Almannatryggingar

76. fundur
Miðvikudaginn 09. desember 1992, kl. 18:24:59 (3209)

     Finnur Ingólfsson (frh.) :
    Virðulegi forseti. Ég var þar kominn í ræðu minni áðan þegar fundi var frestað að ég var að fjalla um 6. gr. frv. er snýr að breytingum á sviði sjúkratrygginga. Þar fjallaði ég sérstaklega um tilvísanakerfið. Ég minntist á að á þeim tíma þegar ég var aðstoðarmaður heilbrrh. var mikil umræða um það að koma þessu tilvísanakerfi á. Það var býsna erfitt að eiga við Alþfl. í þeim efnum. Það er því útilokað annað en að álykta sem svo að sjálfstæðismenn séu hugmyndasmiðirnir að því sem hér liggur fyrir. Er það nokkur breyting frá því a.m.k. sem maður les í gömlum ályktunum landsfundar Sjálfstfl. sem örugglega voru undirbúnar af hálfu heilbrigðisnefndar flokksins. Ég sagði það við hæstv. heilbr.- og trmrh. áðan að mér fyndist full ástæða til að ganga úr skugga um þessa breytingu á stefnu þess flokks og að þetta lagafrv. verði sérstaklega sent til hv. heilbrigðis- og trygginganefndar Sjálfstfl. til umsagnar. Ef ég veit rétt situr hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir í þeirri nefnd og mun vafalítið gefa jákvæða umsögn um tilvísanakerfið. En ég lét þess jafnframt getið að efnislega væri ég sammála hæstv. heilbr.- og trmrh. um að koma þessu tilvísanakerfi á og fyndist þess vegna ömurlegt hlutskipti fyrir ríkisstjórnina ef stjórnarandstæðingar þyrftu jafnvel að ýta málinu í gegnum þingið nema sú stefnubreyting hafi orðið hjá Sjálfstfl. að hann sé farinn að styðja þetta. Það verður fróðlegt að fylgjast með afgreiðslu þessa máls.
    Það eru tvær meginástæður fyrir því að mínu viti að skynsamlegt er að koma tilvísanakerfinu á. Í fyrsta lagi sú að koma á faglegum samskiptum milli heimilislækna og sérfræðinga. Það er gert með því að sjúklingarnir fá tilvísanir hjá heimilislæknum og fara með þær til sérfræðinganna og til baka koma síðan læknabréf frá sérfræðingunum til heimilislækna. Þannig eru fagleg samskipti tryggð. Þetta lýtur að faglega þætti málsins.
    Hinn þáttur málsins er sparnaðurinn. Ég er sannfærður um að hægt er að ná einhverjum tugum milljóna. Við skulum ekki endilega fullyrða að það verði hundruð milljóna en það er hægt að ná einhverjum tugum milljóna króna sparnaði með þessu. Það er auðvitað líka ávinningur vegna þess, og það hefur verið kannað, að hver samskipti við heimilislækni eða heilsugæslulækni eru ódýrari en samskiptin við sérfræðingana. Úttekt á þessu var gerð 1989 eða 1990 af verkfræðingi sem heilbr.- og trmrn. fékk til þess að gera slíka úttekt og þetta varð niðurstaðan --- þó svo, það skal viðurkennt, að það geti verið erfitt að bera saman þarna mjög mismunandi forsendur.
    Það er gott fyrir þá sem eru stuðningsmenn þessa tilvísanakerfis að nú skuli þessi breiði og stóri flokkur sjálfstæðismanna vera orðinn svo dyggur stuðningsmaður þessa fyrirkomulags að hann er tilbúinn til þess að leggja það fram í lagafrv. á Alþingi og ætlar að standa heill og óskiptur að baki því. Ég gleðst yfir því.
