Skattamál

73. fundur
Þriðjudaginn 08. desember 1992, kl. 19:52:24 (3161)


     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er kannski synd að slíta þessari umræðu núna loksins þegar skilningur er að verða á málflutningi okkar stjórnarandstæðinga, sumra hverra alla vega. Ég fagna því að hæstv. fjmrh. vill taka peninginn þar sem hann er. Hann hefur hins vegar ekki horfið frá því að taka hann líka þar sem lítið er til skiptanna og það er öllu verra.
    Ég vil benda á það varðandi lækkun tekjuskatts að ég er alveg sammála honum um að það verður að hugsa um ný fyrirtæki. Þarna verður einungis lækkun á tekjuskatti hjá fyrirtækjum því um annað er ekki að ræða.

    Aftur á móti eru gömul fyrirtæki sem berjast í bökkum og mundu kannski ekki gera það ef aðstæður væru öðruvísi. Þar eru sjávarútvegsfyrirtæki sem eiga tilverurétt og það verður að hugsa um þau. Svo vil ég bara benda á að það er matarhola þar sem gömul og stöndug fyrirtæki eru.