Almannatryggingar

76. fundur
Miðvikudaginn 09. desember 1992, kl. 20:30:14 (3210)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Finnur Ingólfsson hefur farið mjög rækilega yfir það frv. sem hér liggur fyrir til meðferðar um breytingu á lögum um almannatryggingar og um sölu á Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Í sjálfu sér var úttekt hv. þm. það ítarleg að það er kannski ekki ástæða til að bæta þar mjög miklu við ef ekki vildi þannig til að einmitt í þeim töluðu orðum þegar við erum að ræða þetta einstaka frv. þá birtist í fjölmiðlum samþykkt frá fundi miðstjórnar Alþýðusambands Íslands sem var haldinn í dag. Jafnframt birtist úttekt á ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar í heild og það er auðvitað nauðsynlegt að átta sig á því, eins og hæstv. heilbrrh. lagði áherslu á í dag, að þær ráðstafanir, sem verið er að tala um í þessu frv., eru ekki einstæðar heldur eru þær hluti af víðtækara verki, ráðstöfunum sem hitta mjög marga aðila í þjóðfélaginu fyrir. Þess vegna tel ég að það sé eðlilegt, ekki aðeins réttlætanlegt, heldur einnig eðlilegt og nauðsynlegt að skoða þessar ráðstafanir með hliðsjón af því sem Alþýðusamband Íslands hefur um heildarráðstafanirnar að segja.
    Í samþykkt Alþýðusambands Íslands frá miðstjórnarfundinum í dag segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Miðstjórn Alþýðusambands Íslands ítrekar mótmæli 37. þings sambandsins gegn harkalegum kjaraskerðingaraðgerðum ríkisstjórnarinnar og hvetur félögin til þess að segja samningum upp sem fyrst þannig að þeir verði lausir fyrir 1. febr. nk.
    Miðstjórn mótmælir harðlega þeim viðbótaraðgerðum sem nú hafa verið kynntar um skerðingu barnabóta, vaxtabóta, aukinn lyfjakostnað og kostnað vegna tannlækninga barna og aldraðra. Í öllum þessum atriðum er gengið þvert á kröfu Alþýðusambands Íslands um aukinn jöfnuð.
    Ríkisstjórnin, sem hét því samhliða samningum sl. vor að breyta barnabótakerfinu lágtekjufjölskyldum í hag með því að nota afraksturinn af lækkun barnabótafjölskyldna með hærri tekjur til að hækka barnabætur fjölskyldna með lægri tekjur, hefur nú ákveðið að lækka barnabætur einhliða. Lágtekjufólk er þannig svikið um þá bót sem ríkisstjórnin lofaði á sl. vori. Vaxtabætur eru skertar með aðferð sem kemur harðar niður á lágtekjufólki en hátekjufólki. Aukinn lyfjakostnaður og kostnaður vegna tannlækninga

barna og aldraðra er alvarleg skattlagning á það fólk sem síst má við auknum álögum.
    Áður en til aðgerðanna var gripið höfðu fulltrúar Alþýðusambands Íslands sýnt fram á að með tekjujöfnunaraðgerðum má verja kaupmátt láglaunafólks og um leið treysta undirstöður atvinnulífsins. Miðstjórnin ítrekar mótmæli ASÍ þings við því að ríkisstjórnin skuli hafa hafnað samstarfi við verkalýðssamtökin um lausn efnahagsmála og að hana skuli skorta pólitískan vilja til að standa að tekjujöfnunaraðgerðum. Einmitt við þær erfiðu aðstæður sem við stöndum frammi fyrir í dag er nauðsyn á breiðri samstöðu um að verja kjör lágtekjufólks.
    Miðstjórn Alþýðusambands Íslands skorar því á ríkisstjórnina að taka ákvarðanir sínar til endurskoðunar og lýsir allri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni ef hún með þessum hætti velur að rjúfa grið gagnvart lágtekjufólki í landinu.``
    Ég hygg, virðulegi forseti, að það sé orðinn alllangur tími liðinn frá því að það hefur komið jafneindregin ályktun frá miðstjórn Alþýðusambands Íslands og sú sem birtist hér og ég las upp áðan. Auðvitað sýnir það fyrst og fremst alvöru málsins að verkalýðssamtökin skuli telja sig knúin til að taka á málinu með þessum hætti og auðvitað hefði ríkisstjórnin þurft að átta sig á þessu áður en hún lagði af stað með sínar aðgerðir. Að vísu má segja að það sé ekki of seint fyrir ríkisstjórnina að átta sig og taka skynsamlega á málum. Það er auðvitað ekki of seint fyrir ríkisstjórnina að draga þessi frumvörp til baka sem liggja hér fyrir þinginu. Það er ekki of seint að hefja viðræður við aðila vinnumarkaðarins og verkalýðshreyfinguna sérstaklega um lagfæringar á þeim tillögum sem hér liggja fyrir. Það er ekki of seint. Það hefur komið fram af hálfu forustumanna Alþýðusambands Íslands síðustu dagana og í kvöld líka að þeir eru tilbúnir til viðræðna. En það er líka alveg ljóst að við þær aðstæður sem nú eru þá telur forusta Alþýðusambands Íslands óhjákvæmilegt að segja við félögin: Eins og staðan er í dag þá er enginn annar kostur en að hvetja félögin til að segja upp kjarasamningum til þess að sameinast um að verja kjör lágtekjufólks í landinu.
    Hæstv. heilbrrh. og hæstv. utanrrh. hafa aftur og aftur sett þessi mál þannig upp að þeir væru í rauninni að þjóna hagsmunum og hugsjónum og stefnu jafnaðarmanna, lágtekjufólks og verkalýðshreyfingarinnar með þeim aðgerðum sem verið er að efna til. Ég vil segja við þá í fullri vinsemd, ef eitthvað er fjarstætt að nefna í þessu sambandi þá er það það að þeir séu að verja hagsmuni lágtekjufólks. Staðreyndin er sú að Alþýðusambandið hafði fyrr á þessu ári sett fram tillögur um aðgerðir í efnahagsmálum sem hefðu haft í för með sér kaupmáttarskerðingu, já, en minni kaupmáttarskerðingu hjá láglaunafólki og allt aðra heldur en þá sem hér er verið að tala um. Þær aðgerðir sem hér er verið að tala um eru auðvitað svo hrikalegar vegna þess að í mörgum tilvikum, eins og ég mun sýna fram á síðar í ræðu minni, koma þessar aðgerðir verr niður á lágtekjufólki en á öðrum, um leið og það er þannig að það er sérstaklega lagt til atlögu við þann hóp í þjóðfélaginu sem er aðallega að vinna fyrir nokkrum tekjum, er að byggja og er að eiga börn, fólkið sem er á aldrinum 25--40 ára, fólk sem er á besta aldri og leyfir sér að eiga börn, eins og hæstv. heilbrrh. benti á í viðtali við Stöð 2 fyrir nokkrum kvöldum og ég mun koma að síðar.
    Það er alveg augljóst mál, virðulegi forseti, að hér er komið að ákveðnum kaflaskilum í tilveru þeirrar ríkisstjórnar sem situr í landinu. Hún er ekki búin að sitja mjög lengi í raun og veru. Hún tók hér við í fyrra vor. En með þessum aðgerðum er hún að segja í sundur friðinn við þjóðina gagnstætt því sem hefur verið áherslumál ríkisstjórnar nú um langt skeið, þ.e. að stuðla að þjóðarsátt og samvinnu um þróun meginstærða í efnahagsmálum. Nú er staðan þannig að við höfum ríkisstjórn á ný sem er að segja í sundur friðinn, að rjúfa grið gagnvart lágtekjufólki í landinu, eins og Alþýðusamband Íslands segir.
    Það er mjög langt síðan, virðulegi forseti, að við höfum haft ríkisstjórn af þessu tagi. Það er mjög langt síðan við höfum haft ríkisstjórn þar sem alþýðusamtökin hafa talið sig þurfa að ganga fram með þessum hætti og það er í raun og veru nauðsynlegt að nákvæmlega núna, 9. des. 1992, gerum við okkur grein fyrir því að þolinmæði verkalýðssamtakanna er þrotin og það er óhjákvæmilegt að menn geri sér grein fyrir því að menn hyggjast efna til samstöðu til að verja kjör lágtekjufólks eins og hér er nefnt í ályktun Alþýðusambandsins.