    Ég lét þess getið sérstaklega að þó svo ég geti efnislega stutt það að koma á þessu fyrirkomulagi, þá skiptir auðvitað framkvæmd tilvísanakerfisins höfuðmáli. Ég les það svo út úr textanum --- er það ekki rétt, hæstv. heilbrrh., að forsendan fyrir greiðslu reiknings frá sérfræðingi sé sú að henni fylgi tilvísun. Fylgi henni ekki tilvísun þá sé ekki um það að ræða af hálfu sjúkratrygginganna að reikningur sé greiddur.
    Í samningnum við sérfræðinga frá því í upphafi árs 1991 segir að verði tilvísanakerfinu komið á verði samningnum sagt upp um leið og tilvísanakerfið yrði komið í lög. Á sínum tíma var það gert á mjög viðkvæmum tíma að um það var samið við sérfræðingana að tilvísanakerfið færi út úr lögum til þess að hægt væri að ganga frá samningi sem sparaði verulega fyrir sjúkratryggingarnar og ég fór yfir það áðan, allt upp í 190 millj. kr. á föstu verðlagi, sparaði verulega fjármuni, svokallað afsláttarfyrirkomulag sem var tekið upp, en um leið voru fyrirheit um það sem staðið var við að tilvísanakerfið yrði tekið út. Sé það aftur sett inn þá er samningnum sagt upp og um leið og honum er sagt upp tekur ný gjaldskrá gildi fyrir þá þjónustu er sérfræðingar veita og það er gjaldskrá sem gerir ekki ráð fyrir þeim afslætti sem innbyggður er í samninginn núna sem má meta upp á eitthvað á milli 15 og 20% lækkun á þessum kostnaði. Þetta fylgir með í bókun samningsins frá því í janúar 1991.
    Hættan er sú --- og ég sagði það í ræðu minni áðan að hæstv. heilbrrh. er nokkur vandi á höndum í þessum efnum og framkvæmdin getur þess vegna orðið býsna viðkvæm og flókin --- að um leið og þetta gerist og samningnum er sagt upp, þá segi sérfræðingar sig úr viðskiptum við tryggingarnar þar sem samningur er ekki til staðar. Þeir útbúi sína eigin gjaldskrá. Sú gjaldskrá taki ekkert mið af því sem er í gjaldskrá Tryggingastofnunar ríkisins, þeir verðleggi sína þjónustu alveg sjálfir. Fólkið sem þarf að sækja þjónustuna til sérfræðinganna verði að greiða samkvæmt þessari gjaldskrá. Þrátt fyrir það að þeir hafi útbúið eigin gjaldskrá þá hafa tryggingarnar ekki heimild til þess að endurgreiða þann hluta reikningsins sem þeir kæra sig um að greiða vegna þess að forsenda fyrir því að reikningur sé greiddur er sú að það sé samningur milli viðkomandi sérfræðings og sjúkratrygginganna. Þannig að þá þyrfti að breyta lögum í þá veru til þess að það væri hægt.
