Almannatryggingar

76. fundur
Miðvikudaginn 09. desember 1992, kl. 21:50:06 (3211)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Ég verð að játa það þegar kemur að heilbrigðis- og tryggingamálunum furða ég mig stundum á langlundargeði og þolinmæði þessarar þjóðar og þessa þings sem hér situr. Ef miðað er við þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur boðað núna með þessum bandormi um almannatryggingar og eins með frv. sem rætt var í gær um breytingar á skattalögum, þá finnst mér þetta hvort tveggja með slíkum endemum að hér fyrir utan húsið ætti auðvitað að vera æstur múgur til að mótmæla þessu. Hér í þingsalnum ætti að vera maður í hverju sæti og þingmenn ættu auðvitað að liggja hér í málþófi til að reyna að stöðva þessi mál. Þau eru með slíkum endemum og þau koma þannig við fólkið í landinu að það er ekki hægt að þola þetta. Ég hélt að við hefðum séð toppinn í fyrra og sérstaklega hjá hæstv. heilbr.- og trmrh. En það er kannski í þessum málum eins og þeir segja fyrir vestan: You ain't seen nothing yet. Ég veit ekki hvernig það verður á næsta ári hjá hæstv. ráðherra. Ég segi fyrir sjálfa mig að ég nenni ekki lengur að vera með eitthvert kurteisishjal eða standa hér, eins og mér finnst margir hafa gert, og ég bið þá menn forláts ef þeir taka það til sín, að reyna að tala fyrir hæstv. heilbr.- og trmrh. Þetta er kannski ungæðisháttur hjá mér, ég hef ekki setið lengi á þingi og menn eru auðvitað vanir ýmsu hér. En mér finnst bara ekkert hægt að ræða við þennan ráðherra. ( Gripið fram í: Það er fullreynt.) Það er fullreynt, já. En það er náttúrlega hægt að ræða við ýmsa aðra eins og hv. þingflokksformann Alþfl. sem hér situr enn einn krata fyrir utan ráðherrann. Hann getur auðvitað haft sín áhrif í sínum þingflokki svo það er sjálfsagt að reyna að tala hér við menn. ( Gripið fram í: Það er líka fullreynt.) Er það líka fullreynt? Ég er ekki alveg viss. Hann hefur ekki það langan feril að baki í Alþfl. að það má kannski enn reyna.
    Ég verð að segja það að mér finnast aðgerðir hæstv. heilbr.- og trmrh. í þessum málaflokki hreint út sagt tómt rugl frá upphafi til enda. Mér finnst þetta vera fúsk í málaflokknum sem við höfum séð sl. eitt og hálft ár. Ráðherrann hefur farið um eins og engisprettufaraldur yfir þennan málaflokk. Hann hefur atast og djöflast í málaflokknum og ef fram heldur sem horfir verður heilbrigðis- og tryggingakerfið ein rjúkandi rúst eftir kjörtímabilið. Það hafa verið reknar hér ágætar stofnanir í borginni. Ég nefni bara Landakot og ég nefni Fæðingarheimilið. Hvað er orðið um þessar stofnanir? Önnur rétt lafir og getur ekki lengur starfað með reisn og sóma eins og áður. Hinni er búið að loka. Svo höfum við sjúkrahús eins og Landspítalann og ég vil leyfa mér að segja líka Borgarspítalann þar sem þrengt er svo að í fjármálum, sérstaklega á Ríkisspítölunum, að vinnumórall þar er orðinn vægast sagt slappur. Það er mikil óánægja hjá öllum kvennastéttum á sjúkrahúsunum vegna álags. Sjúkraliðar hafa lagt niður vinnu, hjúkrunarfræðingar hafa sagt upp störfum þannig að þetta heilbrigðis- og tryggingakerfi er að verða ein rjúkandi rúst. Ég ætla bara að segja það hér og spyrja, þótt það séu ekki margir hér inni úr stjórnarflokkunum, hvort ekki sé hér einhver góður maður sem á aðgang að ráðherranum og getur komið vitinu fyrir hann í þessum málaflokki eða hvort menn viti um einhvern slíkan. (Gripið fram í.) Hér er formaður heilbr.- og trn. þingsins og hver veit nema hann hafi aðgang að ráðherra sínum og geti reynt að koma vitinu fyrir hann. (Gripið fram í.) Ég sagði áðan að ráðherrann hefði farið yfir akur eins og engisprettufaraldur og ég stend við þau orð. Ég ætla að benda hæstv. ráðherra á góðan kínverskan málshátt sem ég sá einu sinni á kínverskum veitingastað þar sem ég var að borða. Hann var á þessa leið: Að stjórna stóru ríki er eins og að sjóða litla fiska. Ef of mikið og of oft og lengi er hrært í pottinum endar allt í einum graut. Það verður ekki hægt að greina útlínur á nokkrum sköpuðum hlut og þannig sýnist mér að sé að fara fyrir heilbrigðiskerfinu. Þetta vita auðvitað allar þokkalegar húsmæður. Það þarf ekki meira til að hafa þessa þekkingu. En þetta veit hæstv. heilbr.- og trmrh. greinilega ekki. (Gripið fram í.) Fiskigrautur skulum við segja.

    Hér var vitnað í ummæli ráðherrans á Stöð 2 um fæðingarorlofið. Það er náttúrlega búið að gera það svo oft og verður sjálfsagt aldrei of oft talað um þau ummæli því að þau eru náttúrlega með slíkum endemum að þau á að rifja hér upp í hverri ræðu sem haldin er. Ég verð að segja að eftir að hafa séð þessi ummæli, þá er nánast eins og ráðherrann sé með einhvers konar niðurskurðarmaníu. Hann vill bara skera og hann er aldrei kátur nema hann fái að koma sem víðast við. Það hefur verið bent á það í sérstakri ályktun frá þingflokki Kvennalistans að það virðist eitthvað skorta á að ráðherranum sé mjög vel kunnugt um líffræði kvenna og hvernig henni sé nú háttað. ( Gripið fram í: . . .  gera keisaraskurði líka.) Það má gera keisaraskurði já. En það verður þá einhvern veginn að koma börnunum fyrir í ellilífeyrisþegunum og það er kannski flóknara mál en hægt er að fara út í hér.