    Í ályktun Alþýðusambandsins er ekki aðeins hvatt til samstöðu og varnar heldur líka hvatt til samstöðu og sóknar. Og það eru einnig kaflaskil að mínu mati að í ályktun miðstjórnar Alþýðusambandsins frá í dag segir, með leyfi forseta:
    ,,Lágtekjufólk er þannig svikið um þá bót sem ríkisstjórnin lofaði á liðnu vori.``
    Ég mun á eftir í máli mínu, virðulegi forseti, fara yfir yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar sem voru gefnar við síðustu kjarasamninga, en þar var því m.a. lofað að breyta ekki barnabótum nema í samráði við verkalýðshreyfinguna. Því var lofað. Ég spyr hæstv. heilbrrh. og mun koma nánar að því á eftir: Hvaða samráð var haft um þetta plagg, þessar tillögur og tekjuskattstillögurnar áður en þetta var lagt fram á Alþingi? Ég get svarað þessu: Það var ekkert samráð við þetta fólk.
    Meðal þeirra breytinga, virðulegi forseti, sem verið er að gera samkvæmt því frv. sem hér liggur fyrir og öðrum ákvörðunum heilbrrh., er að breyta í grundvallaratriðum greiðsluþátttöku sjúklinga í verði lyfja. Ég hef undir höndum yfirlit um þessar breytingar sem mér barst áðan frá hagdeild Alþýðusambands Íslands. Þar kemur það t.d. fram að þegar um er að ræða lyfjaávísun sem kostar innan við 500 kr. þá borgar sjúklingurinn núna 87 kr. --- Hvað borgar hann samkvæmt ákvörðunum heilbrrn. samkvæmt þessari töflu? 349 kr. Ef lyfjaávísunin er á bilinu 501--1.000 kr. þá borgar viðkomandi í dag 185 kr. en mun borga að

því er Alþýðusambandið segir 560 kr. Og þegar um er að ræða lyfjaávísun sem kostar á bilinu 1.500--2.000 kr. þá borgar sjúklingurinn í dag 432 kr. en borgar eftir nýja kerfinu frá 1. jan. 807 kr. Þau lyf, sem kosta undir 2.000 kr. alls, eru um 27% af veltu, þau kosta u.þ.b. 27% af heildarveltu lyfja í smásölu og það eru 61,55% af fjölda lyfjaávísana eins og þær eru gefnar út. Niðurstaða Alþýðusambandsins er sú að hlutur sjúklings í meðalverði lyfja hækki úr 525 kr. í 867 kr. eða um 65,2%. Greiðsluþátttakan, sem er 22,6%, verður 37,3%.
    Hér hefur það verið rakið, virðulegi forseti, hvaða áhrif þessar breytingar hafa m.a. á kaup í einstökum tilvikum, en Alþýðusambandið hefur tekið saman heildarupplýsingar um þessi mál. M.a. hefur Alþýðusambandið tekið saman yfirlit um það hvaða áhrif breytingar á vaxtabótum hafa í för með sér. Hvaða áhrif ætli breytingar á vaxtabótum hafi í för með sér fyrir fólk sem hefur að meðaltali 670 þús. kr. í árstekjur, en það er í raun og veru lægsti tekjuhópurinn? Kaupmáttur þess fólks, sem skuldar meðalskuldina, versnar um 3,5% bara út af breytingunum á vaxtabótunum og þarna er ég að tala um hjón og sambýlisfólk. Ef við tölum um einstæða foreldra þá er í gögnum Alþýðusambandsins talað um að breytingarnar á vaxtabótunum þýði 1--1,6% skerðingu á kaupmætti.
    Alþýðusambandið hefur einnig tekið saman breytingarnar á barnabótakerfinu. Niðurstaðan er sú að þegar um er að ræða mánaðartekjur, 100 þús. kr. og þar fyrir neðan, þá skerðist kaupmátturinn vegna breytinga á barnabótakerfinu um 0,6%--0,8% en minna ofar í tekjuskalanum. Þegar þetta allt er tekið saman, heildaryfirlit yfir kaupmáttaráhrif af aðgerðum ríkisstjórnarinnar þá kemur þetta í ljós, virðulegi forseti, samkvæmt þessu yfirliti Alþýðusambandsins sem ég hygg að sé algjörlega ómótmælanlegt. Ef um er að ræða tekjur sem eru 60 þús. kr. þá lækkar kaupmáttur ráðstöfunarteknanna um 5,68% samkvæmt þeim ráðstöfunum sem voru kynntar 23. nóv. Ég er ekki að tala um nein himnalaun, ég er að tala um 60 þús. kr. í tekjur. Við þetta bætist síðan niðurskurðurinn sem nú er verið að kynna, barnabætur og vaxtabætur, hann skerðir kaupmátt þessa fólks um 1,31% og lyfjahækkunin ein sér og hækkunin á tannlæknakostnaði skerðir tekjur þessa fólks að meðaltali um 0,4% þannig að heildarkaupmáttaráhrifin af aðgerðum ríkisstjórnarinnar eru hver? --- Hjá þessu fólki sem er með 60 þús. á mánuði eru árhifin 7,4%. Það er sem sagt verið að taka af þessum einstaklingum sem eru með 60 þús. kr. á mánuði, 4.200--4.400 kr. á mánuði.
    Hæstv. utanrrh. hélt því fram þegar hann var að tala um þessar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar fyrir nokkru að í rauninni hefði verið farið meira og minna eftir tillögum Alþýðusambandsins. Ég man ekki betur en að hann hafi fullyrt að það hafi farið meira og minna eftir tillögum Alþýðusambandsins. Alþýðusambandið hefur sent frá sér sérstakan samanburð á kaupmáttaráhrifum aðgerðar ríkisstjórnarinnar annars vegar og hugmynda ASÍ hins vegar þar sem það kemur fram að um yrði að ræða 1% kaupmáttarskerðingu samkvæmt tillögum ASÍ í tekjum sem eru upp að 160 þús. kr. á mánuði en hver er talan samkvæmt aðgerðum ríkisstjórnarinnar? Hún er ekki 1%, hún er 7,5%. Og hæstv. utanrrh. hélt því þó fram að í raun og veru væru þetta nákvæmlega sömu tillögurnar sem menn voru hér að gera.
    Ég hygg þess vegna, virðulegi forseti, þegar þetta er allt skoðað þá hljóti menn að átta sig á því og skilja hvernig á því stendur að samtök launafólks í þessu landi segja: Nú þurfum við að standa saman og hvetja til samstöðu og varnar til að verja kjör láglaunafólks í okkar landi.
    Auðvitað getur það út af fyrir sig vel verið að ósköp lítið þýði kannski fyrir okkur sem erum í stjórnarandstöðunni að tala um þessa hluti við hæstvirta ráðherra og stundum finnst mér satt að segja að þetta fari inn um annað eyrað á þeim og út um hitt það sem verið er að segja hérna og það er slæmt, vegna þess, eins og forseti veit best, þá á hér inni að vera lýðræðislegur vettvangur þar sem menn skiptast á skoðunum, skiptast á rökum og gagnrökum og reyna að hafa áhrif hver á annan. Ég er sannfærður um það, virðulegi forseti, að eftir viðtöl sem ég hef átt við fjöldann allan af þingmönnum stjórnarflokkanna að þeim var ekki kunnugt um það í einstökum atriðum hvernig þessar ráðstafanir mundu líta út. Þeim var ekki kunnugt um það í einstökum atriðum hvernig þessar ráðstafanir mundu líta út eftir nótt hinna löngu hnífa þegar fundirnir voru haldnir í þingflokkum skyndilega og ákvarðanir teknar í þingflokkum stjórnarliðsins. Það er fjöldinn allur af þingmönnum stjórnarflokkanna sem hafði ekki hugmynd um það hvernig þessi mál kæmu út. Og ég spyr í fyrsta lagi auðvitað um framkomu ríkisstjórnarinnar gagnvart sínum eigin flokkum, en í öðru lagi um sjálfsvirðingu þeirra þingmanna sem hér er um að ræða og ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að þeir láti ganga yfir sig með þeim óvandaða flumbruhætti sem er einkenni þessara tillagna meira og minna út og suður. Dæmi: Í tillögunum er gert ráð fyrir því að skerða barnabætur. Í tillögunum er gert ráð fyrir því að skerða meðlög og fella niður mæðralaun. Í tillögunum er gert ráð fyrir því að lækka barnalífeyri. En þessar tillögur og áhrif þeirra hafa aldrei verið prófaðar saman, þær hafa aldrei verið keyrðar saman í öllum tölvukosti ríkisins, aldrei. Ráðherrarnir vita ekki núna og þaðan af síður einstakir þingmenn hvernig þessar tillögur koma út þegar þær eru skoðaðar í samhengi, tillögurnar um breytingar á barnalífeyri og barnabótum, mæðralaunum og meðlögum. Og svo tekjuskattinum. Hér er því um að ræða alveg óvenjulega fljótfærnisleg vinnubrögð og um leið svo harkaleg. Setjum sem svo að við værum þeirrar skoðunar að það væri ekki óeðlilegt að breyta meðlagsgreiðslum, t.d. að hækka þessa tölu eitthvað sem nú er, ef ég man rétt, 7.551 kr. á mánuði, en að gera það svona, upp í 11.300 kr. í einu höggi er of harkalegt. Það er verið að kollsigla í raun og veru fjárhag fjölmargra einstaklinga sem hér er um að ræða. Látum líka vera að menn tækju ákvörðun um að auka hlut beinna skatta í hinum almennu skattgreiðslum í landinu, en hér er þetta gert með þeim hætti að tekjuskattar einstaklinga hækka úr 13,4 milljörðum kr. upp í á 18. milljarð kr. eða um 31%.