    Með þessu yrði einstaklingurinn að bera allan kostnað af læknishjálpinni, rétt eins og gert er ráð fyrir að hann geri nú samkvæmt þessu frv., fylgi ekki tilvísun. Slíkt held ég að fengi ekki staðist til lengdar, að koma málum þannig fyrir að ekkert af sérfræðilæknishjálpinni yrði greitt. Hættan er þá sú að tvöföld gjaldskrá myndist. Annars vegar gjaldskrá sem sjúkratryggingarnar ákveða að greiða eftir og hins vegar gjaldskráin sem sérfræðingarnir verðleggja sína þjónustu samkvæmt. Mismunurinn á þessum tveimur gjaldskrám yrði hlutur sjúklingsins. Smátt og smátt fengju sérfræðingarnir tækifæri til þess að hækka sína gjaldskrá alveg óháð því hvað tryggingarnar segja. Það væri bara þessi frjálsa samkeppni sem mundi gilda milli sérfræðinganna um það hvaða gjaldskrá þeir væru með í boði. Þannig myndaðist tvöfalt kerfi og einstaklingurinn sem þarf á þjónustunni að halda, þyrfti að gjalda þess hvernig þarna væri komið. Því til viðbótar eru það 450 þús. komur á ári til sérfræðings, sennilega eru þær eitthvað fleiri á árinu 1992 vegna þess að það koma ekki öll samskiptin fram þar sem að allir reikningar sem eru undir 1.500 kr. sjást aldrei inni í Tryggingastofnun ríkisins og þess vegna ekki talin samskipti. Þess vegna eru samskiptin sennilega fleiri en 450 þús. Segjum að þau séu 450 þús. og þetta fólk, sem þarf á þjónustu sérfræðinganna að halda, kemur með reikningana sína í Tryggingastofnun ríkisins til að fá þá endurgreidda, það þýðir það að þangað koma 1.700--2.000 manns á hverjum einasta degi sem Tryggingastofnun ríkisins er opin til þess að fá endurgreidda reikninga hjá gjaldkerunum. Hvernig í ósköpunum ætla menn að leysa þetta? Hvað mun þetta kosta fyrir ríkið? Að þessu held ég að menn þurfi að huga þegar þeir líta á framkvæmd kerfisins. Það er þess vegna sem ég sagði það áðan að ég styð hugmyndina um tilvísanakerfi en þori ekki með mínum stuðningi við málið að bera ábyrgð á framkvæmdinni í höndum hæstv. heilbrrh.
    Annar liður 6. gr. fjallar um lyfjakostnaðinn. Þar finnst mér menn vera nokkuð bjartsýnir af þeirri ástæðu að ætla að spara 500 millj. kr. með því að breyta orðum í almannatryggingalögunum, þ.e. hugtakið ,,lífsnauðsynlegt`` lyf á að koma í staðinn fyrir ,,bráðnauðsynlegt`` og það á að spara 500 millj. kr.
    Hvernig verður þetta gert? Jú, þetta er auðvitað hægt. Það verður alltaf mjög erfitt að skilgreina hvað er bráðnauðsynlegt. Það verður auðvitað líka þegar um lyf er að ræða erfitt að skilgreina hvað er lífsnauðsynlegt. Og hver ætlar eiginlega að taka það að sér að ákveða hvaða lyf eru lífsnauðsynleg? Það er mikil ábyrgð sem fylgir slíku. En sparnaðinum á að ná með því að taka enn fleiri lyf út úr lyfjaskránni og segja: Þessi lyf verða ekki greidd niður. Þetta verður fólkið að borga að fullu vegna þess að þau eru ekki alveg lífsnauðsynleg. Ef þetta er sú hugsun sem liggur að baki hjá hæstv. ráðherra, þá er hægt að spara 500 millj. kr., það er alveg ljóst. Er þar í raun og veru eitthvað verið að spara í kerfinu? Nei, það er verið að auka álögurnar á sjúklingana. Fólkið á að borga meira fyrir lyfin, sem nemur 500 millj. kr. Og það á eingöngu að greiða niður þau lyf sem eru lífsnauðsynleg. Með öðrum orðum: Sjúklingarnir eiga að greiða en lyfsalarnir eiga að halda áfram að græða. Þarna er það sem skilur alveg á milli, og það hef ég oft áður minnst á reyndar, í stefnu núv. ríkisstjórnar og stefnu fyrrv. ríkisstjórnar. Í fyrrv. ríkisstjórn voru menn að burðast við að taka á skipulagsvandanum í kerfinu, taka á lyfjafræðingunum, lyfsölunum, hlífa fólkinu við að greiða en þessi ríkisstjórn hugsar ekkert um það að taka á skipulagsvanda kerfisins, heldur á fólkið bara að borga meira.