    Það stakk mig áðan, þegar hv. þm. Svavar Gestsson var að lesa upp úr ummælum ráðherrans, hvernig orðalagið er í þessu svari hæstv. ráðherra. Hann segir að þegar menn eru að skoða í svona krappri stöðu þá möguleika sem finnast í þessu kerfi og nú bið ég menn að taka eftir, með leyfi forseta: ,,eigi menn ekki bara að horfa á gamla fólkið og öryrkjana.`` Með öðrum orðum hafa þeir bara verið að horfa á öryrkjana og gamla fólkið samkvæmt orðanna hljóðan í því sem ráðherrann hér segir. Þeir hafa bara verið að horfa á öryrkjana og gamla fólkið og nú er komið að konunum í fæðingarorlofi. Mér finnst þessi ummæli ráðherrans bera þess vott að keppnisskapið sé svo mikið að það fari með hann út í hverja forarvilpuna á fætur annarri. Ef ég á að reyna að meta það hvað fyrir ráðherranum vakir, því ekki vakir fyrir honum að standa vörð um heilbrigðis- og tryggingakerfið samkvæmt þessu, hlýtur það að vera að hann stefni hreinlega á stól fjmrh. Hann segir bara við hina: Komið þið með þetta til mín, ég skal skera. Þá sýnir hann hversu vel hann sé til þess fallinn að gegna stöðu fjmrh. því að sjálfsagt stefnir hann á þann stól þegar uppstokkunin verður í ríkisstjórninni, hvenær sem það nú gerist. --- Nú sakna ég ráðherra úr salnum. Ég vona að hann verði ekki mjög lengi í símanum en ég ætla engu að síður að halda áfram hér máli mínu.
    Það var minnst áðan á bandorminn sem kom í fyrra um heilbrigðis- og tryggingamálin. Það var reyndar forkostulegur bandormur og auðvitað klúður. En með góðri samvinnu þingmanna í heilbr.- og trn. var lappað upp á þennan bandorm. Það má eiginlega segja að maður geti nagað sig í handarbökin yfir því að hafa gert það því að það má kannski segja að maður hafi þar með rétt ráðherranum litla puttann og nú sé komið því að taka alla höndina. Hann kom með frv. um bandorminn þar sem lagt var til að kostnaðarþátttaka foreldra yrði 10% og í öllu, líka forvarnastarfinu. Við fengum þessu breytt. Að vísu gátum við ekki breytt mikið þeim tölum eða því sem átti að spara samkvæmt þessu en við gátum þó möndlað með þetta innan þessa lagabálks á þann veg að forvarnirnar yrðu ókeypis. Það átti að felast í því ákveðin stefnumörkun að gera forvörnum hátt undir höfði og hafa þær þannig að fólk þyrfti ekki að bera kostnað af þeim. Allt sem við getum kallað viðgerðir, hvort sem það væri í tannlækningum eða öðru, væri þá frekar hægt að taka greiðslu fyrir. Þetta er auðvitað eitthvað sem ætti að vera jafnvel á heilsugæslustöðvunum líka. Niðurstaðan varð því sú að forvarnirnar urðu fólki að kostnaðarlausu en ofan á tannviðgerðirnar kom 15% kostnaðarþátttaka.
    Nú er aftur komið með bandorm og það er beðið um það að Alþingi breyti nákvæmlega sömu lagagreinum og í fyrra sem við sátum og vorum að reyna að lappa upp á þá. Þær voru klúður og urðu klúður. Þær voru aldrei góðar þessar lagagreinar enda var verið að semja þær á hlaupum á göngum þingsins. Nú er aftur komið fram með þetta og nú á að stíga fetinu lengra. Nú á ekki lengur að tala um 15% kostnaðarþátttöku heldur 25% og færa það líka yfir á forvarnirnar. Ef maður hugsar sinn gang og metur reynsluna frá því í fyrra þá kom maður að þessu, vildi gjarnan standa að þessu máli með stjórnarmeirihlutanum, reyna að laga hlutina, reyna að hafa þá eins góða og hægt er en sú spurning leitar auðvitað á mann núna: Á maður yfirleitt að lappa upp á þessa hluti? Er ekki bara rétt að stjórnarliðið standi uppi með þetta og beri ábyrgð á þessu? Til hvers á maður að vera að leggja sig fram um að vinna með stjórninni í einhverjum málum? Ég fæ ekki séð neina ástæðu til þess.
    Það er núna sama fimbulfambið og í fyrra í þessum málum. Málið sem hér er lagt fyrir okkur í bandormsformi er óunnið mál eins og gerðist í fyrra. Það er heldur ekkert einfalt mál að skoða frv. sem liggur fyrir okkur. Í fyrsta lagi þarf að skoða frumvarpsgreinarnar og bera þær síðan saman við lagabreytinguna sem var gerð í fyrra, bandorminn sem var líklega lög nr. 1 á þessu ári. Maður þarf að lesa það saman við það og síðan saman við einu útgáfuna sem til er af almannatryggingalögunum sem er líklega síðan 1991. Það er því ekkert einfalt mál að skoða þetta frv. eins og það liggur hér fyrir. Það er ekkert verið að gera það einfaldara með því að prenta með einhverjum hætti inn í grg. með frv. hvernig breytingarnar eru.
    Þar að auki eru allar útskýringar með frv. mjög af skornum skammti og því fylgja engir útreikningar frá fjárlagaskrifstofu fjmrn. eins og mér skilst þó að eigi að fylgja hverju frv. Þessu frv. er í rauninni slett í okkur rétt eins og það sé bara talið fullgott. Nú sakna ég ráðherra héðan úr salnum, virðulegi forseti. ( Gripið fram í: Hann kemur.) Hann kemur.
    En það er ekki bara þessi bandormur sem er sérkennilegur og þarf að gera hér að umtalsefni því að kafli heilbr.- og trmrn. í fjárlagafrv. er líka með algerum endemum. Það var setið með það mál inni í heilbr.- og trn. og var beðið um útskýringar á þeim niðurskurði sem var að finna í sjúkratryggingunum, í slysatryggingunum, í lífeyristryggingunum. Það fengust engar útskýringar af neinu tagi í nefndinni sem

varð auðvitað til þess að meiri hlutinn skilaði frá sér eitthvað örfáum línum um kaflann. Minni hlutinn gat í rauninni ekki metið þennan kafla faglega. Minni hlutinn gat bara sagt í sínu áliti að það væri í rauninni ekki hægt að gefa álit vegna þess að það vantaði allar upplýsingar. Það er því ekki bara bandormurinn heldur fjárlagafrv. sjálft sem er mjög sérkennilegt.
    Þegar bæði þessi bandormur og fjárlagafrv. eru skoðuð fæ ég ekki betur séð en enn þá vanti mikið upp á að ráðherrann hafi uppfyllt þau niðurskurðaráform sem hann hefur nú uppi. Ég fæ ekki betur séð en talsvert mikið vanti upp á það og hann hafi í rauninni tekið meira á sig en hann veldur og auðvitað mun meira en þessi málaflokkur þolir. Um það þarf varla að hafa mörg orð. Í fjárlagafrv., ef það er rifjað upp og bara horft á tryggingaþátt þess máls, ekki sjúkrahúsin eða stofnanirnar, er gert ráð fyrir því að ná 580 millj. kr. sparnaði á lífeyristryggingunum. Það segir í texta með frv. að þessu eigi að ná með því að eignatengja lífeyrisgreiðslur, með því að endurskoða lög um mæðralaun, með því að endurskoða lög um fæðingarorlof og með því að endurskoða ýmsar félagslegar sérbætur, eins og segir í textanum.
