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækjanna.
    Það er rétt sem margir hafa bent á að það vantar fylgiskjöl með sjálfu frv. Úr því verður bætt í nefndinni. Ég hef beðið embættismenn fjmrn. og reyndar finnst mér eðlilegt að það sé náð í fleiri embættismenn heldur en þess ráðuneytis til að fara gaumgæfilegan ofan í þetta til að menn sjái alveg hvað er að gerast í þessum málum. Það er engin ástæða til þess að fela eitt eða neitt. Það er vitað að verið er að flytja gífurlega skattbyrði af fyrirtækjum yfir á almenning.
    Ég ætla ekki að ræða hér um húsbréfakerfið og fleira sem á var minnst eða sem kom fram hjá hv. þm. eða deila við hann um matarskatt en hann lét líta svo út sem Alþb. hefði hvergi nálægt þeim málum komið. Við sem fylgdumst með því þegar Alþb. tók þátt í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar haustið 1988 vitum annað. Þá bar ekki mikið á því að matarskatturinn yrði aflagður og enn síður gerðist það þegar Borgaraflokkurinn sem hafði haft þetta mál á sinni stefnuskrá, nánast eina málið á stefnuskránni, fór inn í ríkisstjórnina nokkru síðar.
    Ég get því miður ekki svarað fyrirspurn sem kom frá hv. þm. og varðaði ferðaþjónustuna. Ég verð að sleppa því, ég man ekki hverjir eru í þessari nefnd. Hann spurði um hver væri höfundur texta sem fylgir frv. Ég veit það satt að segja ekki heldur en allt sem þar er skrifað er skrifað á ábyrgð ráðherrans, enda les hann textann yfir og hann verður texti ráðherrans um leið og hann er kominn í frv. Þetta verða menn að una við og ég man eftir á sínum tíma þegar hv. þm. Steingrímur Hermannsson var landbrh. þá kom ansi skondinn texti sem hann hlaut auðvitað að bera ábyrgð á og varðaði einhverja skýrslu um landbúnað, en sú skýrsla var höfð í flimtingum árum saman í blöðum.
    Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom með dæmi þar sem hann benti á að fjölskylda sem hefði 200 þús. kr. mánaðartekjur, ætti þrjú börn, eitt undir sjö ára aldri færi mjög illa út úr þessum aðgerðum. Hann taldi til að mynda að vaxtabætur og barnabætur mundu lækka frá 55 upp í 70 þús. kr. Það vill svo til að við eigum þetta dæmi og talan er 48 þús. kr. En það gleymist stundum þegar verið er að ræða um þetta að það verður að bæta vaxtabótunum og barnabótunum við tekjur viðkomandi en ekki að draga þetta frá tekjunum eins og þær standa frá launagreiðendum því að bætur eru auðvitað hluti tekna fólksins þannig að rauntekjur viðkomandi aðila eru meiri heldur en 200 þús. á mánuði brúttó þegar á eftir að taka tekjuskattinn frá. Um hina þættina get ég ekki sagt en ég tel að þeir séu heldur í hærri kantinum, enda viðurkenndi hv. þm. það.
    Það er ugglaust rétt sem hv. þm. segir að sá sem hér stendur verður skattakóngur aldarinnar, ef menn telja aðstöðugjaldið með og telja það til skatta ríkisins sem menn geta leikið sér að að gera og ég held svo sem að sú kóróna fari mér ágætlega og skal ekkert víkjast undan að bera hana. En ég ætla að minna á annað. Það hefur ekki hina minnstu þýðingu, eins og ég hef margoft sagt, að mæla menn í því hvort þeir eru skattakóngar eða ekki. Það sem skiptir nefnilega máli er hverjir eru útgjaldakóngarnir því að ef útgjöldin fara langt umfram tekjur, þá er verið að búa til skatta þó það séu ekki skattar samtímans, þá verða það skattar framtíðarinnar. Þess vegna ættu fjölmiðlarnir kannski stundum að snúa sér að því að kanna hverjir eru útgjaldakóngarnir í ríkisfjármálunum því að það eru þeir sem leggja grunn að skattheimtu framtíðarinnar. Ég hefði ekki þurft að bera þann kross eða aðrir fjármálaráðherrar, 10 milljarða í vexti, sem ríkið þarf að borga ef allir hefðu hingað til rekið ríkið hallalaust, en því miður er það ekki svo.