    Hæstv. heilbrrh. er búinn að boða það síðan hann settist í stól sinn sem heilbrrh. að það ætti að breyta lögunum um lyfsölu og lyfjadreifingu. Þar væri verið að boða alveg nýtt fyrirkomulag. Það bólar ekkert á þessum tillögum, ekki neitt. Eina sem við þingmenn í hv. heilbr.- og trn. sáum um þetta var það að okkur var tilkynnt sl. vor að þessi breyting yrði gerð samhliða þeim breytingum sem gera þyrfti og snerta samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Í haust var síðan gerð breyting á þessu þar sem frv. var auðvitað ekki tilbúið um skipulagsbreytingarnar og EES-breytingarnar settar inn í bandorm. Það bólar því ekkert á þessum skipulagsbreytingum sem þó spara peninga og þar er kannski eini möguleikinn og það er einmitt þar, þ.e. að spara peningana með því að taka á lyfsölunum og lækka álagninguna.
    Það eru auðvitað fleiri leiðir til í þessu tilfelli, hæstv. heilbr.- og trmrh., og kannski aðalástæðan fyrir því að lyfjakostnaðurinn hækkar mjög mikið milli ára að það eru alltaf fleiri ný lyf að koma inn á lyfjaskrána. Ég sé það að þarna er með ákveðnum aðgerðum í frv. verið að takmarka slíka hluti. Það getur vel verið skynsamlegt. Ég held hins vegar að sú leið sem valin er, þ.e. að neita að skrá lyf þannig að þau séu ekki niðurgreidd, það sé ekki rétt, heldur væri skynsamlegra að takmarka notkun þeirra. Skrá öll lyf, ákveða að þau skuli öll vera að hluta til niðurgreidd af hálfu sjúkratrygginganna, en takmarka notkun þeirra. Hvernig gerum við það? Við getum gert það með því að binda ávísun á viðkomandi ný lyf algjörlega við ákveðna sérfræðinga, þ.e. þá sérfræðinga sem eru sérfræðingar í viðkomandi sjúkdómum á meðan reynsla fæst á lyfið. Og á meðan menn eru að fá reynsluna lækkar verðið. Þarna er hins vegar farin sú leið að koma í veg fyrir það að lyfið komist á skrá, þannig að meðan það er ekki komið á skrá þá ætla tryggingarnar ekkert að greiða þannig að ég tel að þetta sé að mörgu leyti röng leið þó ég skilji afstöðu . . .  ( Heilbrrh.: Þetta er ekki alveg rétt skilið.) ja, þá verður hæstv. heilbr.- og trmrh. að skýra þetta betur út fyrir mér. Ég las þetta upp úr frv. Það er ekki gott ef þetta er ekki alveg réttur skilningur en ég skil hæstv. ráðherra þannig að ég sé svona nokkurn veginn á vegkantinum þó í þessum efnum. En sparnaðurinn, í kringum 500 millj. kr., næst ekki nema með þessu sem ég hef verið að lýsa, þ.e. að taka fleiri og fleiri lyf út af lyfjaskránni sem sjúkratryggingarnar eru með yfir lyf sem á að greiða niður og velta þannig kostnaðinum yfir á fólkið.
    Það er auðvitað broslegt og það trúir því auðvitað enginn og ég veit að hæstv. heilbrrh. trúir því ekki sjálfur að það sé hægt að spara þær tölur sem ráðherrann gerir ráð fyrir í fjárlagafrv. nema þessi leið verði farin. Það verða færðar frá árinu 1992 yfir á 1993 200--300 millj. vegna þess að kostnaðurinn er kominn í 2,6 til 2,7 milljarða, átti samkvæmt fjárlagafrv. að vera 2,2 milljarðar. Síðan er til viðbótar gert ráð fyrir enn meiri sparnaði á árinu 1993, þannig að þetta er auðvitað óframkvæmanlegt nema sú leið verði valin að velta þessu yfir á þá sem þurfa á aðstoðinni að halda.