    Ráðherranum hefur ekki tekist að eignatengja lífeyrisgreiðslurnar vegna þess að það vill svo aumlega til að þó mönnum takist allt annað, nánast, allur annar niðurskurður, tekst þeim ómögulega að koma á fjármagnstekjuskatti og þar af leiðandi er ekki hægt að eignatengja lífeyrisgreiðslur aldraðra. Það fellur því um sjálft sig annað árið í röð. Ég minni á að það var líka talað um það við gerð fjárlaga í fyrra að nú þyrfti að koma á eignatengingu lífeyrisgreiðslna en það var ekki hægt í fyrra heldur.
    Hann hefur enn ekki komið með neitt frv. um fæðingarorlofið þó að hótunin liggi í loftinu. Um ýmsar félagslegar sérbætur veit ég ekki alveg hvað er verið að ræða og væri kannski ástæða til að fá það útskýrt, en hann hefur komið með endurskoðun laga um mæðralaun og fellt þau niður að hluta en hækkað barnalífeyri á móti. Nettósparnaðurinn af þessu er um 486 millj. sýnist mér, en það var talað um 580 millj. bara í fjárlagafrv. Það vantar því enn upp á þann kafla þar.
    Í sjúkratryggingunum var talað um sparnað í fjárlagafrv. upp á u.þ.b. 300 millj. kr. Hann ætti að nást með tilvísanakerfi vegna sérfræðinga, með því að breyta greiðsluþátttöku ríkisins og með 60 millj kr. vegna aukinna útboða, eins og þar var sagt.
    Mér sýnist á þeim bandormi sem hér liggur fyrir að það sé búið að sýna fram á sparnað upp á svona 250 millj. en ekki 300 eins og fjárlagafrv. gerði ráð fyrir. --- Ég sé að ráðherrann er alveg óskaplega vinsæll maður og er á sífelldum hlaupum hér úr salnum. ( Heilbrrh.: Ég fer ekki úr salnum. Ég er í hliðarsal til að geta hlustað á hv. þm.) Það er kostur.
    Í þriðja lagi var í fjárlagafrv. gert ráð fyrir því að skera niður 100 millj. kr. í slysatryggingunum með því að færa slysatryggingar til ökumanna, til einkaaðila eða til vátryggingafélaga. Mér sýnist í þeim bandormi sem hér liggur fyrir að menn geti í mesta lagi sýnt fram á 50 millj. kr. sparnað ef þá einhvern af því fyrirkomulagi.
    Samtals er sá sparnaður sem var gert ráð fyrir í fjárlagafrv. á tryggingahlið kaflans um 980 millj. kr. Til viðbótar 980 millj. kr. niðurskurði, eins og var gert ráð fyrir í fjárlögum, sagðist ráðherrann tilbúinn að taka á sig 650 millj. kr. niðurskurð af þeim 1.240 millj. sem boðaðar voru í efnahagstillögum ríkisstjórnarinnar í nóvember. Ef við leggjum þetta saman þarf ráðherrann sem sagt að ná alls um 1.630 millj. kr. með ýmsum aðgerðum í tryggingamálum. Brúttósparnaðurinn samkvæmt þessum bandormi sem hér liggur fyrir er um 855 millj. kr. Síðan er einhver hugsanlegur sparnaður upp á 60 millj. vegna einkavæðingar. Þá erum við komin upp í 915 millj. Enn þá vantar 900 millj. sýnist mér. Enn þá þarf ráðherrann að sýna fram á hvar hann ætlar að ná 900 millj. Það hefur hann hvergi sýnt. Það hefur hvergi komið fram, hvorki í heilbr.- og trn. né mér vitanlega í fjárln., hvernig hann ætlar að ná þeim peningum. Þá er ég bara að tala um sparnaðinn vegna efnahagsaðgerða ríkisstjórnarinnar og sparnaðinn í tryggingamálunum í fjárlagafrv. Ég er ekki að tala um sjúkrahúsin eða þær stofnanir í þessu sambandi.
    Mér sýnist ekki seinna vænna en þetta mál fari að skýrast og dæmið allt verði sýnt í þinginu. Hvar á enn eftir að skera? Hvernig á að ná þessum 2,6 milljarða kr. sparnaði í heilbrigðis- og tryggingamálum sem ráðherrann hyggst taka á sitt ráðuneyti?
    Ég get sagt það hér að ég hef beðið um gögn. Ég hef hringt upp í heilbr.- og trmrn. Ég hef talað við ráðuneytisfólk og hef beðið um gögn til þess að útskýra þessi mál. Ég hef beðið um útreikninga. Ég hef fengið eitt vesælt blað um mæðralaunin og barnalífeyrinn. Það er allt og sumt. Annað hef ég ekki getað fengið þrátt fyrir að um það hafi verið beðið. Það er óneitanlega sérkennilegt þegar fulltrúar í heilbr.- og trn. þingsins geta ekki með nokkru móti nema með því að grafa sjálfir í gegnum þá fáu pappíra sem fyrir liggja fengið einhverjar upplýsingar um málið þannig að heildarmyndin liggi fyrir. Þetta er náttúrlega ótrúlegt.
    Ég ætla að fara hér í einstakar greinar frv.
    Í 1. gr. frv. er eina hækkunin sem þar er að finna. Þar er gert ráð fyrir því að hækka árlegan barnalífeyri með hverju barni og þar af leiðandi lágmarksmeðlag úr 7.551 kr. eins og það er í dag í 11.300 kr. Það er kannski ljósið í myrkrinu að þetta skuli hafa verið gert. Ég get sagt það fyrir sjálfa mig að ég er ekki ósátt við þessa breytingu. Ég er ekki ósátt við það í prinsippinu að barnalífeyrir og þar af leiðandi lágmarksmeðlag sé hækkað frá því sem það er í dag. Það er einfaldlega allt of lágt að greiða 7.551 kr. með einu barni eða 22.500 kr. með þremur börnum sem er sú greiðsla sem sá sem á þrjú börn og er ekki með forræði þeirra þarf að inna af hendi. Mér finnast þetta ekki háar greiðslur. Ég hef haldið því fram

áður á þingi og geri það enn og aftur að ég held að feður utan sambúðar hafi minni kostnað að jafnaði af afkvæmum sínum en feður í sambúð. Ég hef stundum furðað mig á því að karlmenn skuli ekki sjálfir hafa tekið þetta mál upp með meira afgerandi hætti en raun ber vitni.