    Það vill þannig til, virðulegi forseti, að fyrir fáum dögum hitti ég einstakling sem hafði sýnt mér fjárhagsáætlun sem hann gerði fyrir sig og fjölskyldu sína vegna húsnæðiskaupa fyrr á þessu ári. Hann hafði lagt í dálítinn kostnað, annars vegar var hann pínulítið montinn yfir því að hafa gert það og hins vegar sá hann dálítið eftir peningunum því hann hafði lagt í pínulítinn kostnað og fengið sér endurskoðanda til að búa til fyrir sig fjárhagsáætlun til þess að hann gæti haldið utan um íbúðina sína, tryggt fjárhagslegt öryggi fjölskyldunnar eins og hægt væri. Þessi einstaklingur, það vill svo til að ég kann þessar tölur nokkurn veginn enn þá, er með 130 þús. kr. á mánuði, reyndar 120 þús. þegar hann gerði áætlunina en gerir sér von um að koma tekjunum upp í 130 þús. Konan er kennari í hlutastarfi með 70 þús. kr. á mánuði. Þau eru með 3 börn og þau skulda bara 4,1 millj. kr. Þau höfðu lagt dálítið fyrir þannig að þau höfðu höfðu peninga til að leggja í íbúðina sem þau höfðu nýlega eignast. Niðurstaða þeirra er sú að ráðstöfunartekjur þeirra minnka um 80 þús. kr. á ári vegna tekjuskattsbreytinganna einna en síðan bætist við kaupmáttarskerðingin sem Alþýðusambandið er að tala um. Alþýðusambandið segir 7,5%, við skulum segja að hún sé kannski ekki nákvæmlega svo há, segjum að hún sé 5%. Þá eru peningarnir, sem þetta fólk hefur handa á milli, 200 þús. kr. minni á næsta ári en þeir hefðu orðið að óbreyttu. Og þetta, virðulegi forseti, er miklu meira fall í tekjum þessa fólks en nemur fallinu í kaupmætti þjóðarteknanna. Þegar menn eru að tala um skerðingu kjara þá miða menn auðvitað við það fall sem verður í þjóðartekjum. Hér er um mikið, mikið meira falla að ræða. Hér er heldur ekki um almennar ráðstafanir að ræða nema að því er varðar þetta 1,5% í skattinum. Því það eru sigtaðir út hópar og teknir alveg sérstaklega fyrir. Það er fólkið sem er að byggja og það er fólkið sem á börnin. Það er tekið alveg sérstaklega fyrir og það er skattlagt aukalega. Ef maður á barn fær maður aukaskatt. Ef maður er að byggja fær maður aukaskatt. Þetta er einfaldlega ranglátt kerfi og ég trúi því ekki, eins og ég sagði áðan, að hv. þm. stjórnarliðsins hafi þekkt þetta kerfi í einstökum atriðum. En ímyndum okkur svo að þessi vinur minn hefði átt eitt barn eða tvö frá því fyrir hjónaband og þyrfti að greiða meðlög. Ef um er að ræða tvö börn sem þannig háttaði til um, segjum að þau hefðu átt eitt hvort og séu að borga með þessum börnum, þá er verið að bæta við kjaraskerðingu þeirra, við þessi 80.000 samkvæmt tekjuskattsfrv., 100 þús. kr. plús kaupmáttarskerðinguna vegna gengislækkunarinnar og verðbreytinganna, virðisaukaskattsins, lyfjanna og tannlækninganna. Þannig er alveg eins og það séu sigtaðir út tilteknir einstaklingar, tilteknir hópar, sem geta auðvitað ekkert varið sig í þessu þjóðfélagi. T.d. er ekki til félag meðlagsgreiðenda að því er ég best þekki.
    Það er hins vegar athyglisvert og auðvitað sláandi um Alþfl. og þá ofboðslegu niðurlægingu sem hann verður að sæta í þessu stjórnarsamstarfi, að í fjárlagafrv. var gert ráð fyrir því að eignatenging lífeyrisbóta skilaði 200 millj. kr. í sparnað fyrir ríkissjóð. Nú liggur það fyrir að það er ekki hægt því að Sjálfstfl. segir auðvitað nei, það má ekki taka neitt eftir eignum og hvað fann þá blessaður heilbrrh. í staðinn? Hann fann börnin, barnafjölskyldurnar, meðlagsgreiðendur og húsbyggjendur. Þetta er auðvitað þvílík niðurlæging í raun þegar allt kemur til alls.
    Hæstv. heilbrrh. sendi fjárlaganefnd bréf fyrir tveimur dögum og samkvæmt því er gert ráð fyrir að það mistakist að spara á ýmsum liðum allmörg hundruð milljóna króna. Niðurstaðan er sú að samkvæmt þeim ráðstöfunum sem hér sé verið að tala um og því sem ekki tekst að spara samkvæmt fjárlagafrv. þá sé niðurstaðan 250 millj. kr. sem menn séu komnir með. Mér skilst að hæstv. heilbrrh., ég heyrði það í ræðu hv. 10. þm. Reykn. að hæstv. heilbrrh. segði í Alþýðublaðinu að það væru á milli 2 og 3 milljarður, eða 2,5 milljarður, sem hefði tekist að spara í heilbr.- og trmrn. frá því sem ella hefði verið. 250 millj. kr. eru hér. En hæstv. ráðherra sagði við fjölmiðla fyrir nokkrum dögum að hann ætlaði núna að taka að sér að spara 650 millj. í viðbót í sérstökum ráðstöfunum. Hann var glaðklakkalegur þegar hann svaraði fjölmiðlum um það að hann færi létt með að spara þetta. Kona, sem ég þekki í Hafnarfirði, ekki fjarskyld mér, sagði þegar hún sá heilbrrh. í sjónvarpinu og heilbrrh. sagði: Auðvitað get ég skorið. --- Þá sagði konan: Ætli honum finnist gaman að skera, honum Sighvati? ( Gripið fram í: Hann lærði læknisfræði.) Hann lærði læknisfræði á unga aldri og hætti snemma sem betur fer.
    Staðan er þannig hins vegar að þrátt fyrir þessa glaðklakkalegu yfirlýsingu upp á 650 millj. kr. þá er hæstv. ráðherra kominn með í sparnað 250 millj. og plús svo nákvæmlega, því ríkisstjórnin er svo nákvæm yfirleitt, 174 millj. fyrir sölu Samábyrgðar Íslands á fiskiskipunum --- 174 millj., ekki 173 og ekki 175 heldur 174 millj. ( Heilbrrh. Það var lækkað í 170 . . .  ) Það getur nú ekki verið að hæstv. ráðherrar renni sér upp á 4 millj. frá því fyrir kvöldmat.
    Þannig að alls er hæstv. ráðherra hér ekki með 650 millj. heldur er hann með u.þ.b. 425 millj. og fyrsta spurningin sem ég spyr þá hæstv. ráðherra í minni ræðu: Hvað svo, hvað kemur svo upp í þessar 650 millj.? Það vantar 225 millj. í viðbót. Hvar á að taka þær? Hann hefur að vísu bent á ákveðinn hóp sem á eftir að taka í gegn og ég kem aðeins að síðar, það er þetta fólk sem er fullfrískt á besta aldri, með góðar tekjur og er að hlaða niður börnum. Það eru 225 millj. kr. sem eru þarna eftir.