    Tannlækningarnar --- þar er ég mjög ósáttur við þá leið sem valin er, ekki síst í ljósi þess að það náðist gott samstarf milli stjórnarþingmanna og stjórnarandstöðunnar í fyrra, einmitt við vinnslu í heilbr.- og trn. á svipuðum bandormi og þeim bandormi sem hérna liggur fyrir. Það var algjör samstaða um það að forvarnaþættir gjaldskrárinnar skyldu verða fríir eins og flúorskolun, flúorpenslun, skorufyllingar og þar fram eftir götunum. Um þetta var algjör samstaða bæði stjórnarandstöðunnar og stjórnarþingmanna. Þessu var breytt í meðförum þingsins. Og af hverju var þessi samstaða? Jú, vegna þess að með rökum var nefndinni sýnt fram á það að á undanförnum árum hafa menn fyrir tilstuðlan þessara þátta í gjaldskránni, vegna forvarnanna, náð ótrúlegum árangri við að draga úr tannskemmdum. (Gripið fram í.) Já, ótrúlegum árangri. Ef ég man þessar tölur rétt þá voru í 12 ára barni fyrir 1980 8 tennur skemmdar að meðaltali. Í dag er þetta komið niður í 2,3 tennur að meðaltali. Þetta er auðvitað árangur sem menn hafa náð í tannheilsunni. Mín skoðun er sú að forvarnirnar eigi að vera fríar og fyrir því eigum við að berjast og ég trúi því að menn geti náð fram breytingu í þessum efnum.
    Sparnaður upp á 190 millj. --- ég hef þá trú að það sé hægt að ná þessum sparnaði með þessu fyrirkomulagi sem þarna er lagt til. Það sem er verið að gera er að kostnaðarþátttaka foreldranna í tannviðgerðum barnanna er aukin, það er verið að velta þessu yfir á fólkið, skattleggja fólkið enn frekar. Það breytir engu um gjaldskrá tannlæknanna, það er ekki verið að breyta henni í einu eða neinu, þeir halda öllu sínu. Þarna er enn ekkert gert í gjaldskránum, heldur er vandanum velt yfir á fólkið.
    Síðan er gert ráð fyrir því að spara samkvæmt þessum bandormi 60--80 millj. kr. með því að bjóða út ákveðna þætti í sjúkratryggingunum. Þetta er eitt af því albesta sem er í þessu frv. og þarna er ég alveg sannfærður um að hægt er að ná árangri. Þetta er skynsamlegt. Það er einmitt skynsamlegt að gera þetta með þessum hætti. Og það þykist ég vera viss um að þetta sé allt saman mjög dyggilega stutt af heilbrigðis- og trygginganefnd Sjálfstfl., að þessi leið skuli valin. Það sem þarna er á ferðinni er það að læknar hafa komið sér upp og eiga hlut í rannsóknastofum. Ýmiss konar sýni sem tekin eru, blóðprufur og annað slíkt, eru send inn á þessar stofur til rannsókna og Tryggingastofnun ríkisins borgar samkvæmt gjaldskrá. Þarna eru hlutir auðvitað sem mjög eðlilegt er að bjóða út. En hvað mun gerast? Mín spá er að sú

eina stofa sem raunverulega geti boðið í þetta allt saman og boðið lægsta verð sé rannsóknastofa Ríkisspítalanna. Ég man það frá þeim tíma er ég sat í samninganefnd við þessa sérfræðinga, að á þeim kostnaði sem var upp gefinn af hálfu sérfræðinganna og af hálfu Ríkisspítalanna var mikill munur. Kostnaðurinn við rekstur Ríkisspítalastofunnar var miklu lægri en nokkurs staðar annars staðar. Þeir gátu veitt mesta afsláttinn. Ég er því alveg sannfærður um það að þar mun þetta lenda og eru í sjálfu sér ágætis sértekjur fyrir Ríkisspítalana sem búa núna við nokkuð erfiðar aðstæður.