    Ég talaði í fyrra fyrir frv. sem fól í sér, hefði það orðið að veruleika, ákveðna hækkun á meðlaginu. Ég minnist ekki annars en að þeir karlmenn sem hér tóku til máls, þeir voru ekki margir, hafi verið heldur mótfallnir þessu. Þar á meðal minnist ég sérstaklega eins þingmanns úr þingliði Alþfl. sem taldi að þarna væri verið að leggja byrðar á karlmenn, á meðlagsgreiðendur sem ættu margir hverjir afskaplega erfitt með að inna þessar greiðslur af hendi. ( Gripið fram í: Hver var það?) Það var varaþingmaður í Reykjavík, Magnús nokkur Jónsson veðurfræðingur, sem taldi að þarna væri of langt gengið og of nærri karlmönnum landsins.
    Ég veit það vel að það vefst fyrir tekjulágum mönnum að greiða 7.500 kr. á mánuði og þá ekki síður 11.000 kr. En það vefst auðvitað líka fyrir tekjulágum konum að framfæra börn með ekki hærra meðlagi en þetta er. Við megum bara ekki gleyma því þegar við erum að tala um þessa hluti. Ég er heldur ekkert ósátt við að sú breyting verði gerð að hækka barnalífeyri og þar af leiðandi meðlagið og lækka mæðra- og feðralaunin eins og þau eru í dag vegna þess að ég lít á mæðra- og feðralaunin eins og þau eru í dag í raun sem niðurgreiðslu á meðlagi. Þetta sé í raun niðurgreiðsla á meðlagi. Þetta eru séraðgerðir sem gripið er til til þess að koma til móts við fyrst og fremst einstæðar mæður og ég held að einmitt þessi greiðsla, mæðralaunin, hafi verið notuð mjög mikið gegn einstæðum mæðrum og alið hafi verið á fordómum í þeirra garð af illgjörnu fólki, vil ég segja, með tilvísun til mæðralaunanna. Það er dálítið sérkennilegt og maður hefur upplifað það og ég er viss um að allir þingmenn hafa upplifað það þegar þeir hafa farið á vinnustaðafundi fyrir kosningar að það er alltaf einhver á slíkum vinnustaðafundum sem sér ofsjónum yfir greiðslum til einstæðra mæðra úr tryggingakerfinu. Einstæðar mæður eru sífellt undir smásjánni og alltaf verið að spekúlera í því hvernig þær misnoti þessa peninga sem þær fá. Ég hef aldrei orðið þess vör að meðlagsgreiðendur væru eitthvað sérstaklega undir smásjánni, að menn væru eitthvað sérstaklega að velta því fyrir sér hvort þetta væri eðlileg upphæð á meðlaginu. Einstæðar mæður hafa oft og tíðum verið taldar afætur, því miður, en ég hef aldrei orðið þess vör að meðlagsgreiðendur hafi verið taldir það. Þetta má ekki skilja sem svo að ég líti svo á að meðlagsgreiðendur eða einstæðar mæður séu afætur, alls ekki. Ég er að reyna að endurspegla umræðuna úti í samfélaginu sem mér finnst öll vera á kostnað einstæðra mæðra og ég kem að því síðar að mér finnst hæstv. heilbr.- og trmrh. ekki hafa látið sitt eftir liggja í þeim málum, m.a. með umræðunni í kringum þá nefnd sem hann skipaði til þess að kanna meinta misnotkun á þessu kerfi.
    Breytingin sem 1. gr. felur í sér kostar ríkissjóð líka peninga. Hún kostar ríkissjóð um 180 millj. kr. vegna þess að ríkissjóður er meðlagsgreiðandi. Hann er einn af meðlagsgreiðendunum og greiðir meðlag með ófeðruðum börnum og börnum ekkla og ekkna. Eins og ég segi er ég í prinsippinu ekki mótfallin þessu þó að ég hafi síðan mínar skoðanir á því hvernig með mæðra- og feðralaunin er farið.
    Í 2. gr. frv. er einmitt fjallað um lækkun mæðra- og feðralauna. Sú lækkun á spara ríkissjóði um 660 millj. kr. Á móti kemur auðvitað hækkunin á barnalífeyrinum um 180 millj.
    Eins og ég sagði áðan tel ég ekki óeðlilegt að lækka þessar greiðslur en mér finnst vægast sagt óeðlilegt að gera það með þeim hætti að það komi harðast niður á þeim sem mesta framfærslubyrði hafa og það gerist við þessa breytingu, hæstv. ráðherra. Ef við lítum á einstæða móður með þrjú börn á framfæri, þá skerðist mánaðarlegur framfærslueyrir barna hennar um tæpar 3 þús. kr eða 36 þús. kr. á ári. Skerðingin verður mest þarna vegna þess að mæðralaununum er þannig hagað í dag að þau hækka hlutfallslega meira með fleiri börnum og þess vegna verður skerðingin tilfinnanlegust þegar börnin eru orðin fleiri. Þegar ég er að tala um þessa 36 þús. kr. skerðingu sem hún verður fyrir á ári, þá er ég búin að taka tillit til hærra meðlags. Þetta er nettóskerðingin sem hún verður fyrir vegna þessa. Það hefur svo sem verið talað um það að meðlagið sé ekki skattskylt og þar af leiðandi sé skerðingin ekki eins og hér er um talað. En mér segir svo hugur að einstæð móðir með þrjú börn sé ekki með mjög miklar skattgreiðslur fyrir þannig að það nýtist henni ekki að meðlagið sé ekki skattskylt en mæðralaunin séu það hins vegar. Ég hef grun um að hún greiði ekki mjög mikla skatta af mæðralaununum í dag.
    Þann nettósparnað sem verður af 1. og 2. gr. frv. og mun vera nettósparnaður um 500 millj. kr. hefði, að mínu viti, átt að flytja yfir í barnabótaaukann. Barnabótaaukinn er tekjutengdur og með þeim hætti hefði þetta komið tekjulágu barnafólki, einstæðum mæðrum sem öðrum til góða. Í því sambandi vil ég líka nefna að það hefði auðvitað komið tekjulágum fjölskyldufeðrum sem eru meðlagsgreiðendur líka til góða því að þeir hefðu fengið hækkun á sínum barnabótaauka samhliða því og þeir þyrftu að hækka meðlagsgreiðslur sínar. Það hefði þá jafnað út hækkandi meðlagsgreiðlsur hjá þeim að fá hærri barnabótaauka með sínum börnum sem þeir eiga í síðari fjölskyldu sinni.
    Ég hefði satt að segja haldið að það hefði verið í meira samræmi við þær yfirlýsingar sem hæstv. heilbr.- og trmrh. gaf í kjölfar álits sem nefnd, sem skipuð var til að kanna hvort stuðningskerfið væri misnotað, sendi frá sér. Í niðurstöðum þessarar nefndar segir m.a., með leyfi forseta, að það virðist skorta sambærilegan stuðning við barnafólk í hjúskap eða sambúð með lágar tekjur, þ.e. sambærilegan stuðning við það sem einstæðir foreldrar njóta. Af þessu hefði maður auðvitað talið að menn mundu taka sig á og auka stuðning við tekjulága hjónafólkið eða sambúðarfólkið með börnin.