    Hæstv. heilbrrh. mætti í viðtal við Stöð 2 6. des. sl. og hann var harmi sleginn. ( Gripið fram í: Á þjóðhátíðardegi Finna.) Harmi sleginn á þjóðhátíðardegi Finna, hann var sleginn, ekki vegna þjóðhátíðardagsins, heldur af öðrum ástæðum. Honum hafði mistekist að skera niður einn ákveðinn hóp í þjóðfélaginu. Hann sagði, með leyfi forseta:
    ,,Það er eins og einn hópur fólks sem fær bætur úr lífeyristryggingum, hæstu bætur sem lífeyristryggingar borga, miklu hærri en tekjulaust gamalmenni fær. Þetta eru þeir sem fá fæðingarorlof. Ég hefði gjarnan viljað skoða það með sama hætti og bæturnar til gamla fólksins því fæðingarorlof --- taki nú hv. þm. eftir, sem eru örugglega ekki eins vel að sér í læknisfræði og hæstv. ráðherra en hann byrjaði þar einhvern tíma --- er náttúrlega greitt til fólks á besta aldri . . .``   (Gripið fram í: Stendur náttúrlega?) Já, það stendur náttúrlega --- ,,sem flest er við fulla heilsu og margir mjög tekjuháir. Það er hins vegar ekki gert í þessum tillögum. En ég tel að þegar menn eru að skoða í svona krappri stöðu þá möguleika sem finnast í þessu kerfi eigi menn ekki bara að horfa á gamla fólkið og öryrkjana heldur líka þá sem njóta bóta úr þessu kerfi sem eru jafnvel hærri heldur en við borgum gömlu fólki og öryrkjum, eru við bestu heilsu, á besta aldri og eru kannski með háar tekjur.``
    Fyrir utan þá nýstárlegu kenningu sem felst í því að framvegis beri einkum að ætlast til þess af öldruðum að þeir eigi börn hér á landi, fyrir utan það að menn telja að það sé eðlilegt að reyna þannig að stilla saman hópana og fyrir utan það að beinlínis má lesa á milli línanna þá hlakkar í hæstv. heilbrrh. yfir möguleikunum á því að taka þetta á einu bretti, bæði gamla og fólk með börn. Það er alveg ótrúlegt að lesa þetta vegna þess að það lýsir því nákvæmlega sem er aðalvandamál heilbrigðis- og tryggingamálanna í dag en það er: Við höfum engan heilbrrh. Við höfum engan mann sem ver heilbrigðis- og tryggingakerfið á Íslandi. Þeir eru allir í því, þessir ráðherrar, að leika fjmrh. hver í sínu ráðuneyti. Það er enginn maður í því að halda uppi merki heilbrigðisþjónustunnar af neinum krafti þannig að menn segi: Það á ekki að ganga yfir þetta. Það á að setja mörk og afmarka hlutina með tilteknum hætti. Ég vona, virðulegi forseti, að þetta viðtal við hæstv. heilbrrh. verði sem allra lengst í minnum haft og að menn hugleiði hvaða hugmyndir hann hefur varðandi það hverjir eiga að eiga börn þegar það er ósvinna að fullhraust fólk sé að gera mikið af því, ég tala nú ekki um þegar fólkið er á besta aldri líka.
    Frv. sem hér liggur fyrir hefur hv. þm. Finnur Ingólfsson farið rækilega yfir, þ.e. hvað þetta þýðir í sambandi við mæðralaun, meðlög og barnalífeyri. Ég ætla aðeins að renna yfir það. Mæðralaun eru í dag greidd 4.732 kr. á mánuði fyrir eitt barn, 12.398 fyrir tvö, 21.991 fyrir þrjú börn o.s.frv. Alls gerir þetta í útgjöldum hjá Tryggingastofnun ríkisins 805 millj. kr. Síðan kemur barnalífeyririnn og hann er 362 millj. kr. Samtals borgar Tryggingastofnun ríkisins 1.167 millj. kr. í mæðralaun og barnalífeyri. Mæðralaunin sem eru 805 millj. kr. lækka niður í 140 millj. kr. en barnalífeyrir sem er 362 millj. kr. hækkar upp í 542 millj. kr. Greiðslurnar sem í dag eru 1.167 millj. kr. fara niður í 682 millj. kr. eða lækka um 485 millj. kr. Þannig lítur dæmið út, þannig er sparnaður ríkissjóðs sem menn eru að tala um í þessu sambandi. Þá er nauðsynlegt að átta sig á því að hluta af þessum sparnaði borga meðlagsgreiðendur. Þeir borga 353 millj. kr. sem er hækkun á greiðslum meðlagsgreiðenda. Þeir borga með öðrum orðum um 3 / 4 af öllum sparnaðinum eða um 73%.
    Eins og ég sagði áðan geta menn auðvitað verið þeirrar skoðunar að það sé réttlætanlegt að hækka þessi meðlög og það er alveg öruggt mál að frá sjónarmiði þeirra sem fá þessi meðlög eru þetta lágar tölur. Það er alveg augljóst mál. Þetta er hins vegar högg sem er býsna þungt, einnig fyrir þá einstaklinga sem þurfa að greiða þessa fjármuni. Þess vegna er það mat þeirra sem þekkja til að það sé hætta á því að menn muni ekki ráða við að greiða þessa hækkun og hvað gerist þá? Hver er það sem borgar mismuninn til Tryggingastofnunar ríkisins? Það er Innheimtustofnun sveitarfélaga. Hver borgar peningana til Innheimtustofnunar sveitarfélaga? Það er Jöfnunarsjóður sveitarfélaga og það er talið af þeim starfsmönnum Innheimtustofnunar sveitarfélaga sem ég hef rætt við að þessi hækkun á meðlögum upp á 353 millj. kr. þýði skerðingu á Jöfnunarsjóði um 100 millj. Ég sá að það var verið að skamma hæstv. félmrh. fyrir það að taka 100 millj. af Jöfnunarsjóðnum vegna Lánasjóðs sveitarfélaga. En það er í raun og veru verið að taka nákvæmlega sömu eða mjög svipaða upphæð af Jöfnunarsjóði sveitarfélaga með þessari ráðstöfun. Ég spyr hæstv. heilbrrh.: Hefur það verið rætt sérstaklega við Samband ísl. sveitarfélaga að þessi ráðstöfun þýði í raun og veru að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga sé að borga 100 millj. aukalega eða tvöfalt hærri tölu en gert hafði verið ráð fyrir inn í efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar? Ég held að félagsmálanefndarmenn þyrftu að kynna sér þetta mál mjög rækilega vegna þess að hér er auðvitað um stór tíðindi að ræða. Það er verið að skattleggja Jöfnunarsjóðinn um 100 millj. aukalega vegna þess að það er ljóst að þessir meðlagsgreiðendur munu ekki allir ráða við þetta og á þessum meðlagsgreiðslum verða auðvitað afföll svo sem verið hafa og sennilega meiri samkvæmt því sem talsmenn Innheimtustofnunar sveitarfélaga segja mér.
