Lánsfjárlög 1992

75. fundur
Miðvikudaginn 09. desember 1992, kl. 18:12:13 (3207)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Varðandi spurningar hv. síðasta ræðumanns í fyrsta lagi varðandi ríkisábyrgð á húsbréfum þá varð mikil umræða um það þegar húsbréfakerfið var sett af stað í þeirri nefnd sem undirbjó það frv., hvort rétt væri að hafa ríkisábyrgð á húsbréfum eða ekki. Það var mat nefndarinnar að a.m.k. fyrst um sinn væri rétt að hafa ríkisábyrgð á húsbréfunum. Það mun koma til skoðunar núna að skoða kosti þess og galla að afnema ríkisábyrgðina á húsbréfum og síðan að marka stefnu í framhaldi af því, en engin ákvörðun hefur verið tekin um hvenær það verður gert.
    Varðandi síðara atriðið um það að lífeyrissjóðirnir hafi ekki staðið við sínar skuldbindingar þá er rétt að það hefur verið tregða hjá lífeyrissjóðunum að standa við sínar skuldbindingar en það mál er nú í skoðun milli Húsnæðisstofnunar og lífeyrissjóðanna.