Almannatryggingar

74. fundur
Miðvikudaginn 09. desember 1992, kl. 14:27:53 (3202)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Það frv. til laga sem hér er lagt fram á þskj. 415 tengist þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja til við Alþingi til þess að lækka útgjöld fjárlaga í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að draga úr útgjöldum ríkissjóðs til þess að létta þrýstingi af lánastofnunum í því skyni að draga úr þrýstingi á vexti svo unnt sé að standa við fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um vaxtalækkun.
    Nú þegar liggja fyrir hinu háa Alþingi þrjú lagafrumvörp sem tengjast þessu sama máli. Það er í fyrsta lagi frv. til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar þar sem gert er ráð fyrir því að Alþingi staðfesti samkomulag ríkisins og Sambands ísl. sveitarfélaga um að sveitarfélögin leggi Atvinnuleysistryggingasjóði til 500 millj. kr. í því skyni að hægt sé að beita því fé til þess að útvega atvinnu og ný verkefni fyrir það fólk sem ella hefði lent á atvinnuleysisskrá. Það frv. er til umræðu í þinginu og tengist þessum aðgerðum. Þar er um að ræða 500 millj. eins og áður var sagt.
    Í öðru lagi er einnig í sjálfstæðu frv. til breytinga á lögum um Framkvæmdasjóð aldraðra þess efnis að heimilt verði að verja fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra til að greiða rekstrarkostnað við heilbrigðisstofnanir og verkefni í þágu aldraðra. Það er boðað í fjárlagafrv. að gert sé ráð fyrir því að 160 millj. kr. af því fé sem Framkvæmdasjóður hefur yfir að ráða verði á næsta ári notað til þess að greiða rekstrarkostnað vegna stofnana og viðfangsefna aldraðra.
    Í þriðja lagi hefur verið lagt fyrir á Alþingi en ekki mælt fyrir því enn frv. til laga um heimild til þess að breyta þvottahúsi Ríkisspítalanna í hlutafélag og í greinargerð með því frv. kemur fram að það er að því stefnt að selja allt að 60 millj kr. í því hlutafélagi og renni þeir peningar til Ríkisspítalanna, enda er gert ráð fyrir því í fjárlagafrv. að svo sé.
    Aðrar breytingar sem tengjast aðgerðum ríkisstjórnarinnar og heilbrrn. til að draga úr útgjöldum og lagastoð þarf til eru í þessu frv. sem hér er fylgt úr hlaði. Auðvitað er ljóst að við höfum lagastoð fyrir ýmsum þeim breytingum sem ráðgerðar eru til þess að draga úr kostnaði, bæði í sambandi við rekstur og tilfærslur í heilbr.- og trmrn., en við teljum okkur þurfa nokkrar lagabreytingar til viðbótar. Til þess að einfalda málið eru þær dregnar saman í eitt frv. svo að menn hafi heildaryfirsýn yfir þær lagabreytingar sem gera þarf til að ná umræddum markmiðum, en þá verða menn einnig að hafa í huga þau lagafrv. sem þegar hafa komið til afgreiðslu Alþingis.
    Ef við förum í gegnum frv. sem hér er flutt og ég reyni að skýra nokkuð einstakar greinar þess, þá lúta fyrstu tvær greinarnar að því að fyrri lagagreinin gerir ráð fyrir því að árlegur barnalífeyrir verði hækkaður, þ.e. meðlag og barnalífeyrir sem fylgjast að, úr 7.551 kr. með barni eins og hann er í dag upp í 11.300 kr. á mánuði. Á móti er gert ráð fyrir því í 2. gr. að mæðra- eða feðralaun, sem eru 4.732 kr. á mánuði með einu barni, falli alfarið niður og lækki svo samsvarandi með fleiri börnum en einu. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því í síðstu mgr. 2. gr. að mæðra- og feðralaun falli niður einu ári eftir að viðtakandi skráir sig í þjóðskrá í óvígða sambúð með öðrum en foreldri barnsins eða barnanna, en í gildandi lögum er gert ráð fyrir því að mæðra- og feðralaun séu greidd í tvö ár eftir að viðtakandi launanna skráir sig í þjóðskrá í óvígða sambúð. Sá tími sem mæðralaun eru greidd eftir að óvígð sambúð hefst er þarna styttur úr tveimur árum í eitt ár. Sambærileg breyting er síðan gerð í 9. gr. frv. Sú breyting sem þar er gerð lýtur að því að biðtími þeirra, sem látið hafa skrá sig í óvígða sambúð eftir að fá sömu réttindi í almannatryggingakerfinu og hjón hafa, verði styttur úr tveimur árum í eitt ár. Þetta er gert til samræmis við ákvæðið í síðustu mgr. 2. gr. Ef fólk skráir sig í sambúð gerist hvort tveggja, ef frv. verður samþykkt, að greiðslutími mæðra- eða feðralauna styttist um eitt ár og biðtími eftir réttindum í almannatryggingakerfinu eins og um hjón væri að ræða styttist einnig úr tveimur árum í eitt ár. Í þessu sambandi, þó að það komi þessu máli ekki við sem hér er flutt, væri auðvitað nauðsynlegt að skoða sambærilegt ákvæði í skattalögum. Þar er gert ráð fyrir því að það þurfi að líða tvö ár frá því að fólk skráir sig í óvígða sambúð þar til hægt er að nota ónýttan persónuafslátt eins og um hjón væri að ræða. Ég tel að þessi ákvæði í skattalögum þyrfti að skoða með sama hætti og stytta þennan tíma um eitt ár þannig að fullt samræmi væri milli þessara atriða í almannatryggingalögum og skattalögum.