    En auðvitað var það ekki gert. Ég segi auðvitað vegna þess að maður hefur svo oft heyrt í ráðherrunum. Þeir tala eins og þeir ætli að fara að gera eitthvað, eins og þeir ætli að breyta einhverju, eins og þeir ætli að taka upp einhverjar jöfnunaraðgerðir en svo þegar til á að taka, þá er það ævinlega jöfnun niður á við. Maður ætti að vera búinn að brenna sig á því og vera ekki að gera sér vonir um eitthvað annað.
    Það sem þeir gera núna er að þeir kroppa eitthvað ofurlítið af einstæðu mæðrunum til þess að koma á jafnrétti. Til þess að koma á jafnrétti milli einstæðra mæðra og tekjulágs sambúðarfólks með börn er kroppað af einstæðu mæðrunum. Það er ekki bætt við hjá tekjulága sambúðarfólkinu með börn. Með þessu ætlar ráðherrann væntanlega að tryggja að félagsmálasáttmáli Evrópu sé ekki fótum troðinn, með því að jafna niður á við. Þannig getur hann tryggt að félagsmálasáttmáli Evrópu sé ekki fótum troðinn. Og það var auðvitað með slíkum endemum í þessu nefndaráliti sem nefnd ráðherra gaf út að í niðurstöðum segir, með leyfi forseta:
    ,,Verulega skortir á að hér á landi sé rekin samræmd fjölskyldupólitík og breytingum sem snerta fjölskyldur oft hrundið í framkvæmd án þess að heildaráhrif þeirra séu könnuð.``
    Það eru vissulega orð að sönnu að breytingum er hrundið í framkvæmd án þess að heildaráhrif þeirra séu könnuð og það er núna verið að gera af þessari ríkisstjórn. Það er verið að hrinda hér í framkvæmd breytingum án þess að menn hafi nokkuð skoðað afleiðingar þeirra. Síðan segir í nefndarálitinu:
    ,,Ísland hefur fullgilt að hluta félagsmálasáttmála Evrópu. Þar kemur fram að aðildarríki skuldbinda sig til að veita mæðrum og börnum viðunandi félagslega og efnahagslega vernd án tillits til hjúskaparstéttar og fjölskyldutengsla.`` Og síðan kemur þessi dæmalausa setning: ,,Það stuðningskerfi sem hér er nú rekið til stuðnings einstæðum foreldrum og börnum þeirra er í ósamræmi við þessi markmið því að það getur mismunað mæðrum og börnum eftir hjúskaparstétt.``
    Með öðrum orðum er verið að segja hér að það sé svo vel búið að einstæðum mæðrum og börnum þeirra að börnum hjóna eða sambúðarfólks sé mismunað með því kerfi. Ég hélt í einfeldni minni að það stuðningskerfi sem við höfum hér við einstæðar mæður hefði verið búið til vegna þess að börn þeirra eru yfirleitt hjá einni fyrirvinnu og allar kannanir sem gerðar hafa verið sýna fram á það að einstæðir foreldrar eru mun tekjulægri en sambúðarfólk. Ætli meðaltekjur einstæðra mæðra séu ekki í kringum 90 þús. kr. sýnist mér samkvæmt gögnum frá fjmrn. en meðaltekjur hjóna um 250--260 þús. kr. Ég hélt að þetta kerfi hefði verið búið til til þess að jafna þann félagslega og efnahagslega mun sem er á börnum einstæðra foreldra og börnum sambúðarfólks. Nei, nei, þá er búið að snúa öllu á haus í þessu nefndaráliti. Nú heitir það að börnum sambúðarfólks sé mismunað með því að til sé eitthvert sérstakt stuðningskerfi sem komi börnum einstæðra foreldra til góða. Og nú á að lagfæra þetta. Nú á að breyta þessu og koma á félagslegu réttlæti, koma á jafnrétti og jöfnuði og skerða hjá þessum hópi!
    En það er víðar sem niðurskurðarhnífnum er beitt þegar börnin eru annars vegar því að jafnréttið sem verið er að koma á á að ná til fleiri. Nú á að taka 750 millj. kr., eftir því sem mér sýnist, úr barnabótakerfinu, flytja 250 millj. kr. þar af í barnabótaaukann og spara með þessu 500 millj. kr. í barnabótunum í gegnum skattkerfið. Sama aðgerð var gerð í fyrra. Þetta er nákvæmlega sama aðgerð og var gerð í fyrra. Þá voru líka teknar, ef ég man rétt, 750 millj. kr. úr barnabótunum, fluttar 250 millj. í barnabótaaukann og sparaðar 500 millj. Milljarður er sparaður í barnabótum núna á tveimur árum auk þessa 500 millj. kr. sem við erum að tala um í mæðralaunum.
    Með því að flytja þriðjunginn af skerðingunni í barnabótaaukann á að reyna að telja hinum tekjulágu í landinu trú um að það sé verið að gera eitthvað fyrir þá. Nú sé verið að gera eitthvað sérstakt fyrir þennan hóp með því að hækka örlítið barnabótaaukann. En hækkunin á barnabótaukanum gerir ekki meira en að vega upp skerðinguna á barnabótunum því að auðvitað verður þetta fólk fyrir skerðingu á sjálfum barnabótunum, sem eru eins fyrir alla án tillits til tekna. Þetta fólk verður fyrir þeirri skerðingu og hækkun á barnabótaaukanum er ekki nema rétt til að vega upp á móti því.
    Ef við skoðum dæmið frá því í fyrra, þá sýnist mér að hagsbæturnar sem urðu af þessum tilfærslum frá barnabótunum í barnabótaaukann hafi numið frá 48 kr. á mánuði og upp í 900 kr. á mánuði hjá þeim allra tekjulægstu. Einstæð móðir með þrjú börn og innan við 100 þús. kr. á mánuði og hjón með 3 börn og innan við 150 þús. kr. á mánuði fengu um 900 kr. hækkun á mánuði út á þetta. Það voru nú öll ósköpin.
    Ég hlýt bara að spyrja hvort ráðherra ætlist til þess að við hrópum húrra yfir þess konar jafnaðarmennsku, yfir svona jöfnunaraðgerðum. Er ætlast til þess? ( Heilbrrh.: Já, takk.) Ráðherrann játar því, já takk. Ég ætla að frábiðja mér það. Ég held að einhverjir aðrir verði að vera í þeim kór. Ég efast um að nokkur þingmaður sé tilbúinn til þess að hrópa húrra fyrir svona jöfnunaraðgerðum. Kannski taka einhverjir því eins og hverju öðru hundsbiti. Kannski láta stjórnarþingmennirnir þetta yfir sig ganga eins og svo margt annað. En fjandakornið að það verði með einhverjum húrrahrópum.
    Ég vona sannarlega að þeir sýni einhvern dug þegar farið verður að fjalla um þessi mál í nefndum og reyni hvað þeir geta til að lagfæra þetta.