    Þegar þessi mál eru skoðuð í heild, virðulegi forseti, með hliðsjón af þeim álögum sem verið er að samþykkja að öðru leyti er rétt að fara lauslega yfir það að fyrir utan þessar íþyngjandi meðlagsgreiðslur, breytingar og skerðingu á þeim því það er verið að lækka mæðralaun, barnalífeyri og meðlög frá því sem verið hefur, einstætt foreldri t.d. með eitt barn lækkar og það hefur engin tilraun verið gerð til að rétta barnabæturnar við svo þær hækki á móti. Það liggur heldur ekkert fyrir um það í endanlegri mynd. Eftir þeim dæmum sem ég hef sjálfur reiknað út, bara handreiknað, sé ég ekki að barnabæturnar tryggi á neinn hátt stöðu þessa fólks þannig að kjör þess versna miðað við þær bætur sem það hefur fengið í gegnum kerfi Tryggingastofunar ríkisins. Fyrir utan það, virðulegi forseti, þá liggur það auðvitað fyrir eins og ég gat um áðan að það er verið að hækka aðra skatta með býsna þungum hætti sem kemur líka niður á þessu fólki. Það er verið að hækka t.d. tekjuskatt einstaklinga um 3.100 millj., lækka barnabætur um 500 millj. og þegar búið er að því eru hækkaðar vaxtabætur um 500 millj. Þetta er á vegum sömu flokka og sögðu fyrir síðustu kosningar: Skattar munu lækka. Þetta er á vegum flokkanna sem sögðu fyrir síðustu kosningar á vinnustöðunum í Reykjavík, m.a. hv. 5. þm. Reykv.: Skattarnir munu lækka. Það er samkvæmt fyrirsögnum í Morgunblaðinu og frásögn af vinnustaðafundi sem hv. þm. tók þátt í. Ég veit að hann er leiður yfir þessum tíðindum. Hv. 13. þm. Reykv. og fleiri frambjóðendur Sjálfstfl. gáfu fyrirheit um lækkanir skatta, það er alveg ljóst. Þeir sem gengu allra skemmst í þeim efnum var hæstv. forseti. Hann sagði: Það er ljóst að það verður ekki auðvelt fyrir okkur að lækka skatta strax eða eitthvað í þá veruna. ( ÓÞÞ: Reyndist vera vitrastur.) Reyndist vera vitrastur enda orðinn forseti á þessum virðulega fundi. Aðrir ætluðu að lækka skatta. Þeir hafa ætlað að lækka skatta í mörg ár. Ég man ekki betur en það hafi t.d. verið þannig allt síðasta kjörtímabil að hérna var maður sem heitir Halldór Blöndal og hefur tekið einhverjum persónuleikabreytingum núna eftir að hann varð ráðherra, hann ætlaði allt síðasta kjörtímabil að vera að lækka skatta, alveg endalaust að lækka skatta. Hv. þm. Tómas Ingi Olrich ætlaði alveg endalaust að lækka skatta. Það væri ekki mikill vandi að lækka skatta sagði hann við kjósendur á Akureyri og Norðurl. e., Kópaskeri, Raufarhöfn, Þórshöfn, Dalvík, Hrísey, Árskógssandi. Allir ætluðu þeir að lækka skatta. Hver er svo niðurstaðan? Hún er sú að það er verið að hækka skatta á einstaklingum um 4.150 millj. kr., beina skatta, virðisaukaskatt og bensíngjald eða samtals um 6.000 millj. kr. Það er verið að hækka skatta um 30% á þessu fólki.
    Mér er kunnugt um það að hv. þm. Pálmi Jónsson hafði mjög góð áhrif á meðframbjóðanda sinn sem var á vegum Sjálfstfl. í Norðurl. v., einkum og sér í lagi þann sem var næstur honum á listanum, ég tala ekki um þann sem var í 3. sæti sem þurfti að vísu ekki sérstakrar guðsblessunar við. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson hefur skrifað um það lærðar greinar á undanförnum árum að það sé hægt að lækka skatta. Stefnan er að lækka skatta, draga úr samneyslunni, oki samneyslunnar. Tryggja það að atvinnulífið hafi sem mest svigrúm svo frelsi einstaklinganna fái að njóta sín og samkeppnin að blómstra. Styrkja atvinnulífið, græða, græða, sagði hv. þm. einu sinni, ekki í útifundarræðu heldur í einhverri ræðu. Hver er hans tillaga hér? Hans tillaga er ekki að lækka skatta heldur að hækka skatta meira en nokkru sinni fyrr. Skattar á Íslandi hafa aldrei verið hækkaðir um 30% í einu skrefi á einstaklingum fyrr en núna. Það hefur aldrei nokkurn tíma gerst. Það er ekki þannig að það gerist á sama tíma og atvinnulífið sé í blóma því þá gæti kannski kenningin gengið upp. Nei. Atvinnulífið er á hausnum sem aldrei fyrr. Þá á að hækka skatta á einstaklingum. Þannig verður það að þegar árið 1993 verður skoðað í fræðunum, öllum efnahagsbókunum frá Seðlabankanum og Efnahagsstofnuninni og efnahagsnefnd Sjálfstfl. og Verslunarráðsins, þá verður árið 1993 hæst af öllum árum. Aldrei hafa skattar ríkisins verið hærri en þá þegar Sjálfstfl. var með fjmrh., varaformann sinn. Sá sem lagði til atlögu við stjórnmálin á sinni tíð undir kjörorðinu --- hvað var það, hv. þm.? ( VE: Báknið burt.) Rétt, báknið burt. Það er óhætt að taka hann upp í slagorðunum enn þá en það er lítið annað sem hann kann. Þvílík útreið og niðurlæging.
    Það er hætt við því, virðulegi forseti, að þegar þessi saga er skoðuð verði þessi stjórn talin að þessu leytinu til eins og öðru eymdin uppmáluð. Þó að það versta sé kannski að í rauninni hefur það verið þannig á Íslandi um langt árabil. Fólk hefur verið að berjast við að halda húsnæðinu sínu tryggu, berjast við að tryggja börnunum sínum sæmilegar uppeldiskringumstæður, þurft að leggja á sig gífurlega mikla vinnu, báðir foreldrar þegar þeim hefur verið til að dreifa og þetta hefur tekist tiltölulega vel þrátt fyrir allt. Við eigum efnilega unga kynslóð en vandinn er hins vegar sá að það sem er að gerast núna er að verið er að brjóta niður það sem heitir sjálfsbjargarviðleitni einstaklingsins. Það er verið að brjóta niður sjálfsbjargarviðleitni einstaklingsins, það er verið að sprengja sjálfstæða íslenska einstaklinga og lífskjör þeirra niður á nauðþurftastigið. Hverjir stjórna þessum sprengjuflugvélum? Það er Sjálfstfl. Það er verið að koma þessu fólki niður á þurfamannastig. Það er sú stefna sem Sjálfstfl. er að framkvæma glottandi um þessar mundir.
    Þetta er auðvitað býsna dapurlegt og getur líka verið til umhugsunar um það, virðulegi forseti, hvað eru stjórnmál. (Gripið fram í.) Það er ekki alveg það sama, hv. þm. Hvað eru stjórnmálin? Það eru þingmenn, segir fólk, sem ganga fram fyrir þjóðina, segir fólk, og láta kjósa sig, segir fólk. Og svo þegar þeir eru kosnir, segir fólk, gera þeir allt annað en þeir hafa sagt. Gallinn við það að Sjálfstfl. og Alþfl. haga sér með þeim hætti sem hér liggur fyrir er ekki kannski fyrst og fremst sá að það komi þessum flokkum illa því það er fagnaðarefni, þeir eiga ekkert betra skilið. Gallinn er sá að þetta kemur niður á stjórnmálunum og trú þjóðarinnar á lýðræði, þingræði og eðlilegu stjórnarfari í landinu. Það er kannski til sérstakrar umhugsunar að velta því einmitt fyrir sér núna, ekki aðeins hvað þessir menn sögðu fyrir kosningar heldur hvað þeir sögðu við verkalýðshreyfinguna síðast því þessir mætu menn sendu yfirlýsingu frá sér 26. apríl 1992, undirritað: Davíð Oddsson. Það var yfirlýsing sem ríkisstjórnin sendi frá sér við frágang síðustu kjarasamninga. Það er út af fyrir sig ekki skrýtið þó að þjóðin taki þessa menn ekki mjög alvarlega. En það er auðvitað lágmarkskrafa að þeir taki sig alvarlega en það gera þeir ekki samkvæmt þessum yfirlýsingum eins og ég mun nú rekja.
    Hvert var fyrsta fyrirheitið samkvæmt síðustu kjarasamningum sem þið gáfuð? ,,Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að gengi verði stöðugt á samningstímanum.`` Á grundvelli þessa fyrirheits og á því að það hefur verið brotið er núna verið að hvetja til uppsagnar samninga. Í þessum yfirlýsingum var einnig lögð á það áhersla að unnið yrði að breytingum á barnabótum í samstarfi við ASÍ, BSRB og Kennarasamband Íslands. Ég spyr hæstv. heilbrrh.: Hefur samráð farið fram við þessa aðila að því er varðar þær bætur á barnalífeyri sem eru hér í þessum skjölum? Í þessum skjölum eru 17 tölusettir liðir. Staðreyndin

er sú að nánast allir hafa með einum eða öðrum hætti verið sviknir, brotnir eða farið á bak við þá. Ég spyr: Ætlast þessir menn til þess núna að verkalýðshreyfingin í landinu hafist ekki að og menn uni þeirri gríðarlegu lífskjaraskerðingu sem felst í þessum tillögum? Ætlast þeir líka til þess að sama verkalýðshreyfingin geti samið við þetta lið? Reynslan af því að semja við þetta lið er með þeim hætti að það er ekki hægt að treysta því. Það er hin alvarlega efnahagslega og pólitíska staðreynd á Íslandi að það er ekki hægt að treysta þessu fólki af því að það stendur ekki við lágmarksatriði í einfaldri kjaramálayfirlýsingu sem gefin var við frágang síðustu kjarasamninga, 17 tölusett atriði sem eru meira og minna öll úti í buskanum.
