Lánsfjárlög 1992

75. fundur
Miðvikudaginn 09. desember 1992, kl. 18:07:02 (3206)


     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegur forseti. Það er rétt að mínu mati að fara aðeins yfir þetta mál, einkum í ljósi þeirra yfirlýsinga sem frá hæstv. fjmrh. komu í gær um fyrirhugaðar breytingar á húsbréfakerfinu þar sem ráðherrann gaf það m.a. mjög sterklega í skyn að til stæði að afnema ríkisábyrgð á húsbréfum. Ég tel því rétt, virðulegur forseti, að leita eftir nánari yfirlýsingum hæstv. ríkisstjórnar um útgáfu húsbréfa þegar við erum að fjalla um að gefa út nýjan húsbréfaflokk upp á 4 milljarða þannig að mönnum megi vera skýrar ljóst en fram kom í gær hver stefna hæstv. ríkisstjórnar er varðandi ríkisábyrgð á húsbréfapappírum.
    Í máli hæstv. fjmrh. kom fram að hann teldi að ríkisábyrgðin leiddi af sér óbeina niðurgreiðslu úr ríkissjóði sem þýðir með öðrum orðum að ef til stendur að afnema ríkisábyrgðina mun verða um vaxtahækkun að ræða sem lendir á greiðendum fasteignaveðskuldabréfanna sem standa á bak við húsbréfin.
    Þá vil ég einnig hreyfa öðru máli sem er fjármögnun útlána Húsnæðisstofnunar ríkisins. Eins og nefndarmönnum í hv. efh.- og viðskn. mun vera ljóst eftir viðræður sem fóru fram á fundinum er verulegur vandi þar á höndum og verulegt fé vantar upp á í dag að stofnunin geti staðið við þær skuldbindingar sem hún hefur tekist á herðar varðandi útlán. Ætli láti ekki nærri að það vanti um 1,5 milljarða kr. til þess að endar nái saman á þessu ári.
    Ég tel því rétt, virðulegur forseti, að leita eftir áformum ríkisstjórnarinnar um hvað hún hyggst gera til þess að leysa þetta mál. Það er farið að há stofnuninni verulega að fá ekki það lánsfjármagn með sölu skuldabréfa sem að var stefnt. Á þessu ári var af hálfu stofnunarinnar reynt fyrir sér með því að bjóða út svonefnd húsnæðisbréf sem áttu að leysa af hólmi venjulega skuldabréfasölu að hluta til í upphafi og í áföngum síðan. Reynslan sem komin er á þessu ári hefur því miður verið sú að vonir manna hafa brugðist um að útboð á húsnæðisbréfum væri sá valkostur sem stofnuninni stæði til boða í raun og veru til að afla nauðsynlegs lánsfjár. Þrátt fyrir allnokkur útboð af þessu tagi hefur ekki tekist að afla nema um 1 milljarðs kr. með þessum hætti. Það vekur auðvitað upp spurningu um þann markað sem á að vera fyrir hendi og á að leysa af hólmi í áföngum venjulegt skuldabréfafyrirkomulag og samninga við lífeyrissjóðina.
    Ég vil því, virðulegi forseti, óska eftir svörum hæstv. ríkisstjórnar við því annars vegar hver stefna hennar og áform eru varðandi ríkisábyrgð á húsbréfum og hins vegar áform um hvernig leysa á þann vanda sem uppi er í fjármögnun útlána. Ég tel rétt, virðulegi forseti, að nota þetta tækifæri til að ganga eftir þessum svörum ríkisstjórnarinnar enda fullt tilefni til eftir ræðu hæstv. fjmrh. í gær.