Skattamál

73. fundur
Þriðjudaginn 08. desember 1992, kl. 20:00:39 (3169)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég heyrði þessa gagnrýni hv. þm. en ég vil segja að það var undirstöðuatriði og kom m.a. fram í hugmyndum Alþýðusambandsins að færa þessa skattbyrði af fyrirtækjum á fólk.
    Í blaði Vinnuveitendasambandsins, Af vettvangi, sem gefið er út í þessum mánuði segir hins vegar að afnám aðstöðugjaldsins þurfi að skila sér í lægra verðlagi. Hér eru sem sagt boð um það úr röðum Vinnuveitendasambandsins í Garðastræti til sinna félagsmanna að láta það koma fram í verki að afnám aðstöðugjaldsins skili sér í lægra vöruverði. Við vonumst til þess að það gangi eftir.