    Ef ég reyni að gera nokkra grein fyrir samvirkandi áhrifum þeirra breytinga sem verið er að gera í 1. og 2. gr., þá eru þær þessar: Fjöldi framfærenda sem nýtur mæðralauna og meðlags eða barnalífeyris með einu barni er 5.555. Fjöldi þeirra sem njóta meðlagsgreiðslna og barnalífeyris vegna tveggja barna er 2.031, vegna þriggja 627, vegna fjögurra 76 og vegna fimm alls 8. Alls er því hér um 8.298 einstaklinga að ræða sem njóta mæðralauna, meðlaga og/eða barnalífeyris. Greiðendur meðlaga eru sennilega í flestum tilvikum nokkru fleiri vegna þess að a.m.k. þegar um fleiri börn en þrjú er að ræða er líklegt að meðlagsgreiðendur séu fleiri en einn. Sú niðurstaða að 8.298 einstaklingar njóti mæðralauna, meðlaga og/eða barnalífeyris segir að sjálfsögðu ekki til um fjölda þeirra sem meðlög greiða. Í fyrsta lagi geta það verið, eins og ég sagði áðan, fleiri einstaklingar en þeir sem greiðsluna fá og í öðru lagi er einnig ljóst að sumir sem ella hefðu greitt meðlög eru látnir eða af öðrum ástæðum er það hið opinbera sem innir af hendi meðlagsgreiðslurnar í formi barnalífeyris.
    Hver eru áhrifin af þessum breytingum? Áhrifin af þessum breytingum eru þau að hvað varðar framfærendur sem hafa eitt barn á framfæri sínu, þá hafa þeir í núverandi kerfi 4.732 kr. í mæðralaun og 7.551 kr. í meðlag eða barnalífeyri eða samtals 12.283 kr. Verði þessi ákvæði samþykkt, þá falla niður mæðralaunin en meðlagið hækkar í 11.300 kr. Niðurstaðan er sú að þarna er um skerðingu að ræða upp á 983 kr. Framfærendur tveggja barna fá nú í mæðra- eða feðralaun 12.398, í barnalífeyri eða meðlagi 15.102 eða 27.500 kr. samtals en samkvæmt nýja kerfinu fengi viðkomandi mæðralaun 3.000 kr., barnalífeyri og meðlag 22.600 eða samtals 25.600 og skerðing gæti þá numið 1.900 kr. á mánuði. Varðandi framfærendur þriggja barna eru þeir 627 sem þessara réttinda njóta og fá nú 21.991 kr. í mæðralaun, 22.653

kr. í barnalífeyri eða samtals 44.644 kr., fengju samkvæmt hinu nýja kerfi 7.800 í mæðralaun, 33.900 í meðlag eða barnalífeyri eða samtals 47.100 og skerðing gæti numið allt að 2.944 kr. Framfærendur fjögurra barna eru 76. Mæðralaun í dag eru 21.991, barnalífeyrir eða meðlag 30.204, samtals 52.195, en yrði eftir þessa breytingu ef samþykkt yrði 7.800 kr. í mæðralaun, 45.200 í meðlag eða barnalífeyri, samtals 53 þús. kr. eða 805 kr. viðbótarstuðning á mánuði umfram þann sem veittur er samkvæmt núgildandi kerfi. Og framfærendur fimm barna í þessu kerfi eru átta talsins, fá í dag í mæðralaun 21.991, í barnalífeyri eða meðlagi 37.755, samtals 59.746, en eftir breytingu 7.800 í mæðralaun, 56.500 í barnalífeyri eða meðlag, samtals 64.300. Stuðningur við slíka fjölskyldu eykst þá frá því sem nú er um 4.554 kr.
    Allt það sem hér er nefnt um breytingar og áhrif þeirra miðast við það að hér sé um fólk að ræða sem er undir skattleysismörkum, en auðvitað breytist þetta ef um er að ræða aðila sem eru yfir skattleysismörkum vegna þess að þá vinnur þessi kerfisbreyting í mörgum tilvikum með fólki vegna þess að hækkun barnalífeyris eða meðlags gengur ekki inn í skattstofn tekjuskatts og er því skattlaus en mæðra- og feðralaunin eru hins vegar skattlögð þannig að þeir sem eru yfir frítekjumörkum í skatti fá í sumum tilvikum meiri lagfæringu en þarna er verið að gefa til kynna þegar tillit er tekið til þeirra áhrifa sem tekjuskattsálagningin hefur á þeirra kjör.