    Ef við lítum svo á 3., 4. og 5. gr. þessa frv., þá er þar verið að fella niður slysatryggingu ökumanns hjá Tryggingastofnun ríkisins og færa hana yfir til tryggingafélaganna. Menn hafa talað um að þar sparist hugsanlega 50 millj. og hugsanlega ekki neitt. Mér finnst að vissulega megi athuga þennan lið og

það sé hugsanlega fyllilega réttlætanlegt að flytja þetta með þessum hætti yfir til tryggingafélaganna. Það held ég að verði bara að skoðast. En svo ég bendi ráðherranum á einn lið sem hefði líka mátt skoðast, kannski ráðherrann hafi skoðað hann, ég veit það ekki, þá þykir mér að það mætti athuga slysatryggingu íþróttafólks sem er líka undir þessum sama lið. Það vekur óneitanlega dálitla furðu þegar slysatryggingar eru skoðaðar að þeim fylgja yfirleitt iðgjöld með einhverjum hætti, eins og slysatryggingu ökumanns og ég vil benda á að líka er gert ráð fyrir slysatryggingu fólks við húsverk, húsmóðurstörf, og henni fylgir ákveðin iðgjaldagreiðsla, en ég held að það sé rétt hjá mér að engin iðgjaldagreiðsla fylgi slysatryggingu íþróttafólks. Ráðherrann upplýsir mig þá kannski um það. Það væri líka gaman að fá að vita hvernig þessi liður hefur þróast á undanförnum árum.
    Um 6. gr. er það að segja að þar mun áætlaður sparnaður vegna sérfræðiþjónustu lækna vera um 120 millj. kr. samkvæmt þeim tölum sem við höfum séð. Ég verð að segja að mér finnst ótrúlegt að þetta sparist með tilvísanakerfinu einu saman og það hljóti eitthvað fleira að þurfa að koma þar til. Ég segi eins og fleiri sem hér hafa talað að ég er ekki á móti því að reynt sé að beina fólki að ódýrari þjónustu, til heimilislæknanna og heilsugæslulæknanna frá sérfræðiþjónustunni þegar þjónusta heimilislækna dugir. En ég vil líka minna á að hækkunin sem varð í fyrra á greiðslu fólks fyrir heimsókn til sérfræðings átti að gera það. Hún átti að gera nákvæmlega það að beina fólki frá sérfræðiþjónustunni til heilsugæslulæknanna vegna þess að það átti að virkja hina svokölluðu kostnaðarvitund.
    Hvernig hefur tekist að virkja hina svokölluðu kostnaðarvitund? Það hefur tekist afskaplega illa. Það gerðist ekki. Það breyttist ekkert nema síður sé. Verkum sérfræðinga fjölgaði og sérfræðingar fóru að framkvæma stærri verk en áður. Þetta virkaði því ekki. Af hverju virkaði þetta ekki? Kannski ráðherrann geti upplýst okkur um það. Kannski það hafi m.a. verið vegna þess að menn gengu svo hart fram í niðurskurði á sjúkrahúsunum að aðgerðir fluttust að hluta til frá sjúkrahúsunum og út á stofurnar. Eins hugsanlega vegna þess að fólk er útskrifað fyrr af sjúkrahúsunum en áður og þarf meira á aðstoð sérfræðinga að halda þegar það kemur út af sjúkrahúsum.
    Það athyglisverða er samt að það virðist eins og hin svokallaða kostnaðarvitund hafi farið að virka þegar komið er á heilsugæslustöðvar því að samkvæmt þeim upplýsingum sem við fengum í heilbr.- og trn. hefur heimsóknum á heilsugæsustöðvar fækkað á síðasta ári. Heimsóknir á heilsugæslustöðvar hafa dregist saman. Ég man ekki hvort það var um 12% eða eitthvað slíkt. ræða. ( Heilbrrh.: 8--10%.) 8--10%, segir ráðherrann. Það er náttúrlega vægast sagt dálítið sérkennilegt og væri gaman ef ráðherrann gæti upplýst okkur um það hvernig menn útleggja þetta í ráðuneytinu. Það var engin greiðsla fyrir komu til heilsugæslulækna áður, það er tekin upp 600 kr. greiðsla og þá fækkar heimsóknum þangað. Greiðslan hjá sérfræðingi er hækkuð úr 900 í 1.500 kr. og heimsóknum til sérfræðinga fjölgaði talsvert á síðasta ári. Þarna er því eitthvað annað að verki en hin svokallaða kostnaðarvitund, enda trúi ég því að fólk almennt hafi hvorki tíma eða nennu til að vera að hlaupa til lækna ef það hefur ekkert við þá að tala eða við þá að gera.
    Sú spurning hlýtur líka að vakna í þessu sambandi hvort aðferðin við að draga úr kostnaði samfélagsins í heilbrigðismálum sé sú að auka kostnað einstaklinganna. Þó að kostnaður einstaklinganna sé aukinn og fluttur frá ríkisvaldinu yfir á einstaklingana, þá sparar það ekkert í samfélaginu. Það er bara tilflutningur á kostnaði. Það verður enginn sparnaður í samfélaginu í heild. Hvort það sé aðferðin og hvort það sé líka aðferðin að leggja alls kyns hindranir í götu fólks sem vill leita sér lækninga? Í því sambandi hlýtur það að vekja mann til umhugsunar að ef þessu tilvísanakerfi verður komið upp og það þýðir í rauninni að endurgreiðsla geti ekki átt sér stað nema fólk hafi fengið tilvísun frá heimilislækni og ef það er rétt sem hér hefur komið fram að það eru 450 þúsund heimsóknir til sérfræðinga á ári og fólk þarf að sækja allar þessar endurgreiðslur inn í Tryggingastofnun þá er það náttúrlega óðs manns æði. Ég held að menn ættu að vera búnir að brenna sig á lyfjakortunum þó að þeir fari ekki að taka upp annað viðlíka kerfi sem er álíka mikið bírókratí í kringum.
    Talandi einmitt um lyfjamálin sem eru líka í 6. gr. þar sem á að breyta einni setningu og talað um að lyf sem sjúkratryggðum er lífsnauðsynlegt að nota að staðaldri í stað þess að væri brýn nauðsyn að nota, skuli ekki þurfa að greiða fyrir, þá vaknar auðvitað sú spurning hvernig menn ætla að ná þeim sparnaði sem upp hefur verið gefinn með því að breyta þessari einu setningu. Það væri mjög þarft ef ráðherra gæti útlistað það svolítið fyrir okkur þingmönnum.
    Ég var að tala um tilvísanakerfið og lyfjakortin. Það var upplýst í heilbr.- og trn. að síðan það kerfi var tekið upp hafi verið gefin út 20 til 25 þúsund lyfjakort og ef ég hef fengið þá tölu rétta, þá hafi kerfið með lyfjakortin kostað um 10 millj. kr. Það er búið að keyra þetta kerfi í ár og núna, bingó, það gengur ekki, hætta við það ári síðar, leggja það af, gera eitthvað annað, finna nýtt kerfi og breyta þessu. Ætla menn að vera með svona tilraunastarfsemi í heilbrigðiskerfinu á hverju einasta ári? Eigum við sífellt að laga okkur að nýju og nýju kerfi, nýjum og nýjum bírókratískum reglum?