    Þess vegna er það þannig, virðulegur forseti, að þegar þessar tillögur eru allar skoðaðar er auðvitað alveg ljóst að þær eru nánast allar með þeim hætti að greiða verður atkvæði á móti öllum tillögunum í þessu frv. sem hér liggur fyrir. Þó er ein sem væri kannski hægt að staldra við. En þannig háttar til að Sjálfstfl. hefur á undanförnum árum lagt mikla áherslu á að afnumið verði svokallað tilvísanakerfi frá heimilislæknum til sérfræðinga. Það mun hafa verið afnumið með lögum haustið 1983 í heilbrigðisráðherratíð Matthíasar Bjarnasonar. Nú er flutt tillaga um það af núv. hæstv. heilbr.- og trmrh. að tilvísanakerfið verði tekið upp aftur. Það er örugglega í blóra við stefnu Sjálfstfl. og má segja að það út af fyrir sig sé alveg sérstakur gæðastimpill á tillöguna að mínu mati. Þannig að ég tel að þetta sé að mörgu leyti góð tillaga. Og ég geri ráð fyrir að ég gæti fyrir mitt leyti stutt það að taka upp þetta tilvísanakerfi á nýjan leik. Hv. þm. Finnur Ingólfsson orðaði það þannig að lítið legðist fyrir stjórnarliðið að þurfa að styðjast við stjórnarandstöðuna í þessu máli. Ég tel þetta rangt hjá hv. þm. Ég tel að þetta sýni verulegt framfara- og gæfumerki á þessari stjórn ef hún getur stuðst við stjórnarandstöðuna í einu og einu máli því þetta er góð stjórnarandstaða og ætti auðvitað að vera stjórn. Þannig að ég tel út af fyrir sig að þessi tillaga sé eftir atvikum brúkleg og kannski sú eina sem hér er brúkleg.
    Í 2 tölul. 6. gr. er fjallað sérstaklega um lyfin. Ég hef aðeins rætt það hvernig það kemur út. Samkvæmt áliti Alþýðusambands Íslands er þar um að ræða verulega kjaraskerðingu eða upp á 0,4% þegar lyfjakostnaðurinn og tannlæknakostnaðurinn er sérstaklega skoðaður.
    Ég ætla þá aðeins að víkja að efni frv. að öðru leyti og næst að 7. gr. frv. en þar er fjallað um tannlæknakostnaðinn. Þar eigum við stjórnarandstæðingar okkar spor eins og víðar. Þannig háttar til að í heilbr.- og trmrn. í fyrra var valinn maður í hverju rúmi eins og vafalaust er enn þó ég þekki ekki eins vel til í þeirri nefnd og ég gerði þá. Við fengum ákveðnar tillögur frá hæstv. heilbr.- og trmrh. inn í þá nefnd. Við lögðum mikla vinnu í þær tillögur og það myndaðist jákvætt og lýðræðislegt vinnuandrúmsloft stjórnar og stjórnarandstöðu. Þannig að á alllöngum þingferli mínum man ég tæplega eftir því að stjórn og stjórnarandstaða hafi í raun unnið jafn vel saman og tókst þarna varðandi þessar tillögur um tannlækningarnar. Það endaði með því að þegar bandormsfrv. fræga var til meðferðar í janúarmánuði sl. var ágreiningur um alla kafla í því frv. nema einn. Það var kaflinn sem sneri að heilbr.- og trmrn. Og eftir allan bægslaganginn í hæstv. heilbr.- og trmrh. og eftir alla gagnrýnina sem fram hafði komið á hann frá okkur í stjórnarandstöðunni þótti mönnum það mikil firn og undur að náðst skyldi full samstaða í heilbr.- og trn. Og ég varð beinlínis var við það í þingsalnum þegar nál. var dreift. Þetta var mjög sérkennilegt og ég var spurður af félögum mínum í stjórnarandstöðunni: Heyrðu hvað á þetta að þýða, hvernig stendur á þessu? Og ég er alveg sannfærður um að svipaðar spurningar hafa verið lagðar fyrir vini mína í stjórnarflokkunum. Við náðum þarna fullri samstöðu um málið. En Adam er ekki lengi í paradís því að núna aðeins ellefu mánuðum síðar kemur tillaga frá hæstv. heilbr.- og trmrh. um að kollvarpa þessu kerfi algerlega. Og samkvæmt þessu kerfi, ef ég get skilið þetta rétt, er gert ráð fyrir því framvegis að allir borgi eitthvað þegar þeir koma til tannlæknis. En það hefur verið þannig um 20 ára skeið að hluti þeirra sem þurfa á tannlækningum að halda hafa fengið þær ókeypis. Ég hygg að það hafi verið allt frá árinu 1972 að hluti þeirra sem þurfti að ganga til tannlæknis hafi fengið tannlækningarnar ókeypis. Ég tel að það sé verið að stíga 20 ár aftur í tímann. Og ég tel að það sé alveg óhjákvæmilegt að þess verði freistað í hæstv. heilbr.- og trn. að breyta þessari tillögu aftur. Ég man eftir því í fyrra, virðulegur forseti, þegar tillögur hæstv. heilbrrh. voru lagðar hér fyrir að þá gagnrýndu menn þær en létu sig hafa að fara í vinnu við þær í nefndinni og niðurstaðan varð þessi sem ég lýsti áðan og út af fyrir sig hef ég ágæta von um að hægt sé að ná einhverri lendingu í þessu máli núna.
    Mér hefur skilist að ástæðan fyrir þessum breytingum sem þarna er verið að gera, einkum að því er varðar tannverndarþáttinn, sé sú að menn telji að um misnotkun hafi verið að ræða og ekki hafi náðst fram nægilega mikill sparnaður. Nú tek ég það fram að þeir sem hafa nefnt þessi mál í mín eyru hafa ekkert verið að ýkja þessa misnotkun á neinn hátt heldur hafa þeir sagt: Þarna hefur ekki tekist að halda utan um hlutina eins og við vorum að gera okkur vonir um. Og þá vil ég segja það fyrir mitt leyti að ég hef allan skilning á þessu sjónarmiði. Og segi það úr því að hv. formaður heilbr.- og trn. gengur í salinn, boðinn alveg sérstaklega velkominn af mér og öðrum örugglega, að ég hefði gjarnan viljað að menn hefðu þá reynt að finna aðra leið til þess að tryggja tannverndarþáttinn, aðra leið en þá sem er í lögunum núna. Leið sem kemur í veg fyrir misnotkun. Hún hlýtur að vera til. Ég skil að hæstv. heilbr.- og trmrh. hafi áhyggjur af þessu en ég hefði talið að það ætti að leggja meiri vinnu í að reyna að leysa þennan vanda heldur en mér sýnist hér hafa verið gert. Og ég er sannfærður um að fulltrúi okkar alþýðubandalagsmanna í heilbr.- og trn. er tilbúinn að hjálpa til við það að finna á þessu aðra lausn.
    8. gr. frv. fjallar síðan um útboð á þjónustu sjúkratryggingadeildar Tryggingastofnunar ríkisins. Og

ég vil aðeins spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh.: Hvað hann er með þarna í huga? Eru einhver tiltekin dæmi um það, einhver svið sem hann er að hugsa um? Hv. þm. Finnur Ingólfsson trúi ég að hafi nefnt hér fyrr í dag t.d. rannsóknasviðið. Spurningin er hvort menn ímynda sér að þar sé hægt að ná niður kostnaði. Ég fyrir mitt leyti er sannfærður um að þar er hægt að ná niður kostnaði. Satt að segja geri ég ráð fyrir að þar sé um að ræða kostnað, sem fyrir ríkið þegar allt væri tekið saman, gæti numið gríðarlegum fjárhæðum. Ég hygg að það sé ekki óraunsætt að ímynda sér að menn gætu náð þarna tölu sem væri á bilinu 100--200 millj. kr. Og ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort það er þessi þáttur sem hann er með í huga og segi fyrir mitt leyti að ég tel ekki útilokað að ég geti fellt mig við þá hugmynd sem þarna er um að ræða enda verði sæmilega staðið að frágangi útboðsins og málsins að öðru leyti.