    Um breytingarnar að öðru leyti er það að segja að í dag greiða meðlagsgreiðendur um 700 millj. kr af meðlaginu en um 200 millj. kr. falla samkvæmt núgildandi kerfi til Innheimtustofnunar sveitarfélaga sem hefur síðan endurkröfurétt gagnvart þeim sem ekki hafa staðið skil á sínu meðlagi. ( SvG: Vill ráðherrann endurtaka þessar tölur?) 700 millj. kr. og af því falla um 200 millj. kr. á Innheimtustofnun sveitarfélaga.
    Heildaráhrifin af þeim aðgerðum sem hér er lýst eru upp á 486 millj. kr. eða þar um bil. Þar að auki koma áhrifin af síðustu mgr. 2. gr., sem ég lýsti hér áðan, sem er upp á 10--15 millj. kr. Heildaráhrif til lækkunar á útgjöld ríkisins af 1. og 2. gr. eru því upp á um það bil 500 millj. kr. Þar af bera meðlagsgreiðendur um það bil 350 millj. kr. en afgangurinn fellur á ríkissjóð. Má segja að ríkissjóður spari sér þar nokkurt fé vegna þess að, eins og ég sagði áðan, hann getur bætt upp tekjutap af skattlögðum stuðningi, eins og mæðralaunum með greiðslu barnalífeyris, sem ekki er skattlagður og því er ,,ódýrara`` að viðhalda sömu kaupgetu með því að lækka hina skattskyldu greiðslu, meðlagið, en hækka hina óskattskyldu greiðslu, barnalífeyrinn, og þá um færri krónur en meðlagið lækkar. Það er því alveg ljóst að þessi breyting gerir það að verkum að meðlagsgreiðendur þurfa að taka á sig 350 millj. kr. af þessum 500 millj. kr. sparnaði fyrir ríkissjóð. Afgangurinn skýrist m.a. af þessum mismun á skattlagningu á mæðralaunum versus óskattlagðar greiðslur barnalífeyris og meðlaga og einnig tekur ríkissjóður að sjálfsögðu að sér greiðslu barnalífeyris fyrir þá aðila sem eru látnir eða eru af öðrum ástæðum ekki í færum til þess að greiða sínar meðlagsgreiðslur, eru vistaðir á stofnunum eða annað slíkt.
    Ég vil aðeins taka fram að ég tel mjög nauðsynlegt að skoða saman hvernig sú tillaga sem er gerð í 1. og 2. gr. vinnur með hliðsjón af þeim breytingum sem lagt hefur verið til að gera í skattalögum varðandi breytingar á barnabótum og barnabótaauka. Þarna erum við að verulegu leyti að ræða um sama hópinn. Í sumum tilvikum eru þær aðgerðir sem ég hef hér lýst til skerðingar, þ.e. þær aðgerðir sem hér er gripið til varðandi barnalífeyri og mæðra- og feðralaun. En á móti kemur að þær aðgerðir, sem boðaðar eru í frv. hæstv. fjmrh. til breytingar á barnabótareglum og reglum um meðferð barnabótaauka, koma til móts við þær breytingar sem hér eru lagðar til. Það er því nauðsynlegt að skoða þessi kerfi saman og sjá hver eru nettóáhrif þessara tveggja breytinga á kjör þess fólks sem hér um ræðir.
    Í því sambandi vil ég geta þess að ekki alls fyrir löngu kynnti ég niðurstöður nefndar sem hafði unnið á vegum heilbrrn. og með þátttöku fulltrúa fleiri ráðuneyta að athugun á málefnum einstæðra foreldra. Niðurstaða þeirrar nefndar varð m.a. sú að það væri nauðsynlegt að skoða þessi mál í heild vegna þess að þetta aðstoðarkerfi er annars vegar í almannatryggingalögunum, eins og hér er verið að ræða um, og hins vegar í skattalögum. Nefndin benti á að menn hefðu oft ekki varað sig á því að bera saman áhrif þessara tveggja kerfa þegar menn væru að gera á þeim breytingar. Menn tækju of oft það ráð að gera breytingar á öðru án þess að huga að hvaða áhrif það hefði á hitt. Við hefðum gjarnan viljað það í heilbr.- og trmrn. að menn hefðu stokkað þessi kerfi saman, þ.e. vera ekki annars vegar með aðstoð gegnum almannatryggingakerfið, þar sem hluti aðstoðarinnar er skattlagður, og hins vegar með skattaívilnanir gegnum skattkerfið heldur reyndu menn að koma sér niður á eitt og sama form þessarar aðstoðar. Því miður gafst ekki tími til þess að vinna það mál áður en frá þessu frv. var gengið. Við höfum hins vegar sammælst um það, ég og fjmrh., að beita okkur fyrir því að sú vinna hefjist þegar á nýju ári þannig að þá geti komið fram sú kerfisbreyting sem ég tel að við þurfum að gera og það samræmi sem ég tel að þurfi að hafa í þessum efnum. Engu að síður vil ég ítreka það að hv. heilbr.- og trn. skoði í samvinnu við fjh.- og viðskn. hver nettóáhrif þeirra breytinga sem hér eru boðaðar í tveimur frumvörpum eru.