    Mér finnst þetta vera eins og hver annar skrípaleikur. Ef maður hugsar bara um lyfjakortin, 20--25 þúsund lyfjakort, hvað er búið að vekja mikinn ugg með þessu kerfi, hvað er búið að snúa mörgu fólki í margar ferðir út og suður, hvað er fólk búið að hringja, hvað hefur starfsfólk í Tryggingastofnun þurft að leggja á sig fyrir þetta? Eða almenningur úti í bæ til þess að afla sér upplýsinga? Hvað er fólk búið að eyða miklu þreki, skapsmunum og tíma í þetta kerfi, fyrir nú utan peningana? Það er ekki lítið, hæstv. ráðherra, og það held ég að ráðherranum ætti að vera manna best kunnugt. Það er búið að eyða alveg gífurlegri orku í þessi 20 til 25 þúsund lyfjakort og bingó búið! Það er ekki hægt að nota þetta. Gerum eitthvað annað ári síðar.
    Ráðuneytið ætlar að spara 150 millj. kr. í sérfræðikostnaði og lyfjakostnaði. Ég held að það sé óhætt að fullyrða að það gerir það ekki með tilvísanakerfi og ekki með breytingunni einni saman á skráningu lyfja. A.m.k. væri þá nauðsynlegt að fá nánari útlistun á því. Ef við tökum bara lyfjamálin og horfum á hver niðurstaðan varð af öllum þessum látum í ráðherranum í kringum lyfjamálin á þessu ári, þá vantar 300--350 millj. kr. upp á fjárlög þessa árs að sú upphæð dugi sem þar er fyrir lyfjakostnaðinum. Í sérfræðiþjónustunni vantar 250 millj. kr. Ég fæ því ekki betur séð en allt þetta brambolt í ráðherranum hafi engu skilað. Það er ekki nóg að bægslast. Það þarf að skila árangri. ( Gripið fram í: Hann er að minna á sig.) Það er kannski betra að vera frægur að endemum en engu. Það er þá helst þannig.
    Ef við lítum svo á 7. gr. frv., þá erum við komin að tannlæknaþjónustunni. Þessari grein breyttum við m.a. í fyrra í samkomulagi heilbr.- og trn. Þessi grein var einhvers konar meistaraverk þeirra í ráðuneytinu í fyrra þegar þeir komu með þetta til okkar og þurfti mikla vinnu og mikla yfirlegu til þess að lagfæra. Nefndin reyndi hvað hún gat til þess að gera þessa lagagrein þolanlega. En það sér auðvitað hver einn sem les lagatextann eins og hann er, að þetta var klambursmíð, enda er það ekki boðleg lagasmíð að ráðherrar komi á síðustu dögum fyrir jól, hendi inn einhverjum frv. og ætlist síðan til þess að í öllum þeim önnum sem hér eru sé reynt að gera úr þessu sæmilega boðlegar lagagreinar. Þannig ætti auðvitað ekki að vera staðið að lagasmíð á Alþingi. Það var mikið reynt að semja við ráðuneytismenn þegar verið var að fjalla um þessi mál og út úr því kom að í rauninni væru tannlækningar barna með þrenns konar hætti. Í fyrsta lagi væri hægt að fara að til einkatannlæknis á stofu úti í bæ. Í öðru lagi væri um að ræða skólatannlækningar. Í þriðja lagi væri um að ræða einhvers konar útboð á skólatannlækningum í skólunum til prívattannlækna úti í bæ. Þetta átti allt saman að vera mögulegt. Gott ef ekki þrjár mismunandi gjaldskrár tengdust þessu eða a.m.k. mismunandi greiðsluhlutföll eftir því hvaða þjónustu fólk notaði. Ýmist áttu foreldrar ekkert að greiða, það voru forvarnirnar, eða þeir áttu að greiða 15% í tannlækningunum eða foreldrarnir áttu að greiða líkega um rúm 60% því ef foreldri fór með barn til einkatannlæknis borgaði Tryggingastofnun 85% af 80% ef ég man þessa formúlu rétt. Þetta er náttúrlega slíkt kerfi að það er ekki fyrir nokkurn mann að skilja það.
    Núna er greinilega verið að einfalda þetta kerfi og það er út af fyrir sig ágætt. En þá er það líka gert þannig að kostnaðarhlutdeild foreldra er aukin. Það var byrjað í 10% í fyrra eða 15% sem það endaði í þegar hægt var að fá forvarnirnar þannig út að það þyrfti ekki að greiða fyrir þær. Nú er komið með 25% kostnaðarhlutdeild og maður hlýtur eiginlega að spyrja sig hvernig þetta endi því að það virðist alltaf vera sú tilhneiging að um leið og búið er að heimila einhverja gjaldtöku, þá á að hækka hana. Það var alveg eins og með matarskattinn á sínum tíma. Um leið og búið var að koma honum á fóru menn að sækja í að hækka hann. Þetta virðist ævinlega gerast. Og auðvitað ætti maður þá að brenna sig á því og ljá ekki máls á slíkum hlutum meðan ríkisstjórn eins og þessi sem nú situr er að verki.
    Ef við lítum á tannlækningarnar og ofan á allt annað sem þessi ríkisstjórn stendur að, sem eru niðurskurður í barnabótum og niðurskurðurinn sem kemur í gegnum mæðralaunin og fleira slíkt, þá er hér líka um 100 millj. kr. niðurskurð að ræða, eða sparnað getum við sagt, sem flyst yfir á barnafólk í landinu. Ég segi eins og aðrir sem hér hafa talað að það er eins og ríkisstjórnin sé alveg útmetin í því að kroppa af barnafólki. Það er alveg furðuleg árátta núna tvö ár í röð að sjá þann hóp sem einhvern sérstakan hóp sem hægt sé að velta byrðum á. Þetta gerðist í fyrra og þetta gerist núna.