    Hv. þm Kristín Ástgeirsdóttir ræddi um ýmis efni. Sumu af því hef ég svarað, annað var náttúrlega hennar álit. Hún minntist sem stundum áður á svokallaða lúxusskatta. Ég hef aldrei áttað mig alveg á því hvað lúxusskattar eru. Ég hef heyrt það stundum og ég ræddi fyrir ári síðan við hv. þm. um það t.d. hvort það væru lúxusskattar að leggja hærri gjöld á varaliti og vellyktandi og hvað þetta heitir allt saman. Ég man eftir því einu sinni rétt fyrir kosningar að ég kom á vinnustað þar sem fullt var af ungum konum. Ég viðhafði einhver ógætileg orð og fékk á baukinn og þá var sagt: Ef það á að fara að kalla þetta lúxus eruð þið að mismuna á milli karla og kvenna, leggja sérstakan skatt á konur, sem vilja líta þokkalega út, jafnvel þótt þær hafi lægri laun en karlar í vinnunni. Ég sá auðvitað að þetta var eitthvað sem ég gat ekki mótmælt. Það er því stundum erfitt að finna lúxusinn. Ég bendi á að það getur meira að segja verið kynbundið. Menn segja: Það er lúxus að ganga í fínum fötum og líta vel út eins og hinir ágætu forsetar þingsins hafa sem betur fer gert. Er þetta lúxus? Nei, segja margar konur. Þetta er bara herkostnaður fyrir konur. --- Þetta er nú heldur óheppilegt orðalag. Það sem ætlunin var að segja er að það getur mismunað fólki. Sumir kalla þetta lúxus og aðrir ekki og skal ég ekki hafa fleiri orð um það. Ég sé það nú og það er eiginlega sögulegt að það eru fleiri konur í salnum en karlar. Þessi ræða átti kannski erindi þess vegna líka.
    Hv. þm. Finnur Ingólfsson kom hér að máli sem reyndar hv. þm. Steingrímur Sigfússon gerði jafnframt. Það voru skattleysismörkin. Það er hárrétt, þegar prósentan hækkar lækka skattleysismörkin af því

að persónuafslátturinn er fastur í krónutölu en prósentan er lögð á allar tekjurnar og síðan kemur hitt til frádráttar. Ég hef ekki nákvæma tölu yfir þetta en svona er þetta í raun og það er reiknað með tekjum af því. Ég vil að það komi skýrt fram og jafnframt vil ég segja að það er ekki ætlunin að hækka þessi skattleysismörk. Þau hækka eftir reglum sem forveri minn bjó til og við höfum slegið lauslega á það að skattleysismörkin hækki ekki, persónuafslátturinn hækkar ekki núna um áramótin. Hins vegar er nokkuð ljóst að skattleysismörkin munu breytast á miðju næsta ári því að í þeirri hækkun er miðað við lánskjaravísitölu og það má búast við því að hún fari heldur af stað miðað við það sem hefur gerst undanfarið þar sem verðbólgan fer af stað næstu mánuðina. Þá kemur að því að persónuafslátturinn hækkar á miðju næsta ári eða 1. júlí.
    Þetta vildi ég að kæmi alveg skýrt fram og það má kannski spyrja: Hvernig stendur á því að ríkisstjórnin gerir þetta með þessum hætti, hvernig stendur á því að ríkisstjórnin virðir ekki ráðgjöf Húsnæðisstofnunar o.s.frv. Ráðgjafar Húsnæðisstofnunar verða auðvitað að veita ráðgjöf rétt eins og ráðgjafar bankanna miðað við þá stöðu sem málin eru í á ákveðnu tilteknu augnabliki. Það getur enginn sagt hverjar tekjur manna verða kannski árið eftir. Við skulum átta okkur á því. Það sem skiptir máli er að átta sig á að hér er verið að vernda þann hóp manna sem er að missa atvinnuna. Allar þessar aðgerðir stuðla að því að reyna að koma í veg fyrir það að fólki á atvinnuleysisskrá fjölgi og það fólk hefur engar tekjur. Þar er ekki spurning um miðlungstekjur, hátekjur eða lágtekjur. Þar er spurning um það hvort fólk hafi tekjur eða engar tekjur. Það er það sem skiptir máli í þessari umræðu að mínu mati.