    Aðeins örfá orð um hækkun meðlagsins. Eins og áður hefur fram komið hafa verið færð ýmis rök að því að meðlagsgreiðslur eins og þær hafa verið, þ.e. 7.551 kr. með barni, væru hvergi nærri nægilegar til þess að greiða helminginn af framfærslukostnaði barns. Athuganir hafa verið gerðar, m.a. af Félagi einstæðra foreldra, á því hver sé raunverulegur framfærslukostnaður barns. Niðurstaðan hefur verið sú úr þeim athugunum að hann væri miklu hærri en svo að þetta meðlag nægði til þess að standa undir lágmarkskostnaði við framfærslu barns. Við getum einnig skoðað reglur um það annars staðar. Við getum t.d. athugað hvernig Lánasjóður ísl. námsmanna metur framfærslukostnað barns. Ef ég man það rétt metur Lánasjóður ísl. námsmanna framfærslukostnað barns í kringum 24--25 þús. kr. á mánuði, einhvers staðar á því bili. Helmingurinn af þeirri framfærslubyrði er rétt rösklega 12 þús. kr. Þrátt fyrir þá hækkun sem hér hefur verið lögð til á meðlögum, 7.551 kr. í 11.300 kr., nægir sú hækkun ekki til þess að framfærslubyrði þess foreldris sem meðlagið greiðir nægi til þess að greiða hálfan framfærslukostnað barns eins og sá kostnaður er metinn t.d. í reglum Lánasjóðs ísl. námsmanna. Það eru því líkur á að þrátt fyrir þessa hækkun nægi meðlag ekki enn til þess að greiða raunverulega helminginn af framfærslukostnaði barns. A.m.k. nægir meðlagið, eins og það yrði eftir þessar breytingar, ef samþykktar yrðu, ekki til þess að greiða helminginn af framfærslukostnaði barns eins og reglur Lánasjóðs ísl. námsmanna gera ráð fyrir að hann sé og er langt í frá að fullnægja því að greiða helming af framfærslukostnaði barns eins og hann er talinn vera samkvæmt mati sem Félag einstæðra foreldra gerði á þeim málum.
    Með þessu er ég síður en svo að breiða yfir það að kjarninn í þeim aðgerðum sem hér eru lagðar til er að sjálfsögðu sá að verið er að auka þátt framfærenda barna í framfærslubyrði fjölskyldna einstæðra foreldra án þess að verið sé með því að bæta kjör þessara fjölskyldna. Í sumum tilvikum eru áhrifin þau að kjörin verða ekki betri heldur nokkru lakari eftir en áður þó að það fari dálítið eftir því hvort um er að ræða fólk sem er með tekjur undir frítekjumörkum eða yfir. Einnig fer það talsvert eftir því hvernig áhrifin af barnabótum og barnabótaauka og breytingunum sem þar eru gerðar vinna inn á þetta kerfi.
    Þá komum við að 3., 4. og 5. gr. frv. Þær lúta að slysatryggingum ökumanna og eru fyrsta skrefið sem stigið er til þess að færa slysatryggingarnar út úr almannatryggingakerfinu og á hinn frjálsa markað.
    Hinn 3. febr. sl. skipaði ég nefnd til að kanna hvort og með hvaða hætti vátryggingafélög geta tekið að sér slysatryggingar almannatrygginga. Í þessa nefnd voru skipaðir Jón Sæmundur Sigurjónsson, hagfræðingur í heilbrrn., sem er formaður nefndarinnar, samkvæmt tilnefningu tryggingaeftirlitsins Rúnar Guðmundsson skrifstofustjóri, samkvæmt tilnefningu Alþýðusambandi Íslands Lára V. Júlíusdóttir framkvæmdastjóri, samkvæmt tilnefningu Vinnuveitendasambandsins Hannes G. Sigurðsson aðstoðarframkvæmdastjóri og samkvæmt tilnefningu Sambands ísl. tryggingafélaga Bjarni Þórðarson framkvæmdastjóri og Sigmar Ármannsson framkvæmdastjóri.
    Nefndin hefur haldið 10 fundi og eru nefndarmenn sammála um að vinna að því að flytja slysatryggingar út á hinn frjálsa markað. Ýmis vandkvæði koma hins vegar upp samkvæmt þeim flutningi og má þar nefna t.d. slysatryggingarákvæði gagnvart sjómönnum o.fl.
    Nefndin mun ekki ljúka störfum fyrir áramótin en hún leggur til að ráðist verði í fyrsta áfanga um tilfærslur slysatrygginga og verði það gert þannig að fella niður slysatryggingu ökumanns með breytingum á lögum um almannatryggingar og taki sú breyting gildi frá og með 1. jan. nk. Skv. 92. gr. umferðarlaganna, nr. 50/1987, ber eiganda ökutækis skylda til ábyrgðartryggingar sem er næstum því eins og varðar slysatryggingu ökumanns. Slys samkvæmt ákvæðum slysatryggingarákvæða almannatryggingalaganna eru þó víðtækari hvað varðar bótaskyldu en þau slys sem ábyrgðartrygging tryggir fyrir. Þarna er um að ræða tryggingu sem slysatryggingar veita ökumanni sem vinnur við viðgerðir við bifreið sína eða við bón og þvott bifreiðarinnar en ábyrgðartryggingin tekur ekki til trygginga í slíku tilviki.
