Afgreiðsla fjárlagafrumvarps

74. fundur
Miðvikudaginn 09. desember 1992, kl. 13:49:03 (3180)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ef það er svo að ríkisstjórnin verði tilbúin með mál sín þannig að 2. umr. fjárlaga geti farið fram á morgun þá er vel því að auðvitað er það forgangsverkefni okkar að ganga frá fjárlögunum fyrir jól og það er í allra þágu. En ég vil gera athugasemd við þá tilkynningu sem forseti kom með af forsetastóli í upphafi fundar þar sem hún var að boða fund bæði milli 6 og 7 og eins kvöldfund. Ég kann hálfilla við að það sé verið að boða þingfundi á hefðbundnum fundatíma þingflokka án þess að hafa samráð um það við þingflokksformenn og þar á ofan að boða til kvöldfundar án þess að hafa um það samráð við þingflokksformenn, sérstaklega með tilliti til þess ef 2. umr. um fjárlög fer fram á morgun þá þarf að sjálfsögðu að hafa þá kvöldfund. Það var búið að semja um það í gær að kvöldfundur yrði ef á þyrfti að halda til að ljúka því máli sem þá var í umræðu. Ekki þurfti á því að halda. Við hefðum að sjálfsögðu tekið því að hafa kvöldfund þá en ég vil láta það koma fram strax til þess að forðast allan misskilning að ég geri athugasemd við það að halda kvöldfund í kvöld.