    Þá er það II. kafli þessa frv. sem fjallar um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum og um að hún skuli gerð að hlutafélagi. Gert er ráð fyrir því að tekjur af sölu Samábyrgðarinnar verði 170 millj. kr. Þarna á að taka peninga sem mikill vafi leikur á hvort ríkið á. Ég minnist þess frá fyrri tíma er menn ræddu hér um sjálfseignarstofnanir á sviði heilbrigðismála að þá var talið að viðkomandi stofnanir ættu sig sjálfar og það gildir eins með Samábyrgðina að sá eignarhlutur sem þar hefur myndast hefur myndast fyrir tilverknað þeirra sem hafa tryggt. Þannig eru þeir sem hafa tryggt hjá Samábyrgðinni auðvitað eigendur Samábyrgðarinnar en ekki ríkið. Ríkið hefur ekki verið með neitt í tryggingu hjá Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, ekki nokkurn skapaðan hlut. Það eru bátaábyrgðarfélögin sem hafa verið með tryggingarnar þarna og það eru þau sem eiga Samábyrgðina. Þess vegna hlýtur það að vera stór spurning hvort það sé einfaldlega hægt að ríkið taki hluti sem það á ekki og selji einhverjum eða jafnvel gefi og segi sem svo: Ja, við áttum þetta. Þetta er sama spurningin sem er auðvitað í hugum manna varðandi Brunabótafélag Íslands. Á ríkið Brunabótafélag Íslands? Eru þingmenn almennt sammála því? Ég held að það séu mjög fáir sem því eru sammála að Brunabótafélagið sé eign ríkisins. Það gildir nákvæmlega það sama um Samábyrgðina. ( Gripið fram í: Það er eign sveitarfélaganna.) Brunabótafélagið er eign sveitarfélaganna sem hafa tryggt, þar hefur eignin myndast. Þess vegna finnst mér það alveg sjálfsagt að þessi tvö aðskildu mál og ólíku fylgist að í þessum bandormi gegnum þingið. Ég sagði það í upphafi minnar ræðu að ég skal styðja . . .  ( ÓÞÞ: Þetta er samkomulagsmál hjá stjórninni.) Ég þekki það ekki, hv. þm., en ég sagði hæstv. ráðherra það í upphafi að ég skyldi styðja hann dyggilega í því vegna þess að hann lýsti því yfir á fundi í fjárln. sl. sunnudag að það væri mikilvægt að þessi mál fylgdust alveg að í gegnum þingið og ég skal styðja hæstv. ráðherra í því, bæði í þinginu og í störfum nefndarinnar.
    En það getur vel verið réttlætanlegt og mér finnst það að mörgu leyti skynsamlegt að breyta Samábyrgð Íslands í hlutafélag. En hverjir mundu þá eiga það hlutafélag? Það eru auðvitað þeir sem eiga sjóðina, tryggingasjóðina og hafa lagt í þá í Samábyrgðinni. Ríkið hefur ekki lagt þar fram eina einustu krónu. Það eru bátaábyrgðarfélögin og þeir sem hafa tryggt hjá þeim sem eiga þetta. (Gripið fram í.) Ja, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson þekkir þetta mjög vel vegna þess að hann segir að þetta sé samkomulagsmál og ég trúi því að hann hafi framkvæmt rannsóknir á því hér síðustu daga í þinginu að um þetta ríki víðtæk samstaða. 170 millj., sagði hæstv. heilbrrh., að mætti gera ráð fyrir að ríkið fengi fyrir þessa sölu. Það eru alveg óvitlausir útreikningar, a.m.k. miklu skynsamlegri en margt annað sem hefur verið reiknað út og tengist þessum bandormi. Þá sýnist mér hæstv. ráðherra taka þá upphæð sem er eigið fé í fyrirtækinu og segja: Þetta er markaðsvirði Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum. Það eru 174 millj. Þannig að verðið er alveg óvitlaust. En menn geta náttúrlega ekki verið að ætlast til þess að þeir fái peninga af því sem ekki eiga og ætla að selja það sem þeir alls ekki eiga. Það er vandamálið í því öllu saman, að ná þessu inn í ríkissjóð.
