Almannatryggingar

76. fundur
Miðvikudaginn 09. desember 1992, kl. 23:03:36 (3213)

     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég sé það eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þm. Láru Margrétar Ragnarsdóttur að það er einhver misskilningur á ferðum. Þetta tilvísanakerfi, sem núna er komið inn í bandorminn, virðist ekki vera ættað frá heilbr.- og trn. Sjálfstfl. enda sé ég það þegar ég lít yfir salinn og fer um þinghúsið

að þeim er sífellt að fjölga fulltrúunum úr heilbr.- og trn. flokksins til að gæta sinna hagsmuna.
    Þessi ræða sem hér var flutt var í raun og veru ótrúleg árás á hæstv. heilbr.- og trmrh. þó svo að þingmaðurinn eins og hans var von og vísa hafi náttúrlega farið afskaplega vel með sitt mál, hann var ekki stórorður, það var langt frá því. En efnislega var allt sem ráðherrann ætlar að gera tætt niður. Við sem hér höfum verið að lýsa yfir stuðningi við þetta mál í okkar ræðum hljótum auðvitað að velta því fyrir okkur hvort óhætt sé á grundvelli þess sem hér hefur verið sagt að veita málinu brautargengi í þinginu. Það hlýtur auðvitað að vera mikil spurning eftir þessa ræðu. En þá er líka orðin viss hætta og mikil óvissa sem hlýtur þá að ríkja um þær 250 millj. kr. sem hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur lofað að spara á þessu sviði því þá eru foknar 120 millj. ef það er ekki einu sinn þingmeirihluti fyrir málinu.
    Ég vil lengi halda í þá von að það sé skynsamlegt að koma þessu fyrirkomulagi á. Ég mun taka aftur til máls við umræðuna síðar og mun þá gera að umtalsefni þá úttekt sem hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir vitnaði í áðan um samanburðinn á kostnaði við heimsóknir til sérfræðinga, heimilislækna og heilsugæslulækna, annars vegar þá úttekt sem verkfræðingur gerði fyrir fyrrv. heilbrrh. á því og svo makalausa úttekt sem borgarfulltrúinn Árni Sigfússon gerði. Það mun ég gera síðar.