    Síðan er hér í frv. annar kafli sem fjallar um Samábyrgð Íslands á fiskiskipunum og ég ætla aðeins að víkja að. En ég tel með öðrum orðum að þessi kafli um almannatryggingarnar sé vondur. Það er ekki hægt að samþykkja hann eins og hann er nema með örfáum undantekningum, einni eða tveimur línum í þessum kafla. Ég mundi ráðleggja ráðherranum að fresta afgreiðslu þessa máls og taka sér góðan tíma í að skoða þetta. Og ég er alveg sannfærður um að hæstv. heilbr.- og trn. er tilbúin að hjálpa til við það. Og vil segja líka að jafnvel þó ég sé ekki neinn sérstakur áhugamaður um að saga Alþfl. verði glæsilegri en allra annarra flokka í þessu landi þá gæti ég vel hugsað mér að Alþfl. yrði án þess kafla í sögu sinni sem fjallar um það þegar mæðralaunin eru skorin niður og lækkuð með þeim hætti sem hér er verið að gera. Ég satt að segja tel að þar sé um að ræða ákveðin kaflaskipti í tryggingalöggjöfinni í landinu sem við eigum ekki að sætta okkur við og Alþfl. eigi ekki einu sinni skilið, þó hann eigi margt illt skilið, að hafa í sinni sögu.
    Þá vík ég næst, virðulegur forseti, að kaflanum um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum og verður væntanlega að viðurkenna það, hæstv. forseti, og væri kannski gaman ef forsetaembættið vildi kanna hvort þetta er ekki fullkomið brautryðjendastarf í fyrirsögn frv. Að breyta annars vegar almannatryggingalögum í frv. og hins vegar að selja eitt ríkisfyrirtæki í sama frv. Ég hygg að þetta sé fullkomin nýlunda. Ég er ekki að segja að það sé til fyrirmyndar. En það er eins og margt sem gerist nýtt að það tekur mann tíma að venjast því. Ég hef ekki séð svona lagað áður. Hér er gert ráð fyrir því að selja Samábyrgð Íslands á fiskiskipum.
    Þá er fyrst spurningin um það: Getur ríkisstjórnin selt Samábyrgð Íslands á fiskiskipum? Á ríkisstjórnin Samábyrgð Íslands á fiskiskipum? Á ríkið Samábyrgð Íslands á fiskiskipum eða eru það bátaábyrgðarfélögin sem eiga Samábyrgð Íslands á fiskiskipum? Hvað er Samábyrgð Íslands á fiskiskipum? Samábyrgðin er endurtrygging skyldutryggðra skipa frá bátaábyrgðarfélögum. Það er uppistaðan í Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Í öðru lagi er Samábyrgðin trygging á skipum ríkisins. Hjá Samábyrgðinni voru tryggð skip Landhelgisgæslunnar. Þar voru tryggð skip Ríkisskipa minnir mig og þar hafa verið tryggð skip Hafrannsóknastofnunar. En uppistaðan og grunnurinn undir Samábyrgð Íslands á fiskiskipum eru bátaábyrgðarfélögin, það er hinn lýðræðislegi grunnur. Bátaábyrgðarfélögin eru mörg, þau eru merkileg félög sem eiga sér mjög merkilega sögu. Og lögin um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum eru frá 1909 og hafa verið til með nokkrum breytingum allar götur síðan. Stærsta bátaábyrgðarfélagið er Vélbátaábyrgðarfélag Ísfirðinga. Hver ætli að hafi verið formaður þess einna lengst í sögunni eða a.m.k. stjórnarmaður í því félagi? Ég hygg að hann heiti Matthías Bjarnason og sé 1. þm. Vestf. Hann hafi mjög lengi verið í stjórn þess félags, Vélbátaábyrgðarfélags Ísfirðinga. Síðan er Vélbátatrygging Reykjaness aðili að Samábyrgðinni, Skipatrygging Austfjarða, Bátatrygging Breiðafjarðar, Vélbátatrygging Eyjafjarðar og Vélbátaábyrgðarfélagið Grótta. Samtals er hér um að ræða 593 báta undir 100 rúmlestum sem eru með sínar endurtryggingar hjá Samábyrgð Íslands á fiskiskipunum. Síðan voru á síðasta ári um 200 opin skip óskyldutryggð í tryggingu hjá bátaábyrgðarfélögunum, langflest hjá Vélbátaábyrgðarfélagi Ísfirðinga. Reyndar flest hjá Skipatryggingu Austfjarða og svo hjá Vélbátaábyrgðarfélagi Ísfirðinga. Og auk þess er um að ræða nokkur skip sem eru stærri en 100 brúttólestir. Það eru 59 skip á síðasta ári, langflest á Ísafirði, 21, og síðan á Austfjörðum, 10, og á Reykjanesi sjö, Bátatrygging Breiðafjarðar sex, Samábyrgðin sex og Vélbátaábyrgðarfélagið Grótta eitt.
    Að undanförnu hefur verið starfandi nefnd á vegum hæstv. heilbr.- og trmrh. sem hefur verið að fara yfir þessi mál mjög rækilega, málefni Samábyrgðarinnar og bátaábyrgðarfélaganna. Nefndin hefur, trúi ég, skilað einhverjum tillögum til hæstv. ráðherra og er hér flutt frv. sem er í raun og veru bara helmingurinn af þessum tillögum, þ.e. sá þáttur sem snýr að Samábyrgðinni einni en bátaábyrgðarfélögin eru ekki þar með. Enda má út af fyrir sig segja að ríkisstjórnin hafi ekkert með bátaábyrgðarfélögin að gera sem eignarhaldsaðili á neinn hátt því að það eru sjálfstæð félög. Bátaábyrgðarfélögin eiga hins vegar í Samábyrgðinni. Það er ekki þannig að hér sé um einhver laus tengsl að ræða, þau eiga í Samábyrgðinni. Þannig kjósa bátaábyrgðarfélögin t.d. tvo menn í stjórn Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum. Og þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Er það þannig að hægt sé að selja Samábyrgðina eins og ríkið eigi þá eign að fullu án þess að taka tillit til viðhorfa bátaábyrgðarfélaganna? Ég stórefa að það gangi. Ég held að hérna séu menn að sölsa undir sig eignir í nafni ríkisins sem ríkið ekki á. Ég kannast að vísu við það af hálfu embættismanna heilbrrn. bæði fyrr og síðar, m.a. í minni tíð fyrir allmörgum árum, að menn töldu, ef ég man rétt, að ríkið gæti í raun og veru gengið býsna langt í að ráðstafa eigum Samábyrgðarinnar. En þar á móti kemur hitt að Samábyrgðin er ekki bara þeir peningar sem hafa komið frá ríkinu heldur er Samábyrgðin líka þær tekjur sem hafa komið frá bátaábyrgðarfélögunum. Fulltrúafundur Bátaábyrgðarfélaganna kýs tvo menn

í stjórn Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum. Þess vegna er það mín skoðun, virðulegur forseti, og um það var ég alltaf ósammála mínum embættismönnum á sinni tíð, að ríkið geti ekki ráðstafað Samábyrgðinni án þess að leita samkomulags við bátaábyrgðarfélögin í leiðinni. Ríkið ræður ekki eitt yfir því sem heitir Samábyrgð Íslands á fiskiskipum og getur því ekki selt þá stofnum með tekjur í ríkissjóð eins og hér er gert ráð fyrir í þessu frv. ríkisstjórnarinnar.
    Ég vil einnig spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh.: Er samstaða um málið? Er samstaða um málið í stjórnarflokkunum? Ég þekki til þingmanna í stjórnarflokkunum sem hafa komið talsvert við sögu bátaábyrgðarfélaganna. Mér er kunnugt um að ýmsir þeirra hafa borið hagsmuni bátatryggingarfélaganna og Samábyrgðarinnar talsvert fyrir brjósti. Ég hlýt því að spyrja hæstv. ráðherra hvernig það sé hvort það er í raun og veru þannig að stjórnin standi á bak við þennan part af frv. eða ekki.