    Gengi þetta eftir, að þetta mundi gerast með þessum hætti og menn kæmust að einhverju samkomulagi og segðu sem svo: Ja, ríkið gæti átt allt annað en innstæður bátaábyrgðarfélaganna í Samábyrgðinni. Bátaábyrgðafélögin eiga í sjóðum í Samábyrgðinni, sem er í tryggingasjóðnum sem er eign bátaábyrgðarfélaganna, 90 millj. kr. Við skulum segja að það yrði dregið frá og ríkið gæti eignað sér hitt. Hver væri grundvöllurinn fyrir því að þeir gætu eignað sér það? Jú, að þeir skyldu hafa leyft félaginu að lifa í 90 ár. Það væri það sem ríkið fengi fyrir. Þannig að út úr þessu kæmi þá ekki nema 81 millj. En það eru auðvitað þessi bátaábyrgðarfélög sem voru að byggja þetta upp og það eru þau sem eiga þetta. Gengi þetta eftir með þessum hætti þá er hér alveg um hreina eignaupptöku að ræða sem brýtur í bága við 67. gr. stjórnarskrárinnar, nema fullar bætur komi fyrir. Þá er spurningin: Hver ætti að bæta eigendunum? Það yrði ríkissjóður. Þá yrði það auðvitað til lítils seilst fyrir ríkissjóð ef hann þyrfti að koma með sömu upphæð á móti og hann fengi út úr fyrir að selja þetta.
    Ég tek hins vegar undir það að það getur verið skynsamlegt og eðlilegt að breyta Samábyrgðinni í hlutafélag. En eigendurnir eru auðvitað bátaábyrgðarfélögin og engir aðrir og það þurfa menn að hafa í huga.
    Fyrir utan þetta, um eignarréttinn, þá hef ég miklar athugasemdir við það sem fram kemur í 13. gr. um Samábyrgðina þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Fastráðnir starfsmenn Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum skulu hafa rétt til að starfa hjá Samábyrgðinni hf. og skal þeim boðin sambærileg staða hjá félaginu og þeir gegndu áður. Ákvæði 14. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38/1954, með síðari breytingum, á því ekki við um þá starfsmenn.``
    Hér er enn einu sinni komið nákvæmlega sama ákvæðið inn í lagafrv. og hefur verið inni í frv. um Síldarverksmiðjur ríkisins, um Sementsverksmiðjuna og allt hefur stöðvast vegna þess að það liggja fyrir margar álitsgerðir lögfræðinga á því að þarna sé um skýrt brot á stjórnarskránni að ræða. Þetta þýðir það, ef þetta gengi eftir, að þessir starfsmenn, sem hafa verið ríkisstarfsmenn í gegnum tíðina og hafa búið við

það að vera á lægri launum heldur en almennt gerist á markaðnum vegna þess að þeir hafa búið við betri aðstæður í lífeyrissjóðunum, þeir hafa haft biðlaunaréttinn, þeir missa þetta allt saman án þess að fá neinar bætur fyrir. Og það er bæði í álitsgerð Gests Jónssonar hæstaréttarlögmanns og í álitsgerð frá Almennu málflutningsstofunni sem Hróbjartur Jónatansson skrifar undir, að þetta ákvæði brýtur í bága við 67. gr. stjórnarskrárinnar. Þarna væri því um tvöfalt brot á stjórnarskránni að ræða gengi þetta eftir með þessum hætti. Ég trúi því varla fyrr en ég tek á að þingmenn þess flokks, sem líta harðast allra þingmanna á eignarréttinn og telja hann helgastan af öllu, þingmenn Sjálfstfl., ætli að standa að slíkum breytingum. En það verður auðvitað ekki af frv. annað ráðið heldur en að um þetta sé samstaða hjá stjórnarflokkunum, um að svipta eigendurna í Samábyrgð, bátaábyrgðarfélögin, þeirri eign sem þeir þarna eiga, taka það inn í ríkissjóð og dreifa því út núna tímabundið. Það væri auðvitað mjög mikilvægt að fá að vita, ef það er svo að það eru ekki allir þingmenn Sjálfstfl. --- auðvitað er þetta skiljanlegt með Alþfl. sem lítur eignarhaldið allt öðrum augum en Sjálfstfl. þó svo að þeir styðji málið --- en það væri fróðlegt að fá að vita hvort allir þingmenn Sjálfstfl. standa að þessu máli eins og það liggur fyrir.