    Hv. þm. Páll Pétursson flutti einhverja lengstu ræðu sem ég hef heyrt hann flytja og jafnframt þá bestu enda las hann mest upp úr ræðum þingmanna Sjálfstfl. og kann ég honum bestu þakkir fyrir það. Það var ekki mikið af spurningum frá hv. þm. Það minnti mig á það að hann var líklega að leika mýsnar á meðan kettirnir voru úti því að bæði formaður og varaformaður flokksins eru í útlöndum. Nú er þetta skemmtilegur tími fyrir hv. þm. Hans er ekki bara ríkið heldur líka mátturinn og dýrðin.
    Það var þó komið að einu atriði eða tveim sem mér finnst ástæða til að nefna úr hans ræðu. Það var í fyrsta lagi um skattahækkanir og þjónustugjöld. Ég vil enn einu sinni segja að á þessu tvennu er mikill munur. Þjónustugjöld eru t.d. strætisvagnafargjöld í Reykjavík. Það er ljóst að Reykjavíkurborg borgar heilmikið með strætisvögnum. Sá sem ferðast með strætisvagni borgar ekki raunkostnað. Ef maður hækkar strætisvagnagjöld er maður að hækka skatta. Nei, segi ég. Við erum að hækka þjónustugjöld. Það sama á við um sundlaugar o.s.frv. Það er því ekki rétt að segja að þegar fólk er að greiða fyrir tiltekinn hlut sem það nýtur sé það að borga skatta. Maður er að borga hlutfall af kostnaði. Hins vegar ræður sá sem borgar skatta ekki hvað er gert við þá fjármuni sem renna í ríkissjóð og síðan út eftir öðrum reglum. Á því er þess vegna talsverður munur hvort um þjónustugjöld er að ræða eða skatta.
    Varðandi aðstöðugjaldsinnheimtuna var þetta samningur við sveitarfélögin að fara svona að miða við 80%. Hins vegar voru lagðar til hliðar 120 millj. kr. sem eiga að koma þeim til góða sem hafa haft meiri og betri innheimtu á undanförnum árum.
    Varðandi það sem kom fram hjá hv. þm. Önnu Ólafsdóttur Björnsson um lækkun tekjuskattsins, að það væri ekki aðgerð sem fyrirtæki gætu nýtt sem ekki borguðu tekjuskatt, þá liggur það náttúrlega alveg í augum uppi. Við verðum að líta á að það á ekki alltaf hugsa um gömlu skuldugu fyrirtækin sem koma aldrei til með að borga tekjuskatta. Við verðum líka að líta til nýrra fyrirtækja, til nýfjárfestinga og freista þess að þau fyrirtæki sem græða, sem betur fer eru til, leggi fjármuni í nýja fjárfestingu og útlendingar sem hafa lánað okkur peningasummur á undanförnum árum séu jafnvel tilbúnir líka til þess að koma hingað og leggja í fjárfestingu. Til þess er leikurinn gerður, þess vegna er verið að lækka þetta hlutfall.
    Loks kem ég að hv. þm. Kristni Gunnarssyni sem rifjaði m.a. upp tvö nál., fyrst nefndarálit skattsvikanefndar og ég þakka honum fyrir þau góðu orð sem hann sagði þá. Ég held að það sé vel til skoðunar að koma með það mál inn í þingið í einhverju formi á sínum tíma. Um skýrslu húshitunarnefndar get ég lítið sagt annað en það að við Pálmi höfum fyrirvara í þessari skýrslu. Ég mótmæli því ekki að það sem þar var gert og sú vinna sem þar fór fram hefur að sjálfsögðu verulega þýðingu og hefur það áfram þrátt fyrir það að virðisaukaskattur hafi verið lagður á húshitun eins og nú hefur verið ákveðið í frv. og nær væntanlega fram.
    Virðulegi forseti. Ég vona að ég hafi svarað flestu af því sem fram hefur komið. Auðvitað veit ég að margt hefur fram hjá mér farið. Ég vil að endingu einungis leggja enn einu sinni áherslu á að það er hárrétt að skattarnir leggjast nú með meiri þunga á almenning og heimili en áður, á þá sem borga skatta. Og skattarnir verða minni af fyrirtækjunum. En ég bið alla hv. þm. og aðra sem hugsanlega hlýða á mitt mál að taka það til athugunar að þetta er gert til þess að koma í veg fyrir að hér á landi gerist það sem gerst hefur í nágrannalöndunum, að þeim fjölgi sem eiga engan kost á því að velja um það hvort þeir hafi háar eða lágar tekjur heldur verði að sitja við það borð að hafa engar tekjur. Það viljum við koma í veg fyrir og þess vegna er þetta frv. m.a. flutt.