    Að meginhluta til er hins vegar slysatrygging almannatryggingalaganna nákvæmlega sú sama og slysatryggingin í ábyrgðartryggingu ökumanna. Þarna er því raunar um tvítryggingu að ræða og veitir hún ekki ökumönnum meiri réttindi umfram ábyrgðartryggingu ökutækja en það sem ég greindi hér áðan, þ.e. tryggingu ef um er að ræða viðgerðarvinnu við bifreið eigandans eða þvott og bón.
    Ef slysatrygging ökumanns verður felld niður frá 1. jan. 1993 eins og frv. gerir ráð fyrir hefur það eftirfarandi í för með sér:
    1. Slysatrygging eins ökumanns verður upp frá því á einum stað, þ.e. hjá því vátryggingafélagi sem eigandi skráningarskylds vélknúins ökutækis hefur skyldutryggingu hjá.
    2. Slysatilvik sem lúta að ýmiss konar meðhöndlun ökutækis eins og ég nefndi hér áðan, viðgerð, þvott og bón, verða ekki lengur tryggð þar sem vátrygging samkvæmt umferðarlögunum er þrengri að þessu leyti en slysatrygging almannalaga.
    3. Slysabætur vegna ökumanna voru tæpar 166 millj. kr. fyrir árið 1991. Ef gert er ráð fyrir svipuðu verðlagi þýðir það að útgjöld árið 1993 verða allt að 140 millj. kr. en dragast síðan hratt saman á næstu árum og verða t.d. eftir 5 ár orðin u.þ.b. 15 millj. kr. á ári.
    4. Slysatryggingardeild verður af iðgjöldum sem áætlast 185 millj. kr. á ári miðað við álagningu ársins 1992. Iðgjöld þessi eru innheimt í upphafi hvers árs fyrir sérhvert skráningarskylt ökutæki og voru kr. 1.215 árið fyrir árið 1992. Iðgjöldin eru innheimt með bifreiðagjaldaseðli.
    5. Slysatrygging sú sem félli niður þann 1. jan. 1993 tæki til ökumanna bifreiða, þungra og léttra bifhjóla, vélsleða, torfærutækja og það sem hér er kallað heimilisdráttarvélar sem eru dráttarvélar eins og almennt eru í notkun á búum bænda en ekki stærri jarðvinnslutæki.
    Eins og fram hefur komið af þessum ábendingum er hér um gegnumstreymistryggingu að ræða, þ.e. iðgjald þessara trygginga myndar ekki varasjóð heldur er eingöngu við það miðað að greiða bætur sem skapast hafa á árinu á undan, enda er tekin ákvörðun um iðgjaldið í lok hvers árs. Þegar niður fellur sú

trygging, sem hér er gert ráð fyrir, þurfa menn á næsta ári þó engin ný tjónstilfelli bætist við að gera ráð fyrir því að innheimta áfram iðgjaldið til að standa undir þeim greiðslum sem stafa af ábyrgðum sem hafa fallið á slysatryggingar frá fyrri árum og ábyrgðum sem falla á slysatryggingarnar á árinu 1992. Ekki er ráð fyrir því gert hér enda verður það að koma inn í lög sem falla undir annað ráðuneyti, þ.e. fjmrn. Þarna er eingöngu gert ráð fyrir að stigið sé það skref sem umrædd nefnd leggur til og er samdóma um að leggja til að felld verði niður slysatryggingaákvæði almannatryggingalaga á næsta ári sem yrði fyrsta skrefið í því að færa slysatryggingarnar út á hinn frjálsa markað. Ég ítreka það að ríkisstjórnin gerir að sjálfsögðu ráð fyrir því að flytja um það lagafrv. að iðgjald þetta verði framlengt með einum eða öðrum hætti. Enda skortir það til að standa straum af því tjóni sem skapast hefur á árinu 1992 og kemur til greiðslu á árinu 1993 og tjónum vegna fyrri ára. Það er eðli gegnumstreymistryggingar að hún gerir ekki ráð fyrir að safna upp varasjóðum til að greiða fyrir slík tilvik og þess vegna verður að gera ráð fyrir því að hinir tryggðu greiði iðgjald nokkru lengur.
    Þá komum við að 6. gr. frv. Þar er um að ræða tvo töluliði þar sem gerð er tillaga um breytingu á því fyrirkomulagi sem nú gildir í almannatryggingalögum.     Í fyrsta lagi er lagt til að þeir skilmálar verði settir í lög um almannatryggingar að því aðeins taki sjúkratryggingar þátt í greiðslu kostnaðar vegna rannsókna og aðgerða hjá sérfræðingum að um sé að ræða tilvísun frá heilsugæslulækni eða heimilislækni. Þó er gerð sú undantekning sem fram kemur í síðari málsl. 1. tölul. 6. gr. frv., en þar segir, með leyfi forseta: ,,Með reglugerð skal sömuleiðis setja nánari reglur um notkun tilvísana, þar á meðal í hvaða tilvikum og með hvaða hætti Tryggingastofnun ríkisins geti tekið þátt í greiðslu kostnaðar vegna rannsókna og aðgerða hjá sérfræðingum þó sjúklingur hafi ekki tilvísun.``
    Með öðrum orðum er opnað fyrir þann möguleika að í sérstökum tilvikum sé hægt að gera ráð fyrir því að sjúkratryggingar taki þátt í kostnaði vegna læknishjálpar hjá sérfræðingi eða í rannsóknarkostnaði á vegum sjálfstætt starfandi sérfræðinga þó að sjúklingur hafi ekki tilvísun en þá að sjálfsögðu verður að öllum líkindum um að ræða minni þátttöku sjúkratrygginga í þessum kostnaði en ef um tilvísun væri að ræða.