    Samábyrgð Íslands á fiskiskipum er ekki lítið fyrirtæki. Það er með 600 millj. kr. veltu, það er með eign upp á 175 millj. kr. Það hefur að vísu verið með nokkurn halla síðustu tvö ár vegna talsverðra afskrifta af skuldum en iðgjöld á móti tjónum hafa út af fyrir sig gengið nokkuð vel upp og með eðlilegum hætti.
    Nú kann það í sjálfu sér að vera svo að menn vilji endilega selja þetta fyrirtæki og breyta því í hlutafélag. Þá verð ég að segja alveg eins og er að það er náttúrlega furðulegt að heilbr.- og trmrh. fari með eignarhlut ríkisins í Samábyrgðinni. Ég tel það óeðlilegt fyrirkomulag að heilbrh.- og trmrh. fari með hlut ríkisins í þessu fyrirtæki, Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Ég tel það óeðlilegt. Hæstv. heilbrrh. ætlar að vísu að fara með hlut ríkisins í þvottahúsi Ríkisspítalanna hf. sem hann hefur lagt fram sérstakt frv. um þar sem það er rækilega tekið fram í 2. gr. hvað því fyrirtæki er ætlað að gera. Hvað ætli það eigi að gera, hæstv. forseti? Það á að þvo þvott. Þvottahús Ríkisspítalanna hf. þvær þvott, stendur í 2. 2. mgr. 2. gr. Þvottahús Ríkisspítalanna skiptist í tvær deildir, þvottadeild sem þvær þvott, eins og stendur í greininni, og saumadeild sem gerir við og merkir tau eins og stendur í greininni. Hæstv. heilbrrh. ætlar því að gerast umsvifamikill í atvinnurekstri. Fyrir utan það að reka þvottahús, þá ætlar hann að reka Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Það má út af fyrir sig segja að hans veldi teygist allvíða, að hæstv. heilbrrh. muni deilast allvíða svo að ég vitni til orðtaks sem notað var um einstakling á Vestfjörðum fyrir allmörgum öldum sem deildist allvíða eins og kunnugt er, bæði í Hergilsey og víðar þar um slóðir.     Ég verð að segja eins og er að mér finnst það algerlega út í hött, virðulegi forseti, að heilbrrh. fari með hlut ríkisins í Samábyrgðinni. Ég tel að það eigi að vera fjmrh. eða sjútvrh. kannski, ekki heilbrrh. Ég tel að það væri skynsamlegast, virðulegi forseti, fyrir hæstv. ráðherra að salta þennan kafla um Samábyrgðina. Það er ekki hægt að afgreiða hann eins og hann lítur út. Sérstaklega er það vegna þess að 13. gr. frv. er með þeim hætti sem hún er. En hún er svona, með leyfi forseta:
    ,,Fastráðnir starfsmenn Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum skulu hafa rétt til starfa hjá Samábyrgðinni hf. og skal þeim boðin sambærileg staða hjá félaginu og þeir gegndu áður. Ákvæði 14. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38/1954, með síðari breytingum, á því ekki við um þá starfsmenn.``
    Ég hygg að þetta sé sjöunda eða áttunda frv. sem komið hefur frá hæstv. ríkisstjórn með nákvæmlega sömu greininni og það hefur alltaf strandað á þessari grein að þessi mál næðu afgreiðslu. Í fyrsta lagi er það vegna þess, virðulegi forseti, að það liggja fyrir tveir hæstaréttardómar um það að á einkamarkaði er ekki til staða sem er sambærileg við það sem gerist hjá ríkinu.
    Í öðru lagi getur Alþingi ekki með lögum tekið biðlaunarétt af opinberum starfsmönnum eins og gert er ráð fyrir að gera skv. síðari málsl. 13. gr. Biðlaunaréttur er stjórnarskrárvarin eign. Þess vegna tel ég að það sé borin von og útilokað að ná því að afgreiða frv. með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir. Frv. mun stranda á þessu atriði. Ég hef verið að segja við ríkisstjórnina aftur og aftur, bæði fjmrh. og sömuleiðis hæstv. utanrrh. um daginn og iðnrh.: Af hverju fer ríkisstjórnin ekki og ræðir við BSRB um þessi mál? Af hverju fer ekki ríkisstjórnin í það að ræða við BSRB um það hvernig þessum málum verður komið fyrir? Ég endurtek það sem ég hef oft sagt og hefur glatt hv. 17. þm. Reykv., auðvitað verður að vera hægt að einkavæða fyrirtækin. Auðvitað verður að vera til viðurkennt ferli þannig að hægt sé að einkavæða fyrirtækin, breyta ríkisfyrirtækjum í einkafyrirtæki. ( ÖS: Það hefur aðallega glatt Ólaf Ragnar.) Er hv. þm. með sérstakar upplýsingar um það? Ég þakka honum fyrir kærlega. Við ræðum það á stofnfundinum við fyrsta tækifæri.
    Staðreyndin er nefnilega sú að þetta eru samningsbundin réttindi og þess vegna er óhjákvæmilegt fyrir ríkisstjórnina að fara í viðræður við BSRB og aðra hagsmunaaðila um þetta mál. Þessi kafli um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum er auðvitað margdauður, sjálfdauður. Hann er í fyrsta lagi dauður út af þessu ákvæði sem ég var að nefna hér af því að þetta er ekki hægt, Alþingi getur ekki samþykkt þetta af því að það væri stjórnarskrárbrot að setja þetta svona í gegn. Í öðru lagi er þetta dautt mál vegna þess að ríkið á ekki Samábyrgðina með þessum hætti heldur eiga bátaábyrgðarfélögin hana líka. Í þriðja lagi getur ríkisstjórnin ekki komist í gegn með frv. fyrst og fremst vegna þess að ég er sannfærður um það að þegar betur er að gáð mun frv. ekki hafa þingmeirihluta eins og það lítur út núna vegna þess að ég er viss um að hér eru til menn sem ekki eru tilbúnir til þess að láta Alþingi með þessum hætti rífa eignir af bátaábyrgðarfélögunum, sem eru sjálfstæð félög einstaklinga sem hafa orðið til á margra áratuga ferli.
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir og er rætt í dag er hluti af heildarefnahagsráðstöfunum ríkisstjórnarinnar. Niðurstaða málsins liggur fyrir, skýrust í tölum Alþýðusambands Íslands. Niðurstaðan er sú að kaupmáttur ráðstöfunartekna þeirra sem hafa 60 þús. kr. á mánuði lækkar um 7,4%. Ég er ekki að tala um hátekjufólk, ég er að tala um fólk með 60 þús. á mánuði. Það lækkar um 7,4%. Fólk sem hefur 80 þús. kr. á mánuði lækkar um 7,6%. Fólk sem hefur 120 þús. kr. á mánuði lækkar um 7,3%. Með öðrum orðum er verið að flytja nokkur þingmál hér í kippu sem munu hitta verst fyrir þann fjölda í þjóðfélaginu, þá miðju í þjóðfélaginu, sem í raun vinnur fyrir allri þjóðfélagsbyggingunni eins og hún leggur sig. Það er fólkið sem er að byggja og eiga börnin, fólkið sem hefur kannski stöðu og heilsu til þess að vera með tekjur upp á 100--250 þús. þegar um tvo er að ræða. Þessi frv., ef þau verða samþykkt, munu sprengja lífskjör þessa fólks niður á þurfamannastigið. Það er það ljóta í þessum tillögum.
    Í forsetakosningum ekki langt frá okkur var fyrir nokkru m.a. sérstaklega fjallað um þetta fólk, hvernig hægri stjórnin hafði brotið niður millitekjuhópana á undanförnum tíu árum. Það er það sem verið er að gera með þessum ráðstöfunum eins og þær líta út. Hér eru ráðstafanir sem hitta þessa millitekjuhópa sérstaklega harkalega fyrir. Í fyrsta lagi eru þær almennar með 1,5% skattahækkun en í öðru lagi er verið að sækja þessa hópa sérstaklega, pína þá og vinda og láta þá borga meira, þá sem eru með börn og þá sem eru að byggja. Það er augljóst mál hvað sem öllu öðru líður, virðulegi forseti, að þetta eru mál sem eru með þeim hætti að það er réttlætanlegt sem Alþýðusamband Íslands segir í miðstjórnarsamþykkt sinni í dag. Með þessum málum er um að ræða griðrof á verkalýðshreyfingunni í landinu og það er hvatt til þess að menn sameinist til að verja kjör láglaunafólks og segja upp samningum strax, í síðasta lagi frá 1. febrúar nk.