Afgreiðsla fjárlagafrumvarps

74. fundur
Miðvikudaginn 09. desember 1992, kl. 13:40:57 (3175)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég kveð mér hér hljóðs til að spyrja eftir því hvað líði framlagningu frumvarpa um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Ég spyr, virðulegi forseti, að gefnu tilefni því að það kom í ljós í nefndastörfum í efh.- og viðskn. í morgun að það er ekki hægt að halda áfram vinnu við lánsfjárlög fyrir 1993 án þess að þessi gögn liggi fyrir. Þar er inni heimild til atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar um lántöku upp á annan milljarð en samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar á að flytja þessa stofnun yfir í hinn nýja sjóð. Einnig hafa verið uppi hugmyndir um allt að 4 milljarða kr. nýja lántöku á næsta ári vegna sjóðsins. Þess vegna spyr ég, virðulegi forseti: Hvað líður framlagningu þeirra frv. því að það er alveg ljóst að ekki verður haldið áfram vinnu við lánsfjárlög fyrr en fylgifrumvörp þessa óskabarns hæstv. utanrrh. eru komin fram.
    Í öðru lagi vil ég ítreka hér það sem fram kom í andsvörum við hæstv. fjmrh. í gærkvöldi að það virðist allt vera í vindinum með þær skrautfjaðrir ríkisstjórnarinnar sem fólust í auknu fjármagni til endurbóta á opinberum byggingum og viðbótarfjármagni til Vegagerðar. Aðspurður sagði hæstv. fjmrh. í gærkvöldi að fyrir sér væri ekkert heilagt til þess að ná niður ríkissjóðshallanum og þessi atriði ekki frekar en önnur. Það yrði tekið upp milli umræðna ef á þyrfti að halda.