    Ástæðan fyrir því að þetta er tekið upp er einfaldlega sú að þetta er sú aðferð sem flestar þjóðir hafa aðhyllst í einu eða öðru formi í því skyni að koma í veg fyrir að kostnaður vegna sérfræðilækninga vaxi án þess að menn hafi á því einhverja stjórn.
    Núgildandi kerfi eins og það er framkvæmt hjá okkur Íslendingum á sér hvergi hliðstæðu. Það er í stórum dráttum þannig að samið hefur verið við sérfræðinga um ákveðinn taxta fyrir sérfræðilæknishjálp og rannsóknir. Það eina sem sérfræðingur þarf til að geta hafið störf samkvæmt þeim samningi er að tilkynna til Tryggingastofnunar ríkisins að hann hafi opnað stofu og fengið til þess heimild heilbrrn. en það fær sérfræðingurinn hafi hann öll tilskilin gögn í lagi um að hann hafi lokið þeirri sérfræðimenntun og fengið þá sérfræðiviðurkenningu sem slíkt krefst. Það eina sem þarf til að sérfræðingur geti hafið störf og vísað á Tryggingastofnun ríkisins er að hann tilkynni Tryggingastofnun ríkisins að hann hafi opnað stofu og er enginn frekari hemill á fjölda sérfræðinga. Ekki er heldur, eins og í mörgum öðrum löndum, gert ráð fyrir því að unnið sé fyrir fast verð heldur er það mat sérfræðinganna sjálfra hversu mikla þjónustu þeir veita. Tryggingastofnun ríkisins hefur einvörðungu þá skyldu að borga alla reikninga sem fram er vísað.
    Svona kerfi er hvergi annars staðar í veröldinni svo mér sé kunnugt um. Þvert á móti reyna menn að hafa einhverja stjórn á þeim fjármunum sem með þessum hætti er varið. Í flestum tilvikum er það gert þannig að litið er á það sem hluta af heilsugæslu að veita sjúklingi þá sérfræðiþjónustu sem hann þarf. Það er talið vera verkefni heilsugæslunnar og hluti af heilsugæslunni að tryggja það og því er það lagt í vald heilsugæslulæknanna og heimilislæknanna að ákveða hvort ástæða sé til að vísa sjúklingi áfram til sérfræðilæknishjálpar og til rannsókna eða ekki. Með þessu er að sjálfsögðu ekki verið að banna sjúklingum að leita beint til sérfræðinga. Hins vegar er eingöngu verið að segja að þeir skilmálar séu á niðurgreiðslu ríkisins á þeirri þjónustu að um sé að ræða að viðkomandi hafi áður leitað sér læknishjálpar hjá heimilislækni og fengið þar ráðleggingar um hvert hann skuli fara.
    Í 2. tölul. 6. gr. er gert ráð fyrir því að sú breyting verði gerð hvað varðar skilmála um fortakslausa greiðslu almannatrygginga á öllum lyfjakostnaði vegna einstakra lyfja að því ákvæði í lögum, sem segir að slík greiðsluskylda af hálfu sjúkratrygginga sé fortakslaus sé um brýna nauðsyn að ræða, verði breytt til þess horfs sem hér segir að því aðeins sé greiðsluskylda fortakslaus að um sé að ræða lyf sem sjúkratryggðum er lífsnauðsynlegt að nota að staðaldri. Þessi ákvæði voru í lögum á Íslandi þar til fyrir u.þ.b. 20 árum eða tæplega það. Þessi ákvæði eru t.d. í lögum í Danmörku.
    Við teljum rétt að gera þessa breytingu nú vegna þess að það sjúklingi sé brýn nauðsyn á að nota lyf er mjög vítt hugtak og almennt því það er hægt að gagnálykta og spyrja svo: Á hvaða lyf vísa læknar sjúklingum sem ekki er brýn nauðsyn á að þeir fái? Væri þá hægt út af fyrr sig að segja að þau lyf væru ekki mörg þar sem ekki væri brýn nauðsyn að sjúklingur fengi lyfið og þess vegna ætti samkæmt orðanna hljóðan greiðsluskylda ríkisins á lyfjum að vera næsta almenn. Hér eru tekin af öll tvímæli um það. Þarna er því verið að þrengja ákvæði almannatryggingalaga að þessu leytinu til.