    Virðulegi forseti. Ég sagði það í upphafi ræðu minnar að hér væri fyrst og fremst um enn eitt skattalagafrumvarpið að ræða. Hér er verið að skattleggja ákveðna hópa í þjóðfélaginu. Með sértækum aðgerðum eru ákveðnir hópar eltir uppi og þeir sérstaklega skattlagðir. Ég tók það saman að gamni mínu hverjar þær álögur eru sem þessi ríkisstjórn hefur lagt á sjúklinga, ellilífeyrisþega, öryrkja og aðra þá sem þurfa á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda á árinu 1992 og hvaða álögur eru fyrirhugaðar með þessu frv. eins og það liggur fyrir á árinu 1993. Það er 1.000 millj. kr. lyfjaskattur á árinu 1992. Það er 700 millj. kr. skattur á þá sem þurfa að sækja þjónustu sérfræðinga á árinu 1992. Það er 370 millj. kr. skattur á þá sem þurfa að sækja þjónustu heilsugæslustöðvanna á árinu 1992. Það er 260 millj. kr. skattur á elli- og örorkulífeyrisþega með tekjutengingu elli- og örorkulífeyrisins og ekkert kom í staðinn. Í þessu frv. á að leggja 500 millj. kr. skatt á einstæða foreldra og þá sem greiða meðlögin. Sjúklingar eiga að greiða 500 millj. kr. vegna nýrrar skilgreiningar á lyfjahugtakinu. Sjúklingar sem þurfa að fara til sérfræðings en þurfa að fara fyrst til heimilislæknis þurfa að greiða 270 millj. kr., gangi þetta eftir óbreytt, fyrir það að þurfa að fara til heimilislækna til þess að fá tilvísunina. Og foreldrar barnanna eiga núna að greiða 190 millj. kr. viðbótarskatt af því að það er verið að breyta fyrirkomulaginu í tannlækningunum. Þetta þýðir, hæstv. heilbr.- og trmrh., að þessar skattálögur ríkisstjórnarinnar á þessum tveimur árum verða 3,8 milljarðar kr., beinar skattálögur. Ég held að þetta lýsi sér best í því hvað þarna er verið að gera að það er hvergi verið að spara. 270 millj. kr. kostar fyrir einstaklingana að fara til heimilislæknis til að ná sér í tilvísun. En tilvísunin á að spara hjá sérfræðingunum 120 millj. kr. Ef hæstv. ráðherra breytir hins vegar aðgangseyrinum að heilsugæslustöðvunum þá mun þetta dæmi líta öðruvísi út. Ég sagði það fyrr í minni ræðu að það væri forsendan og hefði alltaf af hálfu okkar framsóknarmanna verið forsendan fyrir því að þessi breyting yrði gerð. En ég bið menn að hafa það í huga að á þessum tveimur árum, eða hugsanlega verði það svo á tveimur árum, á árinu 1992 og 1993, þá munu beinar skattálögur á það fólk, sem þarf á aðstoð heilbrigðiskerfisins að halda, hefur notið aðstoðar almannatrygginganna í gegnum tíðina, vera um 3,8 milljarðar kr. --- [Fundarhlé.]