Skattamál

73. fundur
Þriðjudaginn 08. desember 1992, kl. 19:45:55 (3155)

     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Ég vona að hæstv. fjmrh. hafi tekið eftir því að ég hef einstöku sinnum tekið hér til máls þó að hv. 7. þm. Reykn. og hv. 1. þm. Austurl. væru báðir viðstaddir. Illu heilli eru þeir báðir erlendis núna og það er rétt hjá ráðherranum, hann hefur tekið eftir því enda skarpur maður. Ég er hins vegar alveg viss um það að ef hv. 1. þm. Austurl. hefði verið hér í dag hefði hann tekið til máls og rifið þetta skattafrumvarp niður. Ég segi eins og skáldið: ,,Atburð sé ég anda mínum nær.`` Hann gerir þetta sjálfsagt við 2. umr.
    Hæstv. fjmrh. sagði að þjónustugjöld væru ekki skattar. Þetta er ekki rétt hjá honum. Þjónustugjöld eru í flestum tilfellu skattar. Það er verið að velta kostnaði sem greiddur hefur verið úr sameiginlegum sjóðum yfir á einstaklinga. Það eru ekkert annað en skattahækkanir. Fjmrh. vildi ekki fjalla um loforð Sjálfstfl. fyrir síðustu kosningar og efndir þeirra eða vanefndir og ég skil hann vel. Hann sagði að fjármagnstekjuskatturinn væri þó enn á stefnuskrá en það var hann líka í fyrra og hann er ekkert nær núna en hann var í fyrra. Ég ætla að enda með því, frú forseti, að kenna hæstv. fjmrh. eina vísu. Það er húsgangur. Hún er ekki eftir mig og hún er ekki um hann en hún er svona:

        Öll hans loforð eru svik,
        allt hans tal er þvaður.
        Honum þykir hægra um vik
        að heita en vera maður.