    Í öðru lagi er sett inn ákvæði sem einnig er nýtt og kemur fram í síðasta málslið 2. tölul. 6. gr., en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Eftir að lyf hefur verið skráð hér á landi skal heilbr.- og trmrn. ákveða hvort sjúkratryggingar taki

þátt í greiðslu viðkomandi lyfs.``
    Eins og nú háttar fer það saman að lyf sé skráð hér á landi, þ.e. að heimilt sé að vísa á lyfið, gefa út lyfseðla á það, og að hið opinbera taki þátt í kostnaði þess sem lyfið fær. Ef af EES-aðild Íslands verður er alveg ljóst að lyfjum á íslenskri lyfjaskrá mun fjölga mjög mikið. Þó ekki væri nema bara af þeirri ástæðu er nauðsynlegt að koma hér upp sambærilegu kerfi og er víðast hvar í kringum okkur að um tvær sjálfstæðar ákvarðanir sé að ræða. Í fyrsta lagi hvort heimilt sé að skrá lyf á íslensku lyfjaskrána og heilbrigðisyfirvöld heimili notkun lyfsins hér á landi, það sé sjálfstæð ákvörðun. Einnig sé það sjálfstæð ákvörðun að hve miklu leyti almannatryggingarnar taka þátt í greiðslu kostnaðar vegna lyfsins. Það er sem sagt lagt til að sú aðferð verði staðfest í lögum að þessar tvær ákvarðanir séu alveg sjálfstæðar og hvor annarri óháðar.
    Varðandi 7. gr. er það svo að segja að eins og nú standa sakir er gert ráð fyrir því að öll forvarnaþjónusta í tannheilbrigðismálum, þ.e. penslun, skoðun, skorufylling og fræðsla sé veitt ókeypis en fólk greiði að öðru leyti fyrir tannlæknishjálp 15%, að mig minnir, sem er hin almenna regla. Hér er lögð til sú breyting að engin tannlæknahjálp verði alfarið ókeypis heldur verði um að ræða greiðsluþátttöku þeirra sem tannlæknishjálpar njóta í öllum tilvikum þannig að lágmarksgreiðsluþátttaka sé ávallt 25% þó með þeirri undantekningu að fólk sem dvelur á stofnunum, svo sem þroskaheftir, elli- eða örorkulífeyrisþegar sem eru á hjúkrunarstofnunum og fleiri slíkum stofnunum, þarf ekki að greiða fyrir tannlæknahjálp. Hún er veitt ókeypis eftir sem áður og greidd af þeim stofnunum sem þeir vistast hjá.
    Áhrifin af þessum breytingum eru metin á u.þ.b. 200 millj. kr. lækkun á útgjöldum ríkisins vegna tannlæknishjálpar. Það er nokkuð mismunandi eftir einstökum aldursflokkum þeirra sem hjálparinnar njóta og eftir því hvort leitað er til skólatannlækna þar sem möguleiki er að leita til þeirra eða einkalækna. Það hefur verið reynt að leggja mat á hvaða kostnaðarleg áhrif þetta hefði að meðaltali á barn í fjölskyldu. Hér er um að ræða kostnað sem metinn er lægst 1.350 kr. en hæst 1.900 kr. á ári að meðaltali. Þær tölur sem nefndar hafa verið um aukinn kostnað á barn upp að allt að 10.000 kr. eru gjörsamlega úr lausu lofti gripnar. Þarna er um að ræða fjárhæðir á bilinu frá 1.350 kr. og upp í 1.900 kr. á ári.
    Ég ætla ekki hér, virðulegur forseti, að fara yfir þær breytingar sem verða innan hinna einstöku hópa sem njóta niðurgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins vegna tannlæknishjálpar. Ég vil ekki lengja tímann með því en mun koma þeim upplýsingum á framfæri við þá hv. alþm. sem þess óska auk þess sem þær upplýsingar verða að sjálfsögðu lagðar fyrir nefndina.
    Þá eru í 8. gr. ákvæði um að sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins sé heimilt að viðhafa útboð varðandi þá þjónustu sem sjúkratryggingadeild greiðir sem er til þess fallin að hægt sé að viðhafa útboð. Slík þjónusta er t.d. utanspítalarannsóknir sem nú eru framkvæmdar af ýmsum aðilum. Þar er um að ræða nokkuð þekkta stærð þjónustu sem hægt er að bjóða út og þeir aðilar sem vinna þau verk í dag geta hæglega tekið að sér slík verk í útboði. Það er tiltölulega auðvelt fyrir heilbrigðisyfirvöld að gera sér grein fyrir út frá hvaða kostnaði unnt væri að ganga í mati á slíkum útboðum. Til þess að þetta sé hægt verður að breyta lögum vegna þess að núgildandi lög gera að vísu ráð fyrir því að sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins sé heimilt að bjóða út en þau gera ekki ráð fyrir því að sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins geti tekið neinu tilboði. Það náttúrlega gengur ekki að mönnum sé bara heimilt að bjóða út en ekki að ganga frá tilboðum sem menn fá með þeim hætti sem útboðsákvæði almennt gera ráð fyrir. Það ákvæði sem er í núgildandi lögum um heimild Tryggingastofnunar ríkisins til útboða er ekki virkt. Það er ekki hægt að nota það. Það var sett inn í lögin í fyrra og væntanlega hefur mönnum í heilbr.- og trn. ekki verið ljóst að eins og frá málinu var gengið var einungis hægt að bjóða út en ekki hægt að afgreiða nein tilboð. Til þess að svo verði verður að taka af öll tvímæli í lagatexta og þarna er gert ráð fyrir því að reglurnar sem settar verða verði í meginatriðum þær sömu og gilda í lögum um opinberar framkvæmdir þannig að, eins og segir í greininni, sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins sé heimilt að semja við stofnanir, fyrirtæki eða einstaklinga um þá þjónustu sem henni ber að veita samkvæmt lögum þessum. Slíkan samning má gera í framhaldi af útboði og síðan er hægt að ákveða hvaða tilboði skuli taka eða hvort öllum skuli hafnað. Ef tilboð eru óhæfilega há eða að öðru leyti ekki aðgengileg getur sjúkratryggingadeild ráðstafað verkinu á grundvelli fasts samningsverðs.