    Tvískinnungurinn í þessu hjá ríkisstjórninni hlýtur að vekja athygli því að á sama tíma og ríkisstjórnin er að skera niður hjá barnafólki og kreppa að því á ýmsum stöðum, þá er hún, eftir því sem ég best veit, með heilmikla nefnd að störfum sem tilnefnt var í af fjöldamörgum félagasamtökum hér í borginni og gott ef hún starfar ekki á ábyrgð hæstv. félmrh. Þessi nefnd á að undirbúa ár fjölskyldunnar, árið 1994, held ég. Hún á að móta einhverja fjölskyldustefnu sem ríkisstjórnin á að geta farið eftir. Hún á að standa þannig að málum að það verði betra fyrir börn að búa í þessu samfélagi. Á sama tíma og verið er að hafa fólk að fíflum í rauninni með því að láta vinna í ríkisskipaðri nefnd sem starfar á vegum félmrn. að því að móta einhverja stefnu í fjölskyldumálum, þá er verið að kippa grundvellinum undan fjölskyldunum með alls kyns aðgerðum í ríkisfjármálum. Þetta er slíkur tvískinnungur að það má furðu sæta að fólk sem situr í þessari nefnd láti sér það lynda. ( Gripið fram í: Eru þetta ekki kratar?) Það er sjálfsagt allur gangur á því hvort það eru kratar í þessari nefnd og mætti segja mér að það sé fólk úr ýmsum flokkum vegna þess að það er tilnefnt í nefndina af ýmsum félagasamtökum. Ég held að þessi nefnd verði aðeins að skoða hlutverk sitt miðað við þær aðstæður sem nú eru uppi.
    Ég vil segja það að ef þessi niðurskurður er aðdragandinn að því sem koma skal á ári fjölskyldunnar, þá vona ég sannarlega að því ári verði bara hreinlega frestað. Því ef þetta er upptakturinn að því sem koma skal, þá má eins reikna með því að restarnar af því sem barnafólk fær í einhverjum framlögum verði kroppaðar af á því ári. Mér heyrðist á kvöldfréttunum í kvöld að það væri helsta stefnumið Alþfl. að ná barnabótum af fólki og koma öllu inn í tekjutengda barnabótaauka þannig að aðrir nytu ekki góðs af barnabótum en þeir tekjulægstu. Ég lít svo á að barnabætur séu til þess að stuðla að tekjujöfnun milli þeirra sem eru með börn á framfæri og hinna sem eru ekki með börn á framfæri. Ef menn vilja endilega ná sér í einhverja aura, þá verða þeir bara að gera það með því að hækka skatta á öllum. Þeir eiga ekki bara að fara

í vasann hjá barnafólki og reyna að ná þar í einhverja aura. Þá er bara eins gott að standa keikur og hækka skatta. Það á ekki að vera nein goðgá. Mér heyrist á hv. formanni fjárln. að það séu engar heilagar kýr þegar verið er að tala um ríkisfjármálin og þá ætti bara bein skattahækkun heldur ekki að vera heilög kýr.
    Ég held að það standi einhvers staðar í hvítbók ríkisstjórnarinnar að hún vilji hlúa að fjölskyldunni. Ég vil bara segja að ég vona sannarlega að þessi ríkisstjórn, miðað við það hvernig hún stendur að hlutum með öfugum klónum að hún fari að hlúa að einhverju öðru en fjölskyldunni. Ég held að hún ætti að fara að hlúa að eignamönnum og hátekjumönnum í landinu miðað við þá merkingu sem hún leggur greinilega í hugtakið að hlúa að einhverjum. Að hlúa að í hennar huga er að kroppa af fólki. Þetta er annað árið í röð sem þessi ríkisstjórn er að verki og þetta er annað árið í röð sem hún setur fingraför sín á fjárlög á Alþingi. Ég verð að segja að þessi ríkisstjórn er alveg ótrúlega vond og þessi þjóð, eins og ég sagði í upphafi, hlýtur að hafa ótrúlegt langlundargeð ef hún lætur þessi ósköp yfir sig ganga sem hér er verið að standa að. ( ÖS: Hvar er stjórnarandstaðan?) Stjórnarandstaðan er sjálfsagt á ýmsum stöðum eins og stjórnarliðarnir. Ég verð vör hér við tvo sjálfstæðismenn, einn krata og einn ráðherra sem telst víst líka til krata. Það vantar því dálítið mikið upp á stjórnarliðið hér í kvöld, hv. þingflokksformaður Alþfl. En þessi þjóð hefur ótrúlegt langlundargeð ef hún lætur þetta yfir sig ganga og þá situr þetta skamdegisþunglyndi, sem sagt er að sé ekki til í þjóðinni eða sé mjög lítið, einfaldlega svo djúpt að hún má hvorki mæla né sig hræra ef hún lætur þetta yfir sig ganga. Nú finnst mér að foreldrar í þessu landi ættu að taka höndum saman eins og Sigtúnshópurinn forðum. Þá var um misgengi að ræða vegna þess að kjörin voru skert og fólk sat uppi með vísitölutryggð lán. Þá var misgengi á húsnæðismarkaðnum og á lánamarkaðnum. Núna er að eiga sér stað misgengi líka. Það er bara misgengi sem hefur skapast milli þeirra sem eru með börn á framfæri og hinna sem eru ekki með börn á framfæri. Nú finnst mér að foreldrar ættu að taka sig saman eins og Sigtúnshópurinn forðum og reyna með öllum tiltækum ráðum að hindra það. Ég hef sagt það áður og ég segi það aftur að þeir sem stjórna þessu samfélagi --- það þyrfti ekki annað en líta hér yfir ráðherrabekkinn ef hann væri fullsetinn sem hann er ekki, þá sæi maður hverjir það eru sem stjórna þessu samfélagi. Það eru öðrum fremur miðaldra menn sem virðast vera komnir með allt sitt á þurrt og þeir snerta aldrei sjálfa sig. Ég hef engar tillögur séð, hvorki í fyrra né núna, sem snerta þennan hóp með nokkrum hætti. Þessi hópur verður að leggja eitthvað af mörkum og ríkisstjórnin verður að finna leiðir til þess að leggja byrðar á þennan hóp öðrum fremur.
    Ég ætla að vekja athygli þingmanna á lesendabréfi í Morgunblaðinu í morgun. Það er kona sem skrifar undir fullu nafni með heimilisfangi þannig að hún er ekki að koma fram í skjóli einhvers nafnleysis. Þar talar þessi kona um það sem er auðvitað mjög dapurlegt, hún talar um afætukynslóðina. Ég held að einmitt í svona orðum muni birtast beiskja ungs fólks sem á mun lakari kosti í lánamálum, í húsnæðismálum, í atvinnumálum en kynslóðin sem fædd er á árunum 1940--1960. Þessi kynslóð sem núna er ungt fólk í námi jafnvel eða á vinnumarkaði, er að koma yfir sig húsnæði í húsbréfakerfi, er að koma upp börnum, fá á sig skerðingar á barnabótum, er að upplifa atvinnuleysi í fyrsta sinn. Þetta fólk býr við mun lakari kost en kynslóðin sem fædd er frá 1940--1960. Það verður að finna einhverjar leiðir til þess að höggva ekki alltaf í þennan sama knérunn og finna breiðu bökin í þessu samfélagi þó það verði ekki annað en að sýna smátilburði, hæstv. ráðherra, í þá átt.
    Með þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin boðar, bæði í skattamálum og í tryggingamálum, er hún að búa til átök, hún er að búa til andúð, hún er að búa til ójöfnuð og hún á að fara frá.