    Þetta er sambærilegur lagatexti og er grundvöllur fyrir öllum opinberum útboðum og er í lögum um opinberar framkvæmdir.
    Um 9. gr. hef ég þegar rætt.
    II. kafli um stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum lýtur að, eins og nú háttar, skyldutryggingu allra þeirra báta sem eru undir 100 smálestum. Sú skyldutrygging er hjá vélbátaábyrgðarfélögunum sem eru átta talsins og starfa víðs vegar um land. Í tengslum við EES-umræðuna, og þó svo að hún kæmi ekki til heldur af efnislegum ástæðum, hafa lengi verið uppi beiðnir um það að fella niður þessa skyldutryggingu, (Gripið fram í.) hvort tveggja efnislegar ástæður, þá hafa komið fram óskir um það að fella hana niður. Í heilbrrn. hefur verið lokið samningu frv. um það.
    Þá þurfa menn einnig að gera ráð fyrir því hvað á þá að verða um vélbátaábyrgðarfélögin og um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum sem er endurtryggingarfélag vélbátaábyrgðarfélagnna. Tillaga um afgreiðslu þessara tveggja mála er ekki gerð hér, þ.e. það er ekki verið að ræða um að fella niður skyldutryggingu báta undir 100 smálestum. Það er heldur ekki gerð tillaga um það hvernig kveða á í lögum um

eignarform eða framhaldsrekstur vélbátaábyrgðarfélagnna enda kemur hvorugt þeirra atriða fjárlagaafgreiðslu við. Það eru atriði sem verða lögð fyrir Alþingi mjög bráðlega í sérstöku frv. þar um. Það sem kemur hins vegar fjárlagaafgreiðslunni við er að það er niðurstaða okkar í heilbr.- og trmrn., og við styðjumst þar við túlkun lögmanns Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum, að Samábyrgð Íslands á fiskiskipum sé eign ríkisins. Það er gerð tillaga um það í þessum kafla að það verði stofnað hlutafélag um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Það hlutafélag verði í eigu ríkisins, enda er ríkið eigandi að Samábyrgðinni samkvæmt skoðun okkar í heilbrrn. og samkvæmt áliti umrædds lögmanns, og síðan verði veitt heimild til þess að selja hlutabréf þau sem ríkið mundi eignast í Samábyrgð Íslands á fiskiskipum hf. ef þessi ákvæði í 11. til og með 17. gr. yrðu að lögum. Þau ákvæði eru algerlega sambærileg og þau sömu í öllum efnisatriðum og sett hafa verið í frumvörp þar sem um það er að ræða að breyta rekstri ríkisstofnana í hlutafélagsform. Það er gert ráð fyrir því að þessi sala skili ríkissjóði í tekjur 174 millj. kr. en það er matið á eignum Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum. Kemur það inn í þessa afgreiðslu sem sérstök viðbótartillaga ríkisstjórnarinnar og heilbrrn. sem ekki lá fyrir í fjárlagafrv. Það kemur því sem viðbótartekjur í ríkissjóð frá því sem þar er gert ráð fyrir.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú lokið við að gera grein fyrir efnisatriðum þessa frv. Sjálfsagt koma ýmsar spurningar upp hjá hv. þm. Ég mun reyna að svara þeim eftir því sem ég best get. Sjálfsagt verða einhverjar sem við í heilbr.- og trmrn. getum ekki svarað til fullnustu nú en ég legg áherslu á að ná góðu samstarfi við hv. heilbr.- og trn. við úrvinnslu málsins og ítreka þá ósk mína að heilbr.- og trn. og fjh.- og viðskn. beiti sér fyrir því að skoða saman og meta áhrifin af þeim breytingum sem hér er verið að gera varðandi barnalífeyri og greiðslu mæðra- og feðralauna annars vegar og þær breytingar sem verið er að gera á meðferð barnabóta og barnabótauka í skattkerfinu svo heildarmyndin af þessum breytingum gagnvart þeim hópi sem er sameiginlegur og nýtur eða geldur þessara breytinga, eftir því hvernig á það er litið, komi fram. Ef um er að ræða einhver mistök sem þar hafa verið gerð og unnt er að leiðrétta geri menn það.
    Virðulegi forseti. Ég